Kvennalistinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kvennalistinn
Fylgi 4,9%1995
Formaður Enginn formaður
Stofnár 1983
Lagt niður 2000
Gekk í Samfylkinguna
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
kvenfrelsisstefna

Kvennalistinn (Samtök um kvennalista) var stjórnmálaflokkur á Íslandi sem starfaði frá 13. mars 1983 þar til hann sameinaðist Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi, en árið 1998 stofnuðu þessir þrír flokkar Samfylkinguna. Forverar Kvennalistans voru Kvennaframboðin í Reykjavík og á Akureyri sem fengu fulltrúa kjörna í sveitarstjórnarkosningunum árið 1982.

Kvennalistinn bauð fram til Alþingis í þremur kjördæmum vorið 1983. Listinn hlaut 5,5 % atkvæða og fékk þar með þrjár konur inn á þing. Í kosningunum 1987 fékk flokkurinn 10,1% atkvæða og sex konur inn á þing. Listinn tapaði einu sæti árið 1991, og náði aðeins þrem konum á þing árið 1995.

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Rauðsokkahreyfingin skipulagði sig sem félagssamtök og gaf út sína fyrstu stefnuskrá árið 1974 yfirgáfu margar konur hreyfinguna og í kjölfarið einangraðist hún mjög.

Komandi ár voru mikill uppskerutími í kvennabaráttu á Íslandi. Árið 1975 var Kvennaár Sameinuðu Þjóðanna. Íslenskt samfélag varð tilfinnanlega meðvitað um það þegar íslenskar konur fóru í sólarhrings verkfall 24. október til að vekja athygli samfélagsins á mikilvægi vinnukrafts þeirra. Talið er að 90% allra íslenskra kvenna hafi tekið þátt í verkfallinu. Árið 1980 er svo Vigdís Finnbogadóttir kosin forseti Íslands. Vigdís hafði engar tengingar við femínistíska hópa en kosning hennar hafði þó gríðarlega þýðingu fyrir kvennabaráttu hér á landi.

Baráttan fyrir jafnrétti var í fullum gangi en nú vantaði miðilinn sem gæti sameinað krafta kvenna í þessu mikilvæga máli. Rauðsokkasamtökunum var slitið árið 1982 þegar stór hluti þeirra meðlima sem að eftir voru yfirgáfu samtökin til að stofna Kvennaframboðið árið 1982. Þar sem að Rauðsokkurnar höfðu enga félagsmeðlimalista er ekki hægt að færa sönnur fyrir því að meðlimir þaðan hafi tekið þátt í að stofna Kvennaframboðið, en nokkrar rauðsokkur hafa staðfest þetta. Kvennaframboðið bauð fram lista bæði í Reykjavík og á Akureyri til sveitarstjórnarkosninga árið 1982 og fékk tvær konur kosnar í hvorum kosningum.

Ári seinna, 1983, voru Alþingiskosningar. Var þá rædd sú hugmynd innan Kvennaframboðsins hvort bjóða ætti fram lista til þeirra. Þetta leiddi hinsvegar til deilna innan flokksins. Ekki voru allir meðlimir sammála um hvort seta á Alþingi myndi þjóna hagsmunum flokksins. En slíkt var talið geta leitt til uppgjafar á vissum femínískum hugmyndum hans. Hluti Kvennaframboðsins ásamt fleiri konum tóku sig því saman og stofnuðu nýtt framboð, Kvennalistann. Kvennalistinn bauð sig fram í þremur kjördæmum; Reykjavík, Akureyri og Norðurlandi-Eystra, en listinn náði inn 3 konum með 5,5% atkvæða í þessum fyrstu kosningum.

Hugmyndafræði Kvennalistans[breyta | breyta frumkóða]

Kvennalistinn vildi leggja stund á það sem flokksfélagar kölluðu kvennapólitík, en það var sú pólitík sem þær sáu sig tilneyddar að ástunda. Slík pólitík skyldi hafa kvenlegt gildismat að leiðarljósi og þar með öll mál rædd út frá kvenlegum sjónarhóli. Þessi hugmynd um kvennapólitík er bein afleiðing af þeirri kvennamenningarhugmyndafræði sem Kvennalistinn byggði á. Þar er gengið út frá þeirri grunnhugmynd femínismans að kynin séu ólík, þ.e. áhersla er lögð á líffræðilegan mun kynjanna og ólíkan reynsluheim þeirra.

Eitt mikilvægasta baráttumál Kvennalistans var kvenfrelsi, sem fól í sér rétt kvenna til að vera metnar að eigin verðleikum til jafns við karla. Í þessu samhengi var einnig lögð áhersla á þær sæktust ekki eftir jafnrétti sem að fæli í sér rétt kvenna til að verða eins og karlar. Slíkt jafnrétti gæti aðeins talist rétturinn fyrir konur að verða annarsflokks karlar. Í þessu atriði er Kvennalistinn á öndverðum meiði við Rauðsokkahreyfinguna.

Kvennalistinn var andvígur hinum venjulega skilning á jafnrétti, eins og því er lýst í lögum og skilið af samfélaginu. Það jafnrétti álitu kvennalistakonur skapað af körlum og var konan ekki höfð með í ráðum við sköpun þess. Kvennalistinn leit svo á að ekki væri hægt að kalla nokkuð jafnrétti fyrr en ólikir heimar kvenna og karla hefðu gengið inn í hvorn annan og álit kynjanna virt að jöfnu í samfélaginu. Kvennalistinn hélt því fram að vegna hins sérstaka reynsluheims kvenna væri gildismat þeirra annað en það sem ráðandi er í hinum hierarkíska heimi. Konur sjái hlutina frá öðru sjónarhorni og hafi því margt til málanna að leggja sem gagnast myndi samfélaginu fengju þær rödd sína heyrða. Hugmyndin var að konur og karlar gætu tekið til sín það besta úr heimi hvors annars og saman skapað nýjan heim.

Hugmyndafræði Kvennalistans var nokkuð róttæk. Þannig gengu þær út frá því að ástæða lægri stöðu kvenna í íslensku samfélagi lægi í samfélagsgerðinni. Þannig var það sjálf samfélagsgerðin sem að þær vildu breyta.

Kvennalistinn leit svo á að hinir rótgrónu íslensku stjórnmálaflokkar hvorki hlustuðu á raddir kvenna né hjálpuðu þeim inn á þing. Þeir tækju ekki heldur fyrir þau mál sem að konum þættu hvað mikilvægust. Þetta álitu þær vera ástæðu þess að konur yrðu sjálfar að berjast fyrir réttindum sínum og betri heimi, því enginn annar gerði það fyrir þær.


Þegar þessi hugmyndafræði er skoðuð nánar má sjá skýran mun á hugmyndum Kvennalista og Rauðsokkahreyfingarinnar. Rauðsokkahreyfingin vann út frá femíniskum hugmyndum þar sem áhersla er löggð á kynin séu jöfn þrátt fyrir líffræðilegan mun, markmið þeirra var að afla sér inngöngu inn í heim karla. Kvennalistinn hins vegar lagði áherslu á líffræðilegan mun kynjanna og á þær afleiðingar sem þessi munur hefði á reynsluheim kynjanna. Þær vildu því skapa nýtt jafnrétti, nýjan heim, sem byggði á sjónarmiðum beggja kynja til jafns.

Skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndafræði og skipulag Kvennalistans var samofið. Kvennalistinn gekk út frá jafnri ábyrgð, andstætt venjulegri flokkaskipan. Þær vildu ekki auka persónubundið vald á kostnað heildarinnar. Þessi ekki-skipting á valdi var einkennandi fyrir listann, sem lagði áherslu á að þær væru hreyfing, ekki flokkur. Flokkur myndi skipuleggja sig samkvæmt hefðbundu píramídaskipulagi. Kvennalistinn var grasrótarhreyfing og sem slík var valdinu dreift eins mikið og mögulegt var svo að sem flestir gætu haft áhrif. Svona flatt skipulag byggir á ákvarðanatöku og þátttöku allra meðlima. Listinn var opinn öllum, konum og körlum. Engin stjórn var eða formaður. Starfræktir voru nokkrir hópar sem að deildu vinnunni á milli sín. Einnig var það yfirlýst stefna listans að meðlimir skiptist á að sinna valdastöðum. Þetta var sumsé að þeirra mati fullkomið jafnrétti. Þetta skipulag listans var eitthvað sem að margir sáu sem hans helsta kost, það þótti betri vísbending um róttækar breytingar en mörg stóru orðin.

Stefnumál Kvennalistans fyrir kosningarnar 1983[breyta | breyta frumkóða]

Kvennalistinn skipti stefnumálum sínum upp í fimm flokka fyrir Alþingiskosningarnar 1983.

Kvennamál[breyta | breyta frumkóða]

Á öllum stigum samfélagsins finnast málaflokkar sem að koma konum við. Þess vegna fannst Kvennalistanum að rödd kvenna ætti að heyrast, allstaðar, þar sem að öll mál kæmu konum við. Þær vildu að mannúðleg gildi væru útgangspunktur allrar ákvarðanatöku. Þær lögðu mikla áherslu á mikilvægi starfa kvenna innan veggja heimilisins og vildu berjast fyrir því að reynsla hinnar heimavinnandi húsmóður yrði metin til launa á vinnumarkaðnum.

Valddreifing[breyta | breyta frumkóða]

Kvennalistinn vildi beyta sér fyrir minnkandi miðstýringu samfélagsins, miðstýringu sem þær álitu þess valdandi að síaukin ábyrgð færðist yfir á allt færri hendur. Þær vildu því skipta valdinu, með jafna ábyrgð og einingu að leiðarljósi.

Skóla- og menningarmál, heilbrigðis- og félagsmál[breyta | breyta frumkóða]

Kvennalistinn vildi auka fjárveitingu til skóla og fjölga leikskólaplássum. Nýting leikskólanna skyldi vera raunhæfur möguleiki fyrir fjölskyldur. Þær vildu bæta og skerpa á reglugerðum varðandi félagsþjónustu ásamt því að byggja fleiri bústaði. Menningu og listir skildi örva þar sem að Kvennalistinn áleit að þar lægi sjálf lífstaug samfélagsins.

Efnahags- og atvinnumál[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem að konur voru stærsti láglaunahópur landsins vildi Kvennalistinn berjast fyrir hærri launum konum til handa. Jafnframt vildu þær breytingar á þeirri pólitík sem að var við lýði er snéri að nýtingu náttúruauðlinda. Þær vildu sjá stefnu sem að byggði á framtíðarsýn en ekki augnablikshagsmunum. Þær vildu ganga út frá sýn hinnar hagsýnu húsmóður við rekstur þjóðarbúsins, minnka útflutning og fjölga smáfyrirtækjum. Þær voru andvígar stóriðju sem að þær álitu kosta meira en hún gaf af sér. Þær vildu einnig taka tillit til þols fiskistofnanna og náttúrunnar almennt.

Friðar- og utanríkismál[breyta | breyta frumkóða]

Konur fæða og næra líf, það er þess vegna skylda þeirra að stuðla að frið. Þess vegna áleit Kvennalistinn að rödd Íslands ætti að vera rödd friðar. Þær voru andvígar öllum hernaðarbandalögum, þar með talið NATO og nærveru ameríska hersins á Íslandi. Einnig voru þær mótfallnar kjarnorkuvopnum og vildu vinna að eyðingu þeirra.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Kvennasögusafn – Rauðsokkur Geymt 17 maí 2006 í Wayback Machine
  • Auður Styrkársdóttir „From social movement to politicial party: the new women's movement in Iceland“, Feminism and politicial power in Europé and the USA, red. Drude Dahlerup (London, 1986).
  • Auður Styrkársdóttir, „Women´s lists in Iceland – A response to politicial lethergy“, Equal Democracies? Gender and politics in the Nordic countries, red. Christina Bergqvist (Oslo, 1999).
  • Bergljót Baldursdóttir, „Kvennahreyfing – en ekki flokkur“, Vera - blað um kvennabaráttu 3 (1988).
  • Eduards, Maud, Förbjuden handling. Om kvinnors organisering och feministisk teori. (Kristianstad, 2002)
  • Gestur Guðmundsson, Vera - blað um kvennabaráttu 3 (1988).
  • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir viðtal við Sigríði Dúnu Kristmundsdóttiur, „Frelsi með ábyrgð“, Vera - blað um kvennabaráttu 1 (1987).
  • Kristín Ástgeirsdóttir, „…Hvað er það?“, Vera - blað um kvennabaráttu 2 (1987).
  • Kristín Ástgeirsdóttir, „Hvert liggja ræturnar“, Vera -blað um kvennabaráttu 3 (1988).
  • Kristín Jónsdóttir, „Hlustaðu á þína innri rödd“, Þekking - Þjálfun - Þroski. Greinar um uppeldis- og fræðslumál, ritstj. dr. Kristín Bjarnadóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir, Reykjavík: Delta Kapp Gamma - Félag kvenna í fræðslustörfum, bls. 23-37, 2007.
  • Kristín Jónsdóttir, „Nauðsynlegt að finna nýjar áherslur“, Vera, 9. árg. 2. tbl. apríl 1990.
  • Kristín Jónsdóttir, „Hlustaðu á þína innri rödd“ Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982-1987. Reykjavík: Sögufélag, 2007.
  • Samtök um Kvennalista, Stefnuskrá Kvennalistans (Reykjavík, 1983).
  • Samtök um Kvennalista, Frá konu til konu (Reykjavík, 1984).
  • Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, „Outside, muted, and different: Icelandic women's movements and their notions of authority and cultural separateness“, The anthropology of Iceland, red. Paul Durrenberger & Gísli Pálsson (Iowa, 1989).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]