Svartfjallaland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Lýðveldið Svartfjallaland
Republika Crna Gora
Република Црна Гора
Fáni Svartfjallalands Skjaldarmerki Svartfjallalands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Oj, svijetla majska zoro
Staðsetning Svartfjallalands
Höfuðborg Podgorica
Opinbert tungumál svartfellska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Milo Đukanović
Forsætisráðherra Zdravko Krivokapić
Sjálfstæði frá Serbíu og Svartfjallalandi
 - yfirlýst 3. júní 2006 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
161. sæti
13.812 km²
1,5
Mannfjöldi
 - Samtals (2011)
 - Þéttleiki byggðar
167. sæti
625.266
48,7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2014
 - Samtals 9,499 millj. dala (150. sæti)
 - Á mann 15.219,452 dalir (76. sæti)
VÞL (2013) Increase2.svg 0.789 (51. sæti)
Gjaldmiðill evra
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .me
Landsnúmer +382
Mj-map.png

Svartfjallaland, einnig þekkt sem Montenegró[1] (Crna Gora á svartfellsku) er land í suðaustanverðri Evrópu á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu í vestri, Bosníu og Hersegóvínu í norðvestri, Serbíu og Kosóvó í austri og Albaníu í suðri. Svartfjallaland var hluti Júgóslavíu mestalla 20. öldina en hafði verið sjálfstætt áður. Eftir upplausn Júgóslavíu á 10. áratug 20. aldar voru einungis Svartfjallaland og Serbía eftir í ríkjasambandi, fyrst undir nafni Júgóslavíu en síðar sem Serbía og Svartfjallaland. Svartfellingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 21. maí 2006 að rjúfa sambandið við Serba og var sjálfstæði formlega lýst yfir 3. júní sama ár.

Á 9. öld voru þrjú slavnesk furstadæmi þar sem Svartfjallaland er nú: Duklja í suðri, Travunia í vestri og Rascia í norðri. Árið 1042 leiddi Stefan Vojislav uppreisn sem varð til þess að Vojislavljević-ættin náði völdum í Duklja. Duklja náði hátindi sínum á síðari hluta 11. aldar en á 13. öld var farið að nota nafnið Zeta yfir ríkið í stað Duklja. Á 14. öld ríktu fyrst Balšić-ætt og síðan Crnojević-ætt yfir Zetu. Á 15. öld var farið að nota heitið Crna Gora (feneyska: Monte Negro) yfir landið. Eftir að Crnojević-ætt leið undir lok ríktu biskupar yfir landinu til 1696 og síðan Petrović-Njegoš-ætt til 1918. Frá 1918 var landið hluti af Júgóslavíu en varð aftur sjálfstætt ríki árið 2006.

Svartfjallaland er aðili að Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Fríverslunarsamningi Mið-Evrópu. Landið á í formlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hlaut aðild að Atlantshafsbandalaginu árið 2017.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Crna Gora sem merkir „svartafjall“, var notað yfir stóran hluta landsins á 15. öld eftir að Crnojević-ætt náði völdum í Efri-Zetu. Þetta landsvæði var síðan kallað Gamla Svartfjallaland (Stara Crna Gora) á 19. öld til að greina það frá Brda sem bættist við lönd furstadæmisins. Furstadæmið stækkaði síðan í nokkrum skrefum í kjölfar Balkanskagastríðanna í upphafi 20. aldar og náði þá líka yfir Gömlu Hersegóvínu og hluta Metohija og Raška.

Nafn landsins á mörgum tungumálum er dregið af feneyska heitinu Monte Negro („svartafjall“) sem hefur verið þekkt frá því á miðöldum. Þó tíðkast tökuþýðingar einnig, svo sem Schwarzenberg á þýsku, Karadağ á tyrknesku og Mali i Zi á albönsku. Heitið Montenegró þekkist einnig í íslensku, en málræktarsvið Árnastofnunar mælir fremur með myndinni Svartfjallaland.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Í rómverskum heimildum er talað um ættbálkinn Docleatae í bænum Doclea (Podgorica) við ströndina. Rómverjar lögðu svæðið undir sig árið 9. Á 6. öld lögðu Slavar svæðið undir sig og stofnuðu þar furstadæmið Duklja sem var að nafninu til hluti af Austrómverska keisaradæminu.

Duklja varð sjálfstætt árið 1024. Það lagði undir sig löndin Bosníu og Raška og varð konungsríki fáum áratugum síðar. Þegar Konstantínus Bodin lést árið 1101 hófst röð borgarastyrjalda sem lauk með því að serbneski stórfurstinn Stefan Nemanja lagði landið undir sig. Eftir það var Svartfjallaland hluti af Stórfurstadæminu Serbíu sem héraðið Zeta.

Þegar Serbneska keisaradæmið féll á síðari hluta 14. aldar náði Balšić-ætt völdum í Zetu. Árið 1421 lögðu Serbar landið aftur undir sig um skamma hríð en árið 1455 náðu höfðingjar af Crnojević-ætt völdum og gerðust sjálfstæðir lávarðar í Zetu. Þetta var síðasta furstadæmið á Balkanskaga sem féll í hendur Tyrkjaveldis, árið 1496. Svartfjallaland varð þá um tíma hluti af stærri umdæmum (sanjökum) eða sérstakt sanjak. Tyrkir veittu Svartfjallalandi aukna sjálfstjórn á 16. öld en uppreisnir gegn þeim voru samt tíðar og skæruhernaður algengur.

Undir lok 17. aldar, eftir ósigur Tyrkja í Tyrkjastríðinu mikla, stofnuðu ættbálkarnir í Svartfjallalandi biskupsfurstadæmið Svartfjallaland sem hafnaði yfirráðum Tyrkja og naut stuðnings Feneyja sem skipaði landstjóra. Eftir að Feneyjar urðu hluti af Austurríska keisaradæminu ráku Svartfellingar landstjórana af höndum sér. Árið 1852 gerði biskupsfurstinn Danilo Petrović Njegoš landið að veraldlegu furstadæmi með fulltingi Nikulásar 1. Rússakeisara. Afskipti Rússa af Balkanskaga leiddu til þess að Svartfjallaland stækkaði mikið. Í valdatíð Nikulásar 1. af Svartfjallalandi (1860-1918) varð landið að sjálfstæðu konungsríki.

Í Balkanskagastríðunum stækkuðu Svartfellingar land sitt enn frekar en létu hluta þeirra landvinninga frá sér að kröfu evrópsku stórveldanna. Í fyrri heimsstyrjöld gekk Svartfjallaland í lið með bandamönnum gegn Miðveldunum og sagði Austurríki-Ungverjalandi stríð á hendur. Þrátt fyrir andspyrnu sem Serbar og Frakkar studdu tókst Austurríkismönnum að leggja landið undir sig árið 1916. Nikulás konungur flúði fyrst til Ítalíu og síðan til Frakklands. Eftir stríð ákvað þingið í Podgorica að setja konunginn af og verða hluti af Konungsríkinu Serbíu sem síðar varð Konungsríkið Júgóslavía.

Ítalir lögðu Svartfjallaland undir sig í síðari heimsstyrjöld. Helena af Svartfjallalandi var þá drottning Ítalíu og fékk hún Viktor Emmanúel 3. til að þrýsta á Benito Mussolini um að leyfa stofnun sjálfstæðs ríkis í Svartfjallalandi. Þá varð þar til skammlíft leppríki ítalskra fasista. Heiftúðug borgarastyrjöld hófst þegar í stað í landinu og harðnaði hún enn þegar Þjóðverjar tóku við sem hernámslið árið 1943. Andspyrnumenn náðu Podgorica á sitt vald 19. desember 1944.

Eftir stríð varð Svartfjallaland hluti af Sambandslýðveldinu Júgóslavíu. Svartfjallaland varð vinsæll ferðamannastaður og fékk efnahagsaðstoð frá alríkisstjórninni til uppbyggingar eftir stríðið. Podgorica tók við af Cetinje sem höfuðborg landsins.

Þegar borgarastyrjöldin í Júgóslavíu hófst 1991 voru samstarfsmenn Slobodan Milošević við völd í Svartfjallalandi. Svartfellingar börðust með Serbum í borgarastyrjöldinni og ákváðu með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 að verða hluti af Serbíu og Svartfjallalandi. Þegar Kosóvóstríðið hófst 1998 hélt forseti Svartfjallalands sig til hlés gagnvart stjórn Milošević en hluti sósíalistaflokksins klauf sig þá frá og kaus að standa áfram þétt með Serbum. Árið 2006 var haldin umdeild þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð lýðveldisins þar sem naumur meirihluti (55,5%) studdi stofnun sjálfstæðs ríkis.

Árið 2007 baðst stjórn Svartfjallalands opinberlega afsökunar á þátttöku Svartfellinga í árásum á króatísku borgina Dubrovnik í Júgóslavnesku borgarastyrjöldinni.

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Svartfjallaland skiptist í 23 sveitarfélög (opština) og tvö bæjarfélög sem eru hlutar sveitarfélagsins Podgorica.

Sveitarfélög í Svartfjallalandi

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Hæðakort af Svartfjallalandi

Svartfjallaland er á milli 41. og 44. breiddargráðu og 18. og 21. lengdargráðu. Það á landamæri að Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Albaníu, og strönd að Adríahafi.

Stór hluti af Svartfjallalandi er fjalllendi sem liggur í víðáttumiklum kalksteinsfjöllum (karst) á vesturhluta Balkanskaga. Í suðri er flöt slétta, Zetusléttan, sem árnar Ribnica og Morača renna um. Þar stendur höfuðborgin Podgorica. Sléttan endar við strönd Skadarvatns í suðri sem skiptist milli Svartfjallalands og Albaníu. Í vestri gengur Kotorflói inn í Dínörsku Alpana og myndar eina bestu náttúrulegu höfn Adríahafsins.

Fjalllendið í Svartfjallalandi er að jafnaði í um 1000 metra hæð en nær á nokkrum stöðum yfir 2000 metra. Hæsti tindur landsins er Zla Kolata á landamærunum við Albaníu í 2.534 metra hæð.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Heitið Montenegró þekkist einnig í íslensku, en málræktarsvið Árnastofnunar mælir fremur með myndinni Svartfjallaland. („Ríkjaheiti“. Árnastofnun. Apríl 2015. Sótt 16. nóvember 2017.)
  2. „Zakon o izmjenama i dopunama Zakona o teritorijalnoj organizaciji Crne Gore“. Službeni List Crne Gore. 7. mars 2014. Sótt 21. júní 2014.
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu