Fara í innihald

Bjarni Benediktsson (f. 1970)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bjarni Benediktsson

Bjarni árið 2023

Fæðingardagur: 26. janúar 1970 (1970-01-26) (54 ára)
Fæðingarstaður: Reykjavík
1. þingmaður Suðvesturkjördæmis
Flokkur: Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðis­flokkurinn
Þingsetutímabil
2003-2009 í Suðvest. fyrir Sjálfstfl.
2009-2013 í Suðvest. fyrir Sjálfstfl.
2013-2016 í Suðvest. fyrir Sjálfstfl.
2016-2017 í Suðvest. fyrir Sjálfstfl.
2017-2021 í Suðvest. fyrir Sjálfstfl.
2021- í Suðvest. fyrir Sjálfstfl.
= stjórnarsinni
Embætti
2003-2007 Formaður allsherjarnefndar
2003-2005 Formaður Íslandsdeildar VES-þingsins
2007-2009 Formaður utanríkismálanefndar
2013-2017 Fjármálaráðherra
2017 Forsætisráðherra
2017-2023 Fjármálaráðherra
2023-2024 Utanríkisráðherra
2024- Forsætisráðherra
Tenglar
Æviágrip á vef AlþingisVefsíða

Bjarni Benediktsson (f. 26. janúar 1970) er núverandi forsætisráðherra Íslands, fyrrum utanríkisráðherra Íslands, fyrrum fjármálaráðherra Íslands[1] og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni hefur verið formaður Sjálfstæðisflokkins og oddviti í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2009 og setið á Alþingi frá 2003. Bjarni hefur fimm sinnum haft betur gegn keppinautum á landsfundum Sjálfstæðisflokksins.[2][3][4][5][6]

Bjarni er stundum kallaður „Teflon-Bjarni“ vegna fjölda stjórnmálahneyksla sem hann hefur staðið af sér án þess að glata stöðu sinni sem einn valdamesti stjórnmálamaður á Íslandi.[7][8] Bjarni er annar ráðherrann í íslenskri stjórnmálasögu sem hefur gegnt öllum þremur helstu ráðherraembættum; forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1989, lauk námi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1995, stundaði nám í þýsku og lögfræði í Þýskalandi 1995 – 1996, LL.M.-gráða (e. Master of Laws) frá Háskólanum í Miami í Bandaríkjunum 1997 og varð löggiltur verðbréfamiðlari árið 1998. Hann starfaði sem fulltrúi sýslumannsins í Keflavík árið 1995 og sem lögfræðingur Eimskipafélags Íslands á árunum 1997 – 1999. Bjarni var lögmaður með eigin rekstur á Lex lögmannsstofu 1999 – 2003 og var faglegur framkvæmdastjóri Lex 2002 – 2003.

Þingstörf[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni hefur setið á Alþingi fyrir Suðvesturkjördæmi frá árinu 2003. Bjarni var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2013-2017, forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá janúar til nóvember 2017 og fjármálaráðherra að nýju í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknarflokks frá 30. nóvember 2017.

Bjarni var formaður allsherjarnefndar Alþingis á árunum 2003 – 2007 og formaður utanríkismálanefndar á árunum 2007 – 2009. Hann sat í stjórnarskrárnefnd af hálfu flokksins á árunum 2004 – 2007 og ennfremur árið 2009.

Bjarni sat í fjárlaganefnd Alþingis 2003 – 2007, var í iðnaðarnefnd á árunum 2003 – 2004, heilbrigðis- og trygginganefnd 2004 – 2005, utanríkismálanefnd 2005-2009 og efnahags- og skattanefnd frá 2007. Bjarni var formaður Íslandsdeildar VES-þingsins 2003 – 2005 og hefur setið í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA frá 2005. Hefur setið í fjölda nefnda á vegum ráðuneyta, svo sem nefnd um ytri endurskoðun laganáms við Háskóla Íslands, nefnd um endurskoðun laga um ríkisborgararétt og nefnd um endurskoðun jafnréttislaga.

Utanríkismál[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni er stuðningsmaður aukinnar samvinnu við Bandaríkin, hann hefur lýst yfir „vilja til þess að efla enn frekari tengsl þessara vinaþjóða í framtíðinni. Ný tækifæri og nýjar áskoranir, hvort sem er í viðskiptum milli landanna, ferðamennsku, menningar- og menntamálum, öryggis- og varnarmálum eða málefnum tengdum norðurskautinu eiga að vera okkur hvatning til þess að styrkja böndin enn frekar.“[9]

Bjarni sat hjá við atkvæðagreiðslu á Alþingi um að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu í nóvember 2011, og benti á að ESB hefði Hamas-samtökin á lista yfir hryðjuverkasamtök og í því ljósi hefði hann „mikla fyrirvara við að það sé skynsamlegt að stíga þetta stóra skref núna.”[10] Hann studdi álit minnihluta Sjálfstæðismanna um að óvíst sé að „friðvænlegra verði á svæðinu með viðurkenningu Palestínu sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis á þessum tímapunkti.” Í yfirlýsingunni sagði jafnframt: „Minni hlutinn bendir á að möguleg áhrif almennrar viðurkenningar á sjálfstæði og fullveldi Palestínu á sjálfar friðarviðræðurnar milli Palestínumanna og Ísraelsmanna eru órannsökuð.”[11][12][13][14]

Bjarni neitaði fyrir hönd Íslands að taka afstöðu í atkvæðagreiðslu á neyðarfundi sameinuðu þjóðana um vopnahlé í hernaði Ísraels gegn Palestínu.[15]

Viðskiptalíf[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni Benediktsson var stjórnarformaður N1 og BNT á árunum 2005 – 2008. Hann lét af stjórnarformennsku eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008 vegna þess að hann taldi fulla þörf á að helga stjórnmálum alla krafta sína.[16]

Í byrjun desember 2009 skýrði DV frá því að Bjarni hefði í febrúar 2008 skrifað undir samning í umboði eigenda félagsins Vafnings. Flókin viðskiptaflétta fólst í því að félagið Vafningur fékk lánaða 10,5 milljarða króna til þess að endurfjármagna félagið Þáttur International sem var í eigu Milestone og bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona. Benedikt er faðir Bjarna. Bjarni sjálfur hefur sagt aðkomu sína hafa verið „fólgin í því að veita Glitni veð í hlutafélaginu Vafningi til tryggingar á láni sem Glitnir hafði veitt því. Aðra aðkomu að málinu hafði ég ekki“.[17]

Í umfjöllun DV er haldið fram að Þáttur International hafi með þessum hætti greitt 15 milljarða króna skuld við bandaríska bankann Morgan Stanley og varnað því að bandaríski bankinn hafi leyst til sín 7% hlut félagsins í Glitni.[18] Bjarni var ásakaður í fjölmiðlum um slæma, jafnvel ólöglega viðskiptahætti.[19]

Í kjölfar hrunsins kannaði Rannsóknarnefndin hversu margir þingmenn hefðu fengið lán hærri en hundrað milljónir króna á tímabilinu 2005 til falls bankanna í október 2008. Bjarni Benediktsson reyndist þá skulda 174 milljónir. [20]

Bjarni Benediktsson stofnaði aflandsfyrirtækið Falson & co á Seychelle-eyjum árið 2006. Það fyrirtæki hélt utan um fjárfestingu Bjarna auk tveggja annarra Íslendinga í fasteignaverkefni í Dúbaí.[21]

Formennska í Sjálfstæðisflokknum[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni Benediktsson á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi árið 2009.

Bjarni var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 29. mars 2009, er Geir H. Haarde hvarf af vettvangi stjórnmála.[22] Hann tilkynnti um formannsframboð sitt, eftir að Geir tilkynnti um ákvörðun sína að hætta, 31. janúar.[23] Bjarni sigraði Kristján Þór Júlíusson í formannskjörinu. Bjarni hlaut 990 atkvæði, tæp 60%, en Kristján Þór 688, tæp 40%. Aðrir fengu minna. Þrír aðrir höfðu lýst yfir áhuga á formannssætinu.

Stuttu eftir að Bjarni hafði verið kosinn til formennsku í Sjálfstæðisflokknum bárust fréttir um það í fjölmiðlum að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið á móti styrkjum frá FL Group (sem heitir Stoðir í dag) og Landsbanka Íslands upp á samtals 50 milljónir króna. Þetta mál var nefnt Styrkjamálið, Bjarni taldi alla ábyrgð vera á þáverandi framkvæmdastjórum flokksins sem hefðu samkvæmt honum átt að vita af styrkjunum, þá Kjartan Gunnarsson og Andra Óttarsson.[24] Hann dró síðar til baka ummæli sín og sagði fráleitt að draga nafn Kjartans í atburðarrásina, hann hefði ekkert haft með þessi mál tengd styrkjum að gera.[25]

Bjarni var endurkjörinn formaður á landsfundi 26. júní 2010. Bjarni hlaut 573 atkvæði í kjörinu eða 62% greiddra atkvæða en Pétur H. Blöndal alþingismaður fékk 281 atkvæði eða 30%. Alls greiddu 925 atkvæði í kjörinu en auðir seðlar voru 50. Aðrir hlutu færri atkvæði. [26]

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var 17.-20. nóvember 2011 bauð Hanna Birna Kristjánsdóttir sig fram til formanns gegn Bjarna. Bjarni hlaut 727 af 1323 greiddum atkvæðum. Hann hlaut því 55 prósent kosningu. Hanna Birna fékk 577 atkvæði og rúmlega 44 prósent atkvæða.[27] Á landsfundi 2013 var hann svo kjörinn með tæplega 80% atkvæða.[5]

Bjarni var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í vali milli þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þann 6. nóvember 2022. Bjarni hlaut tæp sextíu prósent atkvæða.[6]

Ráðherraferill[breyta | breyta frumkóða]

Fjármálaráðherra (2013–2017)[breyta | breyta frumkóða]

Eftir sigur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í Alþingiskosningunum 2013 mynduðu flokkarnir ríkisstjórn þar sem Bjarni varð fjármálaráðherra en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð forsætisráðherra.

Fyrir og eftir kosningarnar 2013 hafði Bjarni ítrekað lofað því að stjórnin myndi efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið sem höfðu hafist á kjörtímabili fyrri stjórnar. Kvað hann stjórn sína ekki munu hverfa frá aðildarviðræðunum án þess að leggja málið fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu.[28][29] Þvert á þessi ummæli fór svo að Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, sendi Evrópusambandinu árið 2015 tilkynningu um að aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið, sem þá höfðu verið á ís í nokkur ár, skyldi alfarið hætt.[30] Tilkynningin um endalok aðildarviðræðanna var ekki lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu, né var hún afgreidd af Alþingi.[31]

Aðspurður hví ekki hefði verið staðið við loforðið um að binda ekki enda á viðræðurnar án samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu sagði Bjarni Benediktsson síðar að „pólitískur ómöguleiki“ hefði komið í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um málið.[32]

Árið 2016 brutust út fjöldamótmæli eftir að birting Panamaskjalanna leiddi í ljós að bæði Bjarni og Sigmundur, auk Ólafar Nordal dómsmálaráðherra, væru eigendur aflandsfélaga í skattaskjólum. Upplýst var um að Bjarni ætti hlut í félaginu Falson & Co. sem var skráð á Seychelles-eyjum til að stunda fasteignaviðskipti í Dúbaí. Bjarni gerði lítið úr aðkomu sinni að fyrirtækinu og sagðist hafa staðið í þeirri trú að félagið væri skráð í Lúxemborg en ekki Seychelles-eyjum.[7] Tölvupóstar frá árinu 2007 sem lekið var með Glitnisgögnunum svokölluðu árið 2017 sýndu þó fram á að Bjarni hefði verið virkur þátttakandi í starfsemi Falson í Dúbaí.[33]

Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra vegna óánægju með upplýsingarnar í Panamaskjölunum en Bjarni sat áfram sem fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar fram að Alþingiskosningunum 2016.

Fyrsta ríkisstjórn Bjarna og uppreist æru-málið[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni sem forsætisráðherra á ráðstefnu Hringborðs Norðurslóða þann 13. október 2017.

Eftir þingkosningar 29. október 2016 myndaði Bjarni ríkistjórn með Viðreisn, og Bjartri framtíð. Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar tók við völdum 11. janúar 2017. Ráðuneyti Bjarna hrundi þegar Björt framtíð dró sig úr stjórnarsamstarfinu í september sama ár eftir að upplýst var um að ríkisstjórnin hefði veitt dæmdum barnaníðingi, Hjalta Sigurjóni Haukssyni, uppreist æru samkvæmt meðmælum frá föður Bjarna, Benedikt Sveinssyni.[34] Bjarni hafði vitað frá því í júlí sama ár að faðir hans væri meðal umsagnaraðila Hjalta.[35] Meðlimir Bjartrar framtíðar kölluðu málið „alvarlegan trúnaðarbrest“ innan ríkisstjórnarinnar.[36]

Hrun stjórnarinnar leiddi til þess að boðað var til alþingiskosninga í kjölfarið í október 2017. Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur var mynduð í nóvember 2017. Bjarni varð þá að nýju fjármálaráðherra.

Íslandsbankasalan og afsögn Bjarna sem fjármálaráðherra[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Bjarni varð fjármálaráðherra að nýju hóf hann árið 2021 að selja eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Fyrsti hluti sölunnar fór fram með almennu hlutafjárútboði á dögunum 7. til 15. júní þar sem 22,5 prósenta hlutur í bankanum var seldur.[37] Sala á 22,5 prósenta eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka til viðbótar hófst með tilboðsfyrirkomulagi þann 22. mars 2022.[38]

Framkvæmd útboðsins 2022 var harðlega gagnrýnd eftir að listi yfir kaupendur var birtur í apríl sama ár. Meðal annars var gagnrýnt að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, hefði verið meðal þeirra sem fengu að kaupa eignarhlut í bankanum á verði undir markaðsgengi.[39] Í skýrslu um bankasöluna sem birt var þann 26. júní 2023 var komist að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði ekki farið að lögum við söluna í hlutabréfunum og að brotin hefðu verið bæði alvarleg og kerfislæg. Bankinn var sagður hafa villt um fyrir Bankasýslunni og var dæmdur til að greiða 1,2 milljarða króna í sekt, þá hæstu í sögu Íslands.[40]

Þann 10. október 2023 gaf umboðsmaður Alþingis út álit á aðkomu Bjarna á sölu ríkisins á Íslandsbanka. Hann komst þar að þeirri niðurstöðu að Bjarni hefði verið vanhæfur samkvæmt stjórnsýslulögum til að samþykkja sölu á eignahlut ríkisins í bankanum þar sem faðir hans var meðal kaupenda. Ekki væru forsendur til að staðreyna staðhæfingar Bjarna um að hann hefði ekki vitað af þátttöku föður síns í útboðinu.[41] Þá taldi umboðsmaður að þar sem Bjarni hefði ekki fylgst með því hvernig sölumeðferðin horfði við kröfum stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi hefði stjórnsýsla Bjarna „ekki verið í nægi­lega góðu sam­ræmi við stjórn­un­ar- og eft­ir­lits­skyldu hans“.[42]

Bjarni tilkynnti afsögn sem fjármálaráðherra þann 10. október 2023 vegna niðurstöðu umboðsmanns um vanhæfi hans við sölu Íslandsbanka.[43] Bjarni tilkynnti fjórum dögum síðar að hann myndi taka við embætti utanríkisráðherra og að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir yrði nýr fjármálaráðherra.[44]

Utanríkisráðherra (2023–2024)[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni heilsar Alexander Schallenberg, utanríkisráðherra Austurríkis, í febrúar árið 2024.

Stuttu eftir að Bjarni tók við embætti utanríkisráðherra, þann 27. október 2023, sat Ísland hjá í atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um ályktun þar sem kallað var eftir vopnahléi í yfirstandandi stríði Ísraels og Hamas á Gasaströndinni í Palestínu. Hjáseta Íslands í atkvæðagreiðslunni vakti töluverða athygli þar sem hún var á skjön við yfirlýsta afstöðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í deilum Ísraels og Palestínu, sem var ekki spurð álits áður en atkvæðagreiðslan fór fram.[45]

Önnur ríkisstjórn Bjarna (2024-)[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Katrín Jakobsdóttir gaf kost á sér til embættis forseta Íslands í forsetakosningum 2024 þann 5. apríl 2024 þurfti að mynda nýja ríkisstjórn. Ríkisstjórnin var tilkynnt 9. apríl og tók við 10. apríl. Í ríkisstjórninni var Bjarni forsætisráðherrra. Í skoðanakönnun sem birt var stuttu eftir að Bjarni tók við embættinu sögðust 78 prósent aðspurðra óánægð með að Bjarni væri orðinn forsætisráðherra.[46] Á um tveimur dögum eftir að Bjarni myndaði stjórn sína söfnuðust um 34 þúsund atkvæði á undirskriftalista þar sem veru Bjarna í embætti forsætisráðherraembætti var mótmælt.[47]

Einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Eiginkona Bjarna er Þóra Margrét Baldvinsdóttir og eiga þau saman fjögur börn.

Árið 2015 leiddi gagnaleki í ljós að Bjarni hafði verið skráður notandi á vefsíðunni Ashley Madison, sem er tengslavefur fyrir gift fólk eða fólk í samböndum sem hyggst halda framhjá maka sínum. Bjarni hafði verið skráður þar undir notendanafninu „IceHot1“.[48] Í yfirlýsingu hjónanna sögðust Bjarni og Þóra hafa skráð sig saman á vefinn upp á grín.[49]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Ný ríkisstjórn tekur við völdum í dag“, 30. nóvember 2017.
 2. Bjarni kjörinn formaður
 3. Bjarni Benediktsson hlaut afgerandi kosningu sem formaður Sjálfstæðisflokksins.[óvirkur tengill]
 4. „Forysta Sjálfstæðisflokksins endurkjörin“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. febrúar 2012. Sótt 18. febrúar 2012.
 5. 5,0 5,1 Morgunblaðið. „Bjarni endurkjörinn“.
 6. 6,0 6,1 Alexander Kristjánsson (6. nóvember 2022). „Bjarni endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins“. RÚV. Sótt 14. nóvember 2021.
 7. 7,0 7,1 Ingi Freyr Vilhjálmsson (10. október 2023). „Öll hneykslismálin sem Bjarni stóð af sér“. Heimildin. Sótt 2. nóvember 2023.
 8. „Af hverju núna Teflon-Bjarni?“. 12. október 2023. Sótt 5. nóvember 2023.
 9. Ísland & Bandaríkin: 70 ára menningar- og viðskiptasaga, bls 8
 10. RÚV. „Tímamót verði tillagan samþykkt“, 27. september 2011, skoðað þann 27. nóvember 2013.
 11. Tillaga til þingsályktunar um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.
 12. Nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.
 13. „Gagnrýna tillögu um Palestínu“ á Mbl.is (Skoðað 26. mars 2013).
 14. „Bjarni: Óskynsamlegt að Ísland viðurkenni sjálfstæði Palestínu“ Geymt 4 desember 2012 í Wayback Machine á Eyjunni (Skoðað 26. mars 2013).
 15. „UN General Assembly adopts Gaza resolution calling for immediate and sustained 'humanitarian truce' | UN News“. news.un.org (enska). 26. október 2023. Sótt 1. nóvember 2023.
 16. „Bjarni Benediktsson hættir formennsku hjá N1. Ætlar að helga stjórnmálunum alla krafta sína“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. desember 2008. Sótt 12. janúar 2009.
 17. „Ég ber ekki ábyrgð á Milestone og Sjóvá“ (PDF).
 18. „Kvíðir ekki skýrslu Rannsóknarnefndar“. 3. febrúar 2010.
  „Bjarni flæktur í Vafning sem er til rannsóknar hjá saksóknara“. 22. janúar 2010.
 19. „Guðmundur: Bjarni tók þátt í spilltu fjármálalífi“. 27. janúar 2010.
 20. „„Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokks með lán yfir hundrað milljónum. Sólveig Pétursdóttir skuldsettust"; grein á Eyjunni 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. desember 2014. Sótt 25. febrúar 2015.
 21. „Bjarni Benediktsson reyndi að leyna eignarhaldi sínu á aflandsfélagi“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. ágúst 2016. Sótt 28. ágúst 2016.
 22. Bjarni kjörinn formaður
 23. Bjarni býður sig fram til formanns
 24. Kjartan sagði ósatt ef marka má orð Bjarna Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine af Vísi.is 12.04.2009 (Skoðað 11. febrúar 2010).
 25. Fráleitt að draga nafn Kjartans í Umræðuna af mbl.is 12.04.2009 (Skoðað 25. september 2010).
 26. Bjarni Benediktsson hlaut afgerandi kosningu sem formaður Sjálfstæðisflokksins.[óvirkur tengill]
 27. Forysta Sjálfstæðisflokksins endurkjörin Geymt 19 febrúar 2012 í Wayback Machine, 20. nóvember 2011; Bjarni var klökkur - "Ég er óendanlega þakklátur“, 20. nóvember 2011
 28. „„Við munum standa við það að hlusta á fólkið í landinu". Vísir. 27. febrúar 2014. Sótt 23. september 2018.
 29. „Stenst það hjá Bjarna Benediktssyni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei í aðdraganda kosninga 2013 lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB?“. Vísindavefurinn.
 30. „Bréf Gunnars Braga um að afturköllun ESB-umsóknar birt í heild sinni“. Kjarninn. 13. mars 2015. Sótt 23. september 2018.
 31. „Þingið ekki til­búið í ESB-mál­inu“. mbl.is. 18. desember 2015. Sótt 23. september 2018.
 32. „Ómögulegt án pólitísks vilja“. RÚV. 18. desember 2015. Sótt 24. september 2018.
 33. Jóhann Páll Jóhannsson (10. október 2017). „Gerði ráð fyrir 50 til 60 milljóna hagnaði af „krúnudjásnum" Falson“. Stundin. Sótt 2. nóvember 2023.
 34. Freyr Gígja Gunnarsson; Alma Ómarsdóttir (14. september 2017). „Faðir forsætisráðherra ábyrgðist barnaníðing“. RÚV. Sótt 28. janúar 2021.
 35. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (14. september 2017). „Bjarni fékk að vita það í lok júlí að faðir hans væri á meðal umsagnaraðila Hjalta Sigurjóns“. Vísir. Sótt 28. janúar 2021.
 36. Brynjólfur Þór Guðmundsson; Alma Ómarsdóttir (15. september 2017). „Björt framtíð slítur stjórnarstarfi“. RÚV. Sótt 28. janúar 2021.
 37. Þórður Snær Júlíusson (23. mars 2022). „Alls 22,5 prósenta hlutur í Íslandsbanka seldur með 2,25 milljarða króna afslætti“. Kjarninn. Sótt 22. apríl 2022.
 38. Ólafur Arnarson (22. mars 2022). „Sala á hlut rík­is­ins í Ís­lands­bank­a haf­in“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júní 2022. Sótt 22. apríl 2022.
 39. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (6. apríl 2022). „Faðir fjár­mála­ráð­herra einn fjár­festa sem keypti í Ís­lands­banka“. Vísir. Sótt 22. apríl 2022.
 40. Ingunn Lára Kristjánsdóttir, Ari Páll Karlsson, Róbert Jóhannsson, Brynjólfur Þór Guðmundsson og Ásta Hlín Magnúsdóttir (26. júní 2023). „Íslandsbankaskýrslan birt: Alvarleg og kerfislæg brot“. RÚV. Sótt 26. júní 2023.
 41. „Álit. Mál nr. F132/2023“. Umboðsmaður Alþingis. 5. október 2023. Sótt 13. október 2023.
 42. „Bjarna brast hæfi við ákvörðun um Íslandsbankasöluna“. mbl.is. 10. október 2023. Sótt 10. október.
 43. Freyr Gígja Gunnarsson; Alexander Kristjánsson (10. október 2023). „Bjarni Benediktsson segir af sér vegna vanhæfis við söluna á Íslandsbanka“. RÚV. Sótt 10. október 2023.
 44. Alexander Kristjánsson (14. október 2023). „Bjarni verður utanríkisráðherra og Þórdís fjármálaráðherra“. RÚV. Sótt 14. október 2023.
 45. Lovísa Arnardóttir (1. nóvember 2023). „Sam­tal fyrir at­kvæða­greiðslu hefði verið á­kjósan­legt“. Vísir. Sótt 2. nóvember 2023.
 46. „78% óánægðir með nýja forsætisráðherrann“. mbl.is. 15. apríl 2024. Sótt 16. apríl 2024.
 47. Georg Gylfason (11. apríl 2024). „Undirskriftir gegn Bjarna orðnar fleiri en greidd atkvæði Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu“. Heimildin. Sótt 16. apríl 2024.
 48. Jakob Bjarnar (31. ágúst 2015). „Bjarni kallaði sig IceHot1 á Ashley Madison“. Vísir. Sótt 23. desember 2018.
 49. Birgir Olgeirsson (31. ágúst 2015). „Fjármálaráðherra skráður á framhjáhaldssíðu“. Vísir. Sótt 23. desember 2018.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Geir H. Haarde
Formaður Sjálfstæðisflokksins
(29. mars 2009 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti
Fyrirrennari:
Katrín Júlíusdóttir
Fjármálaráðherra
(23. maí 201311. janúar 2017)
Eftirmaður:
Benedikt Jóhannesson
Fyrirrennari:
Sigurður Ingi Jóhannsson
Forsætisráðherra
(11. janúar 201730. nóvember 2017)
Eftirmaður:
Katrín Jakobsdóttir
Fyrirrennari:
Benedikt Jóhannesson
Fjármálaráðherra
(30. nóvember 201714. október 2023)
Eftirmaður:
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Fyrirrennari:
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Utanríkisráðherra
(14. október 20239. apríl 2024)
Eftirmaður:
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Fyrirrennari:
Katrín Jakobsdóttir
Forsætisráðherra
(9. apríl 2024 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti