Japan
Japan | |
日本国 Nippon-koku eða Nihon-koku | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Kimi Ga Yo | |
Höfuðborg | Tókýó |
Opinbert tungumál | Japanska (í reynd) |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn
|
Keisari | Naruhito (徳仁) |
Forsætisráðherra | Fumio Kishida (岸田 文雄) |
Stofnun | |
• Stofndagur | 11. febrúar 660 f.Kr. |
• Meiji | 29. nóvember 1890 |
• Stjórnarskrá | 3. maí 1947 |
• San Francisco-samningarnir | 28. apríl 1952 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
62. sæti 377.975 km² 1,4 |
Mannfjöldi • Samtals (2021) • Þéttleiki byggðar |
11. sæti 125.470.000 334/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2021 |
• Samtals | 5.586 millj. dala (4. sæti) |
• Á mann | 44.585 dalir (27. sæti) |
VÞL (2019) | 0.919 (19. sæti) |
Gjaldmiðill | Jen |
Tímabelti | UTC+9 |
Ekið er | vinstra megin |
Þjóðarlén | .jp |
Landsnúmer | +81 |
Japan (Nippon/Nihon 日本 (táknin merkja sól og rætur/uppruna), þýðir bókstaflega „Uppruni sólarinnar“), er landamæralaust land í Austur-Asíu, nánar tiltekið austur af Kóreuskaga og vestarlega í Kyrrahafinu. Nafnið er oft þýtt „Land rísandi sólar“ og er sú þýðing ættuð úr kínversku. Áður en Japan hafði nokkur samskipti við Kína, var landið kallað Yamato (大和). Wa (倭) var nafnið sem Kínverjar notuðu fyrr á öldum þegar þeir töluðu um Japan. Japan er eyjaklasi, og stærstu eyjarnar eru, talið frá suðri til norðurs, Kyūshū (九州), Shikoku (四国), Honshū (本州, stærsta eyjan), og Hokkaidō (北海道). Tókýó er með stærstu borgum heims og er höfuðborg Japans.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Japan heitir á japönsku Nippon eða Nihon, bæði heitin eru skrifuð eins á japönsku ritmáli. Japanska nafnið Nippon er formlegra heiti og notað t.d. á peningaseðlum, frímerkjum og alþjóðlegum íþróttamótum. Nihon er hversdagslegra heiti sem heimamenn nota í daglegu tali. Sem dæmi, Japanar kalla sig Nihonjin (日本人) og tungumál sitt Nihongo (日本語): sem bókstaflega þýðir „japanskt fólk“ og „japönsk tunga“. Í Japan nútímans hefur heitið Nippon þjóðernissinnaðri merkingu og er frekar notað af eldra fólki, meðan stærstur hluti þjóðarinnar notar heitið Nihon dagsdaglega.
Heiti Japans á evrópskum tungumálum (þar með talið íslensku) barst með verslunarleiðum til vesturs. Japan var fyrst nefnt á nafn í skjölum frá Marco Polo og hét þá Cipangu upp á mandarín-kínversku. Hins vegar heitir Japan Jatbun á kantónsku og þaðan er vestræna heitið líklegast komið. Á malasísku varð kantónska heitið Japang og hafa portúgalskir kaupmenn rekist á það í Malakka á 16. öld. Talið er að portúgalskir kaupmenn hafi borið nafnið til Evrópu. Það var fyrst skrifað á ensku sem Giapan.
Nihonkoku (日本国), er formlegt heiti Japans og þýðir í raun „japanska ríkið“.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fornleifarannsóknir benda til þess að búseta manna í Japan hafi hafist fyrir 500.000 árum, á fyrri hluta fornsteinaldar. Á ísöldum síðustu milljón ára hefur Japan verið tengt meginlandi Asíu (við Sakhalin í norðri og líklegast Kyūshū í suðri), sem hefur auðveldað búferlaflutninga manna, dýra og plantna til japanska eyjaklasans, frá því svæði sem nú er Kína og Tævan.
Við lok síðustu ísaldar og með heitara loftslagi tók Jomon-tímabilið (縄文時代) við, u.þ.b. 14.500 f.Kr. Leirker frá Jomon-tímabilinu í Japan eru meðal þeirra elstu í heiminum. Þegar líða fór á Jomon-tímabilið tóku að myndast smáþorp víða í Japan.
Ef marka má klassíska goðafræði Japans setti Jimmu keisari, sem samkvæmt goðafræðinni átti ættir sínar að rekja til guða, Japan á laggirnar á 7. öld fyrir Krist.
Um 300 fyrir Krist tók við Yayoi-tímabilið (弥生時代) sem markaði endalok Jomon-tímabilsins. Tímabilið einkenndist af áhrifum frá asíska meginlandinu, til dæmis bárust til Japans þekking á hrísgrjónarækt og þekking á bronsgerð. Jafnframt voru miklir þjóðflutningar frá mörgum hlutum Asíu til Japans á því tímabili.
Almennt er samt talið víst að einhver tímann um 300 e.Kr. hafi Yamatoættin sameinað eyjarnar Honshū, Shikoku, Kyūshū og hugsanlega einhvern hluta Kóreuskaga og að það hafi verið upphafið að sameiningu Japans. Á 5. og 6. öld tóku Japanar upp kínverska ritkerfið og búddisma, fyrst gegnum Kóreuskaga en síðar beint frá Kína. Keisararnir voru ekki stjórnendur nema að nafninu til, en gegndu í raun aðeins trúarlegu hlutverki. Raunverulegt vald var í höndum hirðar aðalsmanna sem höfðu arfgeng lénsréttindi.
Árið 794 tóku Fujiwara-ættn og Kammu keisari við völdum og reisti hann nýja höfuðborg (áður var Nara höfuðborgin), Heian-kyo (heitir nú Kyoto). Fujiwara-ættin efldi veldi sitt með einokun og gifti meðlimi sína inn í keisarafjölskylduna til að halda sér við völd. Iðulega kom fyrir að keisarinn segði af sér og útnefndi yngri mann, ættingja Fujiwara, keisara. Fyrrverandi keisari gekk svo í klaustur og stjórnaði á bak við tjöldin.
Slíkur háttur var á lengi vel, en upp úr 900 fóru margir aðalsmenn, sem ekki höfðu mikil völd innan hirðarinnar, að rísa upp gegn stjórnarhætti Fujiwara-ættarinnar og settust að í héruðum þar sem þeir tóku sér völd og eignuðu sér landsvæði. Til að verja eigin landsvæði mynduðu þeir bændaheri, sem seinna kölluðust samúræjar. Þetta varð tilefni margra bardaga og hafði mikil áhrif á keisaraveldið. Loks árið 1185, sigruðu bræðurnir Yoshitsune og Yoritomo af Minamoto-ættinni Taira-ættina (sem þá var orðin voldugasta ætt Japans) eftir langar erjur, og komu á sjogúnstjórn (herstjóraveldi, 幕府). Yoshitsune varð fyrsti einráði sjogúninn. Sjogúnstjórnin bar heitið Kamakura Sjogúnstjórnin (鎌倉幕府). Yoshitsune gerði ýmislegt til að bæta hag samúræja sinna og átti mikinn þátt í að skapa menninguna í kringum þá. Erfingjar Yoshitsune urðu samt síðar meir aðeins einvaldar að nafninu til, en Hoju- ættin stjórnaði í raun öllu á bak við tjöldin.
Þetta stjórnskipulag hélst lengi vel eða allt til ársins 1854 þegar Bandaríkjamenn voru farnir að beita Japan þrýstingi til að opna hafnir sínar fyrir erlendum kaupmönnum en Japan hafði þá verið einangrað síðan snemma á 17. öld.
Á Meijitímabilinu (1868 til 1912) voru lénsréttindi afnumin og japanska ríkið tók á sig mynd kapítalískra ríkja í Evrópu.
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Japan er stórt eyríki sem liggur úti fyrir hluta af Kyrrahafsströnd Asíu. Stærstu eyjarnar heita Hokkaidō, Honshū (stærst og fjölmennust), Shikoku, og Kyūshū. Ryūkyū eyjaklasinn teygir sig yfir 1000 km til suðvesturs frá Kyūshū alla leið til Tævan. Að auki tilheyra um 3000 smærri eyjar Japan. Fjalllendi þekur 73% landsins og fjallgarðar liggja eftir eyjunum endilöngum, venjulega í stefnunni norður-suður. Hæsta fjallið er Fuji-fjall sem er 3776 metra hátt og virkt eldfjall. Hið takmarkaða flatlendi er mjög þéttbýlt, Tókíó og nágrannaborgir mynda þannig langstærsta samfellda þéttbýlissvæði á jörðinni með yfir 33 milljónir íbúa.
Japanseyjar eru á hinum svonefnda eldhring sem umlykur Kyrrahaf og er mjög virkt jarðskjálfta- og eldfjallasvæði. Stórir jarðskjálftar geta riðið yfir hvar sem er í Japan og má reikna með nokkrum slíkum á hverri öld. Á 20. öldinni urðu verstu skjálftarnir annars vegar árið 1923 í nágrenni Tókíó, og kostaði sá 140.000 mannslíf og svo hins vegar 1995 við Kobe þar sem yfir 6000 manns létust. Jarðhiti er nokkur í Japan. Þar má víða finna heitar uppsprettur og við sumar þeirra hafa verið byggðir baðstaðir og heilsuhæli, ekki ósvipað Bláa lóninu á Íslandi.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Í Japan er stjórnarskrárbundin konungsstjórn með tveggja deilda þingi, sem kallast Kokkai (国会). Japan hefur konunglega fjölskyldu, þar sem keisarinn er hæst settur en samkvæmt núverandi stjórnarskrá hefur hann engin raunveruleg völd heldur þjónar eingöngu formlegu hlutverki þjóðhöfðingja. Framkvæmdavaldið, sem heyrir undir Kokkai, er í höndum ríkisstjórnar sem í sitja forsætisráðherra og aðrir ráðherrar, sem verða að vera almennir borgarar. Forsætisráðherrann er þingmaður á Kokkai. Forsætisráðherra hefur vald til að ráða og reka ráðherra en ráðherrarnir þurfa flestir að vera þingmenn á Kokkai. Núverandi forsætisráðherra, frá 4. október 2021, er Fumio Kishida.
Héraðsskipan Japans
[breyta | breyta frumkóða]
Japan er skipt upp í 47 héruð sem hér er raðað frá norðri til suðurs (sama röð er notuð í ISO 3166-2):
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]erlendir
- Japan-Guide.com Allt milli himins og jarðar um Japan
- CIA Factbook: Japan Geymt 6 september 2004 í Wayback Machine