Fara í innihald

Efnahagslögsaga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Fiskveiðilögsaga)
Efnahagslögsagan er hér sýnd blá. Kortið byggir ekki á raunverulegri fyrirmynd og hlutföll þess eru röng.

Efnahagslögsaga er hafsvæði sem er utan landhelgi ríkis þar sem það hefur sérstök réttindi varðandi nýtingu auðlinda á hafsvæðinu og hafsbotninum. Þetta svæði er einnig kallað fiskveiðilögsaga og mengunarlögsaga vegna þess að strandríkið fer með stjórn fiskveiða á því, hefur einkarétt til hafrannsókna á því og fer með lögsögu vegna verndunar og varðveislu hafsins og hafsbotnsins. Þessum réttindum fylgja einnig skyldur, m.a. þær að koma í veg fyrir ofveiði og mengun innan lögsögunnar. Ríkjum er heimilt að taka sér allt að 200 sjómílna efnahagslögsögu frá grunnlínu, það er 188 mílur frá landhelgi, en ef það rekst á efnahagslögsögu annars ríkis skulu sanngirnissjónarmið ráða því hvar mörkin liggja en algengast er að miðlína milli ríkja sé látin gilda.

Í efnahagslögsögu ríkis hafa öll erlend skip rétt til frjálsra siglinga og að auki er hverju ríki frjálst að leggja neðansjávarstrengi á þessum hafsvæðum. Ólíkt landhelginni er ekki litið svo á að ríki hafi fullveldisyfirráð yfir efnahagslögsögunni heldur einungis afmarkaðan einkarétt á nýtingu auðlinda.

Efnahagslögsaga er tiltölulega nýtilkomið hugtak í hafrétti, fyrst fór að bera á því á snemma eftir Síðari heimsstyrjöld þegar ýmis ríki lýstu einhliða yfir fiskveiðilögsögu langt út fyrir landhelgi sína. Þetta olli árekstrum, dæmi um það eru hin svonefndu þorskastríð Íslands og Bretlands þar sem Bretum gramdist einhliða útfærslur Íslendinga á fiskveiðilögsögu sinni og töldu hana ekki eiga sér stoð í lögum. Með dómi Alþjóðadómstólsins árið 1982 í máli Túnis gegn Líbýu varð það endanlega ljóst að efnahagslögsaga var orðin að venju í þjóðarétti og síðar það sama ár var það endanlega staðfest með Hafréttarsamningi S.þ. sem viðurkennir rétt ríkja til 200 mílna efnahagslögsögu. Samningurinn tók þó ekki formlega gildi fyrr en 1994 þegar nógu mörg ríki höfðu fullgilt hann.