Friðrik Ólafsson
Friðrik Ólafsson | ||
Upplýsingar | ||
---|---|---|
Fullt nafn | Friðrik Ólafsson | |
Fæðingardagur | 26. janúar, 1935 | |
Fæðingarstaður | Reykjavík, Ísland | |
Titill | Stórmeistari |
Friðrik Ólafsson (f. 26. janúar 1935) er íslenskur lögfræðingur, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis og fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák. Hann er sá íslenskur skákmanna sem mestum frama hefur náð í skákinni og er t.d. eini íslenski skákmaðurinn sem lagt hefur að velli Bobby Fischer (tvisvar sinnum). Hann var um tíma forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE).
Nám og störf
[breyta | breyta frumkóða]Friðrik lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1968. Hann var fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 1968-1974, forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) frá 1978-1982, ritstjóri Lagasafns Íslands frá 1982-1983 og skrifstofustjóri Alþingis frá 1984-2005.
Skákferill
[breyta | breyta frumkóða]Friðrik varð sex sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst árið 1952 og Norðurlandameistari í skák 1953 og 1971. Alþjóðlegur skákmeistari 1956 og árið 1958 varð hann fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák. Hann sigraði á skákmótinu í Hastings 1955-1956, í Beverwijk í Hollandi 1959, í Marianske Kasne í Tékkóslóvakíu árið 1961, á alþjóðlegum skákmótum í Reykjavík 1966, 1972 og 1976 og á Wijk an Zee í Hollandi 1975. Hann veitti forstöðu Skákskóla Friðriks Ólafssonar frá 1982-1984.[1]
Ólafssonar afbrigðið
[breyta | breyta frumkóða]Í nimzóindverskri vörn er lína sem nefnd er Ólafssonar afbrigðið eftir Friðriki. Um er að ræða línu í Rubenstein afbrigði og kemur hún upp eftir leikina: 1.d4 Rf6 2.c4 e6 3.Rc3 Bb4 4.e3 O-O 5.Bd3 d5 6.Rf3 c5 7.O-O dxc4 8.Bxc4 b6 9.De2 Bb7 10.Hd1 Dc8.[2]
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]- 1958 - Alþjóðlegur stórmeistari í skák, fyrstur Íslendinga.
- 1972 - Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu
- 1980 - Stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu
- 2015 - Heiðursborgari Reykjavíkur
- 2015 - Aðalheiðursfélagi FIDE[1]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Skaksogufelagid.is, „Æviágrip - Samtímamenn“ Geymt 27 júní 2019 í Wayback Machine (skoðað 27. júní 2019)
- ↑ http://www.geocities.com/siliconvalley/lab/7378/eco.htm