Fara í innihald

Handbolti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Handboltaleikur á Ólympíuleikunum í Sydney 2000.

Handbolti eða handknattleikur er hópíþrótt þar sem tvö sjö manna lið keppast um að koma bolta í mark. Einn liðsmaður úr hvoru liði er markmaður og er sá eini sem má stíga inn í markteiginn á sínum vallarhelmingi. Í vörn standa hinir sex utan teigsins og reyna að hindra sókn andstæðinganna, í sókn sækja þeir að hinu markinu og reyna koma boltanum í mark andstæðinganna. Liðsmenn mega ekki taka fleiri en þrjú skref án þess að drippla boltanum og mega ekki halda boltanum án þess að senda eða skjóta í meira en þrjár sekúndur. Í hvoru liði eru tveir hornamenn, tvær skyttur, einn miðjumaður, einn línumaður og einn markmaður.

Handboltakappleikur er hraður og yfirleitt eru skoruð mörg mörk miðað við aðrar knattíþróttir.

Handbolti er vinsæl íþrótt á Íslandi og hafa íslenskir handboltamenn náð góðum árangri bæði hér heima og erlendis í gegnum árin.

Uppruni handknattleiks á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Valdimar Sveinbjörnsson íþróttakennari flutti handknattleik til Íslands árið 1921, en hann var þá nýkominn heim frá námi við Íþróttakennaraskóla Danmerkur. Á næstu árum var notast við handknattleik í íþróttakennslu á nokkrum stöðum á landinu, svo sem í Vestmannaeyjum og í Hafnarfirði undir stjórn Hallsteins Hinrikssonar. Fyrsti skráði handboltaleikurinn fór fram milli tveggja stúlknaliða í Hafnarfirði sumarið 1925.

Fyrstu árin var handknattleiksiðkun fyrst og fremst bundin við skóla á borð við Flensborgarskólann, Menntaskólann í Reykjavík og Háskólann. Með tímanum fóru hefðbundnu íþróttafélögin þó að leggja stund á þessa grein, meðal annars í tengslum við inniæfingar knattspyrnumanna á vetrum. Fyrsta Íslandsmótið í handbolta var haldið í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu árið 1940.

Lengi vel var keppt í handknattleik bæði innanhúss og utan. Með tímanum fór áhugi á utanhússhandknattleik þó minnkandi og lagðist keppni í greininni endanlega af í kringum 1980.

Handknattleikssamband Íslands var stofnað árið 1957. Sér það meðal annars um rekstur landsliða Íslands sem náð hafa góðum árangri á stórmótum. Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 og bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í Austurríki árið 2010 en hafnaði í 6. sæti á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011.

Markið sjálft er 2,08 metrar á hæð og 2,16 metrar á breidd.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi handknattleiksgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.