Litháen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Litháen
Lietuvos Respublika
Fáni Litháen Skjaldarmerki Litháen
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Tautiška giesmė
Staðsetning Litháen
Höfuðborg Vilníus
Opinbert tungumál litháíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Gitanas Nausėda
Forsætisráðherra Ingrida Šimonytė
Evrópusambandsaðild 2004
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
128. sæti
65.300 km²
1,35
Mannfjöldi
 - Samtals (2015)
 - Þéttleiki byggðar
123. sæti
2.900.787
45/km²
VLF (KMJ) áætl. 2014
 - Samtals 70,840 millj. dala (82. sæti)
 - Á mann 23.850 dalir (45. sæti)
VÞL (2013) Increase2.svg 0,818 (41. sæti)
Gjaldmiðill Evra (EUR)
Tímabelti UTC+2/+3
Þjóðarlén .lt
Landsnúmer +370

Litháen, Litáen eða Lýðveldið Litháen (í eldra máli Lithaugaland; litháíska: Lietuva eða Lietuvos Respublika) er land í Norður-Evrópu, eitt Eystrasaltslandanna. Það á landamæri að Lettlandi í norðri, Hvíta-Rússlandi í austri og Póllandi og Kaliningrad (Rússlandi) í suðri. Í vestri liggur landið að Eystrasalti. Opinbert tungumál landsins, litháíska, er annað tveggja baltneskra mála sem enn eru töluð. Hitt er lettneska.

Um aldir bjuggu nokkrar baltneskar þjóðir í landinu þar til Mindaugas sameinaði þær á 4. áratug 13. aldar. Hann var fyrsti stórhertogi Litháen og síðan konungur. Stórhertogadæmið gekk í Lúblínsambandið árið 1569 og Pólsk-litháíska samveldið varð til. Þessu ríki skiptu nærliggjandi stórveldi, Rússland, Prússland og Austurríki, á milli sín á árunum 1772 til 1795 og stærstur hluti Litháens féll Rússneska keisaradæminu í skaut. Undir lok fyrri heimsstyrjaldar 1918 lýsti Litháen yfir sjálfstæði. Árið 1940, í síðari heimsstyrjöld, lögðu Sovétmenn og síðan Þjóðverjar landið undir sig. Þegar Þjóðverjar hörfuðu 1944 lögðu Sovétmenn landið undir sig á ný og Sovétlýðveldið Litháen var stofnað árið 1945. Árið 1990 lýsti Litháen yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum, fyrst allra sovétlýðvelda.

Litháen gerðist aðili að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu árið 2004. Það er þátttakandi í Schengen-samstarfinu og tekur þátt í norrænu samstarfi eins og Norræna fjárfestingarbankanum. Hagvöxtur í Litháen hefur verið mjög mikill frá aldamótum og landið er því stundum kallað baltneski tígurinn. Við þróun iðnaðar í Litháen hefur verið lögð áhersla á líftækni og vélaframleiðslu. Árið 2002 var þáverandi gjaldmiðill landsins, litasið, fest við evru, en evran er nú gjaldmiðill landsins.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að fólk hafi fyrst sest að á svæðinu sem nú er Litháen eftir síðustu ísöld fyrir um 10.000 árum. Næstu árþúsund blönduðust indó-evrópskar þjóðir heimamönnum og mynduðu ýmis þjóðerni Eystrasaltslandanna. Fyrstu skriflegu heimildir þar sem minnst er á Litháen eru í þýska miðaldahandritinu Annálar Quedlinborgar, frá 9. mars 1009.

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Í lok 14. aldar var Litháen eitt af stærstu ríkjum Evrópu. Aðdragandi þess var að árið 1385 samþykkti Jogaila stórhertogi tilboð Pólverja um að verða konungur þeirra. Jogaila byrjaði að kristna Litháa, en Litháen var eitt af síðustu svæðum í Evrópu til að taka kristni.

Eftir tvær borgarastyrjaldir varð Vytautas stórhertogi af Litháen árið 1392. Á valdatíma hans náði Litháen hámarki útþenslu sinnar. Ríkið varð sífellt miðstýrðara og litháískir aðalsmenn urðu sífellt meira áberandi í stjórnmálum ríkisins.

Eftir dauða Jogaila og Vytautas reyndu litháískir aðalsmenn að brjóta upp sambandið milli Póllands og Litháen. Þeir völdu stórhertoga af Jagiellon-ættinni, en í lok 15. aldar neyddist Litháen til að taka upp nánara samband við Pólland þar sem þeim stóð ógn af hinu vaxandi stórhertogadæmi Moskvu.

Nýöld[breyta | breyta frumkóða]

Samveldið Pólland – Litháen  var stofnað árið 1569. Litháen hélt sjálfstæðum stofnunum sínum, þar á meðal eigin her og gjaldmiðli, og litháensk lög héldu gildi.  Með tímanum varð Litháen fyrir pólskum áhrifum á nær öllum sviðum, bæði í stjórnmálum, tungumáli og menningu, og sjálfsmynd íbúanna breyttist. Frá miðri 16. öld fram á miðja 17. öld blómstruðu menning, listir og menntun. Var það ekki síst vegna áhrifa frá endurreisninni og mótmælendatrú. Frá 1573 var konungur Póllands og stórhertogi af Litháen kjörinn af aðalsmönnum, sem fengu sífellt meiri völd. Þessi völd, sérstaklega neitunarvald aðalsmanna, leiddu af sér stjórnleysi og urðu hugsanlega til þess að samveldið leystist upp.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Borgir[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist