Breski herinn
Breski herinn er her Bretlands. Herinn fæst við landvarnir Bretlands, í hjálendum og krúnunýlendum. Hann tekur einnig þátt í verkefnum sem varða hagsmuni Breta um allan heim, er þátttakandi í friðargæslusveitum og neyðaraðstoð. Herinn varð til þegar Englandsher og Skotlandsher voru sameinaðir árið 1707. Breski herinn hefur verið þátttakandi í mörgum stórstyrjöldum eins og Sjö ára stríðinu, Napóleonsstyrjöldunum, Krímstríðinu og Fyrri og Síðari heimsstyrjöld. Breski herinn átti stóran þátt í því að skapa og viðhalda stórveldisstöðu Breska heimsveldisins.
Helstu deildir breska hersins eru Konunglegi breski flotinn, Konunglega breska landgönguliðið, Konunglegi breski flugherinn og Breski landherinn. Æðsti yfirmaður hersins er Karl 3. Bretakonungur en breska þingið tryggir áframhaldandi starfsemi hersins með því að samþykkja Lög um breska herinn á fimm ára fresti, í samræmi við réttindaskrá frá 1689. Breski herinn heyrir undir varnarmálaráðuneyti Bretlands.
Bretland er eitt af fimm viðurkenndum kjarnorkuveldum heimsins, en fyrstu kjarnavopnatilraunir landsins fóru fram árið 1952. Landið er einn af stofnaðilum NATO og aðili að Varnarsamstarfi fimm ríkja ásamt Ástralíu, Nýja Sjálandi, Singapúr og Malasíu. Breski herinn er með herstöðvar á Ascension-eyju, Barein, Belís, Bermúda, Bresku Indlandshafseyjum, Brúnei, Falklandseyjum, Gíbraltar, Kanada, Katar, Kenýa, Kýpur, Nepal, Singapúr og í Þýskalandi.