Svartfjallaland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svartfjallaland
Crna Gora
Црна Гора
Fáni Svartfjallalands Skjaldarmerki Svartfjallalands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Oj, svijetla majska zoro
Staðsetning Svartfjallalands
Höfuðborg Podgorica
Opinbert tungumál svartfellska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Jakov Milatović
Forsætisráðherra Dritan Abazović
Sjálfstæði frá Serbíu og Svartfjallalandi
 • yfirlýst 3. júní 2006 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
161. sæti
13.812 km²
1,5
Mannfjöldi
 • Samtals (2011)
 • Þéttleiki byggðar
167. sæti
625.266
48,7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2014
 • Samtals 9,499 millj. dala (150. sæti)
 • Á mann 15.219,452 dalir (76. sæti)
VÞL (2013) 0.789 (51. sæti)
Gjaldmiðill evra
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .me
Landsnúmer +382

Svartfjallaland, einnig þekkt sem Montenegró[1] (Crna Gora á svartfellsku) er land í suðaustanverðri Evrópu á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu í vestri, Bosníu og Hersegóvínu í norðvestri, Serbíu í austri og Albaníu í suðri. Svartfjallaland var hluti Júgóslavíu mestalla 20. öldina en hafði verið sjálfstætt áður. Eftir upplausn Júgóslavíu á 10. áratug 20. aldar voru einungis Svartfjallaland og Serbía eftir í ríkjasambandi, fyrst undir nafni Júgóslavíu en síðar sem Serbía og Svartfjallaland. Svartfellingar samþykktu með 55% meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 21. maí 2006 að rjúfa sambandið við Serbíu og var sjálfstæði formlega lýst yfir 3. júní sama ár.

Á 9. öld mynduðust þrjú serbnesk furstadæmi þar sem Svartfjallaland er nú: Duklja í suðri, Travunia í vestri og Raska í norðri. Árið 1042 leiddi furstinn Stefan Vojislav, eða Stefan konungur Duklja uppreisn gegn Austrómverska keisaradæminu sem varð til þess að Vojislavljević-ættin náði völdum í Duklja. Duklja náði hátindi sínum á síðari hluta 11. aldar, en á 13. öld var farið að nota nafnið Zeta yfir ríkið í stað Duklja. Á 14. öld ríkti fyrst Balšić-ættin yfir Zetu og Crnojević-ættin. Á 15. öld var farið að nota heitið Crna Gora (feneyska: Monte Negro) yfir landið. Eftir að Crnojević-ætt leið undir lok ríktu biskupar yfir landinu til 1696 og síðan hin serbneska biskupaættin Petrović-Njegoš sem við völd til 1918. Saga Svartfjallalands einkennis af Klerkaveldisstjórnarfari, en slíku stjórnarfar tókst að halda heimsveldum úti þar sem að serbneska rétttrúnaðarkirkjan gengdi lykilhlutverki fyrir afkomu ríkisins. Frá 1918 var landið síðan hluti af Júgóslavíu en varð aftur sjálfstætt ríki árið 2006.

Petrović-Njegoš ættin er talin hafa mótað menningu og sjálfsmynd nútíma Svartfjallands, þá sérstaklega Petar II Petrović-Njegoš sem var serbneskt ljóðskáld, biskup serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og faðir ríkisins. Hans framlag til serbneskra bókmennta og tungu er talið hafa gengt lykilhlutverki í því að serbneska hafi lifað af sem tungumál þar sem að landið var fyrst hernumið snemma á 20. öld af Austurríki-Ungverjalandi og síðar af Nasistum, en í báðum tilvikum var reynt að útrýma serbneskri sjálfmynd landsins.[2] Svartfjallaland er einnig vagga serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem fékk sjálfstæði frá Austrómverska keisaradæminu árið 1219. Stofnandi hennar voru Stefan Nemanja og sonur hans Rasto Nemjanić. Stefan Nemanja, sem var stórfursti Serba fæddist í borginni Ribnica, í Zeta ríkinu sem í dag er Podgorica, höfuðborg Svartfjallands. Stundum er borgin einnig kölluð Nemanjingrad eða borg hans Nemanja. Borgin hét Títógrad á tímum Sósíalísku Júgóslavíu. Höfuðstöð serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar var Peć í Kósóvó sem áður tilheyrði Svartfjallalandi.

Svartfjallaland er aðili að Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Fríverslunarsamningi Mið-Evrópu. Landið á í formlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hlaut aðild að Atlantshafsbandalaginu árið 2017.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Crna Gora sem merkir „svartafjall“, var notað yfir stóran hluta landsins á 15. öld eftir að Crnojević-ætt náði völdum í Efri-Zetu. Þetta landsvæði var síðan kallað Gamla Svartfjallaland (serbneska: Stara Crna Gora) á 19. öld til að greina það frá Brda (fjöllum) sem bættist við lönd furstadæmisins. Furstadæmið stækkaði síðan í nokkrum skrefum í kjölfar Balkanskagastríðanna í upphafi 20. aldar og náði þá líka yfir Gömlu Hersegóvínu og hluta Metohija og Raška.

Nafn landsins á mörgum tungumálum er dregið af feneyska heitinu Monte Negro („svartafjall“) sem hefur verið þekkt frá því á miðöldum. Þó tíðkast tökuþýðingar einnig, svo sem Schwarzenberg á þýsku, Karadağ á tyrknesku og Mali i Zi á albönsku. Heitið Montenegró þekkist einnig í íslensku, en málræktarsvið Árnastofnunar mælir fremur með myndinni Svartfjallaland.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Í rómverskum heimildum er talað um ættbálkinn Docleatae í bænum Doclea (Podgorica) við ströndina. Rómverjar lögðu svæðið undir sig árið 9. Á 6. öld lögðu Slavar svæðið undir sig og stofnuðu þar serbneska furstadæmið Duklja sem var að nafninu til hluti af Austrómverska keisaradæminu. Duklja var miðpunktur átaka milli Serba og Rómverja og varð sjálfstætt ríki árið 1024. Það lagði undir sig löndin Bosníu og Raška og varð konungsríki fáum áratugum síðar. Þegar Konstantínus Bodin lést árið 1101 hófst röð borgarastyrjalda sem lauk með því að stórfurstinn Stefan Nemanja lagði landið undir sig. Eftir það var Svartfjallaland hluti af Stórfurstadæminu Serba sem héraðið Zeta.

Þegar serbneska keisaradæmið féll á síðari hluta 14. aldar náði Balšić-ætt völdum í Zetu. Árið 1421 lögði önnur ætt Svartfjallaland undir sig um skamma hríð en árið 1455 náðu höfðingjar af Crnojević-ætt völdum og gerðust sjálfstæðir lávarðar í Zetu. Þetta var síðasta furstadæmið á Balkanskaga sem féll í hendur Tyrkjaveldis, árið 1496. Svartfjallaland varð þá um tíma hluti af stærri umdæmum (sanjökum) eða sérstakt sanjak. Tyrkir veittu Svartfjallalandi aukna sjálfstjórn á 16. öld en uppreisnir gegn þeim voru samt tíðar og skæruhernaður algengur.

Undir lok 17. aldar, eftir ósigur Tyrkja í Tyrkjastríðinu mikla, stofnuðu serbnesku ættbálkarnir í Svartfjallalandi biskupsfurstadæmið Svartfjallaland sem hafnaði yfirráðum Tyrkja og naut stuðnings Feneyja sem skipaði landstjóra. Eftir að Feneyjar urðu hluti af Austurríska keisaradæminu ráku Svartfellingar landstjórana af höndum sér. Árið 1852 gerði serbneski biskupsfurstinn Danilo Petrović-Njegoš landið að veraldlegu furstadæmi með fulltingi Nikulásar 1. Rússakeisara. Afskipti Rússa af Balkanskaga leiddu til þess að Svartfjallaland stækkaði mikið.

Í valdatíð Nikulásar Petrović-Njegoš I (1860-1910) varð landið að sjálfstæðu furstadæmi. Nikulás keisari var einn vinsælasti leiðtogi Svartfjallands, hann nútímavæddi stofnanir samfélagsins, fyrsta stjórnarskráin tók gildi árið 1905 þar sem menntun og bókmenntir voru efst á baugi. Í stjórnarskránni frá 1905 kemur fram að Borgaralegur fáni Furstadæmisins og Konungsríkisins Svartfjallalands sé rauður, blár og hvítur í serbó-slavneskum þrílitum. Á tíð Nikulásar I átti sér einnig stað fyrsta mannfjöldaskráning Svartfjallands, árið 1909 bjuggu 95% Serbar í landinu og serbneska var opinbera tungumál lansins. Nikulás var ljóðskáld og stjórnmálamaður, hann var meðlimur að sameinuðu serbnesku ungmennum (Ujedinjena omladinska srpska) þangað til Austuríkissmenn bönnuðu slíkar stofnanir þegar þeir hernumdu landið. Nikulás konungur hafði einnig stofnaði samtökin um frelsun og sameiningu Serba árið 1871. Hans þekktustu bókmenntaverk voru serbneskir föðurlandssöngvar um Svartjalland "Onamo, 'namo!" og "Keisaraynja Balkanskagans." [3]

Þjóðfáni furstadæmisins Svartfjallalands (1852-1910)

Í Balkanskagastríðunum stækkuðu Svartfellingar land sitt enn frekar en létu hluta þeirra landvinninga frá sér að kröfu evrópsku stórveldanna. Í fyrri heimsstyrjöld gekk Svartfjallaland í lið með bandamönnum gegn Miðveldunum og sagði Austurríki-Ungverjalandi stríð á hendur. Þrátt fyrir andspyrnu sem Serbía og Frakkland studdu tókst Austurríkismönnum að leggja landið undir sig árið 1916. Nikulás Petrović-Njegoš konungur flúði fyrst til Ítalíu og síðan til Frakklands.

Fáni Græningja: "Fyrir rétt, heiður og frelsi Svartfjallalands"

Eftir stríð ákvað þingið í Podgorica árið 1918 að setja Petrović-Njegoš ættinina af og verða hluti af Konungsríkinu Serbía sem síðar varð Konungsríkið Júgóslavía. Karadjordjević-ættin sem stjórnaði Serbíu var náskyld Petrović-Njegoš ættinni. Alexander Karadjordjević I var barnabarn Nikulásar Petrović-Njegoš I. Margir stjórnmálamenn í Podgorica voru hinsvegar ósáttir með sameiningu við Serbíu og töldu að Petrović-Njegoš ættin væri eina raunverulega konungsfjölskylda Serba. Árið 1919 á serbneskum jólum átti sér stað Jólauppreisn milli Græningja (serbneska: Zelenasi) og Hvítingja (serbneska: Bijelasi). Eftir ósigur Græningja í jólauppreisninni héldu Græningjar áfram skæruhernaði sínum til ársins 1929. Einkunnarorð hreyfingarinnar voru "Fyrir rétt, heiður og frelsi Svartfjallalands". Leiðtogi Græningja var Krsto Popović, þjóðernssinaður Serbi sem taldi að eina hreinræktaða serbneska ríkið gæti aðeins verið Svartfjalland undir stjórn Petrović-Njegoš ættarinnar og var mótfallinn hugmyndinni um sameiningu við Serbíu og Karadjorjević-ættina. Krsto bjó í útlegð á Ítalíu þar til ársins 1921 þegar dauði af Nikulási I konungi bárust. Að lokum lýsti Krsto hollustu við Alexander I Karadjordjević og baðst aföskunar á skæruliðahernaði sem hann hafði valdið í Svartfjallalandi, sérstaklega þar sem talið er að mikill meirihluti íbúa hafi verið hliðhollur sameiningu.

Þjóðfáni furstadæmisins Svartfjallalands (1905-1910). Fáni Konungsríkis Svartfjallalands (1910-1918)
Borgarlegur fáni Svartfjallalands (1881-1916)
Borgarlegur fáni Svartfjallalands (1905-1910)

Ítalir lögðu Svartfjallaland undir sig í síðari heimsstyrjöld. Helena af Svartfjallalandi var þá drottning Ítalíu og fékk hún Viktor Emmanúel 3. til að þrýsta á Benito Mussolini um að leyfa stofnun sjálfstæðs ríkis í Svartfjallalandi. Þá varð þar til skammlíft leppríki ítalskra fasista. Heiftúðug borgarastyrjöld hófst þegar í stað í landinu og harðnaði hún enn þegar Þjóðverjar tóku við sem hernámslið árið 1943. Andspyrnumenn náðu Podgorica á sitt vald 19. desember 1944. Eftir stríð varð Svartfjallaland hluti af Sambandslýðveldinu Júgóslavíu. Svartfjallaland varð vinsæll ferðamannastaður og fékk efnahagsaðstoð frá alríkisstjórninni til uppbyggingar eftir stríðið. Podgorica tók við af Cetinje sem höfuðborg landsins.

Þegar borgarastyrjöldin í Júgóslavíu hófst 1991 voru samstarfsmenn Slobodan Milošević við völd í Svartfjallalandi. Svartfellingar börðust með Serbum í borgarastyrjöldinni og ákváðu með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 að verða hluti af Serbíu og Svartfjallalandi. Þegar Kosóvóstríðið hófst 1998 hélt Milo Đukanović, forseti Svartfjallalands, sig til hlés gagnvart stjórn Milošević og hluti sósíalistaflokksins klauf sig þá frá og kaus að standa áfram þétt með Serbíu.

Árið 2006 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð lýðveldisins þar sem að 240.000 borgunum með svartfjallalenskt vegabréf var meinaður kosningaréttur og meirihluti (55,5%) studdi stofnun sjálfstæðs ríkis.

Áframhaldandi deilur um þjóðernissjálfsmynd Svartfjallalands[breyta | breyta frumkóða]

Nútímasamfélag í Svartfjallandi greinir á um hvort Svartfellingar séu sérstakur þjóðernishópur eða undirhópur Serba. Þessi klofning á sér sögulegar rætur á fyrstu áratugum 20. aldar með hernámi Austurríkis og síðar ítalskra fasista sem studdu hugmyndir um svartfjallalensku þjóðina sem frábrugðna frá hinni serbnesku. Sumir meðlimir Græningja sem áður voru hliðhollir serbneskri þjóðernishyggju voru nú meðlimir hinar fasisku Ustashe hreyfingu sem framdi þjóðarmorð á Serbum í Siðari Heimsstyrjöld.

Í júní 2019 birtist hljóðupptaka frá árinu 2005, sem sýnir Milan Roćen, þáverandi sendiherra Serbíu og Svartfjallalands í rússneska sendiráðinu, þar sem hann lýsir áhyggjum sínum um framtíð Svartfjallalands og spyr rússneska óligarkann Oleg Deripaska, fyrir hönd ríkisstjórnar Đukanović, þáverandi forsætisráðherra Svartfjallalands, að beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni um sjálfstæði Svartfjallalands 2006, í gegnum tengsl sín við kanadíska milljarðamæringinn Peter Munk í Bandaríkjunum. [4]

Þessi ágreiningur endurnýjaðist þegar Svartfjallaland sagði sig úr ríkjasambandinu við Serbíu. Ádeilurnar eru hinsvegar ennþá óljósar og óskýrar, samkvæmt gögnum frá 2011, segjast 44,98% íbúa Svartfjallalands vera Svartfellingar, en 30,73% segjast vera Serbar, hinsvegar sögðu 44,88% að serbneska væri móðurmál þeirra en 34,97% sögðu að svartfjallalenska væri móðurmál þeirra.[5] Fjöldi „Svartfellinga“ og „Serba“ sveiflast mikið frá manntali til manntals, það er óstöðugt hvernig þegnar landsins skynja, upplifa eða tjá sjálfsmynd sína og þjóðernistengsl, yfirleitt fer það eftir samhengi. [6]

Í Svartfjallalandi er viðvarandi söguleg endurskoðunarstefna sem er mjög umdeild. Í henni felst í því að allar sögulegar persónur Svartfjallalands, svosem Krsto Popović, Nikulás I og Petar II úr Petrović-Njegoš-ættini hafi í raun alltaf verið Svartfellingar en ekki Serbar. Duklja og Zeta sem eru söguleg landsvæði nútíma Svartfjallands eru einnig talin hafa verið landsvæði Svartfellinga en ekki Serba. Margir sagn- og bókmenntafræðingar hafa bent á slík endurskoðunarstefna gæti mögulega staðist í ljósi þess að sögulegar persónur frá Svartfjallandi eins og Krsto Popović eða furstinn Stefan Vojislav stofnandi Duklja ríkisins hafi allir kennt sig við serbneska þjóðernishyggju. Petar II Petrović-Njegoš biskup og ljóðskáld sem er ein helsta mýta bæði serbneskrar og svartfjallalenskrar þjóðernishyggju yrti ljóð um föðurlandsást til serbnesku þjóðarinnar. Sagnfræðingurinn Kenneth Morrisson segir í bók sinni að klofningin og endurskoðunarstefnan sé „söguleg mótsögn.“ [7][8] Þá er einnig bent á að þjóðsöngur Svartfjallalands frá árinu 2004 'Oj svijetla majska zoro' sé endurskrifuð útgáfa frá árinu 1863 'Oj junaštva svijetla zoro'. Þá hafa svartfjallalenskir þjóðernissinar breytt upphafnlega textanum þar sem getið er til serbnesku þjóðar sem þegna Svartfjallalands. Textinn sem tekin var upp árið 2004 er sami texti og frá árinu 1944, þegar Sekula Drljevic samstarfsaðili fasista endurskrifaði þjóðsögn Svartfjallands þar sem að tilvera Serba var tekin út úr upphaflega laginu. Þjóðsöngurinn er umdeildur meðal þegna Svartfjallalands og fyrrverandi forseti landsins Filip Vujanovic hefur gagrýnt þjóðsöngin og sagt hann vera óboðlegan. [9]

Núverandi fáni Svartfjallalands

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Svartfjallaland skiptist í 23 sveitarfélög (opština) og tvö bæjarfélög sem eru hlutar sveitarfélagsins Podgorica.

Sveitarfélög í Svartfjallalandi

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Hæðakort af Svartfjallalandi

Svartfjallaland er á milli 41. og 44. breiddargráðu og 18. og 21. lengdargráðu. Það á landamæri að Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Albaníu, og strönd að Adríahafi.

Stór hluti af Svartfjallalandi er fjalllendi sem liggur í víðáttumiklum kalksteinsfjöllum (karst) á vesturhluta Balkanskaga. Í suðri er flöt slétta, Zetusléttan, sem árnar Ribnica og Morača renna um. Þar stendur höfuðborgin Podgorica. Sléttan endar við strönd Skadarvatns í suðri sem skiptist milli Svartfjallalands og Albaníu. Í vestri gengur Kotorflói inn í Dínörsku Alpana og myndar eina bestu náttúrulegu höfn Adríahafsins.

Fjalllendið í Svartfjallalandi er að jafnaði í um 1000 metra hæð en nær á nokkrum stöðum yfir 2000 metra. Hæsti tindur landsins er Zla Kolata á landamærunum við Albaníu í 2.534 metra hæð.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Heitið Montenegró þekkist einnig í íslensku, en málræktarsvið Árnastofnunar mælir fremur með myndinni Svartfjallaland. („Ríkjaheiti“. Árnastofnun. Apríl 2015. Sótt 16. nóvember 2017.)
  2. Greenberg, Robert D. (2008). Language and Identity in the Balkans: Serbo-Croatian and Its Disintegration. Oxford: Oxford University Press. doi:10.1093/acprof:oso/9780199208753.001.0001/acprof-9780199208753. ISBN 978-0-19-920875-3.[óvirkur tengill]
  3. Roberts, Elizabeth (2007). Realm of the Black Mountain : a history of Montenegro. Internet Archive. London : Hurst & Company. ISBN 978-1-85065-868-9.
  4. „Molio Deripasku da lobira za referendum“. old.dan.co.me. Sótt 26. janúar 2019.
  5. „Controversy over ethnic and linguistic identity in Montenegro“, Wikipedia (enska), 9. desember 2021, sótt 1. janúar 2022
  6. „Montenegro“, Wikipedia (enska), 23. janúar 2019, sótt 26. apríl 2021
  7. Morrison, Kenneth (2009). Montenegro: A Modern History (enska). Bloomsbury Academic. ISBN 978-1-84511-710-8.
  8. Huszka, Beáta (2014). Secessionist movements and ethnic conflict : debate-framing and rhetoric in independence campaigns. London. ISBN 978-1-134-68784-8. OCLC 861082151.
  9. „Oj, svijetla majska zoro“, Wikipedia (enska), 15. desember 2021, sótt 18. desember 2021
  10. „Zakon o izmjenama i dopunama Zakona o teritorijalnoj organizaciji Crne Gore“ [Amendments to the Territorial Organization of Montenegro Law]. Službeni List Crne Gore. 7. mars 2014. Sótt 21. júní 2014.
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu