Mótmælin gegn afturköllun umsóknar um aðild Íslands að Evrópusambandinu
Mótmælin gegn afturköllun umsóknar um aðild að Evrópusambandinu voru vikuleg, jafnvel dagleg, mótmæli sem hófust eftir að utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram þingsályktunartillögu á Alþingi til þess að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Mótmæli hófust á Austurvelli 24. febrúar 2014 þegar þingfundur hófst og gáfu ýmsir atvinnurekendur starfsmönnum sínum frí til þess að mæta og héldu þau áfram daglega alla þá viku. Við tóku síðan vikulegir laugardagsfundir sem halda áfram til dagsins í dag og tóku þúsundir manna þátt. Mótmælin fóru friðsamlega fram og söfnuðust einnig yfir fimmtíu þúsund undirskriftir sem skoruðu á þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Meðal þekktra mótmælenda sem áberandi voru í umræðunni og á Austurvelli voru Þorsteinn Pálsson, Dagur B. Eggertsson, Þráinn Bertelsson og Ólafur Stefánsson.
Aðdragandi
[breyta | breyta frumkóða]Aðildarviðræður 2009-2013
[breyta | breyta frumkóða]Íslensk stjórnvöld sóttu um aðild að Evrópusambandinu þann 16. júlí 2009 og afhenti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra þáverandi formanni ráðherraráðs sambandsins Carl Bildt umsóknina þann 23. júlí.[1] Þingsályktunartillaga um aðildarumsókn hafði verið lögð fram á Alþingi þann 23. maí 2009 og fól hún í sér að viðræðum loknum yrði aðildarsamningur lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu.[2] Á Alþingi greiddu 33 þingmenn atkvæði með umsókn, þar á meðal þingmenn allra þingflokka, 28 voru á móti og tveir sátu hjá. Að lokinni undirbúningsvinnu var Ísland skilgreint sem umsóknarríki þann 17. júní 2010 og hófust viðræður formlega þann 27. júlí 2010 og var Stefán Haukur Jóhannesson, þá sendiherra Íslands til Belgíu, aðalsamningamaður. Milliríkjadeilur Íslands og nokkurra aðildarríkja vegna veiða á makríl og Icesave hægðu töluvert á viðræðum. Áður en formlegt hlé var gert á viðræðum sumarið 2013 höfðu 27 af 33 samningsköflum verið opnaðir og af þeim höfðu 11 verið lokaðir.
Stjórnarskipti
[breyta | breyta frumkóða]Í Alþingiskosningum 2013 féll meirihluti Samfylkinginarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og við tók samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Báðir flokkar höfðu það á stefnuskrá sinni að gera hlé á viðræðum og lýstu því yfir að þeir teldu hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en leiðtogar beggja lýstu yfir ætlun sinni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna í aðdraganda kosninga. Þann 13. september 2013 var samninganefnd um inngöngu í Evrópusambandið síðan leyst upp.
Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra
[breyta | breyta frumkóða]Að kvöldi föstudagsins 21. febrúar 2014 lagði utanríkisráðherra fram þingsályktunartillögu um viðræðuslit við Evrópusambandið, og höfðu þá yfirgnæfandi meirihluti bæði þingflokks Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks samþykkt hana.[3] Þegar tillagan var lögð fram hafði umræðu á Alþingi um skýrslu Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands um gang viðræðna ekki verið lokið. Félag Evrópusinnaðra Sjálfstæðismanna, Sjálfstæðir Evrópumenn, mótmæli á fundi sínum samdægurs ákvörðuninni og samþykkti að stjórn félagsins myndi minna þingflokkinn á „óyggjandi loforð Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, fyrir kosningar um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna.”[4] Margir þingmenn mótmæltu harðlega greinargerð sem tillögunni fylgdi þar sem fram kom að „Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna.“ Þar með var haldið fram að þeir þingmenn sem kosið höfðu með aðildarumsókn hafi ekki kosið samkvæmt sannfæringu sinni og þar með brotið á stjórnarskrá, þó svo að engar sannanir hafi verið færðar til þess að skýra þau rök.[5] Ummælin voru síðar fjarlægð úr greinargerðinni.
Fyrsta vika mótmæla 24-28. febrúar 2014
[breyta | breyta frumkóða]Sunnudaginn 23. febrúar 2014 var boðað til mótmæla við Austurvöll gegn þingsályktunartillögu utanríkisráðherra á samskiptamiðlinum Facebook. Átti mótmælafundur að hefjast klukkan þrjú að eftirmiðdegi og þar með vera á sama tíma og þingfundur. Áætlað var að utanríkisráðherra myndi flytja þingsályktunartillögu sína og að umræða um skýrslu Hagfræðistofnunnar héldi svo áfram, en forseti Alþingis hafði sett tillöguna á dagskrá án þess að ræða við varaforsetana sex eins og hefð er fyrir. Farið var fram á að tillagan yrði tekin af dagskrá og forseti varð að lokum við því.[6] Á meðan söfnuðust hátt í fjögur þúsund manns fyrir utan Alþingishúsið og hafði lögreglan komið fyrir girðingu í kringum húsið og Kirkjustræti var lokað.[7][8] Margir höfðu með sér mótmælaskylti og barið var í girðingar klukkutímum saman sem ómuðu inn í þingsal og trufluðu þingfund. Efnt var til samstöðufundar á Ráðhústorginu á Akureyri þar sem á sjötta tug manna safnaðist saman.[9] Þann 25. febrúar mætti fólk aftur á Austurvöll til að mótmæla og voru um 3000 manns á vellinum á meðan þingfundi stóð og var þingsályktunartillagan enn á dagskrá.[10] Miðvikudaginn 26. febrúar mættu síðan 1200 manns til að mótmæla og 1500 fimmtudaginn 27. febrúar.
Vikulegir mótmælafundir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsti samstöðufundur 1. mars
[breyta | breyta frumkóða]Átta þúsund manns mættu til mótmæla og voru þetta fyrstu formlega skipulögðu mótmælin og voru þau skipulögð af samtökunum Við viljum kjósa #vor14. Umferðarteppa skapaðist á Sæbrautinni vegna mikillar aðsóknar.[11]
- Dagskrá
- Böddi Reynis
- Sif Traustadóttir
- Illugi Jökulsson, rithöfundur
- Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri IcePharma
- Sigurður Pálsson, skáld
- Gimmi
- Samúel Jón Samúelsson og hljómsveit
Annar samstöðufundur 8. mars
[breyta | breyta frumkóða]Mæting var fjögur þúsund manns.
- Dagskrá
- Svavar Knútur
- Sif Traustadóttir
- Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur
- Margrét Kristmannsdóttir, formaður samtaka verslunar og þjónustu
- Ólafur Stefánsson, handboltamaður
- Kristján Kristjánsson, tónlistarmaður
Þriðji samstöðufundur 15. mars
[breyta | breyta frumkóða]Á þriðja þúsund mættu til mótmæla þriðja laugardaginn í röð.
- Dagskrá
- Lay Low
- Sif Traustadóttir
- Finnur Beck, héraðsdómslögmaður
- Eva María Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona
- Kristján Kristjánsson, tónlistarmaður
Viðbrögð ríkisstjórnar
[breyta | breyta frumkóða]Vigdís Hauksdóttir
[breyta | breyta frumkóða]Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og formaður Heimssýnar, hafði verið umsvifamikil í Evrópusambandsumræðunni í aðdraganda mótmælanna og vöktu sum ummæli hennar hneykslun margra og gagnrýni. Þann 26. febrúar 2014 birti Kvennablaðið á vef sínum grein sem vitnaði í mörg af umdeildustu ummælum Vigdísar, þar á meðal þau sem Vigdís hafði látið falla í aðdraganda mótmælanna. Í sjónvarpsþættinum Mín skoðun hafði Vigdís fullyrt að hungursneyð væri í Evrópu og að Malta, aðildarríki að Evrópusambandinu, væri „sjálfstjórnarríki innan stærra lands.”[12] Bæði ummælin vöktu umdeilu og voru þau fyrir fordæmd af talsmanni UNICEF á Íslandi og voru þau síðari birt í maltneskum fjölmiðlum.[13][14] Vigdís brást við umfjöllun Kvennablaðsins með því að opinberlega hvetja fyrirtækið EGF, húðvöruframleiðanda sem þáði ríkisstyrki, til þess að birta ekki auglýsingar í blaðinu.[15]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Umsókn Íslands[óvirkur tengill]
- ↑ Álit Alþingis[óvirkur tengill]
- ↑ RÚV, Meirihluti styður að viðræðum verði slitið, 21. febrúar 2014
- ↑ RÚV, Slíti ekki viðræðum nema með þjóðaratkvæði, 21. febrúar 2014
- ↑ Morgunblaðið, Vill skýringu á fullyrðingu, 20. apríl 2014
- ↑ Viðskiptablaðið, Þúsundir mótmæla við Alþingi Geymt 5 apríl 2014 í Wayback Machine, 24. febrúar 2014
- ↑ RÚV, Setja girðingar við Alþingi, 24. febrúar 2014
- ↑ RÚV, Mótmælt á Austurvelli og átok í þingsal, 24. febrúar 2014
- ↑ Akureyri.net, Mótmæli á Ráðhústorgi og við Austurvöll í dag Geymt 11 mars 2014 í Wayback Machine, 23. apríl 2014
- ↑ RÚV, 3000 mótmæla á Austurvelli, 25. febrúar 2014
- ↑ Vísir, 8000 manns mótmæltu á Austurvelli í dag, 1. mars 2014
- ↑ Eyjan, Heimssýn stýrir þessari ríkisstjórn Geymt 2 maí 2014 í Wayback Machine, 23. febrúar 2014
- ↑ Eyjan, Talsmaður Unicef hrekur fullyrðingu Vigdísar um hungursneyð Geymt 2 maí 2014 í Wayback Machine, 23. febrúar 2014
- ↑ Viðskiptablaðið, Möltubúar fjalla um ummæli Vigdísar Geymt 7 maí 2014 í Wayback Machine, 24. febrúar 2014
- ↑ Vísir, Vigdís hvetur EGF til að sniðganga kvennablaðið, 27. febrúar 2014