Wales

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Cymru (velska)
Wales (enska)
Fáni Wales Skjaldarmerki Wales
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Cymru am byth (velska)
Wales að eilífu
Þjóðsöngur:
Hen Wlad Fy Nhadau
Land feðra minna
Staðsetning Wales
Höfuðborg Cardiff
Opinbert tungumál Velska, enska
Stjórnarfar Þingbundið konungsvald

Bretlandsdrottning Elísabet 2.
Fyrsti ráðherra Mark Drakeford
Hluti Bretlands
 - Sameinað af Gruffudd ap Llywelyn 1056 
 - Rhuddlan-samþykktin 3. mars 1284 
 - Laws in Wales 1535 
 - Valddreifing 31. júlí 1998 
Flatarmál
 - Samtals
47. sæti
20.761 km²
Mannfjöldi
 - Samtals (2019)
 - Þéttleiki byggðar

3.153.000
148/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 - Samtals 103,9 millj. dala
 - Á mann 33.077 dalir
VÞL (2018) Increase2.svg 0.883
Gjaldmiðill Sterlingspund
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .uk
Landsnúmer 44

Wales er land í Evrópu og eitt af þeim fjórum löndum sem mynda Bretland.[1] England liggur að því í austri og Atlantshaf og Írlandshaf í vestri. Íbúatala Wales er um það bil þrjár milljónir manna. Það er tvítyngt land, velska er studd til jafns við ensku, en flestir tala ensku sem móðurmál.

Einu sinni var Wales keltneskt ríki og í dag eru íbúar landsins taldir ein af keltnesku þjóðunum sex. Á 5. öld varð til sérstök velsk þjóðarvitund þegar Rómverjar hörfuðu frá Bretlandi.[2] Llewelyn mikli stofnaði furstadæmið Wales árið 1216. Á 13. öld sigraði Játvarður 1. Llewelyn síðasta og Wales var síðan undir stjórn Englands í nokkrar aldir. Prinsinn af Wales er staða sem búin var til fyrir ríkisarfa ensku krúnunnar og núverandi prins af Wales er Karl Bretaprins. Seinna varð Wales hluti Englands með Sambandslögunum 1535–1542 og þannig myndað land sem hét England og Wales. Á 19. öldinni þróuðust stjórnmál í Wales og árið 1881 voru lög sett um verslun á sunnudögum, en það voru fyrstu lög sem giltu sérstaklega fyrir Wales. Árið 1955 var Cardiff gerð að höfuðborg landsins. Árið 1999 var Velska þingið stofnað. Það sér m.a. um öll mál sem Wales fær til umfjöllunar frá ríkisstjórn Bretlands.

Höfuðborgin Cardiff (velska: Caerdydd) er stærsta borg Wales og þar búa 317.500 manns. Einu sinni var hún stærsta kolahöfn í heimi[3] og fleiri kolafarmar fóru í gegnum Cardiff en London eða Liverpool.[4] Um það bil tveir þriðju íbúanna búa í Suður-Wales. Einnig eru margir íbúar í Norður-Wales austan til. Wales er vinsælt ferðamannaland vegna fjalllendis og fagurra sveita. Síðan á 19. öld hefur Wales verið þekkt sem „söngvalandið“.[5] Margir leikarar og söngvarar frá Wales eru þekktir um allan heim.[6] Í Cardiff er stærsta fjölmiðlamiðstöð á Bretlandi utan London.[7]

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Enska heitið Wales er germönsk útgáfa af ættbálkaheitinu Volcae sem í Rómaveldi var síðar notað yfir alla keltneskar þjóðir. Landaheitin Valland og Vallakía eru af sömu rót runnin. Fornenskumælandi Engilsaxar notuðu heitið Wælisc yfir Breta almennt og Wēalas yfir lönd þeirra. Upphaflega voru þessi heiti ekki bundin við Wales heldur áttu við um alla breskumælandi Breta, eins og sést í heitunum Cornwall, Walton og Walworth.

Velska heitið yfir Wales er Cymru og þjóðarheitið Cymry sem eru dregin af breska orðinu combrogi sem merkir „samlandar“. Upphaf notkunar þessa orðs má rekja til þess þegar íbúar Wales tóku að greina sig frá öðrum breskumælandi ættbálkum á Stóra-Bretlandi eftir að Rómverjar fóru frá landinu. Orðið Cymry kemur þannig fyrir í textum frá 7. öld þótt á miðöldum hafi verið algengara að nota almenna orðið yfir Breta, Brythoniaid. Latnesk útgáfa Cymru er Cambria sem er notað sem latneskt heiti Wales og kemur fyrir í örnefnum eins og Kambríufjöll sem kambríumtímabilið dregur nafn sitt af.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Þinghúsið í Wales, Senedd, var opnað árið 2006
Mark Drakeford, fyrsti ráðherra velska þingsins; Maí 2021

Wales er hluti af Bretlandi sem hefur þing og ríkisstjórn í Westminster. Wales á 40 þingmenn í fulltrúadeild breska þingsins. Breski verkamannaflokkurinn ræður flestum þeirra eða 22 þingsætum, sjálfstjórnarflokkurinn Plaid Cymru fjögur og Breski íhaldsflokkurinn fjórtán. Ráðherra Wales situr í ríkisstjórn Bretlands og ber þar ábyrgð á málum sem varða Wales og ráðuneyti Wales heyrir undir hann.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðslur í Wales og Skotlandi árið 1997 var ákveðið að þessi lönd fengju takmarkaða heimastjórn. Lög um ríkisstjórn Wales 1998 voru sett árið 1998. Þar með var þing Wales stofnað. Þann 1. júlí 1999 voru völd ráðherra Wales að hluta flutt til nýskipaðrar ríkisstjórnar Wales. Þing Wales fékk þar með heimild til að fara með fjárveitingarvald í þeim málum sem það fær til umfjöllunar í samræmi við fjárlög breska ríkisins. Ný lög um ríkisstjórn Wales 2006 gáfu velska þinginu löggjafarvald sem er sambærilegt við það sem skoska og norður-írska þingið hafa. Á velska þinginu sitja 60 þingmenn kosnir til fjögurra ára í senn. Þingið kýs æðsta ráðherra sem skipar ríkisstjórn.

Ríkisstjórn Wales ber einkum ábyrgð á tuttugu sviðum sem henni eru falin, þar á meðal landbúnaði, efnahagsþróun, menntamálum, heilsugæslu, húsnæðismálum, sveitarstjórnum, félagsþjónustu, ferðaþjónustu og velskri tungu. Þingið hefur jafnframt vald til að setja lög í þessum málaflokkum. Frá 2006 hafa fleiri málaflokkar bæst við.

Wales var sérstakt Evrópukjördæmi sem átti fjóra fulltrúa á Evrópuþinginu.

Sveitastjórnir[breyta | breyta frumkóða]

Wales er skipt í 22 sveitarfélög (sýsluumdæmi eða borgir) frá 1996. Þau bera ábyrgð á allri opinberri þjónustu í héraði eins og skólum, félagsþjónustu, umhverfismálum og vegagerð.[8]. Í Wales eru sex borgir: Cardiff, Newport, Swansea, Bangor, St Asaph og St Davids.

Í töflunni eru borgir merktar með * og sýslur með †. Velsk nöfn eru gefin upp í sviga ef þau eru ólík.

Kort af aðalsvæðum
noframe

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvaða lönd tilheyra Bretlandi?“. Vísindavefurinn. Sótt 11. nóvember 2009.
  2. David Jones (1994). A History of Wales. Penguin. bls. 54. ISBN 0-14-01-4581-8.
  3. „Coal Exchange to 'stock exchange'. BBC. Sótt 11. nóvember 2009.
  4. „Cardiff - Coal and Shipping Metropolis of the World“. National Museum of Wales. Sótt 11. nóvember 2009.
  5. The Welsh Academy Encyclopaedia of Wales. Cardiff: University of Wales Press. 2008.
  6. „Why the Welsh voice is so musical“. BBC. Sótt 11 nóvember.
  7. „Tongue tied“. BBC. Sótt 11. nóvember 2009.
  8. „Local Authorities“. Ríkisstjórn Wales. Sótt 24. apríl 2015.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.