Miðhálendið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Miðhálendið nær yfir samfellt hálent svæði í miðju landsins. Þetta kort sýnir hæð yfir 500 metra á Íslandi.
Herðubreið
Kerlingarfjöll séð frá Kili
Nýidalur er ein ferðamannamiðstöð á hálendinu.
Ferðalangur á hálendinu.
Á Sprengisandi. Séð til Hofsjökuls.
Á Friðlandi að Fjallabaki eru jarðmyndanir litskrúðugar.

Miðhálendið er óbyggt hálendi í yfir 500 metra hæð sem nær yfir stærstan hluta Íslands inni í landi og sem að jafnaði hentar ekki til búsetu vegna kulda og/eða skorts á jarðvegi. Að öðru leyti er náttúra þessa svæðis fjölbreytt. Á þessu svæði er t.d. að finna eldfjöll, hveri, hraun, ýmsar jarðmyndanir, sanda, jökla, ár, stöðuvötn og gróðurvinjar. Stór hluti hálendisins er á gosbeltinu, þ.e. eldvirku svæði. Hluti hálendisins hefur verið nýttur sem afréttur. Ferðamennska hefur farið þar vaxandi, einkum á sumrin.

Ekki er til eitt algilt svar við því hvert er flatarmál miðhálendis Íslands. Í tengslum við vinnu við gerð svæðisskipulags miðhálendisins var rætt um að skipulagssvæðið væri um 40% af flatarmáli landsins.[1] Samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands er flatarmálið 42.700 km² [2] Kort hafa verið gerð af Miðhálendinu. [3]

Þjóðleiðir milli landshluta voru eitt sinn á miðhálendinu. Í dag eru ákveðnir fjallvegir um það líkt og Kjölur, Kaldidalur og Sprengisandur. Fimm hæstu fjallvegir á Íslandi eru á miðhálendinu. [4]

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir stóran hluta austursvæðis miðhálendisins.[5]

Vötn[breyta | breyta frumkóða]

Meðal vatna eru Langisjór, Þórisvatn, Öskjuvatn og Hvítárvatn. Þórisvatn hefur verið stækkað vegna virkjana og er stærsta vatnið á landinu. Blöndulón, Hágöngulón og Hálslón eru manngerð vötn vegna virkjana.

Fjöll[breyta | breyta frumkóða]

Ýmis merk fjöll eru á eða við Miðhálendið. Þar má nefna virkar og óvirkar megineldstöðvar, móbergsstapa og dyngjur. Meðal fjalla eru: Kerlingarfjöll, Askja, Herðubreið, Hrútfell, Eiríksjökull, Kverkfjöll, Trölladyngja, Skjaldbreiður og Snæfell. Hekla er í jaðri hálendisins.

Jöklar[breyta | breyta frumkóða]

Stærstu jöklar landsins eru á miðhálendinu eða í námunda við það: Vatnajökull, Langjökull, Hofsjökull, Mýrdalsjökull ásamt smærri jöklum.

Fljót[breyta | breyta frumkóða]

Stærstu fljót landsins eiga upptök sín í jöklum á miðhálendinu: Þjórsá, Jökulsá á Fjöllum, Hvítá, Skjálfandafljót, Blanda og Skaftá. Jökulsá á Dal myndaði Dimmugljúfur og Hafrahvammagljúfur

Hraun[breyta | breyta frumkóða]

Ódáðahraun er stærsta hraunflæmi á landinu. Síðan má nefna Kjalhraun og Hallmundarhraun af stærri hraunum á miðhálendinu. Eldhraun sem kom úr Lakagígum er að hluta til á miðhálendinu.

Gróður[breyta | breyta frumkóða]

Þjórsárver og Guðlaugstungur við Hofsjökul eru mikilvægar varpstöðvar heiðagæsa og gróðurfarslega fjölbreytt svæði. Arnarvatnsheiði og Vesturöræfi eru að miklu leyti grónar heiðar. Hvannalindir og Herðubreiðarlindir eru dæmi um gróðurvinjar á norðurhluta hálendisins.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gert stafrænt gróðurkort af hálendinu. [6] Gróðurþekja er sem hér segir:

 • Lítt/ógróið land eða <10% gróðurþekja: 41%.
 • Gróðurþekja 25%: 6%.
 • Gróðurþekja 50%: 5%.
 • Gróðurþekja 75%: 9%.
 • Algróið eða >90% gróðurþekja: 10%.
 • Jöklar: 25%.
 • Vatn: 3%.

Mosagróður er algengasta gróðurlendið eða samtals 46%. [7]

Dýralíf[breyta | breyta frumkóða]

Heimskautarefurinn eða tófan lifir víða á miðhálendinu og á heiðum innan þess. Hreindýr halda til á Vesturöræfum.

Á hálendinu hafa verið taldar 32 fuglategundir. Fuglar eru m.a. heiðagæs, rjúpa, mófuglar eins og heiðlóa, snjótittlingur og þúfutittlingur [8]. Spói er strjáll á hálendinu.[9] Himbrimi og hávella lifa við vötn á heiðum hálendisins. Á Kili verpa fimm tegundir mófugla: Heiðlóa, sendlingur, lóuþræll, steindepill og snjótittlingur. [10]

Ferðamannastaðir og skálar[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsir skálar og ferðamannamiðstöðvar hafa verið byggðar á miðhálendinu. Landmannalaugar, Hveravellir og Herðubreiðarlindir eru með þeim þekktari. Meðal annarra staða eru Nýidalur, Ásgarður við Kerlingarfjöll, Sigurðarskáli við Kverkfjöll, Drekagil, og Snæfellsskáli við Snæfell.

Önnur mannvirki[breyta | breyta frumkóða]

Mannvirki utan ferðaskála eru umdeild. Félagið Landvernd, aðrir umhverfishópar og ferðafélög hafa gagnrýnt áform um virkjanir, uppbyggða vegi og háspennulínur á miðhálendinu.

,,Fram­kvæmd­irn­ar eru sagðar munu kljúfa víðerni há­lend­is­ins, valda um­ferðargný í stað ör­æfa­kyrrðar og bjóða upp á hættu á frek­ari „lág­lendi­svæðingu“ há­lend­is­ins með upp­bygg­ingu margskon­ar innviða og þjón­ustu á svæðinu. [11]

Hugmyndir eru uppi að leggja háspennulínu yfir Sprengisand. Gagnrýnendur vilja fremur jarðstreng til að minnka umhverfisáhrif.

Virkjanir[breyta | breyta frumkóða]

Landsvirkjun hefur reist virkjanir á hálendinu, þar á meðal: Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun og Blönduvirkjun. Kárahnjúkavirkjun sem var lokið að byggja árið 2007 á austurhluta miðhálendisins og Hálslón sem fylgdi því hafði í för með sér pólitískar deilur.

Rammaáætlun hefur verið gerð um orkunýtingarkosti, þar á meðal á hálendinu. Svæði eru sett í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Fyrsta rammaáætlunin var samþykkt árið 2013.[12]

Verndun[breyta | breyta frumkóða]

Vatnajökulsþjóðgarður þekur stóran hluta austursvæðis hálendisins og er hann á heimsminjalista UNESCO.

Hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð[breyta | breyta frumkóða]

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti hefur tillögur á borði sem myndi gera 85 prósent af miðhálendinu að þjóðgarði. [13] Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, [14] undirbýr frumvarp um verndun hálendisins; mörk þjóðgarðsins miðist við þjóðlendur og friðlýst svæði á miðhálendinu, þar með talinn Vatnajökulsþjóðgarð. Ýmis sveitarfélög og orkufyrirtæki hafa mótmælt þessum áætlunum. Bent er á að skipulagsvald sveitarfélaga sé skert [15]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. http://www.visindavefur.is/svar.php?id=67980
 2. http://www.ni.is/frettir/nr/14130
 3. http://www.halendi.is/media/files/C1-a3-fleka.jpg
 4. http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4690
 5. http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/vatnajokullkort.pdf
 6. http://www.ni.is/frettir/nr/14130
 7. https://www.youtube.com/watch?v=JV_4MUZ_W7U
 8. http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=21
 9. http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=10
 10. http://www.ni.is/media/midlunogthjonusta/utgafa/skyrslur_2009/NI-09008_vef.pdf
 11. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/30/hefdi_oafturkraef_ahrif_a_midhalendid/
 12. http://www.althingi.is/altext/141/s/0892.html
 13. 85 prósent af miðhálendinu undir þjóðgarðRúv, skoðað 23. júlí 2019
 14. Skiluðu ráðherra skýrsu um miðhálendisþjóðgarð Rúv, skoðað 29. janúar 2020.
 15. Mótmæla þjóðgarði á miðhálendinu Rúv, skoðað 29. jan. 2020.