Fara í innihald

Alþingisbækur Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alþingisbækur Íslands eða Acta comitiorum generalium Islandiæ (latína „gjörðir Alþingis Íslendinga“) er ritröð sem Sögufélag gaf út í 17 bindum með styrk frá Alþingi. Fyrsta bindið kom út í heftum 1912–1914 og það síðasta 1991.[1]

Alþingisbækurnar eru gerðabók Alþingis við Öxará frá 1570 til 1800. Engar opinberar alþingisbækur voru haldnar fyrr en alþingisskrifari var skipaður 1593. Fyrir þann tíma létu lögmenn skrá gerðir þingsins í bækur sínar og eru elstu leifar þeirra frá því um 1570. Í alþingisbókunum eru skýrslur um þingstörf í báðum lögmannsdæmum, dómar, samþykktir þingsins, bænarskrár, konungsbréf, tilkynningar o.fl. Bækurnar voru afritaðar í mörgum eintökum og sendar sýslumönnum og fleirum sem þurftu á þeim að halda. Mikill hluti Alþingisbókanna er aðeins varðveittur í handritum. Einhverjar eyður eru í elsta hlutanum. Árni Magnússon lagði sérstaka áherslu á að ná saman Alþingisbókum, og mun hafa eignast fullkomið safn af þeim, en þær voru í þeim hluta Árnasafns sem brann 1728. Hluti Alþingisbókanna var prentaður, fyrst í Skálholti 1696 og 1697, síðar á Hólum í Hjaltadal (1704 og síðar, nokkrum sinnum féll útgáfan niður) og loks í Hrappsey 1773–1795 og í Leirárgörðum 1796–1800. Stundum eru prentuðu eintökin staðfest af alþingisskrifara.

  • Einar Laxness: Íslandssaga a–h, 2. útgáfa, Vaka-Helgafell, Rvík 1998.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. [1] Alþingisbækur Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ). 17 b. Rv. 1912–1991. – Viðamesta heimildarit sem félagið hefur gefið út.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.