Sérstakur saksóknari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Sérstakur saksóknari er embætti sem komið var á fót eftir Bankahrunið 2008.[1] Auglýst var eftir sérstökum saksóknara í desember 2008. Í auglýsingunni var talið upp hvað helst þyrfti að prýða umsækjendur:

Umsækjendur skulu fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara en þau kveða meðal annars á um góða heilsu, lögræði, óflekkað mannorð, próf í lögfræði og tiltekna starfsreynslu. Sérstakur saksóknari þarf að opinbera upplýsingar um hlutabréfaeign í gömlu bönkunum, skuldir við þá og tengsl sín og skyldmenna við þá. Dómsmálaráðherra skipar í embættið en hann hefur lýst yfir vilja til að eiga samráð við alla flokka um verkið. [2]

Enginn sótti um. Björn Bjarnason skipaði þá Ólaf Þór Hauksson, sýslumann á Akranesi í embættið þann 13. janúar 2009.[3]

Á heimasíðu sérstaks saksóknara segir svo um hlutverk hans.

Embættinu var komið á fót til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða er leiddu til bankahrunsins, hvort sem grunur tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga. Eftir atvikum skal sérstakur saksóknari fylgja eftir rannsókn með saksókn.
 
— Af vefsetrinu serstakursaksoknari.is[4]

Eva Joly[breyta | breyta frumkóða]

Þann 8. mars 2009 tók Egill Helgason, blaðamaður og sjónvarpsmaður, viðtal við Evu Joly, sem er einn fremsti rannsakandi efnahagsbrota í Evrópu og hafði viðtalið mikil áhrif á umræðuna á Íslandi. Hún sagði síðan á opnum fundi í Háskólanum í Reykjavík, þann 10. mars, að það væri brandari að einungis fjórir starfsmenn væru við störf hjá embætti sérstaks saksóknara. Ólafur Þór tók undir með henni og fagnaði gagnrýni hennar.[5][6]

Þann 18. mars 2009 var stutt viðtal við Ólaf á RÚV varðandi það að hann hefði ekki hafið rannsóknir á neinum efnahagsbrotum að eigin frumkvæði, en við það tækifæri nefndi hann að innan við 10 heimildarmenn hefðu verið kallaðir til yfirheyrslu. Hann vildi ekki nefna hverjir það voru.[7]

Fyrstu verkefni[breyta | breyta frumkóða]

Þann 24. mars kom fram að umfang embættis sérstaks saksóknara gerði ráð fyrir því að fastir starfsmenn hans verði allt að sextán talsins, en þá eru ekki taldir með þeir erlendu sérfræðingar sem reiknað er með að starfi með saksóknaranum. Starfsmennirnir gætu því orðið allt að tuttugu á þessu ári, var haft eftir Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra.[8]

Laugardaginn 28. mars hélt Eva Joly blaðamannafund ásamt Ólafi Þór Haukssyni þar sem fram kom að hún verður hér fjóra daga í hverjum mánuði um óákveðinn tíma á meðan á rannsókn stendur, og að hún hafi ráðið sér íslenskan aðstoðarmann. Einnig var rætt um laun hennar, og eins og það var orðað á eyjunni.is:

Áætlaður heildarkostnaður ríkissins vegna starfa Evu er um 70 milljónir á þessu ári. Innifalið í þeirri tölu eru laun aðstoðarmanns, annarra sérfræðinga og annar kostnaður auk launa hennar. Störf Evu og sérfræðinga á hennar vegum felast m.a. í ráðgjöf um meðferð réttarbeiðna milli landa auk ráðgjafar um tengsl við erlenda sérfræðinga á ýmsum sviðum s.s. endurskoðendur vegna greiningar á bókhaldsgögnum og uppgjörum banka, rannsókn eignatengsla og við að rekja slóð fjármagns milli bankastofnana og ríkja. [9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Fréttir