Búrhvalur
Búrhvalur | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Samanburður á stærð búrhvals og manns
| ||||||||||||||||
Ástand stofns | ||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Physeter macrocephalus Linnaeus, 1758 | ||||||||||||||||
Útbreiðslusvæði búrhvals
| ||||||||||||||||
Samheiti | ||||||||||||||||
P. catodon Linnaeus, 1758 |
Búrhvalur (eða búri[2]) (fræðiheiti: Physeter macrocephalus) er stærstur tannhvala og eina stórhvelið meðal þeirra. Þá má finna um öll höf nema í Norður-Íshafi.
Lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Mikill stærðarmunur er á kynjum búrhvals. Tarfarnir geta náð 15-20 metra lengd og eru 45 til 57 tonn á þyngd. Kýrnar verða 11-13 metra langar og geta orðið um 20 tonn á þyngd. Höfuðið er mjög stórt, um 25-35% af lengd dýrsins. Höfuðið hefur sérkennilegt kantað tunnulag sem enn eykur fyrirferð þess. Heili búrhvalsins er stærri en í nokkru öðru spendýri. Blástursopið er vinstra megin á höfðinu og fremur framarlega. Neðri kjálki er mjór og ber venjulega 18 til 30 pör tanna, engar tennur eru í efri kjálka. Hjá stórum törfum geta tennurnar geta orðið yfir 10 cm langar en með rót getur tönnin orðið yfir 20 cm á lengd og vegið meira en 1,4 kg. Bægslin eru stutt en þykk og spaðalaga. Sporðblaðkan er 4 til 5 metrar á breidd og er þríhyrningslaga. Búrhvalurinn er nær allur dökkgrár með ívið ljósari kvið, en efri granir og efri hluti neðri kjálka eru hvít. Þó nokkur dæmi eru þekkt um óvenju ljós og jafnvel hvít dýr.
Hið sérkennilega höfuðlag búrhvala stafar af tunnulaga fitubólstri sem liggur efst í höfðinu. Fitubólsturinn er fullur af vaxkenndri olíu (hvalambur, hvalsauki) sem er fljótandi við líkamshita en storknar við lægri hita en 29 °C. Undir fitubólstrinum liggur stór svampkenndur bindivefsmassi sem er mettaður svipaðri olíu. Áður var álitið að hvalambrið í höfði hvalanna væri sæði þar sem hún þótti minna á sæði karla. Þeirri kenningu er nú með öllu hafnað en fitubólsturinn er þó nefndur spermaceti á latínu (sperma = sæði, ceti = hvalur) en ambur, hvalambur eða hvalsauki á íslensku. Líffræðingar hallast nú að því að ambrið í höfði hvalanna stýri flothæfni þeirra á mismunandi dýpi svipað og sundmagar fiska. Eðlisþyngd þess er breytileg eftir dýpi og hitastigi. Þessi kenning byggir á því að búrhvalir getir stýrt hitastigi ambursins og þar með eðlisþyngd þess. Með því að taka kaldan sjó inn um hægri nasagöngin kælir hann það. Vinstri og hægri nasagöngin eru ekki eins. Þau vinstri liggja til hliðar við fitubólsturinn og síðan beint að blástursopinu. Þau hægri liggja hins vegar á milli fitubólstursins og bindivefsmassans í loftsekk í nefinu og þaðan upp í blástursopið. Að öllum líkindum geta hvalirnir einnig hækkað hitastig olíunnar með því að auka blóðflæði til höfuðsins.[3] Önnur tilgáta er að hljóðbylgjur sem búrhvalurinn myndar við að þrýsta lofti í gegnum loftsekkinn fremst í nefinu magnist og endurkastist við að berast í gegnum fitubólsturinn og byndivefsmassann. Tíðni endurkastsins er í hlutfalli við stærð höfuðsins og þar með líkamsstærð.[4]
Útbreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Búrhval má finna á öllum helstu hafsvæðum, þeir halda sig þó helst á úthafssvæðum og sjást sjaldan á grunnsævi. Tarfana má finna allt frá hafísröndinni á norður- og suðurhveli en kýrnar og kálfarnir halda sig á tempruðum hafsvæðum og í hitabeltinu þar sem sjór er aldrei kaldari en 15 °C. Það eru því eingöngu tarfar sem koma á Íslandsmið og sjást þeir oftast vestur og norðvestur af landinu.
Vistfræði
[breyta | breyta frumkóða]Búrhvalir lifa oftast í hópum. Mikilvægasta eining þeirra er hópur innbyrðis skyldra kvendýra og afkvæmi þeirra. Þessir hópar telja oftast um tylft dýra. Tarfarnir yfirgefa mæðrahópinn þegar þeir eru um sex ára gamlir (það er þó misjafnt, allt frá því þeir eru 4 ára og allt að 21 árs aldri). Ungtarfarnir halda sig oftast í hópum með öðrum törfum af svipuðum aldri. Eldri tarfar eru oft einir á ferð en sjást þó alloft nokkrir saman.
Búrhvalir kafa oft niður á 500 metra dýpi og eru þá í kafi í um það bil 40 mínútur. Þeir geta þó hins vegar kafað á allt að 2000 metra dýpi (og hugsanlega allt að 3000 metrum) og verið í kafi í allt að tvær klukkustundir. Eftir djúpköfun liggur hvalurinn við yfirborðið í um tíu mínútur og andar. Búrhvalir nota, eins og aðrir tannhvalir, bergmálsmiðun til að rata um hafdjúpin og til að leita ætis. Stórir og meðalstórir smokkfiskar eru helstu fæðutegundin en þeir éta einnig ýmsa aðra fiska. Meðal annars sýna athuganir á fæðuöflun búrhvala milli Íslands og Grænlands að þeir éta mikið af hrognkelsi (Cyclopterus lumpus), karfa (Sebastes marinus), skötusel (Lophius piscatorius) og þorski (Gadus morhus). Oft má sjá ummerki á búrhvölum, sérlega eldri dýrum, eftir átök við kolkrabba sem hafa vafið örmunum um höfuð þeirra.
Stofnstærð og veiðar
[breyta | breyta frumkóða]Fjöldi búrhvala er óþekktur og talning einstaklinga er ekki auðveld, meðal annars vegna þess hversu langur tími getur liðið á milli þess að þeir komi upp til að anda. Ágiskanir sem byggja á talningum á litlum afmörkuðum svæðum sem síðan eru margfaldaðar yfir allt útbreiðslusvæðið eru allt frá 200.000 til 2 milljóna dýra og um 3 milljóna áður en veiðar hófust. Fjöldi búrhvala á hafsvæðinu við Ísland og Færeyjar er talinn vera yfir 23 þúsund dýr.[5]
Veiðar á búrhval voru ekki stundaðar við Ísland fyrr á öldum en spik var nýtt af strönduðum hvölum. Þegar veiðar á stórhvölum hófst við Ísland um aldamótin 1900 sneru þær ekki að búrhvölum nema að litlu leiti. Einungis nokkrir tugir voru veiddir þar til hvalstöðin var stofnuð í Hvalfirði 1948. Eftir það varð mikil breyting á, frá 1948 og þar til búrhvalur var friðaður árið 1983 voru veiddir samanlagt 2885 hvalir.
Bandaríkjamenn stunduðu miklar veiðar á búrhval allt frá 1712. Bretar og Frakkar stunduðu einnig veiðar á búrhval en þó í miklu minna mæli. Á tímabilinu 1804 til 1876 er talið að heildaraflinn hafi verið um 225 þúsund dýr. Sóst var eftir olíunni og spikinu sem notað var til smurningar, lýsingar og í snyrtiiðnaði. Alþjóðahvalveiðiráðið friðaði búrhval 1983 en Japanir héldu þó áfram veiðum fram til 1987.[6]
Tilvitnanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Cetacean Specialist Group (1996). „Physeter macrocephalus“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 1996. Sótt 6. maí 2006. Database entry includes a lengthy justification of why this species is vulnerable
- ↑ Jón Már Halldórsson. „Eru búri og búrfiskur það sama?“. Vísindavefurinn 12.7.2004. (Skoðað 22.10.2011)
- ↑ The Head of the sperm whale, M. R. Clark í tímaritinu Scientific American 1979
- ↑ The sperm whale's nose: sexual selection on a grand scale, T.W Cranford í tímaritinu Marine Mammal Science 1999
- ↑ Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).
- ↑ Marine mammals of the world. Systematics and distibution. D.W. Rice, Special publication nr 4. The Society for maine mammalogy 1998
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Íslensk spendýr, ritsjóri Páll Hersteinsson, Vaka-Helgafell 2005, ISBN 9979-2-1721-9
- „Hvað borða búrhvalir?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað er hjarta búrhvals þungt?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað eru til margir búrhvalir í heiminum?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað var Moby Dick stór?“. Vísindavefurinn.
- „Eru búri og búrfiskur það sama?“. Vísindavefurinn.
- Ballenger, L. 2003. Physeter catodon (On-line), Animal Diversity Web. Accessed February 22, 2007
- Sperm whale (Physeter macrocephalus). ARKive. Accessed February 22, 2007 Geymt 21 maí 2007 í Wayback Machine