Fara í innihald

Norður-Makedónía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Norður-Makedónía
Fáni Lýðveldisins Norður-Makedóníu Skjaldarmerki Lýðveldisins Norður-Makedóníu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Денес Над Македонија
Staðsetning Lýðveldisins Norður-Makedóníu
Höfuðborg Skopje
Opinbert tungumál Makedónska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Gordana Siljanovska-Davkova
Forsætisráðherra Hristijan Mickoski
Sjálfstæði frá Júgóslavíu
 • Yfirlýst 8. september 1991 
 • Viðurkennt 8. apríl 1993 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
148. sæti
25.713 km²
1,9
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
140. sæti
1.837.000
80,1/km²
VLF (KMJ) áætl. 2012
 • Samtals 22,147 millj. dala (124. sæti)
 • Á mann 10.718 dalir (85. sæti)
Gjaldmiðill Denar (MKD)
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .mk
Landsnúmer +389
Kort.

Norður-Makedónía (opinbert heiti Lýðveldið Norður-Makedónía) er land á Balkanskaga í suðaustanverðri Evrópu sem varð til við upplausn Júgóslavíu 1991. Nafngift landsins hefur verið mjög umdeild vegna þess að Makedónía er líka nafn á stærra landsvæði sem nær til lýðveldisins ásamt hluta Grikklands og Búlgaríu. Landið varð aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1993 undir heitinu „Fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedónía“. Makedónía er einnig nafn á héraði í Grikklandi nútímans.

Norður-Makedónía er landlukt land sem liggur að Grikklandi í suðri, Búlgaríu í austri, Kosóvó í norðvestri, Serbíu í norðri og Albaníu í vestri. Höfuðborg landsins er Skopje með um hálfa milljón íbúa. Aðrar helstu borgir eru Bitola, Kumanovo, Prilep, Tetovo, Ohrid, Veles, Štip, Kočani, Gostivar, Kavadarci og Strumica. Þar eru yfir 50 stöðuvötn og sextán fjöll sem ná yfir 2000 metra hæð. Lýðveldið Norður-Makedónía er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu, og Atlantshafsbandalaginu, og hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Nafn landsins er dregið af gríska heitinu Makedonia eftir Makedónum sem í fornöld stofnuðu Konungsríkið Makedóníu. Landið nær yfir um þriðjung þess svæðis sem var nefnt Makedónía til forna. Það eru einkum Grikkir sem mótmæla því að Makedónía kom fyrir í nafni ríkisins þar eð þeir telja heitið vera grískt. Einnig óttuðust þeir fyrst að hið nýja ríki kynni að gera tilkall til svæða sem nú eru innan landamæra Grikklands.

Vegna deilna um nafn Lýðveldisins Makedóníu komu Grikkir í lengi í veg fyrir að landið fengi að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Árin 2018 og 2019 sömdu ríkisstjórnir Grikklands og Makedóníu því um að nafni lýðveldisins skyldi breytt í „Lýðveldið Norður-Makedónía“ og að Grikkland myndi í staðinn leggja blessun sína við umsóknir nágrannaríkisins til þessara stofnana.[1][2]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Norður-Makedónía skiptist í 80 sveitarfélög. Tíu þeirra mynda höfuðborgarsvæði Norður-Makedóníu sem er sérstök stjórnsýslueining og höfuðborg landsins. Fyrir upplausn Júgóslavíu skiptist landið í 34 sveitarfélög en árið 1996 voru mynduð 123 sveitarfélög. Sum þeirra hafa síðan sameinast.

Landinu er líka skipt í átta tölfræðihéruð sem ekki eru stjórnsýslueiningar. Þau eru Austurhérað, Norðausturhérað, Pelagónía, Pólog, Skopje, Suðausturhérað, Suðvesturhérað og Vardar.

Loftslag í Norður-Makedóníu er á mörkum Miðjarðarhafsloftslags og meginlandsloftslags. Sumrin eru heit og þurr en veturnir rakir og svalir. Þrjú helstu loftslagssvæði landsins eru temprað Miðjarðarhafsloftslag í árdölum Vardar og Strumica, fjallaloftslag sem einkennist af snjóþungum vetrum og stuttum svölum sumrum, og milt meginlandsloftslag sem einkennir stærstan hluta landsins. Heitustu staðir í landinu eru bæirnir Demir Kapija og Gevgelija í suðaustri þar sem hiti fer oft yfir 40°C á sumrin.

Opinbert tungumál landsins er makedónska, sem er suðurslavneskt mál. Það er nauðalíkt búlgörsku og mælendur annars málsins skilja mælendur hins auðveldlega. Búlgaría lítur svo á að makedónska sé í raun búlgörsk mállýska en ekki sérstakt tungumál. Makedónska er sömuleiðis lík serbnesku. Makedónska var stöðluð sem opinbert tungumál Alþýðulýðveldisins Makedóníu eftir Síðari heimsstyrjöld. Það er eina þjóðtunga landsins en í sveitarfélögum þar sem yfir 20% íbúa tala annað tungumál fær það mál jafnframt opinbera stöðu.

Um 2/3 hlutar íbúa tala makedónsku sem móðurmál en um fjórðungur talar albönsku. Albönskumælandi íbúar eru í meirihluta í mörgum sveitarfélögum í norðvesturhluta landsins. Önnur minnihlutamál sem töluð eru í landinu eru tyrkneska, rómamál, serbneska og bosníska. Makedónskt táknmál nýtur opinberrar viðurkenningar sem móðurmál heyrnarlausra.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Norður-Makedónía komin á kortið“. RÚV. 12. janúar 2019. Sótt 13. febrúar 2019.
  2. „Grikkir fullgiltu Nató-aðild Norður-Makedóníu“. RÚV. 9. febrúar 2019. Sótt 13. febrúar 2019.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.