Vatnajökulsþjóðgarður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Hann nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðana sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Þjóðgarðurinn spannar tæp 14% af flatarmáli Íslands (13.952 ferkílómetrar í apríl 2015) og er á meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu.

Þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem teljast sérstæð vegna náttúrufars eða sögulegrar helgi. Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs felst einkum í fjölbreytilegum landslagsformum sem samspil eldvirkni, jarðhita, jökuls og vatnsfalla hafa skapað.

Mynd af Vatnajökli tekin úr flugvél.

Menning og Saga[breyta | breyta frumkóða]

Í Vatnajökulsþjóðgarði og næsta nágrenni er að finna margvíslegar menningarminjar og sagnir sem tengjast búsetu og búskap, baráttu fólks við harðræði, náttúruöfl og huldar vættir, ferðum og ýmsum viðburðum í sögu þjóðarinnar. Í Jökulsárgljúfrum og sunnan jökulsins eru eyðibýli og fjöldi annarra minja sem tengjast landbúnaði og jafnvel sjósókn sunnan jökla. Þar eru enn fremur fornar ferðaleiðir milli byggðarlaga um torsótt land, óbrúaðar ár og jökla.

Nálægð íbúa jaðarbyggða við náttúru þjóðgarðsins er mismikil eftir svæðum og þessi munur endurspeglast í menningu og sýn fólksins á sambúð lands og þjóðar til góðs og ills. Sunnan jökla mótaðist mannlíf af nálægð byggðar við jökulinn. Þar lærðu menn að lifa með beljandi jökulfljótum og síbreytilegum skriðjöklum. Norðan jökla hafði hálendið yfir sér dulúðlegan blæ óbyggðanna þar sem menn óttuðust útilegumenn og ýmsar vættir. Nær byggð mótaðist sambúðin þó af nálægð við Jökulsá á Fjöllum sem gat verið mikill farartálmi, flæmst um engjar og brotið land.

Um hálendið vestan, norðan og austan jökulsins lágu ferðaleiðir fyrr á öldum, svo sem Vatnajökulsvegur hinn forni, Biskupaleið og Bárðargata auk þess sem farið var þvert yfir jökulinn austanverðan. Minjar um leiðirnar eru vörður, kláfar, vöð og ferjustaðir en auk þess eru víða gamlir leitarmannakofar. Í Herðubreiðarlindum og Hvannalindum eru minjar um búsetu útilegumanna. Ýmis örnefni tengjast sögum og sögnum af svæðinu. Menningarminjar svæðisins eru misvel skráðar og kortlagðar. Sumum þeirra stafar hætta af landbreytingum eða umferð ferðamanna og á nokkrum stöðum eru þær að hverfa í gróður.

Heimildir og ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.