Svalbarði
Svalbard | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Kongesangen | |
![]() | |
Höfuðborg | Longyearbyen |
Opinbert tungumál | norska |
Stjórnarfar | Noregsstjórn
|
Konungur | Haraldur 5. |
Sýslumaður | Lars Fause |
Landsvæði í Noregi | |
- Svalbarðasamningurinn | 9. febrúar 1920 |
- Svalbarðalögin | 17. júlí 1925 |
Flatarmál - Samtals |
61.022 km² |
Mannfjöldi - Samtals (2020) - Þéttleiki byggðar |
2.939 0,04/km² |
Gjaldmiðill | norsk króna (NOK) |
Tímabelti | UTC+1 (+2 á sumrin) |
Þjóðarlén | .no |
Landsnúmer | +47 |
Svalbarði (norska: Svalbard) er eyjaklasi í Norður-Íshafi, um það bil miðja vegu milli meginlands Evrópu og Norðurpólsins. Eyjarnar eru milli 74. og 81. breiddargráðu norður og 10. til 35. lengdargráðu austur. Spitsbergen er stærsta eyjan, en þar á eftir koma Norðausturlandið og Edge-eyja. Stærsta byggðin á eyjunum er Longyearbyen.[1]
Eyjarnar voru fyrst notaðar sem veiðistöð af hvalveiðimönnum sem sigldu langt norður í höf á 17. og 18. öld, en sem yfirgáfu þær síðar. Kolanám hófst þar í upphafi 20. aldar og nokkrar varanlegar byggðir voru stofnaðar. Svalbarðasamningurinn frá 1920 kveður á um yfirráð Noregs yfir eyjunum og með Svalbarðalögunum 1925 lýstu Norðmenn Svalbarða hluta af norska konungsríkinu. Svalbarði var gerður að fríverslunarsvæði og herlausu svæði. Norska fyrirtækið Store Norske Spitsbergen Kulkompani og rússneska fyrirtækið Arktikugol eru einu námafyrirtækin sem enn starfa á eyjunum, en rannsóknarstarfsemi og ferðaþjónusta hafa í seinni tíð orðið mikilvægari. Háskólamiðstöðin á Svalbarða (UNIS) og Fræbankinn á Svalbarða leika lykilhlutverk í efnahagslífi eyjanna. Fyrir utan Longyearbyen eru helstu byggðir á eyjunum rússneski námabærinn Barentsburg, rannsóknarstöðin Ny-Ålesund og námabærinn Sveagruva. Aðrar byggðir eru norðar en eina fólkið sem þar býr eru hópar vísindamanna sem dvelja þar tímabundið. Engir vegir liggja milli byggðanna. Snjósleðar, flugvélar og bátar eru helstu samgöngutækin. Svalbarðaflugvöllur í Longyearbyen er aðalsamgöngumiðstöð eyjanna.
Um 60% af eyjunum eru þakin jöklum og þar eru mörg fjöll og firðir. Þar ríkir íshafsloftslag þótt hitastig sé mun hærra en annars staðar á sömu breiddargráðum. Flóra Svalbarða nýtir sér miðnætursólina til að bæta upp fyrir skammdegið á veturnar. Margar tegundir sjófugla verpa á Svalbarða og þar er að finna tófu, hreindýr og ísbirni, auk sjávarspendýra. Á Svalbarða eru sjö þjóðgarðar og 23 friðlönd sem ná yfir 2/3 hluta af landi eyjanna.
Noregur fer með yfirráð á Svalbarða samkvæmt Svalbarðasamningnum frá 1920, en eyjarnar eru ekki stjórnsýslulegur hluti Noregs og falla ekki undir neitt norskt fylki. Þess í stað fer ríkisstjórn Noregs með stjórn eyjanna beint í gegnum skipaðan sýslumann. Svalbarði er utan við Schengen-svæðið, Evrópska efnahagssvæðið og Norræna vegabréfasambandið. Svalbarði og Jan Mayen eiga saman ISO 3166-1-landakóðann SJ þótt stjórn þeirra sé alveg aðskilin. Í Svalbarðasamningnum er kveðið á um að allir aðilar (nú yfir 40 talsins) skuli hafa rétt til að nýta auðlindir Svalbarða og að allar eyjarnar skuli vera herlaust svæði. Nú á dögum eru það eingöngu Rússar sem nýta sér þetta ákvæði og stunda kolanám á Svalbarða. Einnig hafa íslensk stjórnvöld vísað í þetta ákvæði varðandi fiskveiðar sínar í grennd við Svalbarða. Svalbarði er nyrsta svæði í heimi þar sem er föst búseta.
Heiti[breyta | breyta frumkóða]
Nafnið Svalbarði kemur fyrir í fyrsta kafla Landnámabókar þar sem segir að frá Langanesi á Íslandi sé fjögurra dægra sigling norður til Svalbarða. Í Konungsannál frá 14. öld er sagt frá „Svalbarðsfundi“ árið 1194.[heimild vantar]
Nafnið Spitsbergen kemur frá hollenska landkönnuðinum Willem Barents sem sá hvassa fjallstinda (spitse bergen) á vesturströnd aðaleyjunnar. Barents vissi ekki að um eyjaklasa væri að ræða og nafnið Spitsbergen hefur því verið notað bæði um eyjaklasann og aðaleyjuna.[2]
Landfræði[breyta | breyta frumkóða]
Svalbarðasamningurinn skilgreinir Svalbarða sem allar eyjar og sker milli 74. og 81. breiddargráðu norður, og 10. til 35. lengdargráðu austur.[3][4] Landsvæðið er 61.022 km2 að stærð. Þrjár stærstu eyjar Svalbarða eru Spitsbergen (37.673 km2), Nordaustlandet (14.443 km2) og Edgeøya (5.074 km2).[5] Öll þorpin á Svalbarða eru á Spitsbergen, fyrir utan veðurstöðvar á Bjarnarey og Hopen.[6] Norska ríkið lagði allt land á Svalbarða undir sig, sem aðrir höfðu ekki gert tilkall til, eða 95,2% af eyjaklasanum þegar Svalbarðasamningurinn gekk í gildi. Norska námafyrirtækið Store Norske á 4% og rússneska námafyrirtækið Arktikugol 0,4%. Aðrir einkaaðilar eiga 0,4% landsins.
Svalbarði er norðan norðurheimskautsbaugs og þar er miðnætursól í 99 daga á sumrin og heimskautanótt í 84 daga á veturnar.[7] Í Longyearbyen er bjart frá 20. apríl til 23. ágúst, og dimmt frá 26. október til 15. febrúar.[3] Á veturnar er oft tunglbjart og snjóþekja magnar birtuna upp.[7] Á Svalbarða eru ljósaskiptin löng. Fyrsta og síðasta dag skammdegisins stendur rökkrið í sjö og hálfan tíma og samfelld birta stendur tveimur vikum lengur en miðnætursólin.[8][9] Á sumarsólstöðum fer sólin neðst í 12° yfir sjóndeildarhring á miðnætti.[10]
Um 60% af Svalbarða eru þakin jökli, 30% er berg og 10% eru klædd gróðri.[11] Stærsti jökullinn er Austfonna, 8.412 km2, á Nordaustlandet, og þar á eftir koma Olav V Land og Vestfonna. Á sumrin er hægt að fara á skíðum frá Sørkapp syðst á Spitsbergen að norðurströndinni, á næstum samfelldum ís. 99,3% af eyjunni Kvitøya eru þakin ís.[12]
Svalbarði hefur mótast af ísaldarjöklinum sem hefur skorið firði, dali og fjöll inn í þessa fyrrum hásléttu.[11] Hæsti tindurinn er Newtontoppen sem er 1.717 metra hár, og þar á eftir koma Perriertoppen (1.712 metrar), Ceresfjellet (1.675 metrar), Chadwickryggen (1.640 metrar) og Galileotoppen (1.637 metrar). Lengsti fjörðurinn er Wijdefjorden, 108 km að lengd, og þar á eftir koma Isfjorden (107 km), Van Mijenfjorden (83 km), Woodfjorden (64 km) og Wahlenbergfjorden (46 km).[13] Svalbarði er hluti af Heimskautaflæðibasaltinu[14] og þar reið yfir öflugasti jarðskjálfti Noregs 6. mars 2009, 6,5 að stærð.[15]
Helstu landspendýr eru heimskautarefur, ísbjörn og hreindýr. Sjávarspendýr eru meðal annars hvalir, höfrungar, selir og rostungar. 165 plöntutegundir hafa fundist á Svalbarða. Ísbirnir hafa orðið 6 manns að bana síðan 1971. [16]
Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]
Helstu atvinnugreinar eru kolavinnsla, ferðaþjónusta og rannsóknir. Svalbarði er ekki hluti af Schengen eða Evrópska efnahagssvæðinu.
Íbúar[breyta | breyta frumkóða]
Þrjár af eyjum Svalbarða eru byggðar: Spitsbergen, Bjørnøya og Hopen. Árið 2020 bjuggu tæplega 3000 manns á Svalbarða, meira en helmingur af norskum uppruna. Stærstu hópar á eyjunni sem ekki hafa norskt ríkisfang eru frá Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku og Taílandi.[17]
Stærsti bærinn í eyjaklasanum er Longyearbyen. Þar er sjúkrahús, grunnskóli og menntaskóli og Háskólasetur Svalbarða, íþróttamiðstöð með sundlaug, bókasafn, menningarmiðstöð og kvikmyndahús,[18] almenningsvagnar, hótel, banki[19] og nokkur söfn.[20] Vikulega kemur út dagblaðið Svalbardposten[21]. Engin námavinnsla er eftir í Longyearbyen. Starfsemi var hætt í kolanámum í Sveagruva og Luckerfjellet árið 2017 og þeim var lokað 2020.[22][23]
Ny-Ålesund er varanleg rannsóknarstöð á norðvesturströnd Spitsbergen og nyrsta varanlega byggð heims. Ny-Ålesund var áður námabær og er enn rekinn af norska ríkisfyrirtækinu Kings Bay. Þar er ferðaþjónusta takmörkuð til að draga úr áhrifum hennar á vísindastarf.[18] Íbúar í Ny-Ålesund eru 35 á veturnar og um 180 á sumrin.[24] Norska veðurstofan rekur veðurstöðvar á Bjørnøya og Hopen, með 10 og 4 starfsmenn. Báðar stöðvarnar hýsa líka rannsóknarteymi tímabundið.[18] Pólska heimskautamiðstöðin er rekin af pólska ríkinu í Hornsund með 10 starfsmenn árið um kring.[18]
Sovéski námabærinn Pyramiden var yfirgefinn árið 1998. Eftir það var Barentsburg eina varanlega rússneska byggðin á Svalbarða. Barentsburg er í eigu fyrirtækisins Arktikugol sem rekur þar kolanámu. Til viðbótar við námavinnsluna hefur fyrirtækið opnað hótel og minjagripaverslun fyrir ferðamenn sem koma þangað frá Longyearbyen.[18] Í þorpinu eru skóli, bókasafn, íþróttamiðstöð, tómstundamiðstöð, sundlaug, býli og gróðurhús. Svipuð aðstaða er í Pyramiden. Í báðum þorpunum er að finna dæmigerðan sovéskan eftirstríðsáraarkitektúr. Þar er að finna tvær nyrstu styttur af Lenín í heimi, auk annarra listaverka.[11] Árið 2013 voru nokkrir starfsmenn í Pyramiden til að halda byggingunum við og reka þar lítið hótel.
Eyjar[breyta | breyta frumkóða]
- Eyjar Svalbarðs í röð eftir stærð:
- Spitsbergen (37 673 km²)
- Nordaustlandet (14 443 km²)
- Edge-eyja (5 074 km²)
- Barentseyja (1 250 km²)
- Hvítey (682 km²)
- Prins Karls Forland (615 km²)
- Bjarnarey (178 km²)
- Danska Eyja
- Amsterdam-Eyja
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Dickie, Gloria (1 June 2021). „The World's Northernmost Town Is Changing Dramatically“. Scientific American. 324 (6): 44–53. doi:10.1038/scientificamerican0621-44 (óvirkt 31 October 2021). Afrit af upprunalegu (Original title: "The Polar Crucible") geymt þann 18 May 2021. Sótt 20 May 2021.
- ↑ In Search of Het Behouden Huys: A Survey of the Remains of the House of Willem Barentsz on Novaya Zemlya, LOUWRENS HACQUEBORD, p. 250 Geymt 27 mars 2009 í Wayback Machine.
- ↑ 3,0 3,1 „Svalbard“. Norwegian Polar Institute. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 April 2012. Sótt 24 March 2010.
- ↑ „Svalbard Treaty“. Wikisource. 9 February 1920. Afrit from the original on 24 March 2010. Sótt 24 March 2010.
- ↑ http://www.visindavefur.is/svar.php?id=48622
- ↑ „Svalbard“. World Fact Book. Central Intelligence Agency. 15 January 2010. Sótt 24 March 2010.
- ↑ 7,0 7,1 Torkilsen (1984): 96–97
- ↑ „Sunrise and sunset in Longyearbyen October 2019“. Timeanddate.com. Sótt 29 October 2019.
- ↑ „Sunrise and sunset in Longyearbyen April 2019“. Timeanddate.com. Sótt 29 October 2019.
- ↑ „Sunrise and sunset in Longyearbyen June“. Timeanddate.com. Sótt 29 October 2019.
- ↑ 11,0 11,1 11,2 Umbreit, Andreas (2005). Spitsbergen: Svalbard, Franz Josef, Jan Mayen (3rd. útgáfa). Chalfont St. Peter, Bucks: Bradt Travel Guides. ISBN 978-1-84162-092-3. Sótt 21 May 2021.
- ↑ Torkildsen (1984): 102–104
- ↑ „Geographical survey. Fjords and mountains“. Statistics Norway. 22 October 2009. Afrit from the original on 14 November 2011. Sótt 24 March 2010.
- ↑ Maher, Harmon D. Jr. (November 1999). „Research Project on the manifestation of the High Arctic Large Igneous Province (HALIP) on Svalbard“. University of Nebraska at Omaha. Afrit from the original on 28 June 2010. Sótt 24 March 2010.
- ↑ „Svalbard hit by major earthquake“. The Norway Post. Norwegian Broadcasting Corporation. 7 March 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 14 March 2012. Sótt 24 March 2010.
- ↑ Ísbjörn drap mann á Svalbarða Vísir.is, skoðað 29. ágúst 2020
- ↑ „Non-Norwegian population in Longyearbyen, by nationality. Per 1 January. 2004 and 2005. Number of persons“. Statistics Norway. Afrit from the original on 23 May 2010. Sótt 24 March 2010.
- ↑ 18,0 18,1 18,2 18,3 18,4 „10 Longyearbyen og øvrige lokalsamfunn“. St.meld. nr. 22 (2008–2009): Svalbard. Norwegian Ministry of Justice and the Police. 17 April 2009. Afrit from the original on 11 October 2012. Sótt 24 March 2010.
- ↑ „Shops/services“. Svalbard Reiseliv. Afrit af upprunalegu geymt þann 12 April 2010. Sótt 24 March 2010.
- ↑ „Attractions“. Svalbard Reiseliv. Afrit af upprunalegu geymt þann 25 January 2010. Sótt 24 March 2010.
- ↑ http://www.svalbardposten.no
- ↑ Stange, Rolf (15. febrúar 2019). „Lunckefjellet: the end of an arctic coal mine“. Spitsbergen | Svalbard (bandarísk enska). Sótt 28. janúar 2020.
- ↑ Stange, Rolf (26. febrúar 2020). „Svea Nord is history“. Spitsbergen | Svalbard (bandarísk enska). Sótt 19. október 2020.
- ↑ „Ny-Ålesund“. Kings Bay. Afrit af upprunalegu geymt þann 10 March 2009. Sótt 24 March 2010.
Tenglar[breyta | breyta frumkóða]
- „Hvort er stærra Ísland eða Svalbarði?“ á Vísindavefnum
- Svalbarði; grein í Þjóðviljanum 1974
- Dagurinn myrkur sem nótt; grein í Morgunblaðinu 2002
- Þar sem engin tré festa rætur; grein í Morgunblaðinu 1995
- Berum ekki beinin hérna; grein í DV 1995
- Ísbirnir vilja ekki fólk; grein í DV 1999
- Á veraldarhjara; grein í DV 2002
- Á hjara veraldar; grein í Morgunblaðinu 1998
- Sambýlið á Svalbarða; grein í Morgunblaðinu 1986
- Tilraunir Rússa til að sölsa undir sig Svalbarða; grein í Vísi 1976
erlendir
- TopoSvalbard – Gagnvirkt kort (norska/enska)