Öskjuhlíð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Hnit: 64°07′46″N 21°55′11″V / 64.12944°N 21.91972°V / 64.12944; -21.91972

Öskjuhlíð er hæð í Reykjavík, austan við Reykjavíkurflugvöll og vestan við Fossvogskirkjugarð, rétt norðan við Fossvoginn og Nauthólsvík. Hún nær 61 m yfir sjávarmál. Hæðin er útivistarsvæði og í vesturhlíðinni hefur verið mikil skógrækt frá 1950. Efst uppi á Öskjuhlíð eru sex hitaveitutankar. Einn þeirra gegnir ekki lengur því hlutverki að geyma heitt vatn, heldur hefur þar verið komið fyrir sögusýningu þar sem Íslandssagan er rakin. Ofaná tönkunum er áberandi hvolfþak úr gleri sem er kallað Perlan. Er þar rekin veitingastaður og eru útsýnissvalir allt í kringum hana.

Í Öskjuhlíð er hægt að sjá mikið af bæði jarðsögulegum og menningarsögulegum minjum. Jökulsorfið berg frá síðustu ísöld er til dæmis að finna nálægt Nauthólsvík. Skógur virðist hafa verið í hlíðinni frá upphafi og líklega hefur verið þar seljabúskapur. Þar er einnig að finna merki þess að sjávarhæð hafi verið hærri. Þegar gerð Reykjavíkurhafnar hófst 1913 var lögð járnbraut úr hlíðinni niður að höfninni til að flytja efni til hafnargerðarinnar.

Í síðari heimsstyrjöldinni reistu Bandamenn ýmis mannvirki í hlíðinni og héldu áfram grjótnámi þar nálægt þar sem Keiluhöllin stendur. Fyrsti heitavatnstankurinn var reistur 1940. Upprunalegu tankarnir voru síðan rifnir og endurbyggðir 1986 til 1987 og Perlan byggð ofan á þá.