Fara í innihald

Stóridómur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aftaka með sverði - trérista úr þýskri bók frá 1552.

Stóridómur var samþykkt um siðferðismál sem var samin að frumkvæði lögmannanna tveggja, Páls Vigfússonar og Eggerts Hannessonar, eftir hvatningu frá Páli Stígssyni hirðstjóra, og undirrituð á alþingi 30. júní árið 1564. 13. apríl 1565 var hann svo staðfestur af konungi og tók gildi sem lög.

Tilgangurinn var að koma reglu á dóma í siðferðismálum sem kaþólska kirkjan hafði haft með höndum fram að siðaskiptum. Niðurstaðan var sú að refsingar í þessum málum urðu harðari en áður, einkum fyrir sifjaspell sem við var lögð dauðarefsing. Hórdómsbrot vörðuðu sektum en þriðja brotið lífláti (sem alltaf var breytt í útlegð) og frillulífi (barneignir utan hjónabands eða dulsmál) varðaði einnig háum sektum. Samkvæmt Stóradómi skyldu sýslumenn sjá um framkvæmd rannsókna og innheimtu sekta af hinum brotlegu.

25 karlar og 25 konur voru tekin af lífi vegna sifjaspellsbrota samkvæmt Stóradómi. Síðasta aftakan fyrir slíkt brot fór fram árið 1763.[1] Á síðari hluta 18. aldar var almennt farið að milda refsingar fyrir þessi brot. Háar sektir við barneignum utan hjónabands komu til meðal annars vegna ótta við sveitarómaga og annað framfærslulaust fólk. Þau ákvæði voru numin úr lögum 1812 en önnur refsiákvæði skömmu síðar. Stóridómur var þó ekki numinn úr lögum í heild fyrr en með nýjum hegningarlögum í Danmörku árið 1870.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Skrá á vef rannsóknarverkefnisins Dysjar hinna dauðu, á slóðinni https://dhd.hi.is/gogn/Info.pdf, sótt 15.2.20202.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hvað er stóridómur?“. Vísindavefurinn.
  • Stóridómur á skólavef Þjóðskjalasafns Íslands