Fara í innihald

Ísland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ísland
Fáni Íslands Skjaldarmerki Íslands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Lofsöngur
Staðsetning Íslands
Höfuðborg Reykjavík
Opinbert tungumál Íslenska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Halla Tómasdóttir
Forsætisráðherra Bjarni Benediktsson
Sjálfstæði
 • Þjóðveldi 930 
 • Gamli sáttmáli 1262/4 
 • Stjórnarskrá 1. desember 1874 
 • Heimastjórn 1. febrúar 1904 
 • Fullveldi 1. desember 1918 
 • Lýðveldi 17. júní 1944 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
106. sæti
102.775 km²
2,07%
Mannfjöldi
 • Samtals (2024 (1. nóvember))
 • Þéttleiki byggðar
171. sæti
388.790 [1]
3,75/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 24,9 millj. dala (152. sæti)
 • Á mann 66.467 dalir (15. sæti)
VÞL (2021) 0.959 (3. sæti)
Gjaldmiðill Króna (ISK)
Tímabelti UTC
Ekið er hægra megin
Þjóðarlén .is
Landsnúmer +354

Ísland er eyríki í Norður-Atlantshafi á milli Grænlands, Færeyja og Noregs. Eyjan situr á Atlantshafshryggnum þar sem er heitur reitur, mitt á milli heimsálfanna Norður-Ameríku og Evrópu, en landið telst til Evrópu og er eitt Norðurlandanna. Ísland er um 103.000 km² að stærð, næststærsta eyja Evrópu á eftir Bretlandi og sú átjánda stærsta í heimi. Á Íslandi búa um 389.000 manns (2024) og það er því eitt af dreifbýlustu löndum jarðar. Reykjavík er höfuðborg landsins og stærsta þéttbýlið, þar sem yfir þriðjungur íbúa býr. Íslenska er opinbert tungumál á Íslandi.

Ísland situr á rekbelti á milli tveggja meginlandsfleka og þar er mikill jarðhiti og eldvirkni. Landslag einkennist af eldfjallasléttu þar sem eru fjöll og hraunbreiður, auk jökla, og margar jökulár renna til sjávar um láglendið við ströndina. Golfstraumurinn sér til þess að loftslag á Íslandi er mildara en víða annars staðar á sömu breiddargráðu, rétt sunnan við norðurheimskautsbaug, og þar er úthafsloftslag ríkjandi fremur en heimskautaloftslag.

Samkvæmt Landnámabók hófst landnám Íslands þegar Ingólfur Arnarson nam þar land árið 874, þó aðrir hefðu áður dvalið tímabundið á landinu. Á næstu áratugum flutti fjöldi fólks til Íslands á tímabili sem nefnt er landnámsöld, bæði frá Noregi og Bretlandseyjum. Ísland komst með Gamla sáttmála undir vald Noregskonungs árið 1262 og varð síðar hluti af Danaveldi til ársins 1918, þegar það fékk fullveldi í konungssambandi við Danmörku. Lýðveldi var stofnað árið 1944 og öll stjórnarfarsleg tengsl við Danmörku rofin. Íslenska löggjafarþingið, Alþingi, er eitt elsta starfandi þing heims, stofnað árið 930, þótt það hafi verið lagt niður um stutt skeið frá 1799 til 1845.

Fram á 20. öld byggðist efnahagur landsins að mestu á sjálfsþurftarbúskap og fiskveiðum. Útgerð jókst á síðari hluta 19. aldar og iðnvæðing hófst í byrjun 20. aldar, aðallega í kringum fiskveiðar og fiskvinnslu. Landið bjó að auðugum fiskimiðum og fékk smám saman einkarétt á nýtingu þeirra, meðal annars með þorskastríðunum. Eftir síðari heimsstyrjöld gekk Ísland í Atlantshafsbandalagið og fékk Marshall-aðstoð. Með virkjunum fallvatna og nýtingu jarðhita varð stóriðja önnur meginstoð efnahagslífsins. Frá því seint á 20. öld hafa hugverkaiðnaður, skapandi greinar og ferðaþjónusta aukið fjölbreytni atvinnulífsins. Á sama tíma jókst þjóðarframleiðsla Íslendinga til muna og innviðir og velferðarkerfi landsins efldust. Árið 2008 hófst efnahagskreppan á Íslandi 2008–2011 í kjölfar Bankahrunsins. Eftir það jókst hlutur ferðaþjónustu verulega og hún varð brátt þriðja meginstoð efnahagslífsins, ásamt sjávarútvegi og stóriðju.

Ísland býr við blandað hagkerfi og norrænt velferðarkerfi með almennri heilbrigðisþjónustu og ókeypis menntun. Landið situr hátt á listum yfir lönd eftir lífsgæðum, menntun, mannréttindum, gagnsæi og viðskiptafrelsi. Aðild að verkalýðsfélögum er með því mesta sem gerist í heiminum. Ísland á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Evrópska efnahagssvæðinu, Atlantshafsbandalaginu, Efnahags- og framfarastofnuninni, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuráðinu, Norðurlandaráði, og Schengen-svæðinu. Þrátt fyrir að vera í NATO er ísland ekki með her, heldur aðeins strandgæslu.

Heiti

Formlegt nafn Íslands er einfaldlega Ísland, ekki „Lýðveldið Ísland“.[2] Elsta heimildin um nafnið Ísland er rúnarista á steini á Gotlandi í Eystrasalti frá 11. öld. Nafnið kemur fyrir í Íslendingabók og Landnámu sem eru ritaðar á 12. öld en byggjast líklega á munnmælum frá 11. öld. Í Landnámu er líka að finna sögur um eldri heiti landsins og uppruna núverandi nafns.[3] Þar er sagt frá Naddoði víkingi frá Færeyjum sem lenti á Austfjörðum eftir hafvillur og nefndi landið „Snæland“ af því þar var snjór í fjöllum. Eftir hann kom sænski sæfarinn Garðar Svavarsson og hafði vetursetu á Húsavík. Hann er sagður hafa siglt umhverfis landið og komist að því að það var eyja. Hann nefndi því landið „Garðarshólma“. Norski víkingurinn Hrafna-Flóki er sagður hafa gefið landinu núverandi nafn eftir að hafa reynt þar landnám en misst allan bústofn sinn því hann gætti þess ekki að heyja yfir sumarið. Áður en hann sigldi á brott sá hann fjörð fullan af hafís og gaf því landinu hið kuldalega nafn Ísland.

Eldri heimildir sem mögulega vísa til landsins er að finna í miðaldaritum. Í ýmsum landfræðiritum miðalda er sagt frá gríska landkönnuðinum Pýþeasi sem segir í ritum (sem eru glötuð) frá ferðum sínum til Bretlandseyja þar sem hann heyrði sagnir af landi í norðri sem var kallað Thule eða Ultima Thule.[4][5][6] Þetta land hefur verið talið vera ýmist Ísland, Færeyjar, Orkneyjar, Hjaltlandseyjar, Saaremaa í Eistlandi[7] og Smøla í Noregi.[8] Snemma á 9. öld ritaði írski munkurinn Dicuil landfræðirit, De mensura orbis terrae, þar sem hann segist hafa rætt við írska presta sem hefðu siglt norður til Thule.[4]

Árið 2016 sendi íslenska ríkið kvörtun til Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) vegna vörumerkjaskráningar bresku verslanakeðjunnar Iceland Foods á vörumerkinu Iceland, sem er enska útgáfan á nafni landsins. Áður hafði verslanakeðjan kært notkun orðsins í markaðsherferð Íslandsstofu, „Inspired by Iceland“. EUIPO ákvað í kjölfarið að fella vörumerkjaskráninguna niður.[9]

Saga

Landnám, kristnitaka og höfðingjaveldi

Samkvæmt Íslendingabók var Ísland fyrst numið af norskum og gelískum (skoskum og írskum) landnemum undir lok níundu aldar og á tíundu öld. Fornleifarannsóknir virðast staðfesta þessa frásögn í meginatriðum, þar sem fáar mannvistarleifar hafa fundist sem sannanlega eru eldri.[10] Ýmsir fræðimenn hafa sett fram þá tilgátu að ástæðan fyrir komum fyrstu manna til landsins hafi verið rostungsveiðar sem gáfu af sér bæði verðmætar tennur og svarðreipi.[11] Þjóðveldið var sett á stofn með Alþingi árið 930 en það er meðal elstu þjóðþinga sem enn eru starfandi. Á síðari hluta 10. aldar tók hópur fólks sig upp frá Íslandi og nam land á Grænlandi.[12]

Flestir landsnámsmanna voru ásatrúar, en þó nokkrir kristnir og höfðu þeir flestir kynnst kristinni trú og látið skírast á Bretlandseyjum. Ólafur Tryggvason Noregskonungur var mjög áhugasamur um að kristna Ísland — með góðu eða illu. Á Alþingi sumarið 1000 ákváðu Íslendingar að taka kristni að ráðum Þorgeirs ljósvetningagoða sem þó var ásatrúar sjálfur fram að því.[13] Eftir kristnitöku voru tveir biskupsstólar stofnaðir í landinu, í Skálholti og á Hólum. Báðir heyrðu undir erkibiskupsstól í Niðarósi í Noregi. Mörg klaustur voru stofnuð og gegndu margvíslegu samfélagslegu hlutverki.[14] Handritagerð stóð með miklum blóma og ritaðar voru Íslendingasögur, konungasögur, fornaldarsögur, biskupasögur og riddarasögur.

Á miðöldum ríktu öflugar höfðingjaættir yfir landinu og mynduðu svokallað goðaveldi frá stofnun alþingis til um 1260. Sum höfðingjasetur urðu mjög auðug vegna tíundar af kirkjum á kirkjujörðum og fjölbreyttra hlunninda. Ein af undirstöðum auðsöfnunar íslenskra höfðingja á miðöldum var verslun með náhvalstennur, rostungstennur og svarðreipi milli Íslands, Grænlands og Bretlandseyja.[15] Átök hófust milli biskupa og höfðingja í staðamálum og átök höfðingjaætta um völd leiddu svo til borgarastyrjaldar sem nefnist Sturlungaöld eftir einni ættinni. Sturlungaöld lauk með því að íslensku höfðingjarnir gengu Noregskonungum, Hákoni gamla og Magnúsi lagabæti syni hans, á hönd með Gamla sáttmála milli 1262 og 1264. Frá þeim tíma og fram á miðja 14. öld höfðu Norðmenn mikil ítök á Íslandi og sala á skreið til Björgvinjar í Noregi varð helsta útflutningsgrein Íslendinga.[16] Jónsbók varð lögbók Íslendinga árið 1281 og hélst í notkun fram á 18. öld. Goðorð voru lögð niður og sýslur settar á stofn.

Árið 1397 varð Ísland ásamt Noregi hluti af Kalmarsambandinu, konungssambandi Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar undir stjórn Margrétar miklu. Árið 1402 kom svartidauði til landsins. Talið er að um helmingur landsmanna hafi látist í farsóttinni.[17] Eftir svartadauða jókst sjósókn og verslun Englendinga við Ísland sem olli átökum við embættismenn Danakonungs. Undir lok 15. aldar tóku síðan sjómenn frá Hamborg að sækja í auknum mæli til Íslands og versluðu með fjölbreyttari varning en Englendingar. Í Grindavíkurstríðinu 1532 gerðust Hamborgarar bandamenn konungsfulltrúa gegn Englendingum.[18]

Siðaskipti, einokun og upplýsing

Árið 1521 leystist Kalmarsambandið upp við að Svíar gerðu uppreisn gegn Kristjáni 2.. Eftir það var Ísland hluti af ríki sem nefnt hefur verið Dansk-norska ríkið eða Danaveldi. Mótmælendatrú var innleidd í Danmörku árið 1536 og áhrif Lúthers bárust til Íslands um það leyti með þýskum veiði- og verslunarmönnum. Fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi var Gissur Einarsson sem var skipaður Skálholtsbiskup árið 1540. Árið eftir sendi Kristján 3. herflokk til Íslands til að handtaka Ögmund Pálsson, fyrrverandi Skálholtsbiskup, og ræna kirkjur og klaustur. Jón Arason, síðasti kaþólski biskup Norðurlanda, var tekinn af lífi í Skálholti 7. nóvember árið 1550 og eru siðaskiptin á Íslandi oftast miðuð við þann dag. Eftir siðaskiptin var Stóridómur, samþykkt um siðferðismál, lögtekinn á Íslandi. Hann fól meðal annars í sér líflátsdóma fyrir sifjaspellsbrot.

Jón Arason kom Hólaprentsmiðju á fót á biskupsstólnum á Hólum í kringum árið 1530. Í tvær og hálfa öld var þetta eina prentsmiðjan á Íslandi. Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum 1571 til 1627, lét prenta þar Guðbrandsbiblíu, fyrstu heildarþýðingu Biblíunnar á íslensku, árið 1584. Átök Guðbrands við Svalbarðsætt leiddu til Morðbréfamálsins í upphafi 17. aldar. Árið 1623-1628 var stúdentagarðurinn Regensen reistur í Kaupmannahöfn sem liður í að efla Kaupmannahafnarháskóla. Íslenskir stúdentar lærðu eftir það langflestir í Kaupmannahöfn, en áður var algengt að menn færu til náms í Þýskalandi. Spánverjavígin áttu sér stað á Vestfjörðum árið 1615 þar sem hópur baskneskra skipbrotsmanna var drepinn að undirlagi Ara í Ögri, sýslumanns. Árið 1614 rændu enskir sjóræningjar Vestmannaeyjar og árið 1627 átti Tyrkjaránið sér stað, þegar 50 Íslendingar voru drepnir og um 400 hnepptir í þrældóm. Á síðari hluta 17. aldar stóð brennuöld á Íslandi þar sem fjöldi fólks var dæmdur og tekinn af lífi fyrir galdur.

Árið 1684 var hert á einokunarversluninni, sem Danakonungur hafði komið á á Íslandi árið 1602. Landinu var skipt í verslunarumdæmi og það varð refsivert að versla við aðra kaupmenn en þann sem hélt viðkomandi umdæmi. Einokunarverslunin stóð eftir það í eina öld, til 1787. Stórabóla gekk yfir Ísland árin 1707 til 1709 og er talið að fjórðungur til þriðjungur landsmanna hafi látið lífið. Íslenski fræðimaðurinn Árni Magnússon gerði bæði jarðabók og manntal á Íslandi í upphafi 18. aldar, ásamt Páli Vídalín. Hann safnaði markvisst íslenskum handritum og flutti þau í handritasafn sitt í Kaupmannahöfn þar sem þau voru afrituð og rannsökuð. Naumlega tókst að bjarga megninu af safni hans þegar bruninn í Kaupmannahöfn árið 1728 hófst.

Upplýsingin náði til Íslands með umbótum Ludvig Harboe biskups um miðja 18. öld. Hann kannaði læsi á Íslandi ásamt Jóni Þorkelssyni Thorcillius og í framhaldi af því var ráðist í átak í lestrarkennslu.[19] Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson könnuðu landið á vegum danska landfræðingafélagsins. Árið 1751 voru Innréttingarnar, fyrsta íslenska hlutafélagið, stofnaðar í Reykjavík og árið 1770 var þar tekið í notkun nýtt tukthús. Árið 1773 var önnur prentsmiðja, Hrappseyjarprentsmiðja, stofnuð á Íslandi og fékkst við prentun veraldlegra rita. Rekinn var áróður fyrir jarðabótum og aukinni jarðrækt, en með litlum árangri fyrst um sinn. Frá lokum 18. aldar og fram á 20. öld voru starfrækt lestrarfélög víða um land undir áhrifum frá upplýsingastefnunni og voru eins konar ígildi bókasafna í sveitum landsins. Árið 1770 var Landsnefndin fyrri skipuð og átti að koma með tillögur að úrbótum fyrir Ísland. Meðal tillagna nefndarinnar var að Reykjavík yrði gerð að höfuðstað landsins. Móðuharðindin riðu yfir landið 1783 til 1785 og ollu fé- og mannfelli um allt land. Skálholtsstaður skemmdist illa í jarðskjálfta árið 1784 og ákveðið var að sameina biskupsstólana í Reykjavík. Hólavallaskóli tók við hlutverki skólanna á biskupsstólunum árið 1785. Bygging dómkirkju hófst í Reykjavík árið 1787. Árið 1800 var alþingi á Þingvöllum lagt niður og 1801 tók landsyfirréttur í Reykjavík við dómsvaldi.

Í Napóleonsstyrjöldunum í upphafi 19. aldar, þegar Danmörk var um það bil að tapa fyrir sænskum, rússneskum og þýskum hermönnum, samþykkti Friðrik 6. Danakonungur Kílarsamninginn, um að færa Noreg undir Svíakonung í skiptum fyrir sænska Pommern til að forðast hernám Jótlandsskaga. Ísland, Færeyjar og Grænland voru áfram undir dönskum yfirráðum. Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað í Kaupmannahöfn árið 1816 og átti eftir að leika stórt hlutverk í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Á 19. öld var ýmsum nýjum stofnunum komið á fót í Reykjavík. Landsbókasafn Íslands var stofnað 1818 og alþingi var endurreist sem ráðgjafarþing árið 1844. Lærði skólinn hóf kennslu í nýrri stórbyggingu árið 1846. Forngripasafnið var stofnað árið 1863 og nýtt Alþingishús var vígt árið 1881. Landsskjalasafni var komið á fót árið 1882.

Heimastjórn og heimsstyrjaldir

Ísland fékk stjórnarskrá og takmarkaða heimastjórn árið 1874 á þjóðhátíð í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar. Með stjórnarskránni endurheimti Alþingi löggjafarvald en konungur hafði neitunarvald. Landshöfðingi var skipaður fulltrúi dönsku ríkisstjórnarinnar á Íslandi samkvæmt stöðulögunum frá 1871. Alþingishúsið var byggt á árunum 1880 og 1881 og varð til þess að hlaðnir steinbæir spruttu víða upp í Reykjavík. Landsbanki Íslands var stofnaður 1885 og hóf útgáfu fyrstu íslensku peningaseðlanna. Fyrstu verkalýðsfélögin voru stofnuð á Landshöfðingjatímabilinu. Bylting varð í prentun á sama tíma og margar prentsmiðjur stofnaðar víða um land, eins og Ísafoldarprentsmiðja 1877 og Prentsmiðja Sigfúsar Eymundssonar 1887. Regluleg dagblaðaútgáfa hófst. Á sama tíma náðu Vesturferðir hámarki og talið að 9.000 Íslendingar hafi flust til Vesturheims á 9. áratug 19. aldar. Ástæðurnar voru meðal annars Öskjugos 1875 og harðindaár.[20]

Þann 1. febrúar 1904 fékk Ísland heimastjórn og Hannes Hafstein var skipaður fyrsti ráðherra Íslands. Heimastjórnartímabilið einkenndist af aukinni útgerð og vélvæðingu fiskiskipa, og fyrstu vélknúnu togararnir voru keyptir til landsins. Landssími Íslands var stofnaður þegar ritsími var lagður til landsins 1906 og miklar framfarir urðu í vega- og brúargerð víða um land. Rafvæðing hófst í smáum stíl víða um land. Reykjavíkurhöfn var byggð 1910 til 1914 og Eimskipafélag Íslands var stofnað það ár. Safnahúsið við Hverfisgötu var reist yfir Landsbókasafn Íslands, Landsskjalasafnið, Forngripasafnið og Náttúrugripasafnið á árunum 1906 til 1908. Ný fræðslulög komu á skólaskyldu 1907 og Háskóli Íslands var stofnaður 1911.

Ísland fékk fullveldi með Sambandslögunum árið 1918. Kristján 10. var þar með sameiginlegur þjóðhöfðingi Danmerkur og Íslands til ársins 1944, þegar lýðveldið var stofnað. Bar hann titilinn „konungur Íslands“ og var sá eini sem gerði það. Fullveldisárið barst Spænska veikin til Íslands og olli miklum veikindum og mörgun mannslátum, sérstaklega í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum. Árið 1918 kom fyrsta dráttarvélin til landsins sem markar upphaf vélvæðingar í landbúnaði.[21]

Eftir að vélvæðing útgerðarinnar hófst í byrjun 20. aldar uxu þorp og bæir á stöðum þar sem hægt var að reisa stórskipahafnir. Í bæjunum þróaðist iðnaður í kringum vélsmíði, netagerð, skipasmíði og aðra þjónustu við útgerðirnar. Árið 1921 bjó í fyrsta sinn innan við helmingur landsmanna í sveitum landsins og yfir helmingur í þéttbýli (um fimmtungur í Reykjavík).[22] Húsakynni tóku stakkaskiptum á sama tíma, en torfbæir voru algengasta húsagerðin í sveitum landsins á þessum árum. Árið 1910 voru torfbæir 52% húsnæðis á landinu, en hlutur þeirra hafði minnkað í 27% árið 1930.[23] Vaxandi þéttbýli um allt land gerði að verkum að sjúkdómar eins og taugaveiki og berklar breiddust hraðar út en áður. Berklar voru ein algengasta dánarorsök Reykvíkinga milli 1911 og 1925, en smithlutfall berkla var mun hærra í þéttbýli en í sveitum.[24]

Kreppan mikla hafði víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Atvinnuleysi jókst og atvinnudeilur urðu tíðari. Stjórn hinna vinnandi stétta var við völd 1934 til 1939 og tókst á við afleiðingar kreppunnar með lögum um almannatryggingar, endurbótum á fátækralögum, með því að koma landbúnaðarframleiðslu í hendur samvinnufélaga og koma á einkaleyfi ríkisins á ýmis konar starfsemi. Stjórnin herti innflutningstolla og innflutningstakmarkanir, um leið og reynt var að koma á innlendum iðnaði á sem flestum sviðum.

Þegar Þjóðverjar réðust inn í Noreg 1940 óttuðust Bretar að siglingaleiðir yfir Atlantshaf myndu lokast. Þeir ákváðu því að hernema Ísland. Herskipin komu að landi 10. maí 1940. Hernámsárin einkenndust af uppgangi þar sem hernámsliðið skapaði aukna eftirspurn eftir vinnuafli og alls kyns þjónustu, en um leið töfðust ýmsar stórframkvæmdir vegna mikilla umsvifa hersins. Hervernd Bandaríkjahers tók smám saman við af hernámi Breta og þegar árið 1944 leit íslenska ríkisstjórnin svo á að hernáminu væri formlega lokið.

Lýðveldisstofnun og landhelgisdeilur

Sambandslögin frá 1918 voru með uppsagnarákvæði eftir 25 ár og áður en styrjöldin hófst hafði verið ákveðið að stefna að uppsögn samningsins.[25] Árið 1944 var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 97% kjósenda samþykktu sambandsslit. Lýðveldið var stofnað á hátíð á Þingvöllum á afmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 1944, sem varð hinn nýi þjóðhátíðardagur Íslendinga. Ríkisstjórinn, Sveinn Björnsson, var kosinn fyrsti forseti Íslands af Alþingi til eins árs. Enginn bauð sig fram á móti honum í fyrstu forsetakosningunum 1945 og 1949 og hann var því forseti til dauðadags 1952.

Þann 21. október árið 1944 tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks við völdum (Nýsköpunarstjórnin). Þegar stríðinu lauk áttu Íslendingar miklar bankainnistæður í Bretlandi vegna sölu fisks þangað á stríðsárunum. Þessu fé var varið í kaup á togurum (sem voru kallaðir nýsköpunartogarar) og öðrum fiskiskipum sem einkaaðilar og sveitarfélög keyptu um allt land að undirlagi ríkisstjórnarinnar.[26] Einn stærsti kaupandinn var Reykjavíkurbær sem stofnaði Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1947. Stjórnin féll vegna deilna um Keflavíkursamninginn við Bandaríkjastjórn um rekstur Keflavíkurflugvallar. Eftir fjárfestingar nýsköpunaráranna lenti Ísland í alvarlegum gjaldeyrisskorti svo ný ríkisstjórn Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, varð að grípa til mjög óvinsælla gjaldeyrishafta, innflutningshafta og skömmtunar á öllum sviðum.[27] Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að varnarbandalaginu NATÓ og gekk þannig af þeirri hlutleysisstefnu sem hafði verið fylgt í utanríkismálum. Samningurinn var umdeildur og urðu átök við samþykkt hans. Ísland gerði varnarsamning við Bandaríkin sem fól í sér stofnun Varnarliðs Íslands og byggingu herstöðvar á Miðnesheiði. Ennfremur hlaut landið styrk í formi Marshall-aðstoðarinnar. Fyrir styrkinn keyptu stjórnvöld fjölda togara og sjávarútvegur efldist, keypt voru landbúnaðartæki, tvær virkjanir (Sogsvirkjun og Laxárvirkjun) voru byggðar og Áburðarverksmiðja ríkisins var reist í Gufunesi.[28] Þjóðleikhúsið var vígt í Reykjavík árið 1950, en bygging þess hófst árið 1929. Herstöðin og vera varnarliðsins þar voru mjög umdeild og lituðu stjórnmálaátök á Íslandi allan síðari hluta 20. aldar. Varnarliðið var leyst upp og herstöðin afhent íslenskum yfirvöldum árið 2006.

Á styrjaldarárunum og fyrstu árin eftir stríð varð mikil fólksfjölgun í Reykjavík vegna aðflutnings frá öðrum landshlutum. Árið 1933 bjó um þriðjungur landsmanna á Höfuðborgarsvæðinu en árið 1958 fór hlutfallið í fyrsta sinn yfir 50%.[22] Húsnæðisekla var stöðugt vandamál í borginni og eftir stríðið bjó fólk lengi í bröggum sem herirnir höfðu skilið eftir sig. Stéttarfélögin voru leiðandi í byggingu á ódýru húsnæði eftir stríð í Hlíðum og Vesturbænum[29] og árið 1966 hófst bygging nýrra íbúðahverfa í Breiðholti, austan við Elliðaár.[30] Nágrannabærinn Kópavogur sem varð sérstakt sveitarfélag árið 1948 óx að sama skapi hratt eftir stríð. Hitaveita Reykjavíkur var stofnuð 1933 til að dæla heitu vatni til húshitunar frá Mosfellssveit. Á styrjaldarárunum reisti hún stóra miðlunargeyma efst á Öskjuhlíð og 1950 var yfir helmingur heimila í Reykjavík tengdur hitaveitunni. Árið 1970 var þetta hlutfall komið yfir 90%.[31] Styrjöldin og innflutningur vinnuvéla leiddu til mikilla samgöngubóta um allt land: gerðir voru stórir flugvellir í Reykjavík og á Miðnesheiði; og eftir stríð voru reistir flugvellir í Vestmannaeyjum, á Egilsstöðum og Akureyri. Nýir bæir mynduðust við helstu samgönguleiðir í rótgrónum landbúnaðarhéruðum, eins og á Selfossi og Egilsstöðum. Gerð Hringvegarins lauk þegar Skeiðarárbrú var tekin í notkun árið 1974.

Árið 1959 tók Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks við völdum. Eitt af fyrstu verkum stjórnarinnar var að semja um frið við Breta í þorskastríðinu sem hófst eftir að Íslendingar stækkuðu fiskveiðilögsögu sína í 12 mílur árið 1959. Stjórnin lagði grunn að stóriðjustefnu með því að stofna Landsvirkjun 1965, reisa Búrfellsvirkjun og gera samninga við Alusuisse um byggingu álvers í Straumsvík sem var vígt árið 1970. Stjórnin dró líka úr innflutnings- og gjaldeyrishöftum og árið 1970 gekk Ísland í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) sem stuðla átti að frjálsri verslun. Árið eftir var samið um lausn Handritamálsins og Danir afhentu Íslendingum fjölda handrita úr Árnasafni sem urðu grunnur að Árnastofnun. Árið 1972 hófst nýtt þorskastríð við Breta þegar Íslendingar stækkuðu fiskveiðilögsöguna í 50 mílur, en samningar náðust árið eftir. Síðasta þorskastríðið hófst þegar Íslendingar stækkuðu fiskveiðilögsöguna í 200 mílur árið 1975. Ári áður var 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar minnst með hátíðarhöldum um allt land. Þá var ákveðið að reisa Þjóðarbókhlöðu yfir sameinað safn Landsbókasafns og bókasafns Háskóla Íslands. Byggingin tók lengri tíma en áætlað var og var fyrst tekin í notkun árið 1994. Árið 1973 var leiðtogafundur Georges Pompidou Frakklandsforseta og Richard Nixon Bandaríkjaforseta haldinn á nýreistum Kjarvalsstöðum í Reykjavík. Jafnréttisbarátta setti svip sinn á stjórnmál 8. áratugarins og Rauðsokkahreyfingin var stofnuð 1970. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsti kjörni kvenkyns þjóðarleiðtogi heims þegar hún sigraði forsetakosningar 1980 og nýr stjórnmálaflokkur, Kvennalistinn, var stofnaður 1983. Árið 1986 var annar leiðtogafundur haldinn í Höfða í Reykjavík, þar sem aðalritari Sovéska kommúnistaflokksins, Mikhaíl Gorbatsjev, og Ronald Reagan Bandaríkjaforseti, hittust. Fundurinn var mikilvægur liður í þíðu samskipta Bandaríkjanna og Sovétríkjanna undir lok Kalda stríðsins.

EES, einkavæðing og bankahrun

Á 9. áratug 20. aldar hófst vinna við að aflétta ýmsum höftum sem verið höfðu við lýði frá kreppuárunum og breyta lagaumhverfinu til samræmis við þróunina í nágrannalöndunum. Árið 1986 var einkaleyfi RÚV á útvarps- og sjónvarpsrekstri afnumið og árið 1989 var sala bjórs heimiluð í fyrsta sinn frá 1915. Um 1990 var mikið rætt um nauðsyn þess að efla sveitarstjórnir og skapa færri og stærri sveitarfélög. Hlutur Höfuðborgarsvæðisins í mannfjölda tók að vaxa um miðjan 9. áratuginn og náði yfir 60% í fyrsta sinn árið 1996.[22] Mörg sveitarfélög sameinuðust á þessum árum[32] og árið 1996 var rekstur grunnskóla fluttur til þeirra frá ríkinu.[33] Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem tók við völdum 1991 réðist í miklar breytingar á rekstrarumhverfi ríkisstofnana, afnam æviráðningu ríkisstarfsmanna[34] og innleiddi jafnræðisreglu og andmælarétt með nýjum stjórnsýslulögum 1993.[35] Árið 1994 gerði Ísland samning um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og sama ár var nýjum og breyttum mannréttindaákvæðum bætt við stjórnarskrá Íslands á hátíðarfundi á Þingvöllum í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins. Inngangan í EES hafði mikil áhrif á íslenskt viðskipta- og lagaumhverfi næstu áratugi. Sama ríkisstjórn hóf umfangsmikið einkavæðingarferli með stofnun framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Miklar deilur stóðu um sölu ríkiseigna á vegum nefndarinnar, en mestar þó um sölu Símans, Íslenskra aðalverktaka og hlutar ríkisins í bönkunum: Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Stjórnvöld voru meðal annars gagnrýnd fyrir að reyna að stýra því hverjir fengju að eignast þessi fyrirtæki út frá pólitískum forsendum.[36]

Árið 1995 tók fyrsta ríkisstjórnin í röð ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völdum. Upp úr aldamótunum 2000 hófst undirbúningur að vinnu við stóra vatnsaflsvirkjun á Austurlandi. Lítil efnahagskreppa varð í kjölfar þess að Netbólan sprakk og íslensk hátæknifyrirtæki á borð við Oz hf. og Íslenska erfðagreiningu hrundu í verði á hlutabréfamörkuðum árið 2001.[37] Árið 2004 hófst vinna við Kárahnjúkavirkjun og sama ár upphófst mikil mótmælaalda gegn virkjanaframkvæmdunum. Námskeið voru haldin í borgaralegri óhlýðni[38] og alþjóðleg samtök á borð við Saving Iceland beittu sér í beinum aðgerðum gegn vinnuvélum verktaka á Austurlandi.[39] Um leið og vinna við virkjunina hófst tók að bera á einkennum þenslu í íslensku efnahagslífi. Hinir nýeinkavæddu bankar léku lykilhlutverk í uppgangi efnahagslífsins á þessum árum og útlán þeirra margfölduðust að umfangi, meðal annars vegna viðskipta stórra eigenda þeirra erlendis.[40] Erlendir greiningaraðilar á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vöruðu við þessum vexti íslenska fjármálakerfisins en talsmenn bankanna og margir íslenskir stjórnmálamenn gerðu lítið úr þeim áhyggjum.[41] Árið 2007 tók við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem tókst illa að stemma stigu við útþenslu bankakerfisins og verðbólgu sem óx hratt fram á vormánuði 2008, þrátt fyrir stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands sem voru komnir í 15,5% þá um vorið.[42] Alþjóðlega fjármálakreppan 2007-2008 sem stafaði af undirmálslánum á bandarískum fasteignamarkaði olli því að millibankalán stöðvuðust tímabundið. Íslensku bankarnir voru háðir því að endurfjármagna stór erlend lán sín og urðu gjaldþrota einn af öðrum. Bankahrunið hófst með því að Glitnir banki (arftaki Íslandsbanka) gat ekki greitt af lánum á gjalddaga í október 2008.[43] Í kjölfarið féllu Landsbankinn og KB Banki (arftaki Búnaðarbankans) og margar minni fjármálastofnanir, eins og sparisjóðir, urðu gjaldþrota. Bankahrunið olli efnahagskreppu sem stóð næstu þrjú árin. Haustið 2008 hófst hrina mótmæla við Alþingishúsið á Austurvelli sem var kölluð Búsáhaldabyltingin þar sem fólk barði í potta og pönnur til að láta óánægju sína í ljós. Í janúar 2009 féll ríkisstjórnin þegar Samfylkingin ákvað að draga sig út úr stjórnarsamstarfinu.

Eftir fall stjórnarinnar var mynduð tímabundin minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur fram að kosningum þar sem þessir flokkar náðu meirihluta þingsæta. Ríkisstjórnin stóð frammi fyrir erfiðum verkefnum í kjölfar hrunsins, sérstaklega samningum um uppgjör skulda föllnu bankanna við erlenda kröfuhafa. Eitt stærsta málið af því tagi snerist um ábyrgð íslenska ríkisins á innlánum KB Banka í Bretlandi sem nefndust IceSave. Stjórnin bjó til embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka hrunmálin. Nokkur fjöldi framámanna í íslensku viðskiptalífi fékk fangelsisdóma næstu árin vegna ýmissa brota. Hluta þeirra tókst að fá mál sín endurupptekin eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem gagnrýndi málsmeðferð og skort á hlutleysi dómara sem sjálfir áttu hluti í föllnu bönkunum.[44][45] Stjórnin réðist í fleiri stór mál til að takast á við áfallið eftir hrun, eins og breytingar á stjórnarskránni, og hóf aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þetta síðasta reyndist vera mjög óvinsælt innan VG og nokkrir þingmenn flokksins hættu stuðningi við stjórnina í kjölfarið. Undir það síðasta var stjórnin því orðin minnihlutastjórn sem var varin falli af þingmönnum annarra flokka. Í Alþingiskosningurm 2013 biðu báðir stjórnarflokkarnir afhroð og ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum. Mjög margir nýir flokkar og stjórnmálahreyfingar urðu til í kjölfar Bankahrunsins, eins og Borgarahreyfingin, Hagsmunasamtök heimilanna, Heimssýn, Píratar, Björt framtíð, Besti flokkurinn og Alþýðufylkingin. Nokkuð fjölmenn mótmæli urðu á Austurvelli í kjölfar þess að ríkisstjórnin dró aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka árið 2014. Ríkisstjórnin féll svo árið 2016 vegna uppljóstrana í Panamaskjölunum um eignarhlut forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í aflandsfélaginu Wintris. Næstu ár klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn við stofnun Viðreisnar, meðal annar vegna deilna um Evrópusambandsaðild, og Miðflokkurinn var stofnaður af Sigmundi Davíð og fylgismönnum hans eftir að hann tapaði formannsslag í Framsóknarflokknum árið 2016.

Þrátt fyrir efnahagskreppuna voru tvö stór tónlistarhús tekin í notkun á þessum árum: Menningarhúsið Hof á Akureyri 2010 og Harpa í Reykjavík 2011. Árið 2010 varð eldgos í Eyjafjallajökli sem olli miklum truflunum á flugsamgöngum í Norður- og Vestur-Evrópu. Meðal viðbragða á Íslandi var stofnun opinbera hlutafélagsins Isavia til að taka við allri flugþjónustu á landinu. Næstu ár óx fjöldi ferðamanna til Íslands hratt, ferðaþjónusta var orðin 8,2% af vergri landsframleiðslu árið 2016[46] og hlutur hennar í gjaldeyristekjum 42% árið 2017, langtum meiri en hlutur stóriðju og sjávarútvegs.[47] Erlendum ferðamönnum til landsins fjölgaði úr 460.000 árið 2010 í 2,2 milljónir árið 2017.[48] Ferðaþjónustan átti því mikinn þátt í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir Bankahrunið. Kórónaveirufaraldurinn 2019-2021 hafði að sama skapi mjög neikvæð áhrif á efnahagslífið þar sem komur erlendra ferðamanna lögðust um tíma nánast af með öllu.

Landfræði

Kort.
Samsett gervihnattarmynd af Íslandi

Ísland er staðsett á heitum reit á Atlantshafshryggnum. Ísland liggur á tveimur jarðskorpuflekum, Norður-Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum. Eyjan er 102.800 ferkílómetrar að stærð sem gerir hana að aðra stærstu eyju Evrópu, á eftir Bretlandi. Landið telst sögulega til Evrópu.

Á Íslandi eru tugir virkra eldfjalla og ber þar helst að nefna Heklu, Kötlu og Grímsvötn. Miðhálendið þekur um 40% landsins og er um það bil 10% eyjarinnar er undir jöklum. Á Íslandi eru hverir víða, og gnótt jarðhita færir íbúunum heitt vatn, sem meðal annars er notað til húshitunar.

Eyjan er vogskorin, og flestir bæir standa við firði, víkur og voga. Helstu þéttbýlisstaðir eru höfuðborgin Reykjavík, nágrannasveitarfélögin Hafnarfjörður, Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær; saman eru þeir kallaður höfuðborgarsvæðið og eru um 64% íbúanna búsettir á því svæði. Meðal stærri þéttbýlisstaða utan höfuðborgarsvæðisins er Keflavík, þar sem einn af alþjóðlegum flugvöllum landsins er og Akureyri. Selfoss og Akranes eru vaxandi byggðir.

Ystu punktar Íslands eru þeir staðir sem eru lengst til höfuðáttanna.

Dýralíf

Á Íslandi eru fuglar mest áberandi og hafa sést á landinu 330 tegundir. Þar af verpa 85 tegundir[49] og um 57 hafa vetursetu.[50] Meðal þeirra eru æðarfugl, snjótittlingur, rjúpa og hrafn. Aðrir fuglar sem eru taldir einkenna náttúru Íslands eru til dæmis lundi, fýll, fálki og kría. Geirfugli var útrýmt á Íslandi á 19. öld. Votlendi á Íslandi er mikilvægt varpsvæði margra tegunda andfugla á heimsvísu. Heimskautarefur er eina landspendýrið sem barst til Íslands fyrir landnám manna að talið er. Meðal annarra villtra spendýra eru hreindýr sem flutt voru til landsins á síðari hluta 18. aldar, en búsvæði þeirra eru á heiðum á Austurlandi. Minkur er svo annað dýr sem flutt var inn til ræktunar á fyrri hluta 20. aldar en dýr sem sluppu úr búrum hafa lifað síðan villt. Meðal nagdýra eru hagamús og rottur. Kanínur lifa villtar í nokkrum skógum á Íslandi og í nágrenni við mannabyggð.[51]

Tugir tegunda hvala halda sig við Ísland, sérstaklega á sumrin. Tegundir sem algengt er að sjá eru hrefna, hnísa, grindhvalur, háhyrningur, andarnefja, búrhvalur, hnúfubakur, langreyður og steypireyður. Sumar tegundir, eins og sléttbakur og mjaldur sjást mjög sjaldan.[52] Tvær tegundir sela kæpa við Ísland: landselur og útselur.[53] Aðrar tegundir eins og kampselur og rostungur flækjast stundum til landsins og dvelja þar tímabundið. Áður lifði staðbundinn stofn rostunga við Ísland, en hann varð útdauða fljótlega eftir landnám.[54]

Gróður

Nálægt 500 háplöntur má finna á Íslandi.

Skógar

Um 2% landsins eru vaxin skógi og kjarri. [55] Ilmreynir og ilmbjörk ásamt hinni sjaldgæfu blæösp eru einu eiginlegu trén sem finna mátti eftir ísöld. Innfluttar trjátegundir sem sýnt hafa vaxtarþrótt vel eru m.a. sitkagreni, alaskaösp og stafafura.

Friðlýst svæði

Friðlýst svæði á Íslandi eru yfir 130 talsins (2022) og skiptast í þjóðgarða, friðlönd, náttúruvætti og fólkvanga. Þau spanna nærri 27.000 ferkílómetra eða um 26% af landinu. Stærst þessara svæða er Vatnajökulsþjóðgarður en hann er einn þriggja þjóðgarða landsins. Hugmyndir eru uppi að friða Miðhálendið en það yrði stærsti þjóðgarður Evrópu.

Stjórnmál

Þingfundur í fundarsal Alþingis.

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Framkvæmdavaldið liggur hjá forseta og ríkisstjórn. Æðsti maður ríkisstjórnar er forsætisráðherra. Ríkisstjórnin ber ábyrgð gagnvart Alþingi, sem er handhafi löggjafarvaldsins ásamt forseta. Dómsvald er í höndum dómstóla; æðsti dómstóll landsins er Hæstiréttur.

Forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins og er þjóðkjörinn í beinni kosningu allra kjörbærra manna. Kjörtímabil hans er 4 ár. Forseti er ábyrgðarlaus á ríkisstjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Hann veitir formönnum stjórnmálaflokka umboð til stjórnarmyndunar eftir kosningar til Alþingis og skipar ráðherra en oftast er þessu ferli í raun stýrt af stjórnmálaflokkunum sjálfum, aðeins þegar þeir geta ómögulega komist að niðurstöðu sjálfir nýtir forsetinn sér þetta vald og skipar sjálfur ríkisstjórn. Þetta hefur þó ekki gerst í sögu lýðveldisins en gerðist 1942 þegar Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri Íslands, skipaði utanþingsstjórn. Forseti Íslands hefur málskotsrétt gagnvart þinglögum samkvæmt stjórnarskrá og ber þá að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu en lögin taka samt gildi, þangað til þau eru afnumin eða staðfest með þjóðaratkvæði.[56] Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, nýtti sér málskotsréttinn fyrstur forseta á Íslandi, þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin árið 2004.

Alþingi, löggjafarþing Íslands, starfar í einni deild. 63 þingmenn þess eru kjörnir hlutfallskosningu í 6 kjördæmum. Kjörtímabilið er 4 ár en getur verið styttra ef það kemur til þingrofs en vald til að rjúfa þing liggur hjá ríkisstjórninni. Ráðherrar eiga einnig sæti á Alþingi en hafa ekki atkvæðarétt nema þeir séu einnig þingmenn en sú er reyndar venjan. Alþingi velur sér forseta til að hafa yfirumsjón með fundum þess. Ríkisstjórnir á Íslandi eru nánast ávallt samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka en einnig eru dæmi til um minnihlutastjórnir, einkum og sér í lagi vegna þess að enginn flokkur hefur hlotið hreinan meirihluta á þingi, í það minnsta ekki frá endurreisn lýðveldis.

Stjórnsýslueiningar

Íslandi er skipt upp í 62 sveitarfélög sem eru einu formlegu stjórnsýslueiningar landsins og hafa víðtæk völd á sviði skólamála, skipulags, samgangna og félagsmála. Reykjavík er langfjölmennasta sveitarfélagið með yfir 130.000 íbúa. Kópavogur, sem liggur að Reykjavík, er næstfjölmennasta sveitarfélagið með tæplega 40.000 íbúa. Sveitarfélögum hefur farið fækkandi síðustu ár og er stefnan að fækka þeim enn meira.

Íslandi er skipt upp í sex kjördæmi sem kjósa sína fulltrúa á Alþingi.

Frá 13. öld var Íslandi skipt upp í sýslur til umboðsstjórnar. Hinar gömlu landfræðilegu sýslur eru ekki lengur formlegar stjórnsýslueiningar á Íslandi. Sýslumenn eru ennþá við lýði en umdæmi þeirra fylgja ekki gömlu sýsluskiptingunni.

Efnahagslíf

Hlutfallslegt virði útflutningsafurða frá Íslandi árið 2019.

Eitt af því sem einkennir efnahagslíf á Íslandi er mikil atvinnuþátttaka og hefðbundið lítið atvinnuleysi, þótt það hafi hækkað tímabundið við efnahagsleg áföll eins og Bankahrunið 2008 (yfir 9%) og Kórónaveirufaraldurinn 2019- (yfir 6%). Árið 2022 var atvinnuþátttaka yfir 80%, sem er með því mesta sem gerist innan OECD, og atvinnuleysi 3,7%.[57] Stéttarfélagsaðild er líka með því allra mesta sem gerist innan OECD, þar sem yfir 90% launþega eru í stéttarfélagi (Danmörk kemur næst með yfir 60%),[58] meðal annars vegna lífeyrissjóðsaðildar og forgangsréttarsamninga við atvinnurekendur.[59] Þegar kemur að háskólamenntun fólks á vinnualdri eru Íslendingar yfir meðaltali OECD miðað við fólk á aldrinum 55-64 ára en undir meðaltalinu miðað við aldurinn 25-34 ára.[60] Mun fleiri konur (yfir 50%) hafa aflað sér háskólamenntunar en karlar (innan við 40%)[61] sem skýrist meðal annars af sterkari tengingu menntunar kvenna við atvinnuþátttöku en hjá körlum.[62] Um 40% námsmanna á Íslandi 18-24 ára vinna með námi, sem er langt yfir meðaltali OECD-ríkja (17%).[62]

Heimsbankinn skilgreinir Ísland sem hátekjuland og almennt eru lífsgæði og velmegun þar mikil. Ísland er í 15. sæti landa eftir vergri landsframleiðslu á mann, með tæplega 70.000 dala kaupmáttarjafnaða ársframleiðslu á mann. Landið er í 3. sæti vísitölu um þróun lífsgæða miðað við gögn frá 2021. Samkvæmt gögnum Heimsbankans frá 2017 mældist fátækt á Íslandi minni en á hinum Norðurlöndunum eða 8,8% (miðað við um 10% í Finnlandi og rúm 12% í Danmörku).[63] Samkvæmt Gini-stuðli eru bæði tekjujöfnuður og eignajöfnuður á Íslandi með því mesta sem gerist í heiminum (miðað við 2018).[64] Þessi mæling hefur verið gagnrýnd fyrir að vanmeta ójafnar fjármagnstekjur.[65] Ísland býr við blandað hagkerfi þar sem útgjöld hins opinbera eru um 45% af landsframleiðslu, sem er svipað og á hinum Norðurlöndunum.[66] Viðskiptafrelsi mælist hátt á Íslandi.

Ísland er með sjálfstæðan gjaldmiðil, íslenska krónu, sem er viðkvæmur fyrir sveiflum á helstu mörkuðum landsins og gengissveiflum tengdra gjaldmiðla. Verðbólguþrýstingur er því oft mikill og hátt vaxtastig eitt af því sem einkennir fjármálamarkaði.[67] Skylduaðild að lífeyrissjóðum sem taka til sín 12% af tekjum einstaklinga er líka eitt af einkennum íslensks efnahagslífs.[68] Sjóðirnir eru mjög fyrirferðarmiklir á íslenskum hlutabréfamarkaði, meðal annars vegna lagalegra takmarkana á erlendar fjárfestingar þeirra. Samanlagðar eignir þeirra eru meira en helmingi meiri en verg landsframleiðsla.[69] Deilt hefur verið um efnahagsleg áhrif sjóðanna í íslensku samfélagi og því hefur verið haldið fram að þeir viðhaldi háu vaxtastigi vegna kröfu um lágmarksarðsemi fjárfestinga.[70]

Ferðaþjónusta, sjávarútvegur og orkufrekur iðnaður eru þrjár helstu stoðir íslensks efnahagslífs.[71] Hlutur sjávarútvegs í vergri landsframleiðslu var 6,7% árið 2022, hlutur ferðaþjónustu 6,1% og hlutur stóriðju í kringum 4% (7% ef hlutur orkuvinnslunnar er talin með). Útflutningstekjur af þessum þremur stoðum íslensks efnahagslífs voru nokkuð svipaðar það ár. Samanlagt stóðu þessir þrír geirar undir tæplega 2/3 af öllum útflutningstekjum landsins.[72] Hugverkaiðnaður er ört vaxandi framleiðslugeiri á Íslandi þar sem hátæknifyrirtæki á borð við Marel og Össur hafa lengi verið áberandi, auk fyrirtækja á sviði lyfja- og lækningatækjaframleiðslu.[73] Mikil gróska í skapandi greinum er líka eitt af einkennum íslensks efnahagslífs. Árið 2021 voru skapandi greinar um 4% af landsframleiðslu og um 7% mannaflans störfuðu í þeim geira.[74] Hlutur fjármálaþjónustu er svipaður, eða um 5% af vergri landsframleiðslu.[75] Hlutdeild landbúnaðar í landsframleiðslu var um 0,8% árið 2022 og fiskeldis um 0,5%.[76]

Tíu stærstu fyrirtæki landsins miðað við veltu voru, árið 2021: Marel (hátækni), Hagar (smásala), Eimskip (sjóflutningar), Festi (smásala), Össur (hátækni), Landsbankinn (fjármálaþjónusta), Alcoa Fjarðaál (stóriðja), Norðurál (stjóriðja), Arion banki (fjármálaþjónusta) og Íslandsbanki (fjármálaþjónusta).[77] Tækni- og nýsköpunarfyrirtæki hafa aukið fjölbreytni íslensks atvinnulífs síðustu áratugi. Meðal þeirra eru fyrirtæki á sviði lækningaþjónustu og lækningavara eins og Íslensk erfðagreining, Actavis og Kerecis; hugbúnaðarþróunar eins og CCP og Advania; og líftækni eins og Primex og ORF Líftækni.

Íbúar

Íslendingar eru í megindráttum norræn þjóð. Landið byggðist upphaflega norrænum mönnum, einkum frá Noregi, Svíþjóð, Danmerkur og Keltum frá nýlendum víkinga á Bretlandseyjum og Íslendingar hafa í gegnum tíðina átt mest samskipti við helstu fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi. Til er kenning um að Íslendingar séu að uppruna sérstakur þjóðflokkur, aðgreindur frá öðrum þjóðflokkum á norðurlöndum („Herúlakenningin“) en sú kenning hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn. Á síðari tímum hafa ýmsar kenningar um uppruna þjóðarinnar verið settar fram með erfðafræðilegum rökum. Þá er talað um að flestar konur sem hingað komu hafi verið keltneskar (flestar ambáttir) en karlarnir að miklu leyti norrænir.

Íbúafjöldi landsins sveiflaðist á milli um 30.000 og 80.000 við hefðbundinn efnahag í bændasamfélagi fyrri alda [heimild vantar]. Á 19. og 20. öld hefur Íslendingum fjölgað nokkuð ört og nú eru íbúar landsins að nálgast 400.000. Árið 2011 gaf Hagstofa Íslands út þrjár tegundir mannfjöldaspáa fyrir 1. janúar 2060: lágspá sem spáir fólksfjöldanum 386.500, miðspá sem spáir fyrir 436.500 og háspá sem spáir 493.800 manns.[78][79]

Nær 65% íbúa búa á Höfuðborgarsvæðinu eða um 250.000 manns (2023). Um 6% búa í strjálbýli, þ.e. í byggðakjörnum undir 200 manns. [80]

Tungumál

Grenndargámur fyrir plast með leiðbeiningum á íslensku, ensku og pólsku.

Íslenska er móðurmál flestra íbúa og það mál sem er almennt talað á Íslandi. Íslenska er norrænt mál sem greindist frá fornnorsku á miðöldum og hefur síðan þá þróast áfram á Íslandi. Nafnorðabeygingar hafa viðhaldist í íslensku en lagst af að mestu í öðrum norrænum málum. Íslenska hefur haft tilhneigingu til að búa til nýyrði yfir ný hugtök, fremur en notast við tökuorð. Þetta er ein afleiðing hreintungustefnu sem hefur verið áberandi frá 19. öld. Íslenskt ritmál er skrifað með latnesku stafrófi með nokkrum aukastöfum. Íslenska varð opinbert tungumál á Íslandi með lögum sem sett voru árið 2011. Sömu lög skilgreina íslenskt táknmál sem fyrsta mál þeirra sem á því þurfa að halda og barna þeirra. Íslensk málnefnd fer með ráðgjafarhlutverk varðandi málstefnu íslenska ríkisins og gefur út opinberar ritreglur. Árnastofnun fæst við rannsóknir á íslensku máli, útgáfu orðabóka og verkefni á sviði máltækni.

Mörg önnur tungumál eru töluð á Íslandi og samkvæmt Hagstofu Íslands áttu 13,7% leikskólabarna annað móðurmál en íslensku árið 2018.[81] Enskukunnátta er útbreidd og í grunnnámi er kennsla í ensku og dönsku skylda. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að allt að helmingur málumhverfis íslenskra barna sé á ensku.[82] Stærsti hópur innflytjenda á Íslandi er frá Póllandi og notkun pólsku hefur því farið vaxandi í skólum og fréttamiðlum.

Íslensk mannanöfn notast að jafnaði við föðurnafnakerfi þar sem kenninafn er myndað með fornafni föður eða móður og viðskeytinu „-dóttir“ eða „-son“. Ættarnöfn eru undantekning fremur en regla. Þessum hefðum er viðhaldið með sérstökum lögum um mannanöfn.

Innflytjendur á Íslandi

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mjög á Íslandi á 21. öld. Árið 2007 voru erlendir ríkisborgarar 18.563 talsins (6% af íbúum Íslands).

Í nóvember 2024 var samkvæmt Þjóðskrá fjöldi innflytjenda 80.400, eða nálægt 20% landsmanna [83]. Stærsti einstaki hópur innflytjenda er frá Póllandi.[84]

Samkvæmt viðhorfskönnun sem var gerð árið 2009 meðal um 800 innflytjenda kom fram að dræm íslenskukunnátta hamlaði þeim helst í því að nýta menntun sína í starfi.[85]

Aðeins 13% innflytjenda kaus í sveitarstjórnakosningunum 2022. [86]

Trúmál

Á Íslandi eru 55 % íbúa landsins meðlimir í hinni evangelísk-lúthersku þjóðkirkju og eru flestar fermingar, skírnir og jarðarfarir hjá henni.[87] Önnur kristin trúfélag sem eru fjölmenn eru Kaþólska kirkjan og fríkirkjur. Fækkað hefur mikið í Þjóðkirkjunni frá aldamótum. Æ fleiri skrá sig utan trúfélaga eða í önnur trú og lífsskoðunarfélög. Vöxtur hefur til að mynda verið í Ásatrúarfélaginu, Kaþólsku kirkjunni og siðræna húmaníska félaginu Siðmennt.

Alls voru 56 trú- og lífsskoðunarfélög árið 2024.

Menning

Kvikmynda- og bókmenntaverðlaun

Árlega eru veitt verðlaun fyrir afrek liðins árs í bókmenntum og kvikmyndagerð á Íslandi. Edduverðlaunin eru verðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað fram úr á sviði kvikmynda og sjónvarps. Síðar á árinu eru Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent því fólki sem talið er hafa borið af á ritvellinum.

Íþróttir

Vinsælasta íþróttin á Íslandi er knattspyrna.[88] Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur lengst náð í fjórðungsúrslit í Evrópukeppni í knattspyrnu 2016. Liðið tók þátt í Heimsmeistaramóti landsliða í knattspyrnu karla 2018 en náði þá ekki upp úr riðlakeppninni. Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu náði líka í fjórðungsúrslit í Evrópumóti kvenna í knattspyrnu 2013. Efsta deild félagsliða í knattspyrnu á Íslandi nefnist Besta deildin. Íslenskir knattspyrnumenn eins og Eiður Smári Guðjohnsen, Ásgeir Sigurvinsson og Margrét Lára Viðarsdóttir, hafa leikið með efstu deildar liðum í öðrum Evrópulöndum. Handbolti hefur líka verið kallaður „þjóðaríþrótt“ Íslendinga og íslenska handboltalandsliðið hefur náð langt á stórmótum, meðal annars unnið silfurverðlaun á Sumarólympíuleikunum 2008.

Íslendingar eiga langa sögu afreksíþróttafólks í skák. Árið 2005 var Reykjavík með flesta stórmeistara miðað við fjölda íbúa, en þá bjuggu þar Jón L. Árnason, Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson, Friðrik Ólafsson, Þröstur Þórhallsson, Helgi Áss Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Bobby Fischer.

Aðrar íþróttagreinar sem Íslendingar hafa náð langt í eru sund, júdó, kraftlyftingar, frjálsar íþróttir, fimleikar, blandaðar bardagaíþróttir og CrossFit. Íþróttafólk á vegum Íþróttasambands fatlaðra hefur náð mjög góðum árangri í ýmsum íþróttagreinum á alþjóðlegum stórmótum, sérstaklega í sundi.

Hefðbundnar íslenskar íþróttagreinar eru glíma og hestaíþróttir á íslenskum hestum. Aðrar vinsælar íþróttagreinar á Íslandi eru víðavangshlaup, körfuknattleikur, hjólreiðar, mótorkross, torfæruakstur, golf og rafíþróttir.

Elsta íþróttafélag Íslands er Skotfélag Reykjavíkur sem var stofnað árið 1867. Ungmennafélögin voru áberandi í upphafi skipulegs íþróttastarfs á Íslandi frá stofnun þeirra árið 1907. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands var stofnað árið 1912. Þátttaka í skipulegu íþróttastarfi ungmenna hefur farið vaxandi síðustu áratugi og árið 2014 stundaði yfir helmingur ungmenna í 9.-10. bekk íþróttir með íþróttafélagi.[89]

Tilvísanir

  1. Mannfjöldinn á 3. ársfjórðungi 2024Hagstofan
  2. Ari Páll Kristinsson: „Hvert er formlegt heiti landsins okkar?“. Vísindavefurinn [á vefnum]. [skoðað 07.01.2013].
  3. Björn Þorsteinsson o.fl. (1991). Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík: Sögufélag. s. 24.
  4. 4,0 4,1 Björn Þorsteinsson o.fl. (1991). Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík: Sögufélag. s. 13.
  5. Gizur Helgason (1971, 17.1.). „Hver var fyrstur?“. Lesbók Morgunblaðsins. 46 (3): 8-10/12-13.
  6. Árni Óla (1968, 23.12.). „Hverjir fundu Ísland?“. Lesbók Morgunblaðsins. 43 (47): 54-55/61.
  7. Tamsalu, Piia (17. október 2015). „Raamat: Saaremaa ongi Ultima Thule“. Saarte Hääl. Sótt 9. júní 2021.
  8. Andreas Kleineberg, Christian Marx, Eberhard Knobloch und Dieter Lelgemann (2010). Germania und die Insel Thule. Die Entschlüsselung von Ptolemaios' "Atlas der Oikumene". Darmstadt: Wissenschaftliche Buchgesellschaft.
  9. „Áfrýjunarnefnd EUIPO tekur Iceland-málið fyrir“. Stjórnarráðið. 6.9.2022.
  10. „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“. Vísindavefurinn.
  11. Jakob Bjarnar (13. desember 2021). „Rostungakenningin hreint ekki ný af nálinni“. Vísir.is. Sótt 2022.
  12. „Hafa fundist fornleifar á Grænlandi og Vínlandi eftir norræna víkinga?“. Vísindavefurinn.
  13. „Kristnitaka Íslands“. Handritin heima. Sótt 2022.
  14. Steinunn Kristjánsdóttir (2012). Sagan af klaustrinu á Skriðu.
  15. Helgi Guðmundsson (1997). Um haf innan: Vestrænir menn og íslensk menning á miðöldum.
  16. Björn Þorsteinsson (1991). Íslandssaga til okkar daga. bls. 135-137.
  17. „Hvað er helst vitað um svartadauða á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  18. ÓSÁ (2020). „Grindavíkurstríðið 1532“. Ferlir. Sótt 2022.
  19. „Hvað lásu Íslendingar á 18. öld?“. Vísindavefurinn.
  20. Leifur Reynisson (25.5.2010). „Hverjar voru meginástæður vesturferðanna?“. Sótt 12.8.2021.
  21. Upphaf mótorvæðingar í íslenskum landbunaði, Tíminn, 10. juni 1994.
  22. 22,0 22,1 22,2 „Mannfjöldi í einstökum byggðakjörnum og strjálbýli eftir landsvæðum ár hvert 1889-1990“. Hagstofa Íslands. Sótt 13.8.2021.
  23. Anna Lísa Rúnarsdóttir (2007). „Á tímum torfbæja: Híbýlahættir og efnismenning í íslenska torfbænum frá 1850“ (PDF). Þjóðminjasafn Íslands. bls. 17. Sótt 12.8.2021.
  24. Sigurður Sigurðsson (1976). „Um berklaveiki á Íslandi“. Læknablaðið (62): 3–50.
  25. Stefanía Óskarsdóttir (2.9.2019). „Hvers vegna var lýðveldi ekki stofnað fyrr á Íslandi?“. Sótt 12.8.2021.
  26. Þorleifur Óskarsson (1988). „Togaraútgerð á tímamótum“. Ný saga. 13 (1): 14–17.
  27. Róbert F. Sigurðsson (23.11.2009). „Hvað voru skömmtunarárin?“. Sótt 12.8.2021.
  28. Sigrún Elíasdóttir (2012). „Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands (MA-ritgerð við Háskóla Íslands)“. Sótt 12.8.2021.
  29. „Byggðakönnun: Borgarhluti 3 - Hlíðar“ (PDF). Minjasafn Reykjavíkur. 2013. Sótt 12.8.2021.
  30. Ágústa Kristófersdóttir (2002). „Byggt yfir hugsjónir“ (PDF). Sótt 12.8.2021.
  31. Páll Kristbjörn Sæmundsson (2012). „Rekstur hitaveitna á Íslandi: Arðsemi og náttúruleg einokun (MS ritgerð við Háskóla Íslands“ (PDF). bls. 22. Sótt 12.8.2021.
  32. „Sameining sveitarfélaga: Áhrif á atvinnu- og búsetuþróun“ (PDF). Byggðastofnun. 2001. Sótt 12.8.2021.
  33. „Mikilvægasti verkefnaflutningurinn til þessa: Grunnskólalögin sem samþykkt voru í byrjun árs 1995 koma að fullu leyti til“. Morgunblaðið. 1.8.1996. Sótt 12.8.2021.
  34. „Breytingar á réttindum ríkisstarfsmanna: Afnám æviráðningar bundin í sérlög“. Morgunblaðið. Sótt 12.8.2021.
  35. „Stjórnsýslulög 1993 nr. 37 30. apríl“. 23.11.1996. Sótt 12.8.2021.
  36. „Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008“. Sótt 12.8.2021.
  37. Magnús Sveinn Helgason (2010). „Viðauki 5: Íslenskt viðskiptalíf - breytingar og samspil við fjármálakerfið“ (PDF). Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Sótt 12.8.2021.
  38. „Námskeið í borgaralegri óhlýðni“. Morgunblaðið. 11.6.2004. Sótt 12.8.2021.
  39. Heiða Björk Vigfúsdóttir (2007, 30. júní). Beinar aðgerðir gegn stóriðjunni. Blaðið 120. tbl. s. 2. [1]
  40. „Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008“. 2010. Sótt 13.8.2021.
  41. „Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008“ (PDF). bls. 91. Sótt 12.8.2021.
  42. „Seðlabanki Íslands hækkar stýrivexti“. Seðlabanki Íslands. 10.4.2008. Sótt 13.8.2021.
  43. „Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008“. 2010. Sótt 13.8.2021.
  44. „Ríkið viðurkennir brot í fimm hrunmálum“. Fréttablaðið. 4.3.2021. Sótt 13.8.2021.
  45. „Ríkismegin í réttarkerfinu“. Viðskiptablaðið. 1.11.2020. Sótt 13.8.2021.
  46. „Ferðaþjónustureikningar“. Hagstofa Íslands. Sótt 13.8.2021.
  47. „Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum 2018“ (PDF). Ferðamálastofa. 2018. Sótt 13.8.2021.
  48. „Farþegar um Keflavíkurflugvöll eftir ríkisfangi og árum 2003-2018“. Hagstofa Íslands. Sótt 13.8.2021.
  49. Fuglar Íslands Geymt 22 september 2017 í Wayback MachineNat.is, skoðað 22. janúar, 2019.
  50. Kristinn Haukur Skarphéðinsson. „Hvað eru margir fuglar á Íslandi á veturna?“. Vísindavefurinn.
  51. Jón Már Halldórsson. „Eru kanínur orðnar villt tegund á Íslandi, og sér maður þær í íslenskum dýrabókum í framtíðinni?“. Vísindavefurinn.
  52. Jón Már Halldórsson. „Hvaða hvalir hafa sést við Ísland?“. Vísindavefurinn.
  53. Jón Már Halldórsson. „Hvað eru margir selir við Ísland“. Vísindavefurinn.
  54. Hilmar J. Malmquist. „Af hverju hurfu rostungar frá Íslandi“. Vísindavefurinn.
  55. Tvö prósent Íslands er nú þakið skógi og kjarriVísir, sótt 3. apríl 2022
  56. Deildar meiningar eru um raunveruleg völd forsetans, þá sérstaklega hvort hann geti neitað að skrifa undir lög og hvort slíkur gjörningur hafi einhverjar afleiðingar. Í stjórnarskránni er sagt að slík synjun kalli á þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin, en hins vegar lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt og eru margir á þeirri skoðun að það gildi um þetta vald eins og önnur völd forseta.
  57. „Vinnumarkaðurinn árið 2022“. Hagstofa Íslands. 2.3.2023. Sótt 18.8.2023.
  58. „Trade Union Dataset“. OECD Statistics. Sótt 18.8.2023.
  59. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson; Þórhallur Örn Guðlaugsson. „Stéttarfélagsaðild á Íslandi“. Stjórnmál og stjórnsýsla. 15 (1): 67–90. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. ágúst 2023. Sótt 18. ágúst 2023.
  60. „Population with tertiary education“. 2021. Sótt 18.8.2023.
  61. „Menntunarstaða“. Hagstofa Íslands. Sótt 18.8.2023.
  62. 62,0 62,1 „Education at a Glance 2022: Iceland“. OECD iLibrary. Sótt 18.8.2023.
  63. „World Databank“. Databank.worldbank.org. 2015. Sótt 3. júlí 2017.
  64. „GINI index (World Bank estimate)“. World Bank. Sótt 30. mars 2020.
  65. „Eignaójöfnuður á miklu hærra stígi en tekjuójöfnuður á Íslandi“. Kjarninn. 17.2.2019. Sótt 18.8.2023.
  66. „World Economic Outlook Database“. IMF (enska). Sótt 19. apríl 2023.
  67. Lára Huld Beck (4.3.2022). „Verðbólga og vextir á Íslandi - Blikur á lofti eða ofmetið vandamál?“. Kjarninn. Sótt 18.8.2023.
  68. „Lífeyrissjóðir“. Stjórnarráð Íslands. Sótt 18.8.2023.
  69. „Eignir lífeyrissjóðanna aldrei meiri“. Vb.is. 7.8.2020. Sótt 18.8.2023.
  70. Þorsteinn Víglundsson (6.11.2017). „Látið lífeyrissjóðina okkar í friði“. Kjarninn. Sótt 18.8.2023.
  71. Sigríður Mogensen (4.1.2024). „Gleymum ekki grund­vallar­at­riðum“. Vísir.is.
  72. „Valdir liðir útflutnings vöru og þjónustu 2013-2023“. Hagstofa Íslands. Sótt 5.2.2024.
  73. „Áratugur hugverkaiðnaðar“. Viðskiptablaðið. 9.3.2023.
  74. „Rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum 126 milljarðar árið 2021“. Hagstofa Íslands. 10.5.2023.
  75. „Hlutur atvinnugreina í landsframleiðslu 1997-2022“. Hagstofa Íslands. Sótt 5.2.2024.
  76. „Hlutur atvinnugreina í landsframleiðslu 1997-2022“. Hagstofa Íslands. Sótt 5.2.2024.
  77. „Tíu stærstu fyrirtækin á Íslandi“. Vb.is. 24.11.2021. Sótt 18.8.2023.
  78. Spá um mannfjölda 2010-2060 Geymt 14 júní 2011 í Wayback Machine[sic], Spá um mannfjölda 2010–2060 (Population projection 2010–2060)[óvirkur tengill]
  79. mbl.is: Íslendingar 433.000 árið 2060
  80. Mannfjöldi á 4. ársfjórðungi 2022Hagstofa, skoðað 21. janúar 2023
  81. „Menntuðum leikskólakennurum fækkar“. Hagstofa Íslands. 18. október 2019. Sótt 2022.
  82. Íris Edda Nowenstein og Sigríður Sigurjónsdóttir (2021). Stafrænt málsambýli íslensku og ensku: Áhrif ensks ílags og málnotkunar á málfærni íslenskra barna. Ritið 21 (3): 11-56.[2] Geymt 1 febrúar 2022 í Wayback Machine
  83. Erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi 1/11 2024 Þjóðskrá, 1. nóv. 2024
  84. „Erlendum ríkisborgurum fjölgar um tæp 9%“. Rúv.is. Sótt júlí 2023.
  85. mbl.is: Rúmlega helmingur innflytjenda aðlagast vel
  86. Hafa reynt í 15 ár að ná tali af stjórnmálamönnum Rúv, sótt 20/9 2023
  87. Skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög - 1. sept. 2024 Skra.is. Skoðað 13/3 2024.
  88. Þórður Snær Júlíusson (9. janúar 2021). „Þeim sem æfa knattspyrnu á Íslandi fjölgaði um 50 prósent á áratug“. Kjarninn.
  89. Viðar Halldórsson (2014). Íþróttaþátttaka íslenskra ungmenna: Þróun íþróttaþátttöku og greining á félagslegum áhrifaþáttum. Netla - Veftímarit um uppeldi og menntun. [3]

Tengt efni

Tenglar

Blaðagreinar