Ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum 23. maí 2013 eftir kosningarnar 27. apríl 2013 lét af störfum 7. apríl 2016. Hún er mynduð af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og hefur hvor flokkur 19 menn á þingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var 38 ára við myndun stjórnarinnar og því yngsti maðurinn til þess að taka við embætti forsætisráðherra frá lýðveldisstofnun. Ríkisstjórnin er jafnframt sú fyrsta síðan 1934 þar sem enginn ráðherra hefur áður gegnt ráðherraembætti. Um er að ræða fyrstu hreinu stjórnarskiptin (þar sem enginn flokkur úr fyrri ríkisstjórn heldur áfram) síðan 1980.

Ráðherrar[breyta | breyta frumkóða]

Athygli vakti þegar að ríkisstjórnin var kynnt á blaðamannafundi að aðeins þrjár konur tóku sæti í henni en sex karlar. Kynjahalli í ríkisstjórn hafði ekki verið meiri síðan 1999 en í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði í fyrsta sinn í sögu Íslands verið fleiri konur í ráðherraembættum en karlar.[1] Hallinn var síðan minnkaður 31. desember 2014 þegar Sigrún Magnúsdóttir tók við starfi umhverfisráðherra og konum fjölgaði úr 3 í 4.

Forsætis Utanríkis Sjávarútvegs- og landbúnaðar Iðnaðar- og viðskipta Fjármála Mennta Innanríkis Heilbrigðis Félags Umhverfis
23. maí 2013 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (B) Gunnar Bragi Sveinsson (B) Sigurður Ingi Jóhannsson (B) Ragnheiður Elín Árnadóttir (D) Bjarni Benediktsson (D) Illugi Gunnarsson (D) Hanna Birna Kristjánsdóttir (D) Kristján Þór Júlíusson (D) Eygló Harðardóttir (B) Sigurður Ingi Jóhannsson (B)
4. desember 2014 Ólöf Nordal (U)
31. desember 2014 Sigrún Magnúsdóttir (B)

Viðurnefni[breyta | breyta frumkóða]

Mismunandi viðurnefni voru notuð yfir stjórnina allt frá upphafi stjórnmyndunarviðræðna. Í kjölfar stjórnarslita fóru fjölmiðlar að nota viðurnefnið Lekastjórnin og vísaði það nafn til þeirra mörgu hneykslismála sem komu upp í stjórnartíð hennar tengdum gagnalekum og má þar nefna Lekamálið, Ashley Madison-lekann og Wintrismálið.[2]

Verk[breyta | breyta frumkóða]

Aðildarumsókn að Evrópusambandinu[breyta | breyta frumkóða]

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum hafði Ísland átt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið í fjögur ár

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum höfðu aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið staðið yfir frá 2009 og verið mikið ágreiningsmál í íslensku þjóðlífi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var kveðið á um að hlé yrði gert á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og „úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins.“ Útskýrt var að engar frekari ákvarðanir yrðu teknar um viðræðurnar án frumkvæðis þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.[3] Þessi stefna var í samræmi við stefnu beggja stjórnarflokka sem kynnt hafði verið í aðdraganda kosninga 2013. Ályktun Sjálfstæðisflokksins frá Landsfundi 2013 tók í sama streng, en þar var ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna yrði haldin á kjörtímabilinu, og hafði hún verið málamiðlunartillaga milli deilandi fylkinga innan flokksins um málefnið.[4] Spurð út í þessa stefnu stuttu fyrir kosningar sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn myndi sanda við það að „þjóðin [fengi] að ákveða það hvort það [yrði] gengið lengra í þessu máli. Það [væri] þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna.“[5]

Það kom mörgum í opna skjöldu þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu þess efnis að aðildarumsóknin yrði dregin til baka þann 21. febrúar 2014. Tillagan var samþykkt af bæði þingflokkum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á sérstökum fundi sem boðaður var, og átti að hefja að ræða hana vikuna á eftir á þinginu. Mikil reiði skapaðist í kjölfar þess að tillagan var kynnt enda stangaðist hún á við loforð sem gefin höfðu verið fyrir kosningar. Aðgerð ríkisstjórnarinnar var gagnrýnd bæði af einstaklingum, verkalýðshreyfingum, sveitarfélögum (þar á meðal Reykjavík, Hafnarfirði, Ísafirði, Kópavogi og Akureyri) og Samtaka Atvinnulífsins. Boðað var til mótmæla mánudaginn 23. febrúar fyrir utan Alþingishúsið, og veittu sum fyrirtæki starfsmönnum sínum frí til þess að mæta á Austurvöll. Samstöðumótmæli voru einnig haldin á Ráðhústorginu á Akureyri. Mótmæli stóðu yfir mánuðum saman á meðan að tillagan var á dagskrá þingsins og voru þau fyrst dagleg, en síðan vikuleg, og mættu þegar mest lét átta þúsund manns á ein mótmælin. Um 55 þúsund Íslendingar skrifuðu undir undirskriftarlista þar sem farið var fram á það að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um áframhald viðræðna. Þingsályktunartillagan lauk fyrstu umræðu á Alþingi og fór svo í utanríkismálanefnd þar sem yfir hundrað umsagnir um hana bárust. Hún var aldrei afgreidd úr nefndinni en til stóð að leggja hana fram aftur á haustþinginu árið 2014, en það var aldrei gert.

Þann 15. mars 2015 tilkynnti Gunnar Bragi Sveinsson að hann hafði afhent utanríkisráðherra Lettlands, sem þá sá um forsæti í Evrópusambandinu, bréf þess efnis að ríkisstjórnin liti svo á að aðildarviðræðum væri lokið og umsóknin hefði verið dregin til baka. Að mati Gunnars Braga var þetta nóg til þess að stöðva allt umsóknarferlið og neyða hvaða ríkisstjórn sem vildi taka upp þráðinn á ný að sækja aftur um aðild og hefja ferlið frá byrjun. Stjórnmálafræðingar og aðrir sérfræðingar ályktuðu hinsvegar flestir að bréfið hefði enga merkingu, enda hefði þingið eitt vald til þess að hefa aðildarferlið og gæti að sama skapi eitt dregið umsóknina til baka.

Fylgi[breyta | breyta frumkóða]

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum var sameiginlegt fylgi flokkanna 51,1% en það tók að dala í skoðanakönnunum hratt. Fylgi Framsóknarflokksins hrapaði í skoðanakönnunum Gallup og MMR og hefur mælst lægst fram að þessu sem 8,7%.[6] Fylgi Sjálfstæðsiflokksins hefur staðið að mestu í stað, en stjórnarandstöðuflokkarnir, og þá sérstaklega Vinstri Græn og Píratar, hafa unnið fylgi á kostnað stjórnarflokanna.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. DV, Nú mega þeir brosa Geymt 18 ágúst 2013 í Wayback Machine, Skoðað 3. janúar 2015.
  2. Sunna Kristín Hilmarsdóttir Vísir, Lekastjórnin hefur lokið störfum, 8. apríl 2016. Skoðað 8. apríl 2016.
  3. Ræða Birgis Ármannssonar á Alþingi 12. september 2013, Skoðað 28. maí 2015.
  4. Teitur Björn Einarsson, Afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildarviðræðna við ESB Geymt 6 mars 2016 í Wayback Machine, Skoðað 28. maí 2015.
  5. Evrópublogg, Þetta sögðu Ragnheiður Elín, Hanna Birna og Illugi í kosningabaráttunni Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, Skoðað 28. maí 2015.
  6. Viðskiptablaðið, Framsókn fengi sex þingmenn Geymt 16 janúar 2015 í Wayback Machine, Skoðað 3. janúar 2014.


Fyrirrennari:
Annað ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur
Ríkisstjórn Íslands
(23. maí 2013 – enn í embætti)
Eftirmaður:
enn í embætti