Norður-Ameríka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heimskort sem sýnir staðsetningu Norður-Ameríku.

Norður-Ameríka er heimsálfa sem liggur nær öll á norðurhveli og vesturhveli jarðar. Hún er norðurhluti landflæmisins Ameríku sem nær líka yfir Suður-Ameríku. Norður-Ameríka markast af Norður-Íshafi í norðri, Karíbahafi í suðri, Kyrrahafi í vestri og Atlantshafi í austri. Grænland er landfræðilega hluti af Norður-Ameríku því það liggur á Norður-Ameríkuflekanum.

Norður-Ameríka er 24,7 milljón ferkílómetrar að stærð. Hún þekur um 16,5% af þurrlendi jarðar og 4,8% af yfirborði jarðar. Hún er þriðja stærsta heimsálfan, á eftir Asíu og Afríku, og fjórða fjölmennasta heimsálfa jarðar, á eftir Asíu, Afríku og Evrópu. Árið 2013 var talið að 579 milljónir byggju í álfunni, í 23 fullvalda ríkjum, sem eru 7,5% mannkyns.

Menn námu land í Norður-Ameríku undir lok síðustu ísaldar með því að fara yfir Beringssund á landbrú frá Asíu, fyrir um það bil 40.000 til 17.000 árum síðan. Talið er að tímabil svokallaðra fornindíána hafi staðið þar til fyrir um 10.000 árum þegar Forntímabil Ameríku hófst. Klassíska tímabilið í Ameríku stóð frá 6. til 13. aldar, en Forkólumbíska tímabilinu lauk árið 1492. Þá hófst Landafundatímabilið sem einkenndist af landnámi Evrópubúa og innflutningi þræla frá Afríku. Elstu vísanir í Norður-Ameríku í evrópskum ritum er að finna í Íslendingasögum sem segja frá atburðum í kringum árið 1000. Íbúasamsetning Norður-Ameríku endurspeglar þjóðflutninga fólks alls staðar að úr heiminum, auk frumbyggja.

Arfur nýlendutímabilsins lýsir sér meðal annars í því að flestir íbúar Norður-Ameríku tala Evrópumál eins og ensku, spænsku og frönsku, og menning þeirra byggist á vestrænum hefðum. Víða í Norður-Ameríku búa þó frumþjóðir með sérstaka menningu og tungumál.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Almennt er viðurkennt að heimsálfan Ameríka var nefnd eftir ítalska landkönnuðinum Amerigo Vespucci af þýsku kortagerðarmönnunum Martin Waldseemüller og Matthias Ringmann.[1] Vespucci kannaði Suður-Ameríku milli 1497 og 1502 og varð fyrstur til að stinga upp á því að Ameríka væri ekki Austur-Indíur heldur áður óþekkt meginland. Árið 1507 gaf Waldseemüller út landakort þar sem hann setti orðið „America“ á Suður-Ameríku, þar sem Brasilía er nú, og skýrði heitið í bók sem fylgdi kortinu þannig að það væri dregið „ab Americo inventore“.[2]

Waldseemüller þótti eðlilegast að nefna landið eftir manninum sem uppgötvaði það. Hann notaðist við latneska útgáfu nafnsins, Americus, en breytti því í kvenkyn til samræmis við önnur heimsálfuheiti eins og „Evrópa“ og „Asía“. Nafnið varð því „America“. Síðari kortagerðarmenn tóku að nota sama heiti yfir norðurhluta álfunnar. Árið 1538 setti Gerhard Mercator heitið á allt vesturhvelið á heimskorti sínu.[3]

Mercator kallaði álfuna raunar „Ameríka eða Nýja-Indland“ („America sive India Nova“) á heimskorti sínu árið 1569.[4] Spænsk yfirvöld kölluðu nýlendur sínar í álfunni „Indíur“ („Las Indias“).

Ameríka er stunduð kölluð Vesturálfa í eldri íslenskum ritum.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Norður-Ameríka er á norðurhelmingi landflæmisins sem almennt er kallað Nýi heimurinn, Vesturheimur eða einfaldlega Ameríka (sem er oft talin ein heimsálfa).[5][6][7][8][9][10] Norður-Ameríka er þriðja stærsta heimsálfan að flatarmáli, á eftir Asíu og Afríku.[11][12] Eina landtenging Norður-Ameríku er við Suður-Ameríku um Panamaeiðið. Suðaustanmegin eru mörk heimsálfunnar oftast miðuð við Darién-vatnaskilin meðfram landamærum Kólumbíu og Panama. Nánast allt Panama er því staðsett í Norður-Ameríku.[13][14][15] Sumir landfræðingar vilja heldur miða suðurmörkin við Tehuantepec-eiðið sem útilokar þá Mið-Ameríku.[16] Eyjar Karíbahafsins, eða Vestur-Indíur, eru taldar með Norður-Ameríku.[9] Strönd meginlandsins er löng og óregluleg. Mexíkóflói er stærsta innhafið sem skerst inn í meginlandið, en Hudson-flói kemur þar á eftir. Aðrir stórir flóar eru Lawrence-flói og Kaliforníuflói.

Sonora-eyðimörkin í Arisóna.

Áður en Mið-Ameríkueiðið myndaðist var það svæði neðansjávar. Eyjarnar í Vestur-Indíum liggja á sokkinni landbrú sem áður tengdi Norður- og Suður-Ameríku milli Flórída og Venesúela.

Fjölmargar eyjar eru undan ströndum meginlandsins; aðallega Norðurhafseyjar, Bahamaeyjar, Turks- og Caicoseyjar, Stóru Antillaeyjar og Litlu Antillaeyjar, Aleuteyjar (sumar þeirra eru á austurhveli jarðar), Alexanderseyjar, þúsundir eyja við strönd Bresku Kólumbíu og Nýfundnaland. Grænland, sem er heimastjórnarsvæði innan Danmörku, er stærsta eyja veraldar og situr á Norður-Ameríkuflekanum. Bermúda er hins vegar ekki hluti af Norður-Ameríku jarðfræðilega þar sem eyjan myndaðist á Atlantshafshryggnum fyrir um 100 milljón árum. Næsta landflæmi við eyjuna er Hatterashöfði í Norður-Karólínu. Bermúda er samt oftast talin til Norður-Ameríku, sérstaklega vegna sögulegra, stjórnarfarslegra og menningarlegra tengsla við Virginíu og önnur svæði á meginlandinu.

Moraine Lake í Banff-þjóðgarðinum.

Stærstur hluti Norður-Ameríku er á Norður-Ameríkuflekanum. Hlutar af Vestur-Mexíkó (þar á meðal Baja California) og Kaliforníu (meðal annars borgirnar San Diego, Los Angeles og Santa Cruz) eru á austurbrún Kyrrahafsflekans, en flekarnir tveir mætast við San Andreas-misgengið. Syðri hluti heimsálfunnar og stór hluti Vestur-Indía liggja á Karíbahafsflekanum, og Juan de Fuca-flekinn og Cocos-flekinn liggja að vesturbrún Norður-Ameríkuflekans.

Norður-Ameríka skiptist í fjögur meginlandsvæði: Slétturnar miklu sem liggja frá Mexíkóflóa að Norður-Kanada; vestrið, sem er jarðfræðilega ungt og fjalllent og nær yfir Klettafjöll, Dældina miklu, Kaliforníu og Alaska; flatlent Kanadahálendið í norðaustri; og fjölbreytt austursvæðið sem nær yfir Appalasíufjöll, ströndina við Atlantshafið og Flórídaskaga. Mexíkó, með sínar löngu hásléttur og fjallgarða, er að mestu hluti vestursins, þótt í austri sé strandslétta við suðurströnd Mexíkóflóa.

Nuuk, höfuðborg Grænlands.

Vestari fjöllin skiptast í miðju milli Klettafjalla og Kyrrahafsfjalla í Kaliforníu, Óregon, Washington-fylki og Bresku Kólumbíu, ásamt Dældinni miklu, láglendissvæði með marga minni fjallgarða og eyðimerkur inn á milli. Hæsti tindurinn er Denali í Alaska.

Landfræðistofnun Bandaríkjanna segir að landfræðileg miðja Norður-Ameríku sé 10 km vestan við Balta í Norður-Dakóta og 15 km frá Rugby. Stofnunin segir jafnframt að engin ríkisstofnun hafi opinberlega lýst eða merkt neinn miðpunkt, hvorki í fylkjunum 50, né fyrir Bandaríkin, né fyrir norðurameríska meginlandið. Samt sem áður er einsteinungur í Rugby þar sem á stendur að þar sé miðja meginlandsins. Óaðgengispóll Norður-Ameríku er 1650 km frá næstu strandlengu, milli Allen og Kyle í Suður-Dakóta.[17]

Lönd í Norður-Ameríku[breyta | breyta frumkóða]

Norðanverð Ameríka
Bahamaeyjar Nassá
Bandaríkin Washington D.C.
Bermúda (Bretland) Hamilton
Grænland (Danmörk) Nuuk
Kanada Ottawa
Mexíkó Mexíkóborg
Sankti Pierre og Miquelon (Frakkland) Saint-Pierre
Turks- og Caicoseyjar (Bretland) Cockburn Town
Mið-Ameríka
Belís Belmópan
Clipperton-eyja (Frakkland)
El Salvador San Salvador
Gvatemala Gvatemalaborg
Hondúras Tegucigalpa
Kosta Ríka San José
Níkaragva Managva
Panama Panamaborg
Karíbahaf
Alríkisumdæmi Venesúela (Venesúela) Gran Roque
Angvilla (Bretland) The Valley
Antígva og Barbúda St. John's
Arúba (Holland) Oranjestad
Bandarísku Jómfrúaeyjar (Bandaríkin) Charlotte Amalie
Barbados Bridgetown
Bonaire (Holland) Kralendijk
Bresku Jómfrúaeyjar (Bretland) Road Town
Caymaneyjar (Bretland) George Town
Curaçao (Holland) Willemstad
Dóminíka Roseau
Dóminíska lýðveldið Santo Domingo
Grenada St. George's
Gvadelúpeyjar (Frakkland) Basse-Terre
Haítí Port-au-Prince
Jamaíka Kingston
Kúba Havana
Martiník (Frakkland) Fort-de-France
Montserrat (Bretland) Plymouth, Brades
Nueva Esparta (Venesúela) La Asunción
Púertó Ríkó (Bandaríkin) San Juan
Saba (Holland) The Bottom
Saint Barthélemy (Frakkland) Gustavia
Saint Martin (Frakkland) Marigot
San Andrés y Providencia (Kólumbía) San Andrés
Sankti Kristófer og Nevis Basseterre
Sankti Lúsía Castries
Sankti Vinsent og Grenadíneyjar Kingstown
Sint Eustatius (Holland) Oranjestad
Sint Maarten (Holland) Philipsburg
Trínidad og Tóbagó Port of Spain

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Amerigo Vespucci. Sótt 7. júlí 2011.
  2. Herbermann, Charles George, ritstjóri (1907). The Cosmographiæ Introductio of Martin Waldseemüller in Facsimile. Translated by Edward Burke and Mario E. Cosenza, introduction by Joseph Fischer and Franz von Wieser. New York: The United States Catholic Historical Society. bls. 9. „latínu "Quarta pars per Americum Vesputium (ut in sequentibus audietur) inventa est, quam non video, cur quis jure vetet, ab Americo inventore sagacis ingenii viro Amerigen quasi Americi terram sive Americam dicendam, cum et Europa et Asia a mulieribus sua sortita sint nomina."
  3. Jonathan Cohen. „The Naming of America: Fragments We've Shored Against Ourselves“. Sótt 3. febrúar 2014.
  4. „Mercator 1587 | Envisioning the World | The First Printed Maps“. lib-dbserver.princeton.edu. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. september 2020. Sótt 12. september 2020.
  5. „The Olympic symbols“ (PDF). Lausanne: Olympic Museum and Studies Centre: International Olympic Committee. 2002. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. mars 2008. The five rings of the Olympic flag represent the five inhabited, participating continents (Africa, America, Asia, Europe, and Oceania Geymt 23 febrúar 2002 í Wayback Machine).
  6. Equipo (1997). „Continente“. Océano Uno, Diccionario Enciclopédico y Atlas Mundial. bls. 392, 1730. ISBN 978-84-494-0188-6.
  7. Los Cinco Continentes (The Five Continents). Planeta-De Agostini Editions. 1997. ISBN 978-84-395-6054-8.
  8. „Encarta, "Norteamérica" (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 30. janúar 2009.
  9. 9,0 9,1 North America. Sótt 3. febrúar 2014.
  10. „Map And Details Of All 7 Continents“. worldatlas.com. Sótt 2. september 2016. „In some parts of the world, students are taught that there are only six continents, as they combine North America and South America into one continent called the Americas.“
  11. Rosenberg, Matt (11. apríl 2020). „Ranking the 7 Continents by Size and Population“. ThoughtCo (enska). Sótt 27. ágúst 2020.
  12. „North America Land Forms and Statistics“. World Atlas.com. Sótt 16. júní 2013.
  13. „Americas“. Standard Country and Area Codes Classifications (M49). United Nations Statistics Division. Sótt 3. febrúar 2014.
  14. „North America“. Atlas of Canada. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. október 2006.
  15. „North America Atlas“. National Geographic.
  16. Central America. Sótt 28. júní 2011.
  17. Garcia-Castellanos, D.; Lombardo, U. (2007). „Poles of Inaccessibility: A Calculation Algorithm for the Remotest Places on Earth“ (PDF). Scottish Geographical Journal. 123 (3): 227–233. doi:10.1080/14702540801897809. S2CID 55876083. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 29. júní 2014.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.