Fara í innihald

Kaþólska kirkjan á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kaþólska kirkjan á Íslandi er kristin kirkja á Íslandi og hluti af rómversk-kaþólsku alheimskirkjunni undir nafninu Reykjavíkurbiskupsdæmi. Kirkjan er annað fjölmennasta trúfélagið á Íslandi og voru skráðir um 15.360 safnaðarfélagar 1. mars árið 2024 eða um 4% landsmanna.

Kaþólska kirkjan stofnaði sérstakt postullegt umdæmi (Praefectura á latínu) á Íslandi 12. júní 1923. Umdæmið var gert að postullegu víkaríati 6. júní 1929 og loks breytt í biskupsdæmi (Episcopatus á latínu) 18. október 1968. Núverandi biskup er David Tencer.

Kaþólsk guðþjónustuhús á Íslandi:

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi eru tíu guðsþjónustuhús, þau eru eftirfarandi:

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Fjöldi kaþólskra á Íslandi frá 1860 til 2008

Saga kaþólsku kirkjunnar á Íslandi nær lengra aftur en saga íslensku þjóðarinnar, því að öllum líkindum bjuggu kaþólskir, írskir einsetumenn á Íslandi áður en norrænir menn fóru að nema land í lok 9. aldar. En þessir einsetumenn hurfu fljótlega sporlaust. Norskir og þýskir kristniboðar komu til Íslands og hófu trúboð á meðal norræna manna á 10. öld. M.a. vegna þrýstings frá Noregskonungi samþykkti Alþingi þann 24. júní árið 1000 (eða 999) að lögtaka kristni sem almenna trú á öllu Íslandi.

Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gizurarson, var vígður í Brimum í Þýskalandi árið 1056. Hann settist að í Skálholti og gerði það að biskupsstól. Fimmtíu árum síðar, árið 1106, var biskupsdæmi einnig stofnað á Hólum í Hjaltadal. Fyrstu árin tilheyrði Skálholtsbiskupsdæmi kirkjuumdæminu í Brimum í Þýskalandi en frá 1104 til 1152 tilheyrði Ísland kirkjuumdæminu í Lundi í Danmörku (sem nú er í Svíþjóð). Árið 1152 urðu Skálholt og Hólar hluti af nýju kirkjuumdæmi í Niðarósi (Þrándheimi) í Noregi. Nokkur klaustur voru stofnuð á Íslandi, bæði af Benedikts- og Ágústínusarreglu.

Þorlákur helgi Þórhallsson var mest metni biskup kaþólskra á Íslandi á miðöldum. Hann var biskup í Skálholti 1178-1193. Hann var tekinn í dýrlingatölu á Íslandi og áheit á hann leyfð árið 1198. Bein hans voru tekin upp 20. júní það sama ár. Hann á tvo messudaga á ári; Þorláksmessu á vetri, 23. desember og Þorláksmessu á sumri 20. júní. Jóhannes Páll II páfi útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands 14. janúar 1985.

Siðaskiptin á 16. öld ollu algjörri umbyltingu á Íslandi, ekki síst í trúmálum. Kristján III (1537-1559), konungur Dana, notfærði siðaskiptin til þess að leggja eignarhald á jarðir og aðrar eignir kirkjunnar. Jón Arason, biskup á Hólum, var aðalandstæðingur konungsvaldsins við siðaskiptin og lýsti hina nýju kirkjuskipun ólöglega. Jón var handtekinn og drepinn án dóms og laga ásamt tveimur sonum sínum í Skálholti 7. nóvember 1550. Eftir það voru klaustrin eyðilögð og munkarnir drepnir eða sendir í útlegð. Einungis þeir prestar sem gerðust lútherstrúar fengu að halda embættum sínum. Kaþólsk trú var algjörlega bönnuð og refsingin var líflát eða útlegð.

Enginn kaþólskur maður bjó á Íslandi fram til 1857. Það ár fengu tveir franskir prestar, Bernard Bernard og Jean-Baptiste Baudoin, undanþágu til að þjóna frönskum sjómönnum sem voru að veiðum við Ísland. Faðir Bernard keypti jörðina Landakot nálægt miðbæ Reykjavíkur árið 1859. Með íslensku stjórnarskránni 1874 komst trúfrelsi á hér á landi og með því hófst endurreisn kaþólskrar kirkju á Íslandi.

Árið 1896 komu Jósefssystur til Íslands frá Danmörku. Þær stofnuðu barnaskóla og lítinn spítala í Reykjavík 1902. Við fullveldi Íslands 1918 stofnaði Páfastóll sjálfstæða trúboðskirkju á landinu. Árið 1929 var trúboðskirkjan gerð að postullegu umdæmi og var séra Marteinn Meulenberg vígður biskup. Á öðrum og þriðja áratug 20. aldar hafði kaþólskum fjölgað mjög. Margir rithöfundar og listamenn urðu kaþólskir, t.d. Halldór Laxness.

Jóhannes Páll II páfi heimsótti Ísland dagana 3. og 4. júní 1989 og var það kaþólsku kirkjunni á Íslandi afar mikilvægt.

Pólskir og filipeyskir innflytjendur eru margir kaþólskir.

David Tencer, núverandi biskup, var vígður í embætti 31. október 2015. Hann var áður munkur á Kollaleiru í Reyðarfirði og þjónaði í Þorlákssókn sem nær frá Bakkafirði í norðri að Jökulsárlóni í suðri. David tilheyrir reglu Kapúsínamunka og fluttist til Íslands árið 2004.

Kaþólskir biskupar á Íslandi eftir endurreisn

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Kaþólska kirkjan á Íslandi
  • „Hvað aðgreinir kaþólska trú frá lúterskri?“. Vísindavefurinn.