Landsyfirréttur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Landsyfirréttur var æðsti dómstóllinn sem var staðsettur á Íslandi í 119 ár, eða frá 10. ágúst 1801 til 22. desember 1919. Málum hans var þó hægt að áfrýja til Hæstaréttar Danmerkur en það var þó lítill hluti mála sem rataði þangað sökum torveldra samgangna þess tíma. Þann 6. júní árið 1800 skipaði Danakonungur svo fyrir að Alþingi skyldi lagt niður. Þá tók Landsyfirréttur í Reykjavík við hlutverki Lögréttu. Með gildistöku stjórnarskrár konungsríkisins Íslands árið 1920 fékk Hæstiréttur Íslands stöðu æðsta dómstóls Íslands og var Landsyfirréttur samhliða lagður niður.

Fyrsti dómstjóri Landsyfirréttar var Magnús Stephensen, en meðdómendur Benedikt Gröndal eldri og Ísleifur Einarsson.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Tímabil landsyfirréttarins 1800-1920[breyta | breyta frumkóða]

Á síðari hluta 18. aldar var orðið ljóst, að dómaskipan landsins þyrfti endurnýjunar við. Hana þurfti að einfalda með því að fækka áfrýjunardómstólum innanlands úr tveimur í einn, um leið og meðferð mála yrði bætt og réttaröryggi aukið. Landsyfirrétturinn var stofnaður í Reykjavík árið 1800, en Magnús Stephensen beitti sér mjög fyrir því að færa dómsvaldið frá Þingvöllum til hins vaxandi höfuðstaðar landsins. Þar hefur framsýni hans ráðið för, en honum þótti hinn forni þingstaður aukinheldur ljótur. Landsyfirrétturinn fór með æðsta dómsvald innanlands í 120 ár, en dómum hans mátti áfrýja til Hæstaréttar í Kaupmannahöfn.

Magnús Stephensen, höfundur Landsyfirréttarins eins og Björn Þórðarson kallar hann, en morðingi Alþingis eins og Bjarni Thorarensen kallaði hann eitt sinn, var fyrsti dómstjóri Landsyfirréttarins. Fljótlega var ljóst að dómstjórinn var ákveðinn í að taka til hendinni í réttarfarsmálum landsmanna. Árið 1802 fékk Landsyfirdómurinn til meðferðar þjófnaðarmál Jóns Jónssonar frá Yzta-Gerði, konu hans og Sigfúsar Þorleifssonar frá Hlíðarhaga. Jón sýslumaður Jakobsson að Espihóli hafði kveðið dóminn upp.

Í upphafi setur Landsyfirdómurinn út á margt í rannsókn málsins, en síðar greinir þar: „Það er annars ekki í einu, heldur flestu, sem þessi process og dómur, að hjeraðsdómarans leyti, er hroðalega af hendi leystur.”

Margar athugasemdir eru gerðar svo sem um yfirheyrslu vitna og eiðtöku, stefnubirtingu, um þinghald fram á nætur, meðferð þingskjala, málfar og frágang dóms. Þótti dómurum Landsyfirréttarins þetta allt hið mesta klúður og skömmuðust mjög yfir.

Loksins hefur hjeraðsdómarinn fylt sinn dóm með óviðkomandi heimsku-bulli um öreiga giptingar, dómstóla meiningar og annað, og heimildarlaust skapað sjer lög, ...”

En þar sem þjófnaðurinn annars að miklu leyti þótti fullyfirbevísaður sakapersónunum Jóni, Rósu og Sigfúsi, voru þau þrátt fyrir allt sakfelld. Dómurinn var þó mildaður. Enn fær sýslumaður á baukinn í dómsorðinu. „Hjeraðsdómarinn, sýslumaður Jón Jakobsson, betali fyrir heimskulegan dóm 1 rdl. til Jústitskassans. Sömuleiðis bæti hann fyrir afglapanir og forsómun í að vitna eftir boði tilskipunar 3. júní 1796 § 35, í dómi sínum, hvort við málsins rekstur og meðferð í hjeraði, sé nokkur forsómun sýnd eður ei, 20 rdl. til Saurbæjarhrepps í Eyjafirði.”

Fyrsta húsnæði Landsyfirréttarins var í skólahúsinu að Hólavelli. Það þótti vond vist og ekki taka mikið fram vistinni í lögþingishúsinu á Þingvöllum, nema síður væri. Húsið á Þingvöllum þurfti aldrei að nota um vetrartímann, en Landsyfirrétturinn var einnig haldinn á vetrum. Raunar var húsið ekki lengur talið hæft til skólahalds þegar rétturinn fékk það til afnota og beið niðurrifs. Þá var þar fátt húsgagna. Þurfti oft að halda réttinn í skólahúsinu fyrir opnum gluggum í dragsúg frá dyrum og gólfum, og í óupphituðu herbergi.

Við stofnun Landsyfirréttarins var reyndar fyrirhugað að byggja sérstakt hús yfir réttinn í Reykjavík, og var honum því komið fyrir í Hólavallarskóla til bráðabirgða. Danskur arkitekt gerði teikningar af húsinu árið 1802. Fallið var frá byggingaráformum vegna kostnaðar, en þess í stað var leitað að heppilegu húsi í bænum til afnota fyrir réttinn.

Í ársbyrjun 1807 gerði ægilegar vetrarhörkur, norðanáhlaup með dimmviðrum og brunagaddi dag eftir dag. Réttvísin varð samt að hafa sinn framgang þótt hús væru köld og óvistleg. Gekk svo fram í febrúar, en þann 3. þess mánaðar höfðu lögspekingarnir fengið nóg.

Í þingbókinni þann dag stendur skrifað:

Anno 1807, þann 3. febrúar var landsyfirréttarins session í hr. stiftamtmanns, greifa Trampe húsi, hverjum til réttarhalds þóknaðist nú og framvegis nokkurn tíma að eftirláta réttinum stofu sína, þar ófært reyndist vegna harðviðra, dragsúgs og frostgrimmdar að halda réttinn í þeirri gömlu opnu skólabyggingu.”

Þá fundu þeir sig knúna til að skrifa yfirvöldunum í ríki Danakonungs. Segir þar:

1807: En i Dag rasende Storm og höjst poeneterende Kulde gjör det for Liv og Helbred farligt for Rettens svaglige Medlemmer at holde Session i det saa höjt liggende for Blæst og Træk gennem aabne Vinduer, Gulv og Dör, udsatte Skoleværelse, denne Gang. Vi skulde derfor ærbödigst fornemme om Deres Höjvelborenhed maatte kunne anvise Retten til denne Lejlighed eller i manglende Fald, om der kan være noget imod at Session holdes denne gang i Justitiarii Logie.”

Í kjölfar þessara atburða var keypt á uppboði verslunarhús í Reykjavík, sem síðar varð Austurstræti 4. Var því breytt til afnota fyrir réttinn.

Þá var gerður reki að því að útvega húsgögn, svo ódýr sem kostur var.

Var réttarsalurinn í þessu húsi síðan um nokkra hríð helsti samkomustaður bæjarins, notaður til dansleikja og leiksýninga og við slík tækifæri notast við bekkina úr dómkirkjunni.

Urðu sumir til að hneykslast á því að eignir kirkjunnar og réttarsalurinn skyldu með þessum hætti notuð af andvaralausum lýð til fánýts og skaðsamlegs gleðskapar.

Um 1820 fékk rétturinn til afnota gamla stiftamtmannshúsið við Austurstræti, sem ennþá stendur í breyttri mynd, en þá hafði fangahúsið verið tekið undir stiftamtmanninn. Árið 1873 fékk rétturinn húsnæði í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, á efri hæð þess inn að garðinum. Þar var rétturinn enn til húsa þegar Hæstiréttur var stofnaður 1920.

Síðustu dómarnir í Landsyfirdóminum voru kveðnir upp 22. desember 1919. Þá var dómstjóri Kristján Jónsson, sem einnig varð fyrsti forseti Hæstaréttar. Í ræðu rakti hann starf dómstólsins þá rúmu öld sem hann hafði starfað. Hlutverk hans hafi verið að legja úrskurði á réttarþrætur borgaranna og dæma misgerninga.

Hvernig til hafi tekist megi um deila, segir hann, en leggur þó áherslu á tvennt:

„ ...það fyrra, að mér virðist dómstóllinn hafa verið á framfararskeiði allan tímann, frá því að hann hóf starfsemi sína og til þessa dags; virðist mér þetta koma greinlega í ljós, er dómar réttarins fyrr og síðar eru lesnir með gaumgæfni, enda er þetta í samræmi við hið eðlilega lögmál, að niðjarnir byggja á og færa sér í nyt, styðjast við og draga lærdóm af verkum forfeðranna; og það hið síðara, að ég þykist fullyrða fyrir eigin reynslu, að almenningur haft gjarnan og með fullu trausti lagt málefni sín undir úrskurð réttarins.”

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.