Fara í innihald

Lúxemborg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stórhertogadæmið Lúxemborg
Grand-Duché de Luxembourg
Großherzogtum Luxemburg
Groussherzogtum Lëtzebuerg
Fáni Lúxemborgar Skjaldarmerki Lúxemborgar
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Mir wëlle bleiwe wat mir sinn
(þýðir bókstaflega:
Við viljum vera það sem við erum; Raunveruleg merking: við viljum vera sjálfstæð)
Þjóðsöngur:
Ons Heemecht
Staðsetning Lúxemborgar
Höfuðborg Lúxemborg
Opinbert tungumál lúxemborgska, franska og háþýska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Stórhertogi Hinrik
Forsætisráðherra Luc Frieden
Sjálfstæði
 • Yfirlýst 1835 
 • Viðurkennt 11. maí 1867 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
167. sæti
2.586,4 km²
0,23
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
168. sæti
633.622
242/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 66,848 millj. dala (99. sæti)
 • Á mann 112.045 dalir (2. sæti)
VÞL (2019) 0.916 (23. sæti)
Gjaldmiðill Evra (€)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Þjóðarlén .lu
Landsnúmer +352

Lúxemborg (lúxemborgska: Lëtzebuerg; þýska: Luxemburg; franska: Luxembourg), formlega Stórhertogadæmið Lúxemborg, er landlukt smáríki í Vestur-Evrópu. Það á landamæriFrakklandi í suðri, Þýskalandi í austri og Belgíu í vestri og norðri. Lúxemborg hefur í aldanna rás tilheyrt ýmsum konungs- og keisaradæmum en fékk ásamt Belgíu sjálfstæði frá Hollendingum að loknum Napóleonsstyrjöldunum árið 1815. Landið öðlaðist þó ekki viðurkenningu á alþjóðavettvangi fyrr en árið 1838. Lúxemborgarbúar þurftu að þola hernám Þjóðverja í bæði fyrri og seinni heimsstyrjöld. Lúxemborg gerðist stofnaðili að bæði Sameinuðu þjóðunum og NATO og síðar Efnahagsbandalagi Evrópu.

Tollabandalag Lúxemborgar, Hollands og Belgíu, svokallað BeNeLux-samband, var vísir að Kola- og stálbandalagi Evrópu, sem seinna varð Efnahagsbandalag Evrópu og loks Evrópubandalagið, en það er nú uppistaðan í Evrópusambandinu. Í Lúxemborg hefur smám saman vaxið upp ein öflugasta fjármálamiðstöð heims, en sú starfsemi er helsta tekjulind landsmanna auk nokkurra stálsmiðja í norðanverðu stórhertogadæminu.

Lúxemborg lék stórt hlutverk í sögu Loftleiða þegar ríkið var næstum hið eina sem leyfði Loftleiðavélum að lenda á flugvelli sínum en í landinu var ekkert ríkisflugfélag starfandi sem hefði getað tapað á samkeppni við Loftleiðir í Ameríkufluginu. Loftleiðir settu aftur á móti stórt strik í reikning flugfélaga á borð við SAS, Lufthansa og önnur ríkisrekin flugfélög í Evrópu með því að bjóða flugferðir til Norður-Ameríku á mun lægra verði en áður hafði þekkst.

Elsta heimild um heitið er orðið Lucilinburhuc („lítið virki“, úr lützel „lítil“ og burg „borg“, „virki“) sem kemur fram á landakorti frá 963. Orðið vísar til lítils virkis frá tímum Rómverja sem var reist við gatnamót vega milli Arlon, Trier og Thionville. Árið 1056 kemur það fyrir sem Lucelenburc og árið 1261 sem Lucembour. Árið 1244 kemur orðið Luxemburgum fyrir í latínutexta. Þýska orðmyndin Luxemburg kemur fyrst fyrir 1377 og sú franska Luxembourg árið 1446. Lúxemborgska orðmyndin Lëtzebuerg sem kemur fyrir í móselfrankversku kemur fyrir sem Lützenburg eða Lützelburg í eldri heimildum. Luxemburg er þýsk umritun á frankverska heitinu.

Greifadæmið Lúxemborg varð hertogadæmi árið 1354 og á Vínarþinginu 1815 var það gert að stórhertogadæmi ásamt sjö öðrum héruðum í Evrópu. Lúxemborg er nú eina stórhertogadæmið sem eftir er.

Elstu minjar um mannabyggð í Lúxemborg eru frá fornsteinöld fyrir meira en 35.000 árum. Keltar hafa búið á þessu svæði frá því á járnöld, um 600 f.Kr. Þegar Rómverjar lögðu það undir sig 53 f.Kr. bjó þar gallverskur ættbálkur sem kallaðist Treveri. Fyrst var svæðið hluti af rómverska skattlandinu Gallia Celtica, en eftir umbætur Dómitíanusar um árið 90 varð það hluti af Gallia Belgica. Rómverjar hurfu frá þessu landi árið 406 og Frankar tóku yfir. Landið varð hluti af Ástrasíu á tímum Mervíkinga og síðar Karlunga. Með Verdun-samningnum varð það hluti af Lóþringen og síðar hertogadæminu Lorraine árið 959.

Greifadæmið Lúxemborg

[breyta | breyta frumkóða]

Lúxemborg varð sjálfstætt greifadæmi þegar Sigurður af Ardennafjöllum skipti á Klaustri heilags Maximins í Trier og gömlu rómversku virki, Lucilinburhuc, á klettaborginni við Lúxemborgarhásléttuna árið 963. Hann hóf að stækka virkið og reisa kastala. Afkomendur hans tóku að kalla sig greifa frá 1059. Fyrstur til að búa í kastalanum var Hinrik 3. greifi af Lúxemborg frá 1086.

Virkið, sem stækkaði og efldist með árunum, stóð á hernaðarlega mikilvægum stað og smám saman byggðist bær í kringum það. Lúxemborgarvirki var eitt öflugasta virkið í Norður-Evrópu og var þekkt sem „Gíbraltar norðursins“. Lúxemborgarætt varð til sem grein af Limborgarætt þegar Hinrik, yngri sonur Valrams 3. af Limborg erfði greifadæmið árið 1247. Barnabarn hans varð Hinrik 7. keisari hins Heilaga rómverska ríkis árið 1312. Barnabarn Hinriks, Karl varð keisari 1346. Hann gerði Lúxemborg að hertogadæmi árið 1353 fyrir bróður sinn, Venseslás.

Hertogadæmið Lúxemborg

[breyta | breyta frumkóða]
Lúxemborgarvirki áður en það var rifið.

Hertogadæmið var sjálfstætt lén innan Heilaga rómverska ríkisins. Það náði yfir gamla greifadæmið, auk markgreifadæmisins Arlon, greifadæmin Durbuy og Laroche og Thionville, Bitburg og Marville. Greifadæmið Vianden heyrði auk þess undir hertogana. Árið 1443 gekk hertogadæmið til Filippusar góða Frakkakonungs og árið 1477 til Maximilíans 1. af ætt Habsborgara.

Árið 1559 bjó Karl 5. keisari til Sýslurnar sautján úr því sem áður voru Niðurlönd Búrgunda. Eftir uppreisn Hollendinga varð Lúxemborg hluti af Spænsku Niðurlöndum og síðan Austurrísku Niðurlöndum sem Franski byltingarherinn lagði undir sig 1794 og lagði undir Frakkaveldi. Hlutar hertogadæmisins höfðu raunar gengið til Frakklands á 17. öld.

Stórhertogadæmið

[breyta | breyta frumkóða]
Skiptingar Lúxemborgar.

Eftir ósigur Napóleons Bónaparte árið 1814 varð hluti hertogadæmisins hluti Sameinaðs konungsríkis Niðurlanda en hluti þess gekk til Prússlands. Það sem eftir stóð var gert að stórhertogadæmi í Þýska sambandinu á Vínarþinginu 1815. Vilhjálmur 1. Hollandskonungur fékk stórhertogadæmið í sinn hlut þannig að Lúxemborg gekk í konungssamband við Niðurlönd. Engu að síður var virkið í höndum prússneskra hermanna. Vegna hins hernaðarlega mikilvægis þess var litið á það sem lykilþátt í vörnum Þýska sambandsins.

Íbúar Lúxemborgar tóku þátt í Belgísku uppreisninni sem leiddi til stofnunar Belgíu árið 1830. Með Lundúnasamningnum 1839 urðu tveir þriðju hlutar stórhertogadæmisins að belgísku sýslunni Luxembourg en afgangurinn var enn í konungssambandi við Holland. Um helmingur íbúa hertogadæmisins bjó í þessum þriðjungi. Landið fékk sína fyrstu stjórnarskrá árið 1841 og varð hluti af þýska tollabandalaginu 1842.

Hugmyndir voru áfram uppi um að Lúxemborg gengi til Frakka, Belga eða Þjóðverja, en þegar Vilhjálmur 3. Hollandskonungur tók tilboði Napóleons 3. í landið árið 1867 hafnaði þýski kanslarinn Otto von Bismarck því og hratt þannig Lúxemborgardeilunni af stað. Napóleon krafðist þess að Prússar drægju herlið sitt frá Lúxemborg og hótaði stríði. Deiluaðilar mættust á ráðstefnu í Lundúnum og með Lundúnasamningnum var deilan leyst þannig að Prússar drógu herlið sitt frá Lúxemborg sem skyldi vera fullvalda hlutlaust ríki en áfram innan þýska tollabandalagsins. Samningurinn fól líka í sér að stærstur hluti Lúxemborgarvirkis var rifinn og hernaðarlegt mikilvægi þess þannig gert að engu.

Nassá-Weilburg-ætt

[breyta | breyta frumkóða]

Stórhertogadæmið gekk til næsta karlkyns erfingja Vilhjálms 3. við lát hans en dóttir hans tók við konungdómi í Hollandi. Þjóðverjar hernámu landið í fyrri heimsstyrjöld en ríkisstjórnin kaus að halda sig við hlutleysi. Eftir stríð voru uppi háværar kröfur meðal belgískra stjórnmálamanna um að Lúxemborg yrði innlimuð í Belgíu. Árið 1921 gerðu löndin með sér efnahagsbandalag. Árið 1920 varð Lúxemborg hluti af Þjóðabandalaginu.

Lúxemborg lýsti áfram yfir hlutleysi þegar síðari heimsstyrjöld braust út en 10. maí 1940 lagði þýski herinn landið undir sig. Stórhertogaynjan Karlotta og ríkisstjórnin flúðu land, fyrst til Frakklands og síðan til London. Landið var hernumið til 1942 þegar þýska stjórnin gerði það að þýska héraðinu Moselland. Íbúar voru gerðir að þýskum þegnum og 13.000 voru kvaddir til herþjónustu. Íbúarnir mótmæltu og þar sem franska var bönnuð tóku margir upp á því að tala lúxemborgsku til að forðast þýskuna. Allsherjarverkfall 1. til 3. september 1942 var viðbragð við herkvaðningunni en þýski herinn barði það niður af hörku, tók 21 af lífi og sendi hundruð í fangabúðir.

Bandaríkjamenn lögðu landið undir sig í september árið 1944 en Þjóðverjar náðu hluta þess aftur í Ardennasókninni.

Eftir stríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir lok síðari heimsstyrjaldar hvarf Lúxemborg frá hlutleysisstefnunni og varð stofnaðili NATO árið 1949. Landið gekk í myntbandalag með Belgíu og stofnaði efnahagsbandalagið BeNeLux með Belgíu og Hollandi 1944. Árið 1951 tók landið þátt í stofnun Evrópubandalagsins með undirritun Rómarsáttmálans. Landið hefur oft gegnt hlutverki milligönguaðila og hlutlauss svæðis í deilum milli nágranna sinna. Evrópudómstóllinn var stofnaður þar árið 1952. Lúxemborg er lágskattaríki og fjármálastarfsemi hefur vaxið frá lokum 7. áratugarins. Eftir Lúxemborgarlekann 2014 hefur það legið undir ámæli um að vera miðstöð alþjóðlegra skattaundanskota.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Ríkisstjórn Lúxemborgar í þingsal árið 2009.

Í Lúxemborg er þingbundin konungsstjórn. Samkvæmt stjórnarskránni frá 1868 liggur framkvæmdavaldið hjá stórhertoganum og ríkisstjórn. Stórhertoginn getur rofið þing og verður þá að boða til nýrra kosninga innan þriggja mánaða. Frá 1919 liggur fullveldið hjá þjóðinni og stórhertoginn fer með það í samræmi við stjórnarskrána og lögin.

Löggjafarvaldið er hjá þinginu sem situr í einni deild. Þingmenn eru 60 talsins og eru kosnir í fjórum kjördæmum til 5 ára í senn. 21 manns ríkisráð, sem stórhertoginn skipar, hefur ráðgefandi hlutverk í lagasetningu þingsins.

Í stórhertogadæminu eru þrjú lægri dómstig (friðdómarar) í Esch-sur-Alzette, borginni Lúxemborg og Diekirch, tveir umdæmisdómstólar (í Lúxemborg og Diekirch) og hæstiréttur (í Lúxemborg) sem inniheldur bæði áfrýjunardómstól og stjórnlagadómstól.

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Lúxemborg skiptist í þrjú umdæmi sem aftur skiptast í 12 kantónur og 105 sveitarfélög. Tólf sveitarfélög hafa stöðu borgar og af þeim er Lúxemborg stærst.

Umdæmin eru Diekirch, Grevenmacher og Lúxemborg.

Umdæmi og kantónur
1. Diekirch
2. Grevenmacher
3. Lúxemborg

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Lúxemborg er eitt af minnstu löndum Evrópu og er að stærð í 179. sæti af 194 sjálfstæðum ríkjum heims. Landið er um 2.500 ferkílómetrar að flatarmáli, 82 km að lengd og 57 km að breidd. Það liggur á milli 49 og 51°N og 5 og 7°A. Í austri á Lúxemborg landamæri að þýsku sambandslöndunum Rínarlandi-Pfalz og Saarlandi. Í suðri liggur það að franska héraðinu Lorraine. Í vestri og norðri liggur það að belgíska héraðinu Vallóníu, einkum sýslunum Luxembourg og Liége.

Þrátt fyrir smæð landsins er landslag í Lúxemborg fjölbreytt. Norðurhluti landsins nefnist Oesling. Hann er hluti af Ardennafjöllum og er hæðóttur og dreifbýll. Þar er hæsta hæð landsins, Kneiff, í 560 metra hæð. Stærsti bærinn er Wiltz með um 6.000 íbúa. Mið- og suðurhluti landsins nefnist Gutland. Sá hluti er mun þéttbýlli og skiptist í fjóra landshluta. Lúxemborgarhálendið er stór sandsteinsmyndun þar sem höfuðborgin stendur. Austan við hana er Litla Sviss með klettamyndanir og þétt skóglendi. Neðst liggur Móseldalurinn, við suðausturlandamæri landsins. Í suðri og suðvestri eru Rauðu löndin með járnríkum jarðvegi og iðnaðarframleiðslu.

Þrjár ár mynda landamæri Lúxemborgar og Þýskalands: Móselá, Sauer og Our. Aðrar helstu ár landsins eru Alzette, Attert, Clerve og Wiltz. Árdalir Sauer og Attert mynda mörkin milli Oesling og Gutland. Samkvæmt Umhverfisvísitölunni 2016 var Lúxemborg í 20. sæti yfir lönd með áhrifaríkustu umhverfisstefnuna [1]. Í rannsókn frá 2014 var borgin Lúxemborg auk þess í 6. sæti af 64 yfir lífvænlegustu borgir heims [2].

Í Lúxemborg er ríkjandi úthafsloftslag sem einkennist af mikilli úrkomu, sérstaklega síðsumars. Áhrif Atlantshafsins eru meiri í norðurhlutanum en suðurhlutanum. Sumur eru svöl og vetur mildir. Ársúrkoma er 782,2 mm. Meðalhiti er 0,8° í janúar og 17,5°í júlí.

Íbúar Lúxemborgar eru flestir rómversk-kaþólskir og tala lúxemborgsku sem móðurmál. Í landinu búa auk þess stórir hópar innflytjenda með ríkisfang í öðrum Evrópulöndum. Flestir koma frá Portúgal. Margt í menningu landsins ber með sér að það er á mörkum tveggja menningarsvæða, þess frönskumælandi og þess þýskumælandi.

Höfuðborgin, Lúxemborg, er á heimsminjaskrá UNESCO. Hún hefur tvisvar verið menningarborg Evrópu, árin 1995 og 2007. Lúxemborgarháskóli er eini háskóli landsins. Hann var stofnaður árið 2003, en áður sinntu ýmsar háskólastofnanir rannsóknum og kennslu á háskólastigi í Lúxemborg.

Í Lúxemborg eru þrjú opinber tungumál: lúxemborgska, franska og þýska. Lúxemborgska er miðháþýskt mál með mörgum tökuorðum úr frönsku. Hún er móðurmál meirihluta íbúa landsins og hefur sérstöðu sem þjóðtunga en er lítið notuð sem ritmál. Kennt er á lúxemborgsku fyrstu árin í barnaskóla en síðan skipt yfir í þýsku. Í framhaldsskóla er kennt á frönsku, sem er líka algengasta viðskiptamál og stjórnsýslumál landsins. Auk þessara þriggja tungumála er enskunám skylda og flestir íbúar geta talað ensku.

Trúarbrögð

[breyta | breyta frumkóða]

Lúxemborg er veraldlegt ríki en tiltekin trúarbrögð njóta opinberrar viðurkenningar. Ríkið getur hlutast til um skipan embættismanna innan þeirra og greiðir í staðinn laun og hluta rekstrarkostnaðar. Meðal trúarbragða sem njóta slíkrar viðurkenningar eru rómversk-kaþólsk trú, gyðingdómur, gríska rétttrúnaðarkirkjan, biskupakirkjan, rússneska rétttrúnaðarkirkjan, lútherstrú, mennonismi og íslam.

Engin opinber tölfræði er til yfir aðild að trúfélögum þar sem stjórninni er óheimilt að safna upplýsingum um slíkt. Samkvæmt könnun Evrópuráðsins frá 2012 töldu tæplega 70% svarenda sig vera rómversk-kaþólska og um 20% guðleysingja eða trúleysingja. Um 7% sögðust aðhyllast önnur kristin trúarbrögð og 4% önnur trúarbrögð en kristin[3].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „EPI: Country Rankings“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. febrúar 2016. Sótt 15. júní 2016.
  2. Giap et al. (2014). A new approach to measuring the liveability of cities: the Global Liveable Cities Index. World Review of Science, Technology and Sustainable Development 11(2): 176-196.PDF Geymt 9 janúar 2016 í Wayback Machine
  3. „Discrimination in the EU in 2012 – Special Eurobarometer 393 (spurt var „Telur þú þig vera...?")“ (PDF). Evrópuráðið. Sótt 16. júní 2016.