Stjórnarráðshúsið
Stjórnarráðshúsið er veglegt hús sem stendur við Lækjargötu í Reykjavík. Í því er forsætisráðuneytið til húsa. Byggingin var upphaflega reist sem fyrsta tugthúsið á Íslandi, upp úr miðri 18. öld.
Forsaga hússins
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta þekkta heimild þar sem birtast vangaveltur um að reisa hegningarhús á Íslandi er í bréfi Henriks Ocksen stiftamtmanns til amtmannsins Joachim Henriksen Lafrenz, frá árinu 1733. Katrín Ingjaldsdóttir nokkur hafði þá verið dæmd til dauða á Íslandi en náðuð af konungi, sem mildaði dóm hennar í ævilanga hegningarhúsvinnu. Slík náðun var ekki óalgeng. Þar sem engin aðstaða var á landinu til að halda mönnum föngnum um aldur og ævi voru fangar sendir til refsivistar í Danmörku.[1]
Þann 20. mars 1759 gaf Danakonungur loks út úrskurð um að byggja þyrfti tugthús á Íslandi. Var það að undirlagi Skúla Magnússonar „fógeta“, meðal annars í leit að lausn á „flakkaraplágunni“ sem svo var nefnd, þ.e. að því fólki fór fjölgandi á landinu sem ekki var í fastri vist á bæjum. Árið 1753 leitaði Skúli eftir styrk frá konungi til að reisa betrunarhús, „sem tekið geti við ungum og hraustum umrenningum og beiningamönnum, sem renni um landið í hópum“.[2] Bygging hússins hófst árið 1761 og tóku dæmdir menn þá út refsingu sína með vinnu að byggingu þess. Húsið var tilbúið til notkunar áratug síðar, veturinn 1770–71.
Hegningarhúsið, sem alvanalegt var að nefna Múrinn, varð við það fyrsta og um langa hríð eina tukthús Íslands. Fanga í hegningarhúsinu nýtti Skúli Magnússon sem vinnuafl fyrir Innréttingarnar. Þegar halla tók undan fæti í rekstri Innréttinganna voru fangarnir leigðir út af tugthúsinu sem vinnuafl innan Reykjavíkur. Innan stjórnsýslu danska konungsveldisins, sem Ísland tilheyrði á þeim tíma, var þeirra ætíð getið sem slave, það er þræla, og stöðu þeirra innan tugthússins sem slaverie, það er þrældóms. Þrælarnir lögðu hönd á plóg við mörg þeirra verka sem vinna þurfti í hinni vaxandi byggð.
Til byggingar og reksturs tugthússins var lagður skattur á fasteignir og kúgildi til fangahalds (Tukthústollurinn), og var óvinsæll meðal alþýðunnar. Tugthúsið var lagt niður árið 1816.
Tugthúsið sem aðsetur stjórnvalda
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1904 tók fyrsta íslenska ráðuneytið til starfa í húsinu, og síðar stjórnarráðið, sem húsið heitir eftir, 1918. Allar götur síðan hafa starfsstöðvar forsætisráðherra og ríkisstjórnar Íslands verið í húsinu. Þá var skrifstofa embættis forseta Íslands til húsa í Stjórnarráðshúsinu frá 1973-1996. Við Stjórnarráðshúsið var íslenskur þjóðfáni dreginn fyrst að hún.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- Grein á vef forsætisráðuneytis um Stjórnarráðshúsið
- Stjórnarráðið er nú 200 ára gamalt; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1959