Stöðulögin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stöðulögin voru lög sett af Dönum 2. janúar árið 1871, svo nefnd því þau ákvörðuðu stöðu Íslands gagnvart Danmörku. Stöðulögunum fylgdi svo fyrsta stjórnarskrá Íslands árið 1874. Í stöðulögunum var á margan hátt undirbúið að Íslendingar gætu tekið að sér stjórn eigin innanlandsmála.

Nokkuð var liðið frá því að einveldi Danakonungs hafði verið lagt af 1848 og nú hafði danska þingið löggjafarvald. Einokunarverslun Dana var lögð af 1855 og áframhaldandi barátta Íslendinga, leidd af Jóni Sigurðssyni og stuðningsmönnum hans, fyrir sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga fékk dræmar undirtektir í Kaupmannahöfn. Frumvarp stjórnarskrár fyrir Íslendinga var samþykkt á Alþingi með breytingum en hafnað af danska þinginu 1867. Loks setti danska þingið stöðulögin sem byggðust á því að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti af Danmörk. Í „skaðabætur“ fyrir það ætlaði danska ríkið að greiða Íslendingum 50.000 ríkisdali fyrstu tíu árin en síðan myndi upphæðin lækka hvert ár næstu 20 árin niður í 30.000 rd. Íslendingar voru ekki sáttir við lögin og var þeim hafnað af Alþingi með 10 atkvæðum gegn 14. Samkvæmt frumvarpinu var sérstakur landshöfðingi skipaður, Hilmar Finsen þann 1. apríl 1873, til þess að stjórna landinu eftir fyrirskipunum frá danska dómsmálaráðuneytinu. Síðan var samið nýtt frumvarp byggt á því sem var samið á Þjóðfundinum 1851 en því var hafnað af Dönum.