Jónsbók
Jónsbók er lögbók sem tók við sem meginundirstaða íslensks réttar af Járnsíðu árið 1281 í kjölfar þeirra breytinga sem urðu við það að Íslendingar gengu á hönd Noregskonungi með Gamla sáttmála 1262-64.
Um þetta leyti hefst nýtt tímabil í dómstólasögu landsins. Upphaf þess er að rekja til þingfararbálks Járnsíðu frá 1271 og síðar Jónsbókar frá 1281. Segja má að þetta tímabil haldist allt til ársins 1800 er Landsyfirrétturinn var stofnaður. Því má skipta í tvennt.
Á fyrri hluta þess voru dómstigin innanlands tvö: héraðsdómur og lögrétta. Lögrétta var aðallega áfrýjunardómstóll, en dæmdi þó einnig í málum á fyrsta dómstigi. Á þessu tímabili voru lögréttumenn alls 84, en lögmenn kvöddu 36 af þeim til setu í lögréttu hverju sinni og nefndu síðan 6, 12 eða 24 til að dæma hvert mál. Málum mátti einnig skjóta til úrskurðar Noregskonungs, "með skynsamra manna ráði." Stóð þetta fyrirkomulag á skipan æðri dómstiga á landinu í um 300 ár. Á þessu tímabili tóku sýslumenn að dæma í málum á lægsta dómstigi, ásamt meðdómendum eða nefndarmönnum.
Við lögfestingu bókarinnar varð talsverð breyting á réttarskipan þjóðarinnar og var hún undirstaða íslensk réttar næstu fjórar aldirnar, eða allt þar til einveldi komst á árið 1662. Talið hefur verið að engin bók hafi haft jafnríkan þátt í að móta réttarvitund þjóðarinar og varðveita íslenska tungu og Jónsbók. Þannig má því segja að hún hafi orðið ein áhrifamesta bók í réttar- og menningarsögu Íslendinga.
Móttökur
[breyta | breyta frumkóða]Járnsíða hafði mætt mikilli andstöðu en í stað þess að endurskoða hana var samin ný lögbók 1280 og send til Íslands. Hún var kennd við lögmanninn Jón Einarsson gelgju sem talinn er hafa verið aðalhöfundur hennar og hafði kynnt hana fyrir Íslendingum veturinn 1281, en Jónsbók var gagnrýnd í ýmsu, ekki síður en Járnsíða.[1]
Á Alþingi árið 1281 skipaði þingheimur sér í flokka eftir lögstéttum og gerðu menn grein fyrir athugasemdum sínum. Þrjár stéttir þjóðfélagsins; klerkar, handgengnir menn og bændur höfðu skráð athugasemdir sínar hver í sínu lagi en í sögu Árna biskups Þorlákssonar greinir frá athugasemdum tveggja, klerka og bænda.
- Klerkdómurinn taldi gengið á dómsvald kirkjunnar og fjárhagslegt sjálfstæði.
- Bændur töldu gengið á eignir sínar og samningsfrelsi með ýmsum félagslegum kvöðum.
Umboðsmaður konungs, Loðinn leppur, brást hart við og skírskotaði til heimildar konungs til að setja lög en hér gætti vaxandi áhrifa konungsvaldsins, sem meðal annars hafði að bakhjarli hugmyndir um að réttur konungs væri sóttur til Rómarréttar. Þingheimur gaf sig þó hvergi og oddvitar hans skírskotuðu til hefðbundinna hugmynda um stöðu konungs sem gætti hinna fornu laga og bætti þau með ráði og fulltingi bestu manna.
Málamiðlun náðist og konungur kom til móts við Íslendinga með ítarlegum réttarbótum sem sendar voru árin 1294, 1305 og 1314.
Þær líkamlegu refsingar er heimilaðar voru eftir Jónsbók voru dauðarefsing, hýðing, brennimark, limalát og einnig er þar gert ráð fyrir vissum minniháttar endurgjaldsrefsingum (sektum).
Árið 1563 kom út tilskipun hingað til lands um stofnun yfirréttar á Alþingi. Samkvæmt henni átti höfuðsmaður að skipa 24 manna dóm, sem fór lögum samkvæmt með æðsta dómsvald innanlands.
„Í upphafi tilskipunarinnar segir, að almúginn og íbúar Íslands hafi þegnlega látið tjá konungi að lögmennirnir dæmdu allmarga dóma er ekki væru réttlátir. Í annan stað er ástæðan til tilskipunarinnar sögð sú að gera fátækum mönnum, sem ekki megna að skjóta málum sínum undir konung, mögulegt að ná rétti sínum.”
Margt bendir til þess að hvatinn að stofnun yfirréttarins hafi einnig verið sá að draga úr áhrifum lögmanna við dómsýslu í landinu. Gætti þegar talsverðrar andstöðu við þessa skipan mála og þverskölluðust lögmenn og höfuðsmaður við að hlýða þessu boði. Varð það til þess að það var endurnýjað árið 1593.
Um það vitnar Varnarrit Guðbrandar biskups, þar sem segir:„En svo bar til að við síra Arngrímur áttum klögumál við Jón Ólafsson um Hól og Bessastaði, þá dæmdu þeir lögmenn það bréf nýtt og myndugt, sem við Arngrímur vissum fyrir lifandi Guði, að var eitt falsbréf. Það klagaði ég fyrir höfuðsmanni og bað hann að nefna út XXIIII menn upp á þann lögmannadóm; hann fór undan með vefjum og flýtum, sagðist vilja sjá það kóngsbréf, sem hann vel vissi af og hans bróðir hafði haft inn í landið. Ég hafði copium þar af og sætti því ekki, og fyrr svoddan órétt neyddist ég þá til að klaga mig fyrir kóngl. maj. og þegar hans náð vissi öll lélegheit og að þeir höfðu kastað því bréfi undir bekk, endurnýjaði kóngl. maj það aftur, og bað þá ekki leyfis. Þannig kom þetta bréf aftur inn í landið vegna óréttinda, sem höfuðsmaður gjörði mér og sé þetta bréf á móti lögum og syndsamlegt, þá hefir sá meiri og stærri synd, sem það fyrst útvegaði.”
Saga yfirréttarins öll ber merki upphafsins. Hann varð aldrei sú stofnun sem að var stefnt. Heimilt var að skjóta málum til konungs og hélst sú skipan eftir að Danakonungur kom í stað Noregskonungs. Árið 1732 kom svo til dómsvald Hæstaréttar Danmerkur. Voru dómstigin þá orðin fjögur alls. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hversu langan tíma það gat tekið að leiða mál endanlega til lykta. Máttu menn bíða árum saman eftir því í mörgun tilvikum. Við bættist að réttarfarsreglur vantaði nánast alveg, auk þess sem engin ákvæði var að finna um áfrýjunarfresti. Varð það síst til þess að flýta málarekstri. Stærsti ókosturinn við yfirrétt var sá að ekki var tryggt að í dómi sætu menn með nægilega lagaþekkingu. Víða í heimildum sést að oft hefur gengið illa að manna dóminn hæfum mönnum.
Við skulum svipast um á Alþingi á þessu tímabili með Halldóri Laxness. Hann segir í upphafi Íslandsklukkunnar:
„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin var til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk yfir gafli lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka upp í kverkinni. Henni var hringt til dóma og á undan aftökum. ...Að viðstöddum landfógeta, lögmanni og böðli, og manni sem átti að höggva og konu sem átti að drekkja, mátti oft á kyrrum degi um jónsmessubil, í andvara af Súlum og kjarrlykt úr Bláskógum, heyra óm klukkunnar blandinn niði Öxarár.”
Á Alþingi árið 1705 var klukkunni hringt til dóma sem löngum fyrr. Saman kom lögrétta og þar var tekið fyrir mál Jóns Þórarinssonar þjófs frá Vífilsdal. Í Alþingisbókinni segir að hann hefði:
„... meðkennt að hafa launtekið frá Vatni í Haukadal, út úr læstu húsi, átta stikur sortað vaðmál, tvær klæðishettur, aðra svarta forna, en aðra gráa, item eitt brekán hringofið og eina sauðsvarta stutthempu og karlmannsbuxur með sama lit og eina karlmannssokka og tvo trefla, annan bláan en hinn mislitan.”
Lögþingismennirnir voru ekki í neinum vafa um að Jón væri sannprófaður að fullkomnum merkurstuldi. Þar sem þessi stuldur var sá fyrsti sem hann hafði orðið uppvís af skyldi hann þó ekki straffast á lífinu í þetta sinn,
„... heldur vera útlægur af landinu og hafa misst sinn frið og ábyrgist sjálfur hversu honum lukkast af landinu burt að rýma, og sé honum frestur unntur til þess, allt fram til næstkomandi 15. nóvembris, hálfum mánuði eftir allraheilagamessu. En verði þessi Jón Þórarinsson hér í landinu fundinn eftir áðurnefndan 15. nóvembris þá skal hann grípast hvar sem hann verður staddur og færast þeim næstasýslumanni.”
Í niðurlagi dómsins er lýst auðkennum Jóns Þórarinssonar þeim til upplýsingar sem á hann kynnu að rekast á landinu eftir nefndan dag. Þau eru:
„... meðalmaður vexti, dökkjarpur á hár, kringluleitur, brúnadökkur, rauðleitur í andliti, blóðdökkur, smáeygður, munnstór, með lítið sprottinn dökkan kamp, frammynntur, með uppbretta efri vörina, þykkvari þeirri neðri, hökusmár, nefdigur og það sívalt, ógeðslegur í útliti, hraustlegur, þykkvaxinn, álútur í framgöngu, herðamikill, kálfaþykkur, ei ófallega á fót komið.”
Ef marka má orð Magnúsar Stephensen hafði dregið verulega úr virðingarbragnum yfir yfirréttinum á síðari hluta 18. aldar og hafði hann þó aldrei risið hátt. Sem fyrr reyndist erfitt að skipa dóminn hæfum mönnum.
Um það segir Magnús, sem þá var orðinn lögmaður:
"Meðdómendur hefir orðið að tína saman úr ferðamannaslangri, sem statt var á lögþinginu ..., og dómurinn hefir ekki orðið fullskipaður stundum, nema fengnir væru til lögréttumenn og bændur. Þessir meðdómendur, sem kallað var að sætu í dóminum, þekktu ekkert til málanna, sem dæma átti. ... Þegar talið er, að menn sitji og greiði dómsatkvæði, þá er í rauninni geispað og gapað af leiðindum. ... Málflutingur er að mestu fólginn í hnýfilyrðum, sem fávísir málflytjendur hreyta hver í annan."
Ekki var húsnæði réttarins til að auka á virðingu hans. Á Þingvöllum hafði lengi staðið lítið timburhús, lögréttuhúsið, þar sem dómþing voru haldin. Árið 1787 er ástand hússins til umræðu hjá yfirvöldum. Í bréfi til yfirvalda í Danmörku er talið óhjákvæmilegt að láta fara fram viðgerð á lögréttuhúsinu.
„En lögréttuhúsið var svo farið, að eigi virtust tök á að þar yrði réttur haldinn næsta sumar án aðgerðar, nema áður væri trygging fyrir óvenjulegri veðurblíðu um þingtímann, líkt og sumarið 1786, en þá mátti einu gilda hvort rétturinn var haldinn inni eða undir berum himni. Sögðu menn að betra væri að halda réttinn í tjaldi eða undir berum himni en í lögréttuhúsinu sökum dragsúgs þar.”
Gildi Jónsbókar í dag
[breyta | breyta frumkóða]Nokkur ákvæði Jónsbókar gilda enn í dag og eru þau elstu lög sem í gildi eru á Íslandi, að undanskildum Kristnirétti Árna biskups Þorlákssonar frá 1275.[2] Þau ákvæði sem enn gilda eru jafn víðtæk og þau eru mörg en þau fjalla um allt frá dýravernd til viðurlaga við líkamsárásum.
Í Jónsbók er kafli sem nefndur er þjófabálkur og fjallar um auðgunarbrot og þær refsingar sem liggja við þeim. Talað er um þjófabálkinn enn þann dag í dag þegar menn segja: eitthvað taki út yfir allan þjófabálk. Það merkir að eitthvað er óheyrilegt eða hefur keyrt um þverbak.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Sigurður Líndal. Réttarsöguþættir. ISBN 978-9979-66-209-9., bls 122
- ↑ „Lagasafn Alþingis“ (html).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- The Laws of Later Iceland: Jónsbók. The Icelandic Text According to MS AM 351 fol. Skálholtsbók eldri, gefin út og þýdd á ensku eftir Jana K. Schulman, Bibliotheca Germanica, Series Nova, 4, þriðja útgáfa (Saarbrücken: AQ-Verlag, 2022)
- Hans Fix: Wortschatz der Jónsbók. Lang, Frankfurt am Main/Bern/New York 1984, ISBN 3-8204-5204-4.