Sléttbakur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Sléttbakur
Sléttbakskýr með kálf
Sléttbakskýr með kálf
Stærð sléttbaks miðað við meðalmann
Stærð sléttbaks miðað við meðalmann
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Skíðishvalir (Mysticeti)
Ætt: Sléttbakar (Balaenidae)
Ættkvísl: Eubalaena
Tegund:
E. glacialis

(Müller, 1776)
Tvínefni
Eubalaena glacialis
Útbreiðslusvæði sléttbaks (blár litur)
Útbreiðslusvæði sléttbaks (blár litur)

Sléttbakur (fræðiheiti: Eubalaena glacialis einnig Balaena glacialis), einnig nefndur Íslandssléttbakur og hafurketti, er stór skíðishvalur og er ein af þremur tegundum í ættkvíslinni Eubalaena, en þar af er ein á suðurhveli og tvær á norðurhveliNorður-Atlantshafi og Kyrrahafi). Auk þeirra er einungis norðhvalur í ætt sléttbaka (Balaenidae).

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Sléttbakur hefur sérkennilegan kröftugan blástur í allt að 5 metra hæð og greinist í tvennt til hiðanna.

Sléttbakur er mjög gildvaxinn, ummál getur verið allt að 60% af heildarlengd. Hausinn er mjög stór, um 25-30% af heildarlengd. Kjafturinn er sérkennilegur en svipaður norðhval, munnvikin rísa í stórum boga frá trjónunni yfir neðra kjálkabein og taka síðan krappa beygju niður fyrir augun (augun eru aðeins fyrir neðan miðju á hliðunum). Bægslin eru stór og breið og fremur oddhvöss. Eins og nafnið bendir til hefur tegundin ekkert horn á bakinu. Sporðurinn er mjög breiður, næstum 40% af lengd hvalsins. Sléttbakur er mjög hægsyndur.

Sléttbakurinn er að mestu svartur á lit en hefur stundum óreglulega hvíta bletti á kviðnum. Þar að auki hafa sléttbakar næstum alltaf hvíta eða gulleita hrúðurbletti á yfirborði haussins.

Sléttbakar hafa stærstu eistu í dýraríkinu og vega þau samtals um eða yfir eitt tonn.[3]

Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir, allt að 17 metra á lengd og upp undir 90 tonn á þyngd.

Útbreiðsla og hegðun[breyta | breyta frumkóða]

Á öldum áður var útbreiðslusvæði sléttbaks frá Flórída að norðvesturströnd Afríku í suðri og frá Nýfundnalandi, Grænlandi og ÍslandiNorður-Noregi í norðri. Nú er hvalinn aðallega að finna við austurströnd Norður-Ameríku. Að sumarlagi heldur hann sig á norðlægum slóðum við fæðuöflun en að vetrarlagi á suðurhluta útbreiðslusvæðisins til að ala kálfa og makast.

Lítið er vitað um fæðuval sléttbaks en sennilega étur hann nánast eingöngu svifkrabbadýr. Hann veiðir með svo kallaðri sundsíun sem felst i því að synda með opinn kjaft svo að sjórinn rennur stöðugt inn að framan og síast út í gegnum skíðin til hliðanna.

Veiðar og fjöldi[breyta | breyta frumkóða]

Á 11. öld hófu Baskar veiðar á sléttbak og var það upphaf atvinnuveiða á hval. Það var aðallega lýsi sem var eftirsótt sem feitmeti og nýtt í smurningu, kerti og sápu. Seinna voru skíðin líka notuð í krínólínur.[4] Eftir því sem hvölum fækkaði í nágrenninu færðu Baskar sig á fjarlægari mið, meðal annars við Ísland á 16. og 17. öld (frá þeim tíma eru til þrjú basknesk-íslensk orðasöfn). Frá 17. og fram á 19. öld bættust Hollendingar, Danir, Frakkar og Bandaríkjamenn í hóp hvalveiðiþjóða. Við lok 19. aldar voru sárafáir sléttbakar eftir.

Stofninn hefur verið alfriðaður frá 1935 en lítil merki eru um að stofninn sé í vexti. Meginhluti stofnsins sem heldur sig við Norður-Ameríku var um 300 til 450 dýr og í austurhluta Atlantshafsins aðeins nokkrir tugir.[5] Árið 2017 fæddust engir kálfar á fengitíðinni og stofninn talin vera aðeins 430 dýr og þar af aðeins um 100 frjóar kýr. Fleiri sléttbakar drápust það ár síðan farið var að fylgjast náið með stofninum á níunda áratug 20. aldar. 80 prósent allra dauðra sléttbaka sem drepist hafa ótímabærum dauða undanfarin ár er vegna þess að þeir hafa flækst í fiski- og veiðarfæralínum.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Reilly, S.B., Bannister, J.L. og fl., 2008
 2. Laist W.D.. 2017. North Atlantic Right Whales: From Hunted Leviathan to Conservation Icon. JHU Press. Retrieved on October 08, 2017
 3. Omura o.fl. (1969).
 4. Trausti Einarsson (1987).
 5. Kraus o.fl. (2001).
 6. „Engir sléttbakskálfar í ár“. ruv.is. Sótt 27. febrúar 2018.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
 • Jón Már Halldórsson. „Lifa höfrungar við Ísland?“. Vísindavefurinn 19.2.2008. http://visindavefur.is/?id=7077. (Skoðað 13.4.2009).
 • Kraus, S.D., P.K. Hamilton, R.D. Kenney, A. Knowton, C.K. Slay, Reproductive parameters of the North Atlantic right whale, Journal of Cetacean Research and Management, Special Issue 2 (2001): 231-236.
 • Omura, H.S. Oshumi, T. Nemoto, K. Nasu og T. Kasuya, Black right whales in the North Pacific. Scientific Reports of the Whales Research Institute 21 (1969): 1-78.
 • Páll Hersteinson (ritsj.), Íslensk spendýr (Vaka-Helgafell 2005).
 • Reeves, R., B. Stewart, P. Clapham og J. Powell, National Audubon Society Guide to Marine Mammals of the World (New York: A.A. Knopf, 2002).
 • Reilly, S.B., J.L. Bannister, P.B. Best, M. Brown, R.L. Brownell Jr., D.S. Butterworth, P.J. Clapham, J. Cooke, G.P. Donovan, J. Urbán og A.N. Zerbini, „Eubalaena glacialis“, 2008 IUCN Red List of Threatened Species (IUCN 2008).
 • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Forlagið, 1997).
 • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).
 • Trausti Einarsson, Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir, Studia Historica 8. bindi (ritstjóri Bergsteinn Jónsson) (Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1987).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist