Fara í innihald

Þjóðveldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Goðaveldið)
Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Þjóðveldið, þjóðveldisöld eða goðaveldið er tímabil í Íslandssögunni frá stofnun Alþingis árið 930 til undirritunar gamla sáttmála árið 1262/64 er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd.

Síðustu ár þjóðveldisins eru nefnd Sturlungaöld þegar helstu höfðingjar landsins bárust á banaspjótum um yfirráð yfir tilteknum landshlutum eða landinu öllu.

Fyrsta blaðsíðan af handriti Hrafnkels sögu Freysgoða

Flestar Íslendingasögurnar segja frá atvikum sem eiga að hafa gerst á tímabilinu frá því á síðari hluta landnámsaldar og fram til 1030 eða þar um bil. Þetta var mikill umbrotatími, landið var fullnumið og farið að þrengjast um sumstaðar en stjórnskipulag og réttarkerfi ekki fullmótað og mönnum gekk misjafnlega að beygja sig undir það. Íslendingar voru líka mikið í ferðum til útlanda, sigldu til Noregs á konungsfund eða til að versla og fóru í víkingaferðir til Bretlandseyja og tóku þar þátt í bardögum og ránsferðum. Margar Íslendingasagna gerast að hluta til erlendis.

Sögurnar eru flestar skráðar 200-300 árum eða meira eftir að atburðir sem þær segja frá gerðust og geta því ekki talist örugg heimild um þá en þær geyma arfsagnir sem gengið hafa á milli kynslóða þar til þær voru skrifaðar niður og margir þeirra atburða sem þær segja frá hafa vafalaust gerst með einhverjum hætti. Sumt er líka stutt af öðrum heimildum, svo sem fornleifarannsóknum. Sögurnar gefa líka mikilvægar upplýsingar um hugmyndir 13. aldar Íslendinga um mannlíf og landshætti á fyrstu öldum Íslandssögunnar.

Goðar og goðorð

[breyta | breyta frumkóða]

Á landnámsöld urðu til stjórnareiningar sem nefndust goðorð og áttu sér ekki eiginleg landfræðileg mörk. Um var að ræða eins konar bandalag bænda við goðana, en hverjum bónda var skylt að fylgja einhverjum goða sem þeim var frjálst að velja sjálfir. Fylgismenn goðans voru kallaðir þingmenn hans.

Goðarnir voru helstu höfðingjar landsins og höfðu í heiðni líklega haft það hlutverk að stýra blótum en urðu síðar eingöngu veraldlegir höfðingjar. Goðinn var fulltrúi bændanna á héraðsþinginu og gætti hagsmuna þeira. Goðorðin voru persónuleg eign hvers goða, þau gengu í arf og voru stundum gefin eða seld. Þeim mátti líka skipta og sumir áttu aðeins hlut úr goðorði. Goðorðin voru 36 við stofnun Alþingis en var síðar fjölgað um þrjú og voru goðar eftir það 39.

Stofnun Alþingis

[breyta | breyta frumkóða]

Landnámsmenn gerðu sér fljótt grein fyrir því að einhvers skipulags væri þörf, ekki síst til að leysa úr deilumálum sem upp komu þegar landsmönnm fjölgaði og þrengdist um svigrúm. Þeir voru líka vanir þinghaldi úr heimalöndum sínum. Því komu staðbundin þing fljótlega til sögunnar og eru Kjalarnesþing í landnámi Ingólfs og Þórsnesþing á Snæfellsnesi talin elst, enda byggðust svæðin í kringum þau mjög snemma.[1]

Brátt sáu menn þó að heppilegast væri að hafa eitt þing fyrir allt landið og árið 930 var Alþingi stofnað sem löggjafarsamkunda og æðsti dómstóll Íslendinga.[2] Er það talið elsta starfandi þing í heiminum í dag, þótt hlé hafi orðið á þinghaldi á 19. öld.

Málverk af Alþingi við Þingvelli

Alþingi var valinn staður á Þingvöllum við Öxará. Þingvellir lágu vel við samgöngum úr öllum landshlutum ein einnig kann það að hafa ráðið nokkru um staðarvalið að Þingvellir voru í landnámi Ingólfs; sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Sá sem fór með goðorð Ingólfs kallaðist allsherjargoði og hafði það hlutverk að helga þingið eða setja það og slíta því.

Skipulag þingsins

[breyta | breyta frumkóða]

Æðsta stofnun þingsins var lögrétta, sem setti ný lög, fjallaði um mál og nefndi menn í fimmtardóm, sem var eins konar yfirréttur, eftir að honum var komið á um 1005, en einnig störfuðu á þinginu fjórir fjórðungsdómar, einn fyrir hvern landsfjórðung. Í henni sátu 48 goðar (eða goðorðsmenn) á miðpalli og hafði hver þeirra tvo ráðgjafa, annar sat fyrir framan hann og hinn fyrir aftan, þannig að í raun sátu 144 menn í lögréttu.

Lögsögumaður var æðsti og eini launaði embættismaður þingsins og var hann kosinn af lögréttu þriðja hvert ár. Hann stýrði fundum í lögréttu og sagði upp lög, átti að fara með þriðjung þeirra í heyranda hljóði fyrir þingheim á ári hverju þannig að þeir sem höfðu minni og námsgáfur til áttu að geta lært lögin á þremur árum. Lögin voru ekki til skrifuð, enda var ritöld ekki hafin, en fyrir stofnun alþingis höfðu Íslendingar sent mann sem Úlfljótur hét til Noregs til að kynna sér lög þar og sagði hann manna fyrstur upp lög á Þingvöllum. Þau voru sniðin eftir Gulaþingslögum í Noregi, enda munu flestir landnámsmenn hafa komið af því svæði. Þekkt eru nöfn allra lögsögumanna frá upphafi og þar til embættið var lagt niður 1271.

Alþingi var framan af sett í 9. viku hvers sumars en eftir kristnitöku í 10. viku. Þangað komu jafnan mun fleiri en goðar og ráðgjafar þeirra og þeir sem þurftu að leggja mál í dóm, það var allsherjarsamkoma þar sem saman kom fólk úr öllum landshlutum í ýmsum erindum.

Héraðsþingin héldu þó áfram sem undirdómstig og árið 965 var ákveðið að skipta landinu í fjórðunga. Þrjú héraðsþing eða vorþing voru í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi, þar sem þau voru fjögur, að sögn Ara fróða vegna þess að Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um annað en raunar var Norðlendingafjórðungur fjölmennasti fjórðungurinn. Vorþingin voru haldin í maí ár hvert. Þegar goðar komu heim frá alþingi héldu þeir svo leiðarþing en þar voru eingöngu gefnar skýrslur um það sem gerst hafði á þinginu.

Kristnitaka

[breyta | breyta frumkóða]

Flestir landsnámsmanna voru ásatrúar en nokkrir kristnir og höfðu þeir flestir kynnst kristinni trú og látið skírast á Bretlandseyjum. Fæstir virðast þó hafa viðhaldið trú sinni lengi hér og enginn landnámsmanna reisti kirkju en ásatrúarmenn reistu víða hof og blótuðu þar. Samkvæmt heimildum var það Þorvarður Spak-Böðvarsson sem byggði fyrstu kirkjuna í Neðri-Ási í Hjaltadal um 984. Um svipað leyti sendi Haraldur blátönn saxneskan biskup, Friðrek að nafni, til Íslands til kristniboðs og var Skagfirðingurinn Þorvaldur víðförli með honum í för.

Fleiri kristniboðar komu hingað á næstu árum og varð þeim nokkuð ágengt. Þekktastur þeirra var Þangbrandur. Honum tókst að kristna austfirska höfðingjann Síðu-Hall og aðra í kjölfarið, þar á meðal Gissur hvíta og Hjalta Skeggjason. Ólafur Tryggvason Noregskonungur var mjög áhugasamur um að kristna Ísland — með góðu eða illu.

Á Alþingi sumarið 1000 (þó líklega fremur árið 999 samkvæmt rannsóknum dr. Ólafíu Einarsdóttur) voru flokkar bæði kristinna manna undir forystu þeirra Gissurar og Hjalta og heiðinna fjölmennir og stefndi í vopnaviðskipti. Þó tókst að afstýra blóðsúthellingum og ákváðu Íslendingar að taka kristni að ráðum Þorgeirs ljósvetningagoða. Þessu voru þó að sögn settar þær undantekningar að Íslendingar máttu enn þá blóta leynilega, bera út börn og eta hrossakjöt, en hafi slíkar undantekningar verið gerðar í raun hurfu þær fljótt úr sögunni.

Biskupsstólar og klaustur

[breyta | breyta frumkóða]

Næstu árin voru hér ýmsir förubiskupar en árið 1056 var Ísleifur Gissurarson vígður biskup Íslands og Skálholtsstóll stofnaður. Árið 1096 eða 1097 fékk sonur hans, Gissur Ísleifsson, sem tók við af föður sínum, komið því fram að tíund var tekin upp en það var skattur á eignir Íslendinga sem skiptist í fernt. Fjórðung fengu prestar, fjórðung fengu kirkjur til viðhalds, fjórðungur rann til biskups og síðasti fjórðungurinn fór til þurftarmanna. Þar sem kirkjur voru yfirleitt á höfuðbólunum sem höfðingjar áttu og þeir voru margir vígðir menn og voru sjálfir prestar þýddi þetta að þeir fengu í raun helminginn af tíundinni. Stuðlaði það að auðsöfnun þeirra en átti eftir að valda miklum deilum síðar (Sjá Staðamálin).

Norðurland var fjölmennasti landsfjórðungurinn og þótti Norðlendingum þeir afskiptir með biskup og vildu líka halda eftir innan fjórðungsins tekjum sem runnu til Skálholts. Árið 1106 var orðið við óskum þeirra og annar biskupsstóll stofnaður á Hólum í Hjaltadal. Fyrsti Hólabiskup var Jón Ögmundsson. Hann stofnaði þegar skóla á Hólum og efldi menntun en skóli var einnig í Skálholti, svo og í klaustrum og víðar, svo sem í Haukadal og Odda á Rangárvöllum.

Fyrsta klaustrið var stofnað á Þingeyrum í Húnaþingi 1133 og var það munkaklaustur af Benediktsreglu eins og Munkaþverárklaustur (1155) og Hítardalsklaustur (1155), en það síðastnefnda var skammlíft. Þykkvabæjarklaustur (1168), Flateyjarklaustur (1172, flutt til Helgafells 1184), Viðeyjarklaustur (1226), Möðruvallaklaustur í Hörgárdal (1296) og Skriðuklaustur (1493) voru öll Ágústínusarklaustur. Nunnuklaustrin á Kirkjubæ (1186) og Reynistað (1295) voru bæði Benediktsklaustur.

Klaustrin voru auk biskupsstólanna helstu menntasetur landsins og í sumum þeirra voru góð bókasöfn. Þar voru skrifaðar upp bækur og þegar leið á þjóðveldisöld fór þar fram umfangsmikil sagnaritun. Margar helstu gersemar íslenskra handrita eru skrifaðar í klaustrum.

Lög þjóðveldisins

[breyta | breyta frumkóða]

Með aukinni menntun hófst ritöld á Íslandi. Samkvæmt því sem Ari fróði segir rituðu Hafliði Másson og aðrir lögbókina Hafliðaskrá (sem innihélt m.a. Vígslóða) á heimili Hafliða á Breiðabólstað í Vesturhópi veturinn 1117-1118 og er það fyrsta fyrsta þekkta ritið á íslensku. Stuttu seinna var Íslendingabók Ara fróða rituð.

Lagasafn þjóðveldisaldar kallaðist seinna Grágás en þar er ekki um eiginlega lögbók að ræða. Refsingar skiptust í þrjá flokka. Þessar refsingar kölluðust útlegð (fjársektir, misháar), fjörbaugsgarður (skylda til að fara til útlanda og vera þar í þrjú ár en vera réttdræpir ella, og var það séríslensk refsing) og skóggangur. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn voru í raun útskúfaðir úr þjóðfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist. Kirkjan hafði einnig yfir refsingum að ráða og gátu biskupar meðal annars bannfært menn.[3]

Því hefur verið haldið fram að þjóðveldið hafi verið trúarríki í þeirri merkingu að goðarnir, sem voru tenging almennings við löggjafann og dómskerfið, voru trúarleiðtogar í heiðni. Síðan við kristnitöku árið 1000 hafi þeir orðið prestar, eða kirkjujarðareigendur með presta á launum hjá sér. Þannig hafi frá upphafi á Íslandi verið samband ríkis og kirkju/ríkistrúar.

Þjóðveldið hefur verið sumum Íslendingum fyrirmynd um gullaldarárin þegar þjóðin var sjálfstæð og var oft vísað til þess í sjálfsstæðisbaráttunni sem réttlæting fyrir endurreisn sjálfsstæðis og þjóðveldis íslensku þjóðarnnar. Einnig hefur það verið mörgum Anarkó-kapítalistum og frjálshyggjumönnum dæmi um það frjálsa samfélag sem kenningar þeirra geti leitt af sér þar sem þjóðveldið var (að minnsta kosti að nafninu til) laust við framkvæmdavald eða ríkisvald.

  1. Sverrir Jakobsson. „Hve lengi var haldið þing á Þórsnesi á Snæfellsnesi?“. Vísindavefurinn 17.4.2001. http://visindavefur.is/?id=1504. (Skoðað 7.5.2010).
  2. „Alþingi“ (pdf). 2008.
  3. Erlend verslun – stutt yfirlit

erlendir