Litáen
Lýðveldið Litáen | |
Lietuvos Respublika | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Tautiška giesmė | |
Höfuðborg | Vilníus |
Opinbert tungumál | litáíska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Gitanas Nausėda |
Forsætisráðherra | Ingrida Šimonytė |
Evrópusambandsaðild | 2004 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
121. sæti 65.300 km² 1,98 |
Mannfjöldi • Samtals (2022) • Þéttleiki byggðar |
137. sæti 2.840.758[1] 43/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2022 |
• Samtals | 131 millj. dala (88. sæti) |
• Á mann | 46.158 dalir (38. sæti) |
VÞL (2021) | 0.875 (35. sæti) |
Gjaldmiðill | Evra (EUR) |
Tímabelti | UTC+2 (+3 á sumrin) |
Þjóðarlén | .lt |
Landsnúmer | +370 |
Litáen (áður oftast ritað „Litháen“, í eldra máli „Lithaugaland“; litáíska: Lietuva), formlega Lýðveldið Litáen (Lietuvos Respublika) er land í Norður-Evrópu, eitt Eystrasaltslandanna. Það á landamæri að Lettlandi í norðri, Hvíta-Rússlandi í austri og Póllandi og Kalíníngrad (Rússlandi) í suðri. Í vestri liggur landið að Eystrasalti. Opinbert tungumál landsins, litáíska, er annað tveggja baltneskra mála sem enn eru töluð. Hitt er lettneska.
Um aldir bjuggu nokkrar baltneskar þjóðir í landinu þar til Mindaugas sameinaði þær á 4. áratug 13. aldar. Hann var fyrsti stórhertogi Litáen og síðan konungur. Stórhertogadæmið gekk í Lúblínsambandið árið 1569 og Pólsk-litáíska samveldið varð til. Þessu ríki skiptu nærliggjandi stórveldi, Rússland, Prússland og Austurríki, á milli sín á árunum 1772 til 1795 og stærstur hluti Litáens féll Rússneska keisaradæminu í skaut. Undir lok fyrri heimsstyrjaldar 1918 lýsti Litáen yfir sjálfstæði. Árið 1940, í síðari heimsstyrjöld, lögðu Sovétmenn og síðan Þjóðverjar landið undir sig. Þegar Þjóðverjar hörfuðu 1944 lögðu Sovétmenn landið undir sig á ný og Sovétlýðveldið Litáen var stofnað árið 1945. Árið 1990 lýsti Litáen yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum, fyrst allra sovétlýðvelda.
Litáen gerðist aðili að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu árið 2004. Það er þátttakandi í Schengen-samstarfinu og tekur þátt í norrænu samstarfi eins og Norræna fjárfestingarbankanum. Hagvöxtur í Litáen hefur verið mjög mikill frá aldamótum og landið er því stundum kallað baltneski tígurinn.[2] Við þróun iðnaðar í Litáen hefur verið lögð áhersla á líftækni og vélaframleiðslu. Árið 2002 var þáverandi gjaldmiðill landsins, litasið, fest við evru, en evran er nú gjaldmiðill landsins.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Elsta þekkta heimildin um nafnið Litáen er úr Quedlinburg-annálnum þar sem færsla fyrir 9. mars 1009 segir frá því hvernig trúboðinn Bruno frá Querfurt var hálshöggvinn af heiðingjum við landamæri Rússlands og Litáen.[3] Þar kemur nafnið fram í latneskri útgáfu, Lituæ (af Litua).[4] Ekki eru til heimildir um það af hverju nafnið var dregið, svo merking þess er óþekkt og fræðimenn deila um uppruna orðsins.[5]
Vegna þess að Lietuva er með viðskeyti (-uva) er talið að upprunalega orðið hafi ekki haft viðskeyti.[5] Það gæti því hafa verið Lietā. Úr því að mörg baltnesk þjóðaheiti eru dregin af vatnaheitum, hafa málfræðingar leitað að uppruna orðsins í vatnaheitum.[6] Lietava er lækur sem rennur skammt frá Kernavė, á kjarnasvæði þess sem síðar varð hertogadæmið Litáen og var líklega fyrsta höfuðborg stórfurstadæmisins. Hann er því talinn líklegur uppruni heitisins.[6] Lækurinn er hins vegar svo lítill að mörgum þykir ólíklegt að landið geti hafa dregið nafn sitt af honum, þótt slíkt sé ekki einstakt í veraldarsögunni.[7]
Litáíski sagnfræðingurinn Artūras Dubonis hefur stungið upp á annarri tilgátu,[8] að heitið Lietuva tengist orðinu leičiai (fleirtala af leitis). Frá miðri 13. öld voru leičiai stríðsmenn í litáísku samfélagi sem heyrðu undir þjóðhöfðingjann eða ríkið sjálft. Orðið leičiai er notað í heimildum frá 14. til 16. aldar sem þjóðarheiti yfir Litáa (en ekki Semgalla) og er enn notað í sögulegu samhengi, í lettnesku, sem er náskyld litáísku.[9][10][11]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Forsaga
[breyta | breyta frumkóða]Talið er að fólk hafi fyrst sest að á svæðinu sem nú er Litáen eftir lok síðustu ísaldar, fyrir um 10.000 árum. Talið er að þetta hafi verið veiðimenn og safnarar án fastrar búsetu. Um árið 3000 f.o.t. barst snúrukeramikmenningin til Eystrasaltsins með skipulegan landbúnað. Hugsanlega voru það fyrstu Indóevrópumennirnir sem baltneskar þjóðir greindust síðar út frá. Litáísk-bandaríski fornleifafræðingurinn Marija Gimbutas ályktaði út frá örnefnum að frumheimkynni baltnesku þjóðanna hefðu náð frá strönd núverandi Prússlands að Rígaflóa í norðri að Moskvu í austri, en það er umdeilt.[12]
Litlar heimildir eru til um baltneskar þjóðir frá fornöld. Kládíus Ptólmæos ritaði um Jótvinga og Galinda. Á ármiðöldum er minnst á Prússa, Kúri og Semigalla. Litáen byggðist meðfram Neman-fljóti. Á ármiðöldum skiptist landið sem í dag er Litáen í tvö menningarsvæði: Samógitíu, láglendið í vestri þar sem fólk stundaði greftranir; og Aukštaitija, hálendið í austri þar sem fólk stundaði bálfarir.[13] Vegna þess hve Litáar héldu lengi í heiðna trú og ýmis fornleg einkenni litáísku er talið að landið hafi verið lengur afskipt en önnur héruð við austurströnd Eystrasalts. Litáíska er talin hafa greinst frá lettnesku á 7. öld.[14]
Fyrstu skriflegu heimildir þar sem minnst er á Litáen (sem Litua) eru í þýska miðaldahandritinu Annálar Quedlinborgar, frá 9. mars 1009.[15] Frá 9. til 11. aldar urðu strandhéruðin við Eystrasalt reglulega fyrir árásum víkinga og á 11. öld gerði Jarisleifur Valdimarsson innrásir í Litáen. Á 12. öld snerist taflið við, og Litáar herjuðu á Garðaríki, allt suður til Kænugarðs.
Miðaldir
[breyta | breyta frumkóða]Átök við norrænu konungsríkin í vestri, Kænugarð í austri og þýskumælandi landnema í suðri, urðu til þess að baltnesku þjóðirnar tóku upp meira samstarf sín á milli. Sérstök stétt hermanna varð til sem fór í ránsferðir inn í nágrannaríki og tók þræla, sérstaklega í hinu stóra ríki Kænugarðs sem var á fallanda fæti í byrjun 13. aldar. Árið 1219 undirritaði 21 litáískur höfðingi friðarsamning sem er ein fyrsta heimildin um sameiningu þeirra í stærri ríkisheild.[16] Á sama tíma hófu sverðbræður í norðri og þýsku riddararnir í suðri að gera árásir á lönd Litáa sem sameinuðust undir stjórn Mindaugasar. Litáar unnu sigur á sverðbræðrum í orrustunni við Sól 1236. Eftir það gengu sverðbræður í þýsku riddararegluna. Mindaugas þurfti að tryggja völd sín gegn keppinautum innanlands og voldugum óvinum utanlands, eins og Daníel af Galisíu.[17] Hann tók kristni, gerði samkomulag við riddarana og náði þannig að vinna sigur á bandalagi Jótvinga, Samógita og Líflendinga 1250. Tíu árum síðar gekk Mindaugas af trúnni, gerði samkomulag við Samógíta og réðist á þýsku riddarana, um leið og hann vann ný lönd í austri.
Eftir lát Mindaugasar tók við ófriðartími þar sem Litáen átti í átökum við bæði evrópska krossfara og Gullnu horduna.[18] Þýsku riddararnir lögðu fleiri Eystrasaltsþjóðir undir sig og héldu í ránsferðir inn í Litáen. Árið 1285 tók Gediminas-ætt við völdum í Litáen. Gediminas átti í bréfaskiptum við Jóhannes 22. páfa og fékk hann til að banna riddurunum að ræna í Litáen tímabundið.[19] Dóttir Gediminasar, Aldona af Litáen, gekk að eiga Kasimír erfðaprins í Póllandi og varð síðar drottning þar. Undir stjórn Gediminasar lagði Litáen undir sig stór svæði fyrrum Kænugarðs í austri (Rúteníu) sem hafði mikil áhrif á stjórnkerfi, menningu og trú landsins.[20] Aðeins um 10% af löndum hertogadæmisins voru í hinu eiginlega Litáen.[13]: 60 Árið 1345 tók elsti sonur Gediminasar, Algirdas, við titli stórhertoga, en ríkti aðallega yfir austurhlutanum, meðan vesturhlutinn var undir stjórn bróður hans, Kęstutis. Árið 1377 tók sonur Algirdasar, Jogaila, við hertogatitlinum og lenti nær strax í átökum við frænda sinn, Kęstutis. Borgarastyrjöld hófst í kjölfarið og Jogaila náði Kęstutis á sitt vald, en sonur hans, Vytautas, slapp.
Konungssamband við Pólland
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1385 bauð pólski aðallinn Jogaila stórhertoga að gerast konungur Póllands með því að giftast 13 ára dóttur Ungverjalandskonungs, Játveigu, sem var ríkjandi einvaldur. Eina skilyrðið var að hann tæki upp kaþólska trú. Skírn Jogaila fól í sér kristnitöku í Litáen þegar hann sneri aftur þangað frá Póllandi sumarið 1386 og stofnaði biskupsdæmi í Vilníus árið eftir. Það kom þó ekki í veg fyrir að litáíska borgarastyrjöldin brytist út 1389 þar sem Vytautas barðist gegn frænda sínum Jogaila með stuðningi þýsku riddaranna. Með samningum 1392 fékk Vytautas yfirráð yfir Litáen, en varð að láta riddurunum hluta Samógitíu eftir með Salynas-sáttmálanum. Í austri reyndi Vytautas að auka við lönd sín með stríði við Gullnu horduna og samningum við Stórhertogadæmið Moskvu.
Uppgjör við þýsku riddarana hófst með uppreisn íbúa í Samógitíu árið 1409. Árið eftir vann sameinaður her Litáa og Pólverja afgerandi sigur á riddurunum í orrustunni við Grunwald. Þegar Vasilíj 1. af Moskvu lést 1423 stýrði Vytautas Moskvu ásamt dóttur sinni, ekkju Vasilíjs, Soffíu af Litáen. Hann innlimaði Pskov og Hólmgarð í ríki sitt 1426 og 1428. Eftir að Vytautas lést braust önnur borgarastyrjöld út í Litáen sem lauk með því að Kasimír 4., sonur Jogaila, var gerður að stórhertoga. Jagiellon-ætt ríkti eftir það óslitið yfir bæði stórhertogadæminu og konungsríkinu Póllandi. Stjórnkerfi ríkjanna voru aðskilin og rútenska var áfram stjórnsýslumál í Litáen. Árið 1492 hóf Ívan 3. af Moskvu (barnabarnabarn Vytautasar) að leggja undir sig fyrrum lönd Kænugarðs sem nú voru hluti af Litáen. Í kjölfarið misstu Litáar þriðjung af rútensku héruðunum til Moskvu, allt að Gomel (nú austurlandamæri Hvíta-Rússlands). Í norðri var Líflandi skipt milli Svía, Rússa, Pólverja og Litáa.[21] Litáar voru háðir pólskum her við að halda löndum sínum í austri sem skapaði aukinn þrýsting á nánari samruna ríkjanna. Sigmundur 2. Ágústus fékk rútensku bojarana til að samþykkja sameiningu með því að auka völd þeirra til samræmis við aðra aðalsmenn í Litáen, og neyddi svo litáíska aðalinn til að samþykkja sameiginlegt þing landanna í Lúblín árið 1569.
Samveldið 1569-1795
[breyta | breyta frumkóða]Með Lúblínsambandinu mynduðu Pólland og Litáen nýtt aðalsmannalýðveldi sem var almennt nefnt Pólsk-litáíska samveldið. Konungsríkið Pólland og Stórhertogadæmið Litáen voru samt áfram til sem aðildarlönd lýðveldisins undir stjórn aðalsins. Löndin tóku upp sameiginlega utanríkisstefnu, gjaldmiðil og tollheimtu, en héldu aðskildum lögum, herjum og fjárveitingarvaldi. Litáíski dómstóllinn var stofnaður sem hliðstæða við Krúnudómstólinn í Póllandi 1581. Eftir að Sigmundur 2. Ágústus lést 1572, var Stefán Báthory kosinn einvaldur yfir báðum löndum. Á þeim tíma var litáíski aðallinn farinn að nota pólsku í stað hinnar hefðbundnu rútensku sem stjórnsýslumál. Í byrjun voru flestir íbúar Litáens í rétttrúnaðarkirkjunni en með tímanum sótti kaþólska kirkjan á. Með tímanum varð Litháen fyrir pólskum áhrifum á nær öllum sviðum, bæði í stjórnmálum, tungumáli og menningu, og sjálfsmynd íbúanna breyttist. Frá miðri 16. öld fram á miðja 17. öld blómstruðu menning, listir og menntun. Var það ekki síst vegna áhrifa frá endurreisninni og mótmælendatrú.
Við sameininguna flutti Sigmundur 2. suðausturhluta stórhertogadæmisins (Úkraínu) undir pólsku krúnuna. Stórhertogadæmið náði þá yfir núverandi Litáen, auk núverandi Hvíta-Rússlands og hluta núverandi Rússlands. Konungur Póllands og stórhertogi Litáens voru alltaf sami maður. Aðallinn naut réttinda sem voru skilgreind sem gyllta frelsið (Złota Wolność) og fólu í sér neitunarvald. Í landinu ríkti mikið trúfrelsi sem var einstakt í Evrópu á þeim tíma og leiddi til þess að þar blómstruðu ólíkar kirkjudeildir og samfélög gyðinga. Ríkið veiktist hins vegar vegna innbyrðis átaka og stríðs við rísandi veldi Svía og Rússa. Kmelnitskíjuppreisnin 1648 bjó til hálfsjálfstætt ríki kósakka í Úkraínu í bandalagi við ýmist Rússa, Pólverja eða Tyrki.[22] Í Karls Gústafsstríðunum 1655-1661 réðust Svíar inn í Litáen og Rússar brenndu Vilníus til grunna. Landið varð aftur stríðsvettvangur í Norðurlandaófriðnum mikla 1700-1721.
Þessi stríðsátök og sjúkdómsfaraldrar sem þeim fylgdu urðu til þess að íbúum fækkaði um 40%. Tilraunir til lagalegra umbóta voru stöðvaðar af aðalsmönnum sem beittu neitunarvaldi sínu gegn þeim. Með nýrri stjórnarskrá 1791 var reynt að sameina löndin frekar, en skiptingar Póllands 1772, 1793 og 1795 þurrkuðu landið út af landakortum þegar Prússland, Rússaveldi og Habsborgaraveldið skiptu því á milli sín. Yfir 90% af landi stórhertogadæmisins féllu Rússaveldi í skaut.
Rússaveldi 1795-1918
[breyta | breyta frumkóða]Í kjölfarið á skiptingum Pólsk-litáíska samveldisins varð suðvesturhluti Litáens hluti af Austur-Prússlandi, en megnið af landinu var innlimað í Rússaveldi. Vilníus varð höfuðborg landstjóraumdæmisins Vilna. Árið 1803 gerði Alexander 1. Vilníusháskóla að keisaralegum háskóla sem varð sá stærsti í Rússaveldi. Árið 1812 gerði Napoléon Bonaparte innrás í Rússaveldi og margir Litáar fögnuðu Grande Armée Napóleons sem frelsurum undan oki keisarastjórnarinnar. Eftir ósigur Napóleons varð suðvesturhluti Litáens hluti af Kongress-Póllandi, sem var rússneskt leppríki.
Árið 1830 hófst Nóvemberuppreisnin í Póllandi sem var barin á bak aftur og leiddi til aukinnar kúgunar af hálfu keisarastjórnarinnar. Háskólanum var lokað í valdatíð Nikulásar 1. og herferð rússneskuvæðingar hófst. Litáen og nágrannalönd urðu hluti af Norðvesturhéraðinu. Þrátt fyrir það var pólska áfram notuð í skólum. Margir menntamenn í Litáen töldu að áhersla á litáísku og menningu bænda væri forsenda nýrrar litáískrar sjálfsmyndar og aukinnar sjálfstjórnar, þótt þeir væru flestir sjálfir pólskumælandi. Saga Litáens í níu bindum eftir Teodor Narbutt sem kom út frá 1835-1841 varð undirstaða litáískrar þjóðernisvakningar.[23]
Afnám bændaánauðar í Rússaveldi 1861 skapaði stétt sjálfseignarbænda sem áttu litáísku að móðurmáli, ólíkt íbúum í borgum sem flestir töluðu pólsku sem fyrsta mál. Eftir Janúaruppreisnina 1864 var hert á rússneskuvæðingu Litáens sem bitnaði fyrst og fremst á pólsku. Prentun bóka með latínuletri var bönnuð og mörgum framhaldsskólum var lokað. Hungursneyð reið yfir landið 1868-9 og þúsundir Litáa fluttust til vaxandi borga í Rússlandi og til Ameríku.[24] Undir lok 19. aldar efldist þjóðernisvakning Litáa. Bækur og tímarit á litáísku, eins og Aušra og Varpas, voru prentuð í Austur-Prússlandi og smyglað yfir landamærin.
Í fyrri heimsstyrjöld lagði Þýska keisaradæmið Litáen og Kúrland undir sig og náði Vilníus á sitt vald 19. september 1915. Litáen varð hluti af hernámssvæðinu Ober Ost. Þjóðverjar sáu fyrir sér að gera Kúrland, Litáen og Hvíta-Rússland að leppríkjum sem væru sjálfstæð að nafninu til, þar sem innlimun hefði vakið neikvæð viðbrögð alþjóðasamfélagsins.
Sjálfstætt Litáen 1918-1940
[breyta | breyta frumkóða]Undir lok fyrri heimsstyrjaldar reyndi hernámslið Þýska keisaradæmisins að gera Litáen að sjálfstæðu leppríki í nánum tengslum við Þýskaland. Kosið var 20 manna Litáenráð sem fór með framkvæmdavald fyrir hönd Litáa.[25] Ráðið lýsti yfir stofnun sjálfstæðs ríkis Litáa 16. febrúar 1918. Þýska hernámsliðið var andvígt yfirlýsingunni og reyndi að koma í veg fyrir útfærslu hennar. Á sama tíma reyndu sósíalistar að koma á fjölþjóðlegu ríki Litáa og Hvítrússa miðað við landamæri gamla stórhertogadæmisins. Alþýðulýðveldið Belarús var stofnað og átti að ná yfir Vilníus. Litáar höfðu hins vegar meiri áhuga á stofnun þjóðríkis. Eftir ósigur Þjóðverja í heimsstyrjöldinni mynduðu Litáar nýja ríkisstjórn undir forsæti Augustinas Voldemaras.
Rauði herinn sótti að landamærum Litáen í árslok 1918 og stríð Sovétríkjanna og Litáens hófst. Þann 1. janúar 1919 dró þýski herinn sig frá Vilníus og lét Pólverjum borgina eftir. Pólland gerði tilkall til héraðsins í kringum borgina. Józef Piłsudski vildi koma á sambandsríki landanna tveggja, en litáískir stjórnmálamenn voru því mótfallnir. Í frelsisstríði Litáens börðust Litáar því gegn Rauða hernum, Pólverjum og Vestrússneska sjálfboðahernum. Þegar stríðinu lauk í október réði Litáen yfir stærstum hluta núverandi landsvæðis, nema Vilníushéraði sem Pólverjar héldu. Kaunas var því tímabundin höfuðborg landsins næstu 19 árin.
Stjórnlagaþing Litáens kom saman í maí 1920 og ný stjórnarskrá var samþykkt í október 1922. Friðarsamningarnir í Ríga milli Póllands og Sovétríkjanna gerðu öðrum Evrópuveldum það ljóst að Pólland-Litáen yrði ekki endurreist og í kjölfarið viðurkenndu þau sjálfstæði Litáens. Árið 1923 nýtti Litáen sér Ruhr-kreppuna í Þýskalandi og lagði hafnarborgina Klaipéda undir sig. Árið 1926 misstu Kristilegir demókratar meirihluta sinn á þinginu. Ótti við valdatöku sósíalista varð til þess að þjóðernissinnar og demókratar frömdu valdarán og komu á alræðisstjórn Antanas Smetona.
Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi reyndu þeir að ná Klaipéda aftur á sitt vald og samskipti ríkjanna versnuðu til muna. Eftir innrás Þjóðverja í Tékkóslóvakíu 1939 settu Þjóðverjar Litáum úrslitakosti sem stjórnin samþykkti. Þjóðverjar tóku þá Klaipéda yfir sem var mikið áfall fyrir efnahagslíf Litáens. Adolf Hitler sá í fyrstu fyrir sér að Litáen yrði leppríki, en í Molotov-Ribbentrop-samningnum var landið sett á áhrifasvæði Sovétríkjanna í skiptum fyrir héruð í Póllandi sem Sovétríkin réðu þá yfir.
Síðari heimsstyrjöld
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Sovétríkin og Þriðja ríkið gerðu með sér Molotov-Ribbentrop-sáttmálann 1939 lenti Litáen inni á áhrifasvæði Sovétríkjanna. Fyrst eftir innrásina í Pólland lagði rauði herinn Vilnius undir sig, en gaf borgina eftir við stjórn Litáens gegn því að fá að staðsetja 20.000 hermenn í landinu samkvæmt samningi um gagnkvæma aðstoð. Vetrarstríðið hófst þegar Finnland neitaði að undirrita sams konar samning. Eftir að því lauk settu Sovétmenn Litáum úrslitakosti 14. júní 1940. Þann 21. júlí samþykkti leppstjórn Sovétmanna stofnun Sovétlýðveldisins Litáens og sótti um inngöngu í Sovétríkin.
Ári eftir stofnun sovétlýðveldis gerðu Þjóðverjar innrás í Sovétríkin. Tveimur dögum eftir innrásina náði þýski herinn Vilnius á sitt vald og viku síðar var allt Litáen undir þeirra stjórn. Litáar gerðu Júníuppreisnina gegn sovéskum yfirvöldum og mynduðu litáísku bráðabirgðastjórnina. Hún sagði af sér í ágúst og hernámsstjórnin í Litáen var felld undir Reichskommissariat Ostland.[26] Í byrjun fögnuðu margir Litáar Þjóðverjum sem frelsurum undan oki Sovétstjórnarinnar og tóku þátt í að útfæra Helförina í Litáen. Um 90% af þeim rúmlega 200.000 gyðingum sem bjuggu í Litáen voru myrt, sem er eitt hæsta hlutfallið af öllum löndum Evrópu.[27]
Sumarið 1944 náði sókn rauða hersins að austurlandamærum Litáens. Í júlí reyndi pólska andspyrnuhreyfingin Armia Krajowa að ná Vilnius úr höndum Þjóðverja án árangurs.[28]: 88 Rauði herinn náði borginni 13. júlí. Í janúar 1945 hrakti hann þýska herinn frá Klaipéda.
Sovéttíminn
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að Sovétmenn náðu Litáen úr höndum Þjóðverja í janúar 1945 flúðu þúsundir Litáa undan framrás Sovéthersins, meðal annars til Þýskalands. Aðrir gengu í andspyrnuhópa og hófu skæruhernað gegn Sovétmönnum. Þúsundir Litáa voru fluttar nauðungarflutningum frá Litáen til annarra svæða í Sovétríkjunum, meðal annars til Síberíu. Fólksflutningarnir náðu hámarki 1948 (Vesna-aðgerðin) og 1949 (Priboi-aðgerðin). Með þessum hætti náðu hernámsyfirvöldin að berja andspyrnu á bak aftur og draga úr andstöðu við samyrkjuvæðingu í landbúnaði. Síðasti andspyrnuleiðtoginn, Adolfas Ramanauskas, var tekinn af lífi í nóvember 1957.[29] Sovésk yfirvöld hvöttu til innflutnings fólks annars staðar frá til að styðja við iðnvæðingu í Litáen.
Þrátt fyrir nauðungarflutningana var litáískuvæðing einkenni á Sovéttímanum fremur en rússneskuvæðing, þar sem pólsku- og þýskumælandi íbúar Vilnius hröktust á brott meðan litáískumælandi íbúar settust þar að.[28]: 93 Vilnius-háskóli var endurreistur eftir stríðið og kennsla fór þar fram á litáísku. Eftir að Stalínstímanum lauk gengu litáískir menntamenn í Litáíska kommúnistaflokkinn sem ríkti yfir landinu.[28]: 93–95 Ofsóknir gegn kaþólsku kirkjunni voru áberandi og kúgun og spilling einkenndi samfélagið, líkt og annars staðar í Sovétríkjunum.[30]
Eftir að umbætur Gorbatsjevs hófust eftir miðjan 9. áratug 20. aldar myndaðist sjálfstæðishreyfingin Sąjūdis í Litáen. Margir framámenn í kommúnistaflokknum voru hallir undir slíkar hugmyndir. Æðstaráð Sovétlýðveldisins Litáens samþykkti að litáísk lög hefðu forgang fram yfir sovésk lög og tók aftur upp þjóðartákn Litáens, fánann og þjóðsönginn. Algirdas Brazauskas varð aðalritari flokksins árið 1988. Þegar 50 ár voru liðin frá undirritun Molotov-Ribbentrop-sáttmálans í ágúst 1989 mótmæltu íbúar Eystrasaltslandanna með því að mynda mennska keðju frá Tallinn til Vilnius 600 km leið. Í desember 1990 lýsti kommúnistaflokkurinn yfir sjálfstæði sínu frá Sovéska kommúnistaflokknum og tók upp heitið Demókratíski verkamannaflokkurinn í Litáen.
Endurheimt sjálfstæðis
[breyta | breyta frumkóða]Þann 11. mars árið 1990 lýsti æðstaráð lýðveldisins Litáens því yfir að landið væri sjálfstætt. Litáen varð þar með fyrsta sovétlýðveldið sem lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Sovétríkin brugðust við með því að setja viðskiptabann á Litáen og hættu að senda þangað hráefni.[31] Brátt gerði vöruskortur vart við sig. Viðskiptabannið stóð í 74 daga, án þess að Litáar drægju sjálfstæðisyfirlýsinguna til baka.
Viðskiptum var smám saman komið á á ný, en spenna jókst í janúar 1991 þegar sovéska innanríkisráðuneytið og öryggislögreglan KGB reyndu að fremja valdarán með aðstoð sovéthersins. Stjórnvöld í Moskvu töldu að efnahagsástandið í Litáen myndi tryggja stuðning almennings við valdaránið.[32] Þess í stað flykktist fólk til Vilnius til að verja æðstaráðið og sjálfstæði landsins. Sovétherinn drap 14 manns og særði mörg hundruð í Janúarviðburðunum.[33][34] Þann 11. febrúar samþykkti Alþingi ályktun um að viðurkenning Íslands á sjálfstæði Litáens frá 1922 stæði enn[35] og að koma bæri á stjórnmálatengslum milli landanna sem fyrst.[36][37] Í kjölfarið kölluðu Sovétríkin sendiherra sinn frá Íslandi.[38] Danmörk og fleiri Evrópuríki fylgdu í kjölfarið og 26. ágúst var sendiherra Danmerkur í Litáen skipaður fyrsti erlendi stjórnarerindrekinn í landinu.[39] Þann 31. júlí 1991 myrtu sovéskir hermenn sjö litáíska landamæraverði við landamærin að Hvíta-Rússlandi í Medininkai-blóðbaðinu.[40] Þann 17. september 1991 var aðildarumsókn Litáens að Sameinuðu þjóðunum samþykkt.
Þann 25. október 1992 samþykktu Litáar núverandi stjórnarskrá Litáens í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann 14. febrúar 1993 tók Algirdas Brazauskas við embætti forseta Litáens. Síðustu hersveitir fyrrum sovéthersins yfirgáfu landið 31. ágúst 1993.[41]
Þann 31. maí 2001 gerðist Litáen aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni[42] og í mars 2004 var aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu samþykkt.[43] Þann 1. maí sama ár gekk Litáen í Evrópusambandið[44] og í desember 2007 varð landið hluti af Schengen-svæðinu.[45] Þann 1. janúar 2015 tók Litáen upp evruna sem gjaldmiðil.[46] Þann 4. júlí 2018 varð Litáen aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni.[47] Árið 2009 tók Dalia Grybauskaitė við sem fyrsti kvenforseti Litáens og 2014 var hún fyrsti forsetinn sem náði endurkjöri.[48] Þann 24. febrúar 2022 lýsti Litáen yfir gildistöku neyðarlaga vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.[49] Leiðtogafundur NATO var haldinn í Vilnius í júlí 2023.[50]
Fyrst eftir aðildina að Evrópusambandinu var efnahagsuppgangur í Litáen. Landið varð fyrir miklum skakkaföllum í alþjóðlegu fjármálakreppunni og samdrátturinn varð 15% árið 2009.[51] Eftir inngöngu Litáens í Evrópusambandið hefur brottflutningur ungs fólks í leit að tækifærum erlendis verið einna mestur í Litáen, á eftir Búlgaríu.[52]
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Litáen er við Eystrasalt í Norður-Evrópu og nær yfir 65.300 km2 svæði.[53] Landið er að mestu á milli 53. og 57. breiddargráðu norður og 21. og 27. lengdargráðu austur (hluti af Kúrlandseiði liggur vestan við 21. gráðu). Sendin strandlengjan er um 99 km löng, en aðeins 38 km liggja að Eystrasalti, sem er minna en hjá hinum Eystrasaltslöndunum. Afgangurinn af ströndinni liggur að Kúrlandslóni innan við Kúrlandseiði. Helsta hafnarborg Litáens, Klaipeda, liggur við norðurenda Kúrlandseiðis þar sem er siglingaleið inn á lónið. Lónið skiptist milli Litáens og Rússlands (Kaliníngrad). Stærsta fljót Litáens, Nemunasfljót, rennur út í lónið og ber skipaumferð.
Litáen liggur á brún Norður-Evrópusléttunnar. Landslagið er mótað af jöklum við síðustu ísöld þar sem hæðardrög og láglendi skiptast á. Hæsti tindur Litáens er Aukštojas-hæð, 294 metrar á hæð, í austurhluta landsins. Fjölmörg stöðuvötn eru í Litáen (til dæmis Vištytis-vatn) og mikið um votlendi. Blandaður skógur þekur yfir þriðjung landsins. Stærsta stöðuvatn Litáens er Drūkšiai, það dýpsta er Tauragnas og það lengsta er Asveja.
Eftir endurskoðun á landamærum heimsálfunnar Evrópu árið 1989, komst franski landfræðingurinn Jean-George Affholder að þeirri niðurstöðu að landfræðileg miðja Evrópu væri í Litáen, við 54°54′N 25°19′A / 54.900°N 25.317°A, um 26 km norðan við höfuðborgina Vilnius.[54]
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Núverandi skiptingu í stjórnsýslueiningar var komið á 1994 og breytt árið 2000 til að mæta kröfum Evrópusambandsins. Landið skiptist í 10 sýslur (litáíska: apskritis (et.), apskritys (ft.)), sem aftur skiptast í 60 sveitarfélög (litáíska: savivaldybė (et.), savivaldybės (ft.)), sem aftur skiptast í 500 öldungsdæmi (litáíska: seniūnija (et.), seniūnijos (ft.)).
Sveitarfélögin hafa verið helsta neðra stjórnsýslustigið síðan embætti sýslumanna voru lögð niður árið 2010.[55] Sum sveitarfélög hafa verið nefnd „héraðssveitarfélög“ meðan önnur eru nefnd „borgarsveitarfélög“. Hvert sveitarfélag hefur kjörna stjórn. Kosið er til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti (en var áður á þriggja ára fresti). Sveitarstjórn skipar öldunga yfir öldungaumdæmin. Sveitarstjórar hafa verið kosnir í beinum kosningum síðan 2015. Áður voru þeir skipaðir af sveitarstjórn.[56]
Öldungsdæmin, sem eru yfir 500 talsins, eru minnstu einingarnar og gegna engu formlegu hlutverki í stjórnmálum. Þau sjá um að veita opinbera þjónustu á staðnum, eins og skráningu fæddra og látinna í dreifbýli. Helsta hlutverk þeirra er félagsþjónusta, að skipuleggja fátækraþjónustu og aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í vanda.[57] Sumum þykir að öldungsdæmin hafi engin raunveruleg völd og hljóti of litla athygli, meðan þau gætu verið vettvangur til að takast á við staðbundin vandamál.[58]
Sýsla | Stærð (km2) | Íbúar (þúsund) (2019)[59] | VLF (milljarðar EUR)[59] | VLF á mann (EUR)[59] |
---|---|---|---|---|
Alytus-sýsla | 5.425 | 134 | 1,6 | 11.500 |
Kaunas-sýsla | 8.089 | 562 | 11,6 | 20.400 |
Klaipėda-sýsla | 5.209 | 319 | 6,0 | 18.400 |
Marijampolė-sýsla | 4.463 | 136 | 1,6 | 11.800 |
Panevėžys-sýsla | 7.881 | 221 | 3,0 | 14.100 |
Šiauliai-sýsla | 8.540 | 261 | 3,9 | 15.000 |
Tauragė-sýsla | 4.411 | 91 | 1,1 | 10.900 |
Telšiai-sýsla | 4.350 | 130 | 1,8 | 13.500 |
Utena-sýsla | 7.201 | 124 | 1,4 | 11.200 |
Vilnius-sýsla | 9.731 | 820 | 24,2 | 29.800 |
Litáen | 65.300 | 2.828 | 56,2 | 20.000 |
Íbúar
[breyta | breyta frumkóða]Borgir
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Pradžia – Oficialiosios statistikos portalas“. osp.stat.gov.lt.
- ↑ „Baltic tiger: Lithuania has the fastest-growing economy in Europe“. The Economist. 17. júlí 2003.
- ↑ Baranauskas, Tomas (Fall 2009). „On the Origin of the Name of Lithuania“. Lithuanian Quarterly Journal of Arts and Sciences. 55 (3). ISSN 0024-5089.
- ↑ Vilnius. Key dates Geymt 17 janúar 2007 í Wayback Machine. Sótt 18. janúar 2007.
- ↑ 5,0 5,1 Zinkevičius, Zigmas. „Lietuvos vardas“. Vle.lt (litháíska). Sótt 12. júlí 2021.
- ↑ 6,0 6,1 Zigmas Zinkevičius. Kelios mintys, kurios kyla skaitant Alfredo Bumblausko Senosios Lietuvos istoriją 1009-1795m. Voruta, 2005.
- ↑ Zinkevičius, Zigmas (30. nóvember 1999). „Lietuvos vardo kilmė“. Voruta (litháíska). 3 (669). ISSN 1392-0677. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. maí 2022.
- ↑ Dubonis, Artūras (1998). Lietuvos didžiojo kunigaikščio leičiai: iš Lietuvos ankstyvųjų valstybinių struktūrų praeities Leičiai of Grand Duke of Lithuania: from the past of Lithuanian stative structures (litháíska). Vilnius: Lietuvos istorijos instituto leidykla.
- ↑ Dubonis, Artūras. „Leičiai | Orbis Lituaniae“. LDKistorija.lt (litháíska). Vilnius University. Sótt 13. júlí 2021.
- ↑ Čeponis, Tomas; Sakalauskas, Mindaugas. Leičiai (PDF). Vilnius: Ministry of National Defence of Lithuania. ISBN 978-609-412-143-2. Sótt 13. júlí 2021.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
- ↑ Patackas, Algirdas. „Lietuva, Lieta, Leitis, arba ką reiškia žodis "Lietuva"“. Lrytas.lt (litháíska). Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí 2021. Sótt 11. ágúst 2009.
- ↑ Bojt, Endre (1999). Foreword to the Past: A Cultural History of the Baltic People. Budapest: Central European University Press. bls. 81, 113. ISBN 9789639116429. Sótt 1. apríl 2022.
- ↑ 13,0 13,1 Jerzy Ochmański (1982). Historia Litwy. Zakład Narodowy im. Ossolińskich. bls. 37.
- ↑ Eidintas, A., Bumblauskas, A., Kulakauskas, A., & Tamošaitis, M. (2013). The history of Lithuania. "Eugrimas" Publishing House. bls. 13.
- ↑ Baranauskas, Tomas (Fall 2009). „On the Origin of the Name of Lithuania“. Lithuanian Quarterly Journal of Arts and Sciences. 55 (3). ISSN 0024-5089.
- ↑ Jakštas, Juozas (1984). „Beginning of the State“. Í Albertas Gerutis (ritstjóri). Lithuania: 700 Years. translated by Algirdas Budreckis (6th. útgáfa). New York: Manyland Books. bls. 45–50. ISBN 0-87141-028-1.
- ↑ Dąbrowski, D. (2022). „Between the World of Christians and Pagans: Galician-Volhynian Rus' towards Lithuania in the 13th Century“. Continuation or Change? Borders and Frontiers in Late Antiquity and Medieval Europe. Routledge. bls. 296–315.
- ↑ Gulevych, V. (2021). „Expansion of the Grand Duchy of Lithuania in the middle and the second half of the fourteenth century and its relations with the Horde 1“. The Routledge Handbook of the Mongols and Central-Eastern Europe. Routledge. bls. 340–367.
- ↑ Rowell, S. C. (1993). „The Letters of Gediminas:" Gemachte Lüge"? Notes on a Controversy“. Jahrbücher für Geschichte Osteuropas (3): 321–360.
- ↑ Dubonis, A. (2016). „The prestige and decline of the official (state) language in the Grand Duchy of Lithuania (Fifteenth–Sixteenth Century): Problems in Belarusian Historiography“. Lithuanian Historical Studies. 20 (1): 1–30.
- ↑ Lukowski & Zawadzki (2001), pp. 58–60
- ↑ Skinner, B. (2009). „Khmelnytsky's shadow: the confessional legacy“. Citizenship and Identity in a Multinational Commonwealth: Poland-Lithuania in Context. bls. 149–169.
- ↑ Paweł Sierżęga (2019). „At the Foundations of Narbutt's Vision of Lithuania and the Relations Between Poland and Lithuania“. Res Historica. 47. doi:10.17951/rh.2019.47.157-179.
- ↑ Paulauskienė, A. (2007). Lost and found: The discovery of Lithuania in American fiction. 10. árgangur. Rodopi. bls. 38.
- ↑ Eidintas, Alfonsas; Vytautas Žalys; Alfred Erich Senn (september 1999). „Chapter 1: Restoration of the State“. Í Edvardas Tuskenis (ritstjóri). Lithuania in European Politics: The Years of the First Republic, 1918–1940 (Paperback. útgáfa). New York: St. Martin's Press. bls. 20–28. ISBN 0-312-22458-3.
- ↑ Gaunt, D. (2010). „Reichskommissariat Ostland“. The Routledge history of the Holocaust. Routledge. bls. 210–220.
- ↑ Porat, D. (2002). „The Holocaust in Lithuania: some unique aspects“. The Final Solution. Routledge. bls. 169–184.
- ↑ 28,0 28,1 28,2 Timothy Snyder (2003). The Reconstruction of Nations: Poland, Ukraine, Lithuania, Belarus, 1569-1999.
- ↑ Kozakaitė, J. (2022). „Forest brothers-the search and identification of the participants of anti-soviet resistance“. Scandinavian Journal of Forensic Science. 28 (s1): 50–54.
- ↑ Streikus, A. (2021). „The Roman Catholic Church in Lithuania and Its Soviet Past“. Churches, Memory and Justice in Post-Communism. Palgrave Macmillan. bls. 203–221.
- ↑ Martha Brill Olcott (1990). „The Lithuanian Crisis“. www.foreignaffairs.com. Afrit af uppruna á 20. júlí 2021. Sótt 18. nóvember 2018.
- ↑ „10 svarbiausių 1991–ųjų sausio įvykių, kuriuos privalote žinoti“. 15min.lt. Afrit af uppruna á 25. júní 2021. Sótt 13. janúar 2016.
- ↑ „On This Day 13 January 1991: Bloodshed at Lithuanian TV station“. BBC News. 13. janúar 1991. Afrit af uppruna á 9. nóvember 2017. Sótt 13. september 2011.
- ↑ Bill Keller (14. janúar 1991). „Soviet crackdown; Soviet loyalists in charge after attack in Lithuania; 13 dead; curfew is imposed“. The New York Times. Afrit af uppruna á 17. apríl 2021. Sótt 18. desember 2009.
- ↑ „Svo fIjótt sem verða má“. Þjóðviljinn. 12. febrúar 1991. Sótt 28. október 2018.
- ↑ „Stjórnmálasamband verði tekið upp svo fljótt sem verða má“. Morgunblaðið. 12. febrúar 1991. Sótt 28. október 2018.
- ↑ „Viðurkenning á sjálfstæði í fullu gildi“. Dagblaðið Vísir. 12. febrúar 1991. Sótt 28. október 2018.
- ↑ "Soviets Recall Envoy After Iceland Recognizes Lithuania". Associated Press. The Los Angeles Times. 14 February 1991. p. P2.
- ↑ Mellgren, Doug (August 27, 1991). "First foreign envoy to Baltics arrives in Lithuania". Associated Press. The Philadelphia Inquirer (Philadelphia, Pennsylvania, USA). p. 8A.
- ↑ „Memorial. Medininkai – Cold war sites“. coldwarsites.net. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. maí 2021. Sótt 2. desember 2017.
- ↑ Richard J. Krickus (júní 1997). „Democratization in Lithuania“. Í K. Dawisha and B. Parrott (ritstjóri). The Consolidation of Democracy in East-Central Europe. Cambridge University Press. bls. 344. ISBN 978-0-521-59938-2.
- ↑ „WTO - Accessions: Lithuania“. www.wto.org. Afrit af uppruna á 31. maí 2021. Sótt 30. mars 2021.
- ↑ „Lithuania's membership in the North Atlantic Treaty Organization (NATO)“. urm.lt. 5. febrúar 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. apríl 2021. Sótt 30. mars 2021.
- ↑ „Membership“. urm.lt. 6. janúar 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. júní 2021. Sótt 30. mars 2021.
- ↑ „Lithuania has joined the Schengen Area“. mfa.lt. 16. janúar 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. júní 2021. Sótt 30. mars 2021.
- ↑ Kropaite, Zivile (1. janúar 2015). „Lithuania joins Baltic neighbours in euro club“. BBC News. Afrit af uppruna á 3. júlí 2021. Sótt 30. mars 2021.
- ↑ „Lithuania officially becomes the 36th OECD member“. lrv.lt. 5. júlí 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. júlí 2021. Sótt 30. mars 2021.
- ↑ „Lithuania President Re-elected on Anti-Russian Platform“. VOA. 26. maí 2014. Afrit af uppruna á 8. apríl 2023. Sótt 8. apríl 2023.
- ↑ „Lithuania declares state of emergency after Russia invades Ukraine“. Reuters. 24. febrúar 2022. Afrit af uppruna á 24. febrúar 2022. Sótt 8. júní 2022.
- ↑ „2023 NATO Summit“. NATO. Afrit af uppruna á 22. september 2023. Sótt 18. september 2023.
- ↑ Raimondas Kuodis, Tomas Ramanauskas (2009). „From boom to bust: Lessons from Lithuania“ (PDF). Pinigų studijos. 1: 96.
- ↑ Kumpikaitė-Valiūnienė, V. (2019). „Four Lithuanian emigration waves: comparison analysis of the main host countries“. Diaspora Networks in International Business: Perspectives for Understanding and Managing Diaspora Business and Resources. bls. 159–181.
- ↑ „Lithuania“. Canada.ca. Sótt 18. júní 2020.
- ↑ Jan S. Krogh. „Other Places of Interest: Central Europe“. Sótt 31. desember 2011.
- ↑ (Republic of Lithuania Annul Law on County Governing), Seimas-lagasafnið, 7. júlí 2009, Lög nr. XI-318.
- ↑ Justinas Vanagas, Seimo Seimas įteisino tiesioginius merų rinkimus Geymt 14 október 2017 í Wayback Machine, Delfi.lt, 26. júní 2014. Sótt 26. mars 2015.
- ↑ Lietuvos Respublikos vietos savivaldos įstatymo pakeitimo įstatymas, Seimas-lagasafnið, 12. október 2000, Lög nr. VIII-2018. Sótt 3. júní 2006.
- ↑ Indrė Makaraitytė, Europos Sąjungos pinigai kaimo neišgelbės, Atgimimas, Delfi.lt, 16. desember 2004. Sótt 4. júní 2006.
- ↑ 59,0 59,1 59,2 „BENDRASIS VIDAUS PRODUKTAS PAGAL APSKRITIS 2021 M.“ (litháíska). Statistics Lithuania. 25. nóvember 2016. Sótt 22. nóvember 2018.