Wales

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Cymru (velska)
Wales (enska)
Fáni Wales Skjaldarmerki Wales
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Cymru am byth (velska)
Wales að eilífu
Þjóðsöngur:
Hen Wlad Fy Nhadau
Land feðra minna
Staðsetning Wales
Höfuðborg Cardiff
Opinbert tungumál Velska, enska
Stjórnarfar Þingbundið konungsvald

Konungur Karl 3.
Fyrsti ráðherra Mark Drakeford
Hluti Bretlands
 - Sameinað af Gruffudd ap Llywelyn 1056 
 - Rhuddlan-samþykktin 3. mars 1284 
 - Laws in Wales 1535 
 - Valddreifing 31. júlí 1998 
Flatarmál
 - Samtals
47. sæti
20.761 km²
Mannfjöldi
 - Samtals (2019)
 - Þéttleiki byggðar

3.153.000
148/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 - Samtals 103,9 millj. dala
 - Á mann 33.077 dalir
VÞL (2018) Increase2.svg 0.883
Gjaldmiðill Sterlingspund
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .uk
Landsnúmer +44

Wales er land í Evrópu og eitt af þeim fjórum löndum sem mynda Bretland.[1] England liggur að því í austri og Atlantshaf og Írlandshaf í vestri. Íbúatala Wales er um það bil þrjár milljónir manna. Það er tvítyngt land, velska er studd til jafns við ensku, en flestir tala ensku sem móðurmál.

Einu sinni var Wales keltneskt ríki og í dag eru íbúar landsins taldir ein af keltnesku þjóðunum sex. Á 5. öld varð til sérstök velsk þjóðarvitund þegar Rómverjar hörfuðu frá Bretlandi.[2] Llewelyn mikli stofnaði furstadæmið Wales árið 1216. Á 13. öld sigraði Játvarður 1. Llewelyn síðasta og Wales var síðan undir stjórn Englands í nokkrar aldir. Prinsinn af Wales er staða sem búin var til fyrir ríkisarfa ensku krúnunnar og núverandi prins af Wales er Vilhjálmur Bretaprins. Seinna varð Wales hluti Englands með Sambandslögunum 1535–1542 og þannig myndað land sem hét England og Wales. Á 19. öldinni þróuðust stjórnmál í Wales og árið 1881 voru lög sett um verslun á sunnudögum, en það voru fyrstu lög sem giltu sérstaklega fyrir Wales. Árið 1955 var Cardiff gerð að höfuðborg landsins. Árið 1999 var Velska þingið stofnað. Það sér m.a. um öll mál sem Wales fær til umfjöllunar frá ríkisstjórn Bretlands.

Höfuðborgin Cardiff (velska: Caerdydd) er stærsta borg Wales og þar búa 317.500 manns. Einu sinni var hún stærsta kolahöfn í heimi[3] og fleiri kolafarmar fóru í gegnum Cardiff en London eða Liverpool.[4] Um það bil tveir þriðju íbúanna búa í Suður-Wales. Einnig eru margir íbúar í Norður-Wales austan til. Wales er vinsælt ferðamannaland vegna fjalllendis og fagurra sveita. Síðan á 19. öld hefur Wales verið þekkt sem „söngvalandið“.[5] Margir leikarar og söngvarar frá Wales eru þekktir um allan heim.[6] Í Cardiff er stærsta fjölmiðlamiðstöð á Bretlandi utan London.[7]

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Enska heitið Wales er germönsk útgáfa af ættbálkaheitinu Volcae sem í Rómaveldi var síðar notað yfir alla keltneskar þjóðir. Landaheitin Valland og Vallakía eru af sömu rót runnin. Fornenskumælandi Engilsaxar notuðu heitið Wælisc yfir Breta almennt og Wēalas yfir lönd þeirra. Upphaflega voru þessi heiti ekki bundin við Wales heldur áttu við um alla breskumælandi Breta, eins og sést í heitunum Cornwall, Walton og Walworth.

Velska heitið yfir Wales er Cymru og þjóðarheitið Cymry sem eru dregin af breska orðinu combrogi sem merkir „samlandar“. Upphaf notkunar þessa orðs má rekja til þess þegar íbúar Wales tóku að greina sig frá öðrum breskumælandi ættbálkum á Stóra-Bretlandi eftir að Rómverjar fóru frá landinu. Orðið Cymry kemur þannig fyrir í textum frá 7. öld þótt á miðöldum hafi verið algengara að nota almenna orðið yfir Breta, Brythoniaid. Latnesk útgáfa Cymru er Cambria sem er notað sem latneskt heiti Wales og kemur fyrir í örnefnum eins og Kambríufjöll sem kambríumtímabilið dregur nafn sitt af.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Wales er að mestu fjalllent land við vesturströnd miðhluta eyjunnar Stóra-Bretlands.[8] Landið er um það bil 270 km frá norðri til suðurs.[9] Stærð Wales er um það bil 20.779 km².[10] Wales á landamæri að Englandi í austri og strönd í allar aðrar áttir: að Írlandshafi í norðri og vestri, Georgssundi og Keltahafi í suðvestri, og Bristolsundi í suðri.[11][12] Strönd Wales er um það bil 2.700 km að lengd miðað við flóðamörk, að meðtöldu meginlandinu, Anglesey og Holyhead.[13] Meira en 50 eyjar liggja undan strönd Wales. Sú stærsta eru Anglesey í norðvestri.[14]

Mikið af fjölbreyttu landslagi Wales eru fjöll, sérstaklega í norðri og miðhéruðunum. Fjöllin mynduðust á síðustu ísöld. Hæstu fjöll Wales eru í Snowdoniu (Eryri), þar á meðal eru fimm yfir 1.000 metrar á hæð. Hæsta fjallið er Snowdon (Yr Wyddfa), 1.085 metrar á hæð.[15][16] Fjórtán velsk fjöll (eða 15 ef Garnedd Uchaf er talið með) sem eru yfir 3.000 fet (914 metrar) á hæð, eru þekkt sem Velsku 3000-fjöllin og eru öll staðsett á litlu svæði í norðvesturhlutanum.[17] Hæsti tindurinn fyrir utan þau er Aran Fawddwy, 905 metrar á hæð, í suðurhluta Snowdoniu.[18] Brecon Beacons (Bannau Brycheiniog) eru í suðurhlutanum (hæsti tindur er Pen y Fan, 886 metrar á hæð),[19] og tengjast Kambríufjöllum í Mið-Wales (hæsti tindur Purlumon, 752 metrar á hæð).[20]

Þjóðgarðar í Wales.

Í Wales eru þrír þjóðgarðar: Snowdonia-þjóðgarðurinn, Brecon Beacons-þjóðgarðurinn og Pembrokeshire Coast-þjóðgarðurinn. Þar eru auk þess fimm svæði með framúrskarandi náttúrufegurð: Anglesey, Clwyd-fjöll og Dee-dalur, Gower-skagi, Llŷn-skagi og Wye-dalur.[21] Gower-skagi var fyrsta svæðið með framúrskarandi náttúrufegurð í Bretlandi, árið 1956. Árið 2019 voru 40 bláfánastrendur í Wales, þrjár bláfánahafnir og ein bláfánaútgerð.[22] Suður- og vesturströnd Wales, ásamt ströndum Írlands og Cornwall, verða oft fyrir vestanvindum frá Atlantshafi sem í gegnum tíðina hafa hrakið mörg skip í strand. Árið 1859 fórust 110 skip undan strönd Wales í fellibyl sem kostaði 800 mannslíf um allt Bretland.[23] Mesti skipstapinn var þegar skipið Royal Charter sökk undan Anglesey og 459 farþegar fórust.[24] Á 19. öld fórust yfir 100 skip þar og að meðaltali 78 sjómenn drukknuðu á hverju ári.[25] Skip fórust vegna stríðsátaka við Holyhead, Milford Haven og Swansea.[25] Strendur Anglesey og Pembrokeshire eru illræmdar fyrir skipsskaða, vegna skerja og ólýstra eyja. Einn af frægustu skipstöpum þar á síðustu árum var þegar Sea Empress-olíuskipið strandaði þar árið 1996.[26]

Fyrstu landamærin milli Wales og Englands voru á landi, fyrir utan ána Wye, sem voru fyrstu viðurkenndu mörkin.[27] Díki Offa átti að vera markalína, en Llewellyn lagði undir sig stór landsvæði handan þess.[27] Með sambandslögunum 1536 var dregin lína frá mynni árinnar Dee í norðri að mynni Wye í suðri,[27] en lengi á eftir voru margar markalínur óljósar og á hreyfingu þar til lög um lokanir á sunnudögum í Wales voru samþykkt árið 1881. Þau neyddu fyrirtæki til að ákveða hvoru landinu þau vildu tilheyra.[27]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Þinghúsið í Wales, Senedd, var opnað árið 2006
Mark Drakeford, fyrsti ráðherra velska þingsins; Maí 2021

Wales er hluti af Bretlandi sem hefur þing og ríkisstjórn í Westminster. Wales á 40 þingmenn í fulltrúadeild breska þingsins. Breski verkamannaflokkurinn ræður flestum þeirra eða 22 þingsætum, sjálfstjórnarflokkurinn Plaid Cymru fjögur og Breski íhaldsflokkurinn fjórtán. Ráðherra Wales situr í ríkisstjórn Bretlands og ber þar ábyrgð á málum sem varða Wales og ráðuneyti Wales heyrir undir hann.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðslur í Wales og Skotlandi árið 1997 var ákveðið að þessi lönd fengju takmarkaða heimastjórn. Lög um ríkisstjórn Wales 1998 voru sett árið 1998. Þar með var þing Wales stofnað. Þann 1. júlí 1999 voru völd ráðherra Wales að hluta flutt til nýskipaðrar ríkisstjórnar Wales. Þing Wales fékk þar með heimild til að fara með fjárveitingarvald í þeim málum sem það fær til umfjöllunar í samræmi við fjárlög breska ríkisins. Ný lög um ríkisstjórn Wales 2006 gáfu velska þinginu löggjafarvald sem er sambærilegt við það sem skoska og norður-írska þingið hafa. Á velska þinginu sitja 60 þingmenn kosnir til fjögurra ára í senn. Þingið kýs æðsta ráðherra sem skipar ríkisstjórn.

Ríkisstjórn Wales ber einkum ábyrgð á tuttugu sviðum sem henni eru falin, þar á meðal landbúnaði, efnahagsþróun, menntamálum, heilsugæslu, húsnæðismálum, sveitarstjórnum, félagsþjónustu, ferðaþjónustu og velskri tungu. Þingið hefur jafnframt vald til að setja lög í þessum málaflokkum. Frá 2006 hafa fleiri málaflokkar bæst við.

Wales var sérstakt Evrópukjördæmi sem átti fjóra fulltrúa á Evrópuþinginu.

Sveitastjórnir[breyta | breyta frumkóða]

Wales er skipt í 22 sveitarfélög (sýsluumdæmi eða borgir) frá 1996. Þau bera ábyrgð á allri opinberri þjónustu í héraði eins og skólum, félagsþjónustu, umhverfismálum og vegagerð.[28]. Í Wales eru sex borgir: Cardiff, Newport, Swansea, Bangor, St Asaph og St Davids.

Í töflunni eru borgir merktar með * og sýslur með †. Velsk nöfn eru gefin upp í sviga ef þau eru ólík.

Kort af aðalsvæðum
noframe

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Íbúafjöldi Wales tvöfaldaðist milli 1801 og 1851; var 587.000 og varð 1.163.000, og hafði náð 2.421.000 árið 1911. Mest fjölgun varð í kolanámuhéruðunum eins og Glamorganshire þar sem íbúafjöldin var kominn yfir milljón árið 1911 en var aðeins rúm 70.000 árið 1801.[29] Þessa aukningu má að miklu leyti skýra með lýðfræðilegu umbreytingunni sem flest iðnaðarríki gengu í gegnum við að dánarhlutfall féll meðan fæðingarhlutfall hélst stöðugt. Aðflutningur fólks til Wales var líka mikill á sama tíma vegna iðnvæðingarinnar, sérstaklega frá Englandi, en líka frá Írlandi og í minna mæli frá öðrum stöðum,[30][31] eins og Ítalíu.[32] Á 20. öld komu margir innflytjendur frá öðrum löndum Breska samveldisins í Karíbahafinu og Suður-Asíu og settust að í borgunum. Margt af því fólki lítur á sig sem Walesbúa.[33]

Árið 1972 var íbúafjöldinn í Wales 2,74 milljónir og hélst nokkurn veginn stöðugur í um áratug. Snemma á 9. áratugnum fækkaði fólki vegna brottflutninga en síðan þá hefur aðflutningur verið aðeins meiri en brottflutningur og á stærri þátt í vexti íbúafjöldans en fæðingartíðni.[34] Vöxturinn var 5% milli 2001 og 2011 þegar íbúar voru rétt rúmlega þrjár milljónir. Íbúar Wales voru þá 4,8% af heildaríbúafjölda Bretlands.[35] Í Wales eru sex borgir: Auk Cardiff, Newport og Swansea, eru Bangor, St Asaph og St Davids líka skilgreindar sem borgir.

Tungumál[breyta | breyta frumkóða]

Velska er keltneskt mál[36] og er skyldust bretónsku og kornbresku. Málfræðingar telja að keltnesku málin hafi borist til Bretlandseyja um 600 f.o.t.[37] Enska tók yfir í stað bresku málanna í Bretlandi og barst til Wales eftir að konungdæmið Powys féll á 8. öld.[38] Biblíuþýðingar á velsku og siðaskiptin sem hvöttu til notkunar alþýðumáls í messum, áttu þátt í að málið lifði af meðal alþýðufólks, en yfirstéttin hafði þá tekið upp ensku frá 15. öld. Fyrstu lögin um velsku voru samþykkt 1942 og síðan þá hafa nokkur lög styrkt opinbera stöðu málsins.[39] Á 7. áratug 20. aldar var tekið að setja upp tvítyngd götuskilti á velsku og ensku. Opinberir aðilar og einkaaðilar hafa líka tekið að nota bæði málin og frá 2011 er velska eitt af opinberum málum Bretlands.[40] Nær allir Walesbúar tala ensku og hún er aðalsamskiptamálið á flestum stöðum. Málskipti eru algeng alls staðar í Wales og ganga undir ýmsum nöfnum.[41]

Venska (velsk enska) er ensk mállýska sem töluð er í Wales. Hún er undir áhrifum frá velskri málfræði og notar mikið af tökuorðum úr velsku. Samkvæmt sagnfræðingnum John Davies hefur venskan orðið fyrir meiri fordómum en nokkuð annað frá Walesbúum.[42][43] Í norður- og vesturhluta Wales eru enn svæði þar sem aðallega er töluð velska og fólk lærir ensku sem annað mál. Manntalið árið 2011 sýndi að 562.016 manns, 19% íbúa, gátu talað velsku, sem var örlítil fækkun frá 2001 þegar 20,8% sögðust geta talað málið.[44][45]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Hvaða lönd tilheyra Bretlandi?“. Vísindavefurinn. Sótt 11. nóvember 2009.
 2. David Jones (1994). A History of Wales. Penguin. bls. 54. ISBN 0-14-01-4581-8.
 3. „Coal Exchange to 'stock exchange'. BBC. Sótt 11. nóvember 2009.
 4. „Cardiff - Coal and Shipping Metropolis of the World“. National Museum of Wales. Sótt 11. nóvember 2009.
 5. The Welsh Academy Encyclopaedia of Wales. Cardiff: University of Wales Press. 2008.
 6. „Why the Welsh voice is so musical“. BBC. Sótt 11 nóvember.
 7. „Tongue tied“. BBC. Sótt 11. nóvember 2009.
 8. UK 2005 – The Official Yearbook of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland (PDF). Office for National Statistics. 2004. bls. 2 & 30. ISBN 978-0-11-621738-7. Sótt 10 February 2012.
 9. „Geography: About Wales“. Visit Wales website. Welsh Government. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 28 October 2010. Sótt 3 October 2010.
 10. „England and Wales“. European Land Information Service. Afrit af upprunalegu geymt þann 20 July 2011. Sótt 2 October 2010.
 11. „Celtic Sea“. 16 December 1974.
 12. „Limits of Oceans and Seas, 3rd edition + corrections“ (PDF). International Hydrographic Organization. 1971. bls. 42 [corrections to page 13]. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 8 October 2011. Sótt 28 December 2020.
 13. Darkes, Giles (January 2008). „How long is the UK coastline?“. The British Cartographic Society. Afrit af upprunalegu geymt þann 27 May 2012. Sótt 6 October 2015.
 14. „Discover Welsh islands with unique scenery, wildlife and heritage“. VisitWales (enska). Sótt 15 May 2020.
 15. Glancey, Jonathan 2. ágúst 2009, „High tea: Mount Snowdon's magical mountaintop cafe". guardian.co.uk. (London). Skoðað 28. september 2010.
 16. „Mountain upgraded to 'super' status“. WalesOnline website. Media Wales Ltd. 22 September 2010. Sótt 30 September 2010.
 17. „The Welsh 3000s Challenge“. welsh3000s.co.uk. Sótt 28 September 2010.
 18. „Aran Fawddwy“. snowdoniaguide.com. Sótt 2 October 2010.
 19. Nuttall, John & Anne (1999). The Mountains of England & Wales – Volume 1: Wales (2nd edition ed.). Milnthorpe, Cumbria: Cicerone. ISBN 978-1-85284-304-5 .
 20. „Ordnance Survey“. Sótt 6 June 2020.
 21. „Areas of Outstanding Natural Beauty“. Welsh Government website. Welsh Government. Afrit af upprunalegu geymt þann 25 June 2012. Sótt 6 October 2010.
 22. Knapman, Joshua (14 May 2019). „All of Wales' Blue Flag beaches in 2019“. walesonline. Sótt 15 May 2020.
 23. Davies (2008) p.778
 24. „Stormy Weather“. BBC North West Wales website. BBC. 28 April 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 26 January 2011. Sótt 26 September 2010.
 25. 25,0 25,1 Davies (2008) p.814
 26. „In detail: The Sea Empress disaster". BBC News website. (BBC). (2000). Skoðað 26. september 2010.
 27. 27,0 27,1 27,2 27,3 Davies (2008) p. 75
 28. „Local Authorities“. Ríkisstjórn Wales. Sótt 24. apríl 2015.
 29. Brian R. Mitchell and Phyllis Deane, Abstract of British Historical Statistics (Cambridge, 1962) pp 20, 22
 30. „Industrial Revolution“. BBC. Sótt 17 October 2009.
 31. LSJ Services [Wales] Ltd. „Population therhondda.co.uk. Retrieved 9 May 2006“. Therhondda.co.uk. Afrit af upprunalegu geymt þann 20 May 2008. Sótt 17 October 2009.
 32. „BBC Wales – History – Themes – Italian immigration“. BBC. Sótt 17 October 2009.
 33. „Socialist Unity | Debate & analysis for activists & trade unionists“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18 October 2011. Sótt 10 October 2016.
 34. „Wales's Population: A Demographic Overview 1971–2005“ (PDF). New.wales.gov.uk. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 19 July 2008. Sótt 29 August 2017.
 35. „2011 Census: Population Estimates for the United Kingdom, 27 March 2011“ (PDF). Office for National Statistics. 2012. Sótt 19 December 2012.
 36. Davies, Janet (2014). The Welsh Language: A History (2. útgáfa). Cardiff: University of Wales Press. bls. 1, 4. ISBN 978-1-78316-019-8.
 37. Davies 2014, bls. 6.
 38. Davies 2014, bls. 19.
 39. Davies 2014, bls. 117, 120, 122–123.
 40. Davies 2014, bls. 122–123.
 41. Davies (2008) p. 262
 42. Davies (1994) p. 623
 43. Hill, Claire 2. október 2006, „Why butty rarely leaves Wales". WalesOnline website. (Media Wales Ltd). Skoðað 15. nóvember 2010.
 44. „2011 Census, Key Statistics for Unitary Authorities in Wales". . (Office for National Statistics). 11. desember 2012. Skoðað 11. desember 2012.
 45. „Census 2001: Main statistics about Welsh“. Welsh Language Board. Afrit af upprunalegu geymt þann 24 May 2011. Sótt 30 September 2010.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.