Grænland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Grænland
Kalaallit Nunaat (grænlenska)
Grønland (danska)
Fáni Grænlands Skjaldarmerki Grænlands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Nunarput utoqqarsuanngoravit
Staðsetning Grænlands
Höfuðborg Nuuk
Opinbert tungumál grænlenska, danska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Drottning Margrét 2.
Landstjóri Mikaela Engell
Forsætisráðherra Múte Bourup Egede
Dönsk hjálenda
 - Heimastjórn 1. maí 1979 
 - Aukið sjálfræði 21. júní 2009 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)

2.166.086 km²
83,1
Mannfjöldi
 - Samtals (2022)
 - Þéttleiki byggðar
2010. sæti
56.466
0,028/km²
VLF (KMJ) áætl. 2011
 - Samtals 1,8 millj. dala
 - Á mann 37.000 dalir
VÞL (2010) Increase2.svg 0.786 (61. sæti)
Gjaldmiðill Dönsk króna (kr) (DKK)
Tímabelti UTC+0 til -4
Þjóðarlén .gl
Landsnúmer +299

Grænland (grænlenska: Kalaallit Nunaat; danska: Grønland) er stærsta eyja jarðar sem ekki telst heimsálfa útaf fyrir sig, 2,2 milljónir km2. Grænland liggur milli Norður-Íshafsins og Atlantshafsins, austan við Kanadíska eyjaklasann. Landfræðilega tilheyrir Grænland heimsálfunni Norður-Ameríku. Höfuðborgin er Nuuk, á dönsku Godthåb. Grænland er sjálfsstjórnarsvæði innan dönsku ríkisheildarinnar. Um 81 prósent landsins er þakið jökli. Nánast allir Grænlendingar búa í byggðum við firði á suðvesturhluta eyjunnar þar sem veðurlag er talsvert mildara en annars staðar. Grænland hlaut heimastjórn frá Dönum árið 1979 og í nóvember árið 2008 var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að landið fengi aukna sjálfstjórn.[1]

Margir Grænlendingar eru af blönduðum uppruna inuíta og Evrópumanna og tala grænlensku (Kalaallisut) sem móðurmál. Um 50 þúsund manns tala grænlensku en það eru fleiri en mælendur allra annarra eskimó-aleutískra mála samanlagt. Um 20% íbúa Grænlands eru af dönskum uppruna og hafa dönsku að móðurmáli. Bæði þessi mál eru opinberar tungur. Hin formlega gerð grænlensku sem er kennd í skólum og notuð sem ritmál er aðallega mótuð úr vestur-grænlenskum mállýskum.

Grænland var ein af norsku krúnunýlendunum allt fram til 1814 þegar það varð formlega dönsk nýlenda, þó svo að Noregur og Danmörk hafi verið sameiginlegt konungdæmi um aldir, allt frá 1536. Þann 5. júní 1953 varð Grænland hluti af Danmörku sem danskt amt. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1978 fékk Grænland heimastjórn sem tók við völdum 1. maí 1979. Þjóðhöfðingi Grænlands er Margrét II. Danadrottning. Þann 25. nóvember 2008 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Grænlandi um aukna sjálfstjórn landsins þar sem 76% voru fylgjandi því[2]. Þann 21. júní 2009 lýstu Grænlendingar yfir fullum sjálfsákvörðunarrétti í málum er tengjast réttarfari, stefnumótun og náttúruauðlindum. Þá voru Grænlendingar viðurkenndir sem sérstök þjóð samkvæmt alþjóðalögum. Danska ríkið heldur enn eftir stjórn utanríkis- og varnarmála.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Landnám á Grænlandi tók þúsundir ára. Fámennir hópar komu norðan frá, einkum frá Asíu yfir hafísinn og einnig frá Alaska og norðurhluta Kanada. Á tímaskeiðinu 2400 f.Kr. fram að 2000 f.Kr. bjó þar fólk af svonefndri Independence I-menningu (nefnt eftir Independencefirði). Flestallar mannvistarleifar tengdar þessu skeiði hafa fundist lengst í norðri, á Peary-landi. Einkum virðist sauðnautaveiði hafa verið mikilvæg. Fólk af Independence II-menningunni var uppi frá 8. öld f.Kr. til 1. aldar f.Kr.

Á öldunum 1400 f.Kr. fram til 500 f.Kr. fluttu nýir hópar frá Kanada til Grænlands. Þetta menningarskeið er nefnt Saqqaq-menningin og íbúarnir tóku sér búsetu allt frá Upernavik í norðri til núverandi Nuuk í suðri. Þetta fólk bjó til steinkolur, boga og skutla. Það virðist einnig hafa haft með sér hunda. Enn má víða finna fornleifar frá þessu menningarskeiði.

Um 500 f.Kr. fluttist svonefnt Dorset-fólk (þetta skeið einnig er nefnt Tunit-menning) að nýju úr norðri inn á sama svæði og talað var um hér að ofan. Af fornminjafundum frá þessum menningarheimi má nefna stóra steina sem virðast hafa verið notaðir sem vörður til að vísa veg, fígúrur tálgaðar i stein og nálar úr rostungstönnum.

 • Um árið 900 náðu nýir hópar fólks til Norður-Grænlands og komu þeir alla leið frá Alaska. Vitað er að þetta fólk var inuítar og því forfeður núverandi Grænlendinga, en það á ekki við um eldri menningarskeið. Þeir höfðu með sér háþróaða veiðimannamenningu, smíðuðu og notuðu kajaka og svonefnda „konubáta“ (umiak). Þeir byggðu hús úr torfi og grjóti og notuðu hvalbein í sperrur. Þetta menningartímabil er kennt við Thule því þar fundust fyrstu fornleifarnar. Hluti fólksins fór suður með austurströndinni og einangraðist frá hinum íbúunum. Stærsti hlutinn settist að á vesturströndinni og flutti sig smám saman sunnar og sunnar og náðu þeir fyrstu til suðurodda Grænlands, Hvarfi (Kap Farvel), um árið 1500. Í kringum 1200 tók menningin umtalsverðum breytingum og er eftir það kölluð Inugsuk-menning. Þetta er það menningarskeið sem ríkt hefur allt fram á okkar daga.
 • Um árið 900 sá Gunnbjörn Úlfsson til lands á Grænlandi og nefndi það Gunnbjarnarsker. Þegar norrænir menn fóru að nema land á suðvesturströnd landsins í lok 10. aldar komu þeir að óbyggðu landi. Hins vegar fundu þeir húsarústir og leifar af bátum og veiðarfærum. Á sama tíma og norrænir menn fóru að nema land í suðri fluttu nýir hópar inuíta inn í norðurhlutann.
 • 982 fór Eiríkur rauði í útlegð til Grænlands og valdi að setjast að í Bröttuhlíð og nefndi hann landið Grænland.
 • 985 eða 986 sigldu 25 skip frá Íslandi með 500 - 700 manns um borð en einungis 14 af þeim náðu landi í Eystribyggð.
 • Um 1000 sneri Leifur Eiríksson, sonur Eiríks rauða, aftur frá Noregi og hafði hann þá tekið kristni. Hann boðaði norrænum mönnum á Grænlandi kristni og byggði Þjóðhildarkirkju í Bröttuhlíð (sem á grænlensku heitir nú Qassiarsuk). Þar stendur enn mjög heilleg rúst af kirkjunni.
 • Árið 1126 var biskupsstóll stofnaður í Görðum. Fyrsti biskupinn var Arnaldur.
 • Um 1150 hittust norrænir menn og inúítar í fyrsta sinn í Norðursetu.
 • Árið 1261 gengu Grænlendingar Noregskonungi á hönd.
 • Fyrir miðja 14. öld fór Vestribyggð í eyði. Er talið að tvennt hafi komið til: Kólnandi loftslag og ágangur inuíta að norðan. Upp úr þessu lögðust Norðursetuferðir af. Siglingum frá Noregi fækkaði mjög um sama leyti vegna áhrifa Svartadauða þar í landi.
 • Um 1368 fórst Grænlandsknörrinn og lögðust þá af reglulegar siglingar frá Noregi.
 • Árið 1377Álfur biskup og var Grænland biskupslaust eftir það.
 • Árið 1385 hrakti Björn Jórsalafara til Grænlands og dvaldi hann þar í tvo vetur með liði sínu.
 • Árið 1406 hrakti skip til Grænlands með fjölda stórættaðra Íslendinga um borð. Sigldu þeir á brott árið 1410 og spurðist ekki til norrænna manna á Grænlandi eftir það, svo öruggt sé.
 • Óljósar sagnir frá miðri 15. öld herma að baskneskir hvalveiðimenn hafi rænt Eystribyggð.
 • Árið 1540 kom íslenskt skip til Grænlands og fundu þá skipverjar enga norræna menn á lífi. Er allt á huldu um hvernig stóð á því að norrænir menn hurfu frá Grænlandi. Kólnandi loftslag og sjúkdómar geta verið mikilvæg ástæða, einnig eru ágiskanir um að barátta við inuíta hafi átt sinn hlut í hvarfinu.
 • Árið 1721 sendi Friðrik 4. Danakonungur prestinn Hans Egede til Grænlands til að leita norrænna manna. Þá var hvergi að finna en Hans Egede hitti hins vegar fyrir inúíta og hóf trúboð meðal þeirra. Hann byggði sér bústað og nefndi hann Godthåb (þar sem nú heitir á grænlensku Nuuk), gerði hann svo að trúboðsstöð og hóf einnig verslun á vegum danska konungsins. Upp frá þessu varð Grænland í raun dönsk nýlenda.
 • Formlega var Grænland norsk nýlenda allt fram til 1814, en það ár varð hún formlega dönsk eftir að dansk-norska ríkjasambandið leystist upp.
 • Í heimsstyrjöldinni fyrri, milli 1914 og 1918, voru Danmörk og þar með einnig Grænland hlutlaus.
 • Árið 1932 hertóku norskir hermenn hluta af Austur-Grænlandi sem nefnt er Eirik Raudes Land. Frá 12. júli 1932 til 5. apríl 1933 var það setið af norskum hermönnum og embætismönnum. Var það Vidkun Quisling, sem þá var norskur varnarmálaráðherra, sem hafði skipað fyrir um hersetuna. Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði hins vegar að þetta landsvæði tilheyrði Danmörku og voru þá norsku hermennirnir kallaðir heim.
 • Í seinni heimstyrjöldinni, milli 1940 og 1945, gegndi Grænland mikilvægu hlutverki fyrir fraktflug bandamanna milli Bandaríkjanna og Englands og einnig í eftirliti með þýskum kafbátum. Þjóðverjar gerðu tilraunir að setja upp veðurathugunarstöðvar á Norðaustur-Grænlandi en voru hraktir þaðan.
 • 1945 hófu Bandaríkin byggingu flugstöðvar á Norður-Grænlandi (Thule Air Base). Árið 1951 gerðu Bandaríkin og Danmörk samning um sameiginlegar varnir Grænlands. Öll kaldastríðsárin var Grænland mikilvægur hlekkur í varnarmálum Bandaríkjanna.
 • Nýlendutíminn leið undir lok árið 1953 þegar stjórnarskrá Danmerkur var breytt á þann hátt að Grænland var gert að hluta af danska ríkinu sem „amt“ (fylki).
 • Árið 1979 fékk Grænland heimastjórn með eigin þingi og ríkisstjórn.
 • Í þjóðaratkvæðagreiðslu 1982 var ákveðið að Grænland segði sig úr Evrópubandalaginu.
 • Árið 2008 kusu Grænlendingar um sjálfsstjórn. Valdaframsal frá dönskum stjórnvöldum var fært til grænlenskra stjórnvalda: Löggæsla, dómsvald, ýmis lög og fjármál urðu undir stjórn Grænlands. Danmörk viðheldur gjaldmiðlastjórn og utanríkismálum eins og vörnum.

Samskipti Íslands og Grænlands[breyta | breyta frumkóða]

Frá því að Vestribyggð fór í eyði voru nánast engin samskipti milli þjóðanna. En á 18. öld var eitthvað um íslenska trúboða og fólk sem starfaði á Grænlandi. Árið 1925 komu 89 Grænlendingar til Ísafjarðar en þeir stoppuðu þar í búferlaflutningum sínum milli svæða á Grænlandi. [3] Formlegum tengslum landanna var komið á árið 1985 með stofnun Vestnorræna ráðsins [4].

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Sjá líka: Listi yfir þéttbýlissvæði á Grænlandi
Skriðjökull á Grænlandi
Kort af Grænlandi.

Að flatarmáli telst Grænland vera 2.099.988 km², og af því er 1.799.992 km² (85,7%) þakið jökli. Fjarlægðin frá nyrsta odda, Kap Morris Jesup, að þeim syðsta, Hvarfi, eru 2.650 km. Strandlínan telst vera 39.330 km, og er það nánast sama vegalengd og ummál jarðar við miðbaug.

Hæsta fjall á Grænlandi er Gunnbjarnarfjall (um 3700 m) á austurströndinni, mitt á milli Ammassalik og Scoresbysunds.

Milli Blossville Kyst sunnan við Scoresbysund og Rits við Aðalvík vestast á Hornströndum eru einungis um 290 km.

Allar byggðir eru við strandlengjuna og flestar þeirra á suðvesturströndinni. Á Grænlandi eru fjögur sveitarfélög: Kujalleq, Qaasuitsup, Qeqqata og Sermersooq. Helstu þéttbýlissvæði á Vestur-Grænlandi eru Aasiaat, Ilulissat, Kangaatsiaq, Qasigiannguit, Qeqertarsuaq, Upernavik, Uummannaq, Maniitsoq, Nuuk, Paamiut, Sisimiut, Ivittuut, Nanortalik, Narsaq, Qaqortoq; á austurströndinni Ammassalik, Ittoqqortoormiit og einungis eitt á Norður-Grænlandi, Qaanaaq. Norðaustur-Grænland, hluti Norður-Grænlands og stór hluti Austur-Grænlands eru utan sveitarfélaga og er þar stærsti þjóðgarður í heimi, um það bil 972.000 km² að flatarmáli. Enginn jökull er á allra nyrsta hluta Grænlands, Peary-landi, þar er loftslagið of þurrt til þess að jökull geti myndast. Áætlað er að ef allur Grænlandsjökull bráðnaði myndi yfirborð úthafa hækka um meira en 7 metra.

Á árabilinu milli 1989 og 1993 boruðu vísindamenn ofan í Grænlandsjökul þar sem hann er hvað þykkastur og náðu þeir upp 3,2 km löngum borkjarna. Skoðun lagskiptingar og efnagreining á kjarnanum hafa kollvarpað mörgum kenningum um veðurfar og veðurþróun. Það hefur nefnilega komið í ljós að sú veðursaga sem hægt er að lesa úr kjarnanum nær um það bil 100.000 ár aftur í tímann og sýnir að loftslags- og hitabreytingar hafa verið mun meiri og gengið hraðar yfir en áður var talið.

Lífríki[breyta | breyta frumkóða]

Heimskautaloftslag einkennir lífríki Grænlands að fáeinum svæðum undanteknum, t.d. Narsarsuaq, syðst á landinu. Við suðvesturströndina er aðeins hlýrra vegna þess að þangað nær angi af Golfstraumnum. Hitastig inni á jökli er allt frá –70 °C á vetrum og upp að frostmarki á sumrin.

Túndrugróður við Scoresbysund.

Á þeim svæðum sem ekki eru þakin jökli er dæmigerður túndrugróður. Lítið er af blómjurtum en meira um grös og mosa. Ilmbjörk, ilmreynir, grænelri, einir og víðitegundir eru meðal trjáa og runna sem vaxa í inndölum, aðallega á Suður-Grænlandi. Um 500 tegundir háplantna hafa fundist á eyjunni og eru þá frátaldar þær tegundir sem sáð hefur verið eða plantað.

Átta tegundir spendýra lifa á landi þó að ísbirnir séu oftar á ís á hafi úti en á landi. Hreindýr eru algeng á Vestur-Grænlandi og sauðnaut og hreysikettir (Mustela erminea) á norðausturhluta Grænlands. Heimskautarefir, sem eru í tveimur litaafbrigðum, hvítir eða bláir, eru algengir um alla strandlengjuna. Úlfar lifa hér og þar á norður- og norðausturhluta Grænlands, allt suður að 70°. Pólhérar eru algengir víða um landið. Kragalæmingjar (Dicrostonyx torquatus) eru einu upprunalegu nagdýrin.

Fimm tegundir sela lifa í hafinu við Grænland. Þær eru hringanóri, landselur, vöðuselur, blöðruselur og kampselur. Þar að auki rostungar (Odobenus rosmarus) sem eru náskyldir selum.

Fimmtán tegundir hvala lifa við Grænland, þar á meðal langreyður, steypireyður, búrhvalur, hrefna, hnísa, náhvalur og hnúfubakur.

Um 230 tegundir fugla hafa sést á Grænlandi og eru þar af um 60 tegundir varpfugla. Nefna má hrafn, rjúpu, snæuglu, lunda, fálka, æðarfugl, haftyrðil og álku.

Veðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Veðurfarslega má skipta Grænlandi í tvö svæði: strandsvæði og Grænlandsjökul. Jökullinn þekur um 80% landsins og er loftslag undir frostmarki þar allan ársins hring en meðalhæð hans er 2100 metrar. Strandsvæðin eru undir hafrænum áhrifum og er loftslag á Norður-Grænlandi í janúar aðeins mildara en í kanadíska eyjaklasanum sem er sunnar. Þar er þó meðalhitinn í janúar -25 til -30 gráður. MIldast er loftslagið á syðsta odda Grænlands og er hitametið þar tæp 25 stig. [5]

Í Nuuk sveiflast meðalhiti mánaða milli −8 til 7 °C.

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Íbúar Grænlands voru tæp 56.000 árið 2019 og langflestir Inuítar, upprunir þaðan sem í dag er Kanada. Síðustu hópflutningarnir áttu sér stað um miðja 19. öld. Í höfuðstaðnum Nuuk á Vestur-Grænlandi búa allmargir sem eru af evrópskum ættum.

Grænland er mjög strjálbýlt, en þar býr einn maður að meðaltali á hverja 0,14 ferkílómetra af íslausu landi. 91% íbúanna búa á Vestur-Grænlandi, 1,6% á Norður-Grænlandi og 6,3% á Austur-Grænlandi. Um 20% íbúanna eru fæddir utan Grænlands. 98% íbúanna eru Lútherstrúar og tilheyra dönsku þjóðkirkjunni.

Á Grænlandi bera margir þýsk ættarnöfn svo sem Fleischer, Kleist og Kreutzmann. Þau eru komin frá þýskum trúboðum sem störfuðu þar lengi og ýmist giftust innfæddum konum eða ættleiddu innfædd börn.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Sjálfstæði frá Dönum fyrir 2021“. 26. nóvember 2008.
 2. Folkeafstemningen om Selvstyre Geymt 2012-01-20 í Wayback Machine Nanoq, vefur heimastjórnarinar
 3. Báru Grænlendinga á höndum sér Rúv, skoðað 17. janúar 2019.
 4. Hvernig grannar erum við, tengsl Íslands og Grænlands Geymt 2018-02-21 í Wayback Machine Fullveldi2018, skoðað 17. janúar 2019.
 5. [1] Rúv, skoðað 14. ágúst, 2017.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

erlendir