Landselur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Landselur

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Undirættbálkur: Hreifadýr (Pinnipedia)
Ætt: Selaætt (Phocidae)
Ættkvísl: Selaættkvísl (Phoca)
Tegund:
P. vitulina

Tvínefni
Phoca vitulina
Linnaeus, 1758

Landselur (einnig láturselur eða vorselur,[1] fræðiheiti: (Phoca vitulina) er ein útbreiddasta selategund heims. Landselur lifir með ströndum fram í norðurhluta Kyrrahafs, Norður-Atlantshafi og einnig Eystrasalti. Landselur er önnur tveggja selategunda sem kæpir við Ísland - hin er útselur.

Dýrafræðingar hafa greint fimm undirtegundir af landsel.

Stærð stofnsins er áætluð á bilinu 400 til 500 þúsund dýr samanlagt, þar af 70 til 90 þúsund í Norðaustur-Atlantshafsstofninum. Í heild er stofninn í góðu standi en við Grænland, Hokkaido í Japan og í Eystrasalti hefur landselnum verið því sem næst útrýmt.


Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Landselur á sundi

Landselir eru gráir, eða brún- eða gulgráir á lit með svartar doppur en ljósir á kvið. Nokkrar undirtegundir hafa ljósar doppur á dökkum feldi. Liturinn fer mikið eftir árstíðum, hárafari, kyni og aldri.Hreifarnir eru fremur litlir og höfuðið stórt miðað við aðra seli. Höfuðið er nánast hnöttótt og augun stór.

Brimlarnir verða um 1,5 til 2 m á lengd og vega um 100-150 kíló. Urturnar eru ívið minni.

Urturnar geta orðið 30 til 35 ára gamlar en brimlarnir 20 til 25. Dýrafræðingar hafa getið sér til um að samkeppni brimlana á fengitímanum valdi aldursmuninum.

Útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Útbreiðsla landsels

Landselurinn er algengasta selategundin við Ísland og má finna hann allt í kringum landið. Við Norðausturland og Austfirði er hann þó sjaldgæfari en annars staðar.

Í Evrópu má finna hann við strendur allt frá Biskajaflóa í suðri til Hvítahafs í norðri, við Svalbarða, Ísland og Suður- og Vestur-Grænland.

Við austurströnd Ameríku má finna hann langleiðina frá Labrador í norðri til Flórída í suðri. Landselur lifir einnig í Kyrrahafinu frá nyrstu eyjum í Japan norður til Aleutaeyja og suður til Kaliforníu. Landselur lifir að jafnaði ekki í návígi við hafís og er í raun fremur hitakær selategund.

Undirtegundir[breyta | breyta frumkóða]

Dýrafræðingar hafa greint fimm undirtegundir landsels:

  • Phoca vitulina vitulina, við strandlengju Norður Evrópu (þar með talið Ísland)
  • Phoca vitulina concolor, við austurströnd Norður-Ameríku
  • Phoca vitulina mellonae, í vötnum í norðurhluta Québec í Kanada (ein af fáum tegundum sela sem lifa í ósöltu vatni). Margir dýrafræðingar vilja ekki telja þessa seli sérstaka undirtegund heldur tilheyri þeir v. concolor.
  • Phoca vitulina richardsi, við vesturströnd Norður-Ameríku frá Alaska til Baja California-skaga.
  • Phoca vitulina stejnegeri, við strendur Hokkaido í Japan, Kúrileyjar og Kamsjatka-skaga

Æti og lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Landselir við Fanø, Danmörk

Uppistaðan í fæðu landsels er fiskur, oftast smáfiskur eins og smár þorskur eða ufsi en þeir éta einnig síli, loðnu, steinbít, síld og sandkola ásamt öðrum fisktegundum og hryggleysingjum, sérstaklega smokkfiski. Landselurinn er fremur góður kafari, getur verið í kafi allt að 25 mínútum og kafað niður á 50 metra dýpi þó oftast kafi hann einungis í nokkrar mínútur og sjaldan dýpra en um 20 metra. Hann heldur sig oftast nálægt landi, fer sjaldan lengra en um 20 km frá ströndum og heldur sig oft innan um sker en einnig í árósum. Landselurinn fer einnig langar ferðir upp í ár til að veiða lax og silung.

Landselir eru félagslyndir og oft má sjá þá í hópum við strendur. Þeir eru eins og aðrir selir fremur klunnalegir á þurru en fara gjarnan upp á land og liggja þar og skiptir þá ekki máli hvort þar er stórgrýtisfjara eða sandströnd. Fullvaxnir landselir ferðast lítið en ung dýr flakka um stærri svæði. Þeir koma ár eftir ár á sömu slóðir til að kæpa.

Landselir hafa kynmök á sundi og eru fjölkvænisdýr þó engin dæmi séu um að brimlarnir safni að sér urtum. Að loknum kynmökum skiptir brimillinn sér ekki frekar af urtunni. En brimlarnir keppa hver við annan um urturnar og verða oft harðir bardagar af.

Urturnar kæpa að vorlagi, suðrænu undirtegundirnar þegar í febrúar en við Ísland í maí-júní, og eiga einungis einn kóp. Kóparnir vega 10 til 15 kg við fæðingu og eru 70 til 90 cm á lengd. Þeir missa hvíta fósturhárið strax fyrir kæpingu og eru þá syndir. Þeir eru einungis á spena í þrjár til fjórar vikur og sjá síðan um sig sjálfir en á þeim vikum tvöfalda þeir þyngd sína. Fengitími er skömmu eftir að kópurinn hættir á spena. Meðgöngutíminn er um 11 mánuðir en fyrstu þrjá mánuðina þroskast fóstrið ekki heldur liggur í dvala.

Brimlar verða kynþroska um 5-6 ára en urtur nokkru fyrr, 3 til 4 ára.

Landselir við Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Landselur er algengur við sunnan-, vestan- og norðanvert Ísland. Síðasta talning mat stofninn í 10.319 dýrum, sem er töluvert undir markmiðum stjórnvalda og hefur hann minnkað mikið síðan talningar hófust á 9 áratug 20. aldar [2].

Við talningu 1980 töldust 34.000 dýr við landið en einungis 15.000 í sams konar talningu 1997 og 10.000 árið 2003 [3].

Nöfn á sel[breyta | breyta frumkóða]

Karldýrið er nefnt brimill og kvendýrið urta. Afkvæmin eru nefnd kópur og fæðingin að kæpa. Þar sem urtan kæpir er nefnt látur.

Veiði og nyt[breyta | breyta frumkóða]

Selir hafa verið veiddir við landið allt frá landnámi. Skinn voru notuð, t.d. við skógerð, en aðallega var selurinn nýttur til matar. Var þar flest nýtt, selkjötið og spikið soðið og borðað nýtt eða saltað, reykt eða súrsað og sama gilti um selshausana. En súrsaðir selshreifar þóttu víða mikið lostæti [4]. Kópar voru talsvert veiddir á 7. og 8. áratug 20. aldar vegna skinna, sem þá voru eftirsótt hráefni í tískufatnað, en veiði lagðist síðar að mestu af vegna verðfalls á selskinnum [1] Geymt 27 september 2007 í Wayback Machine.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Orðið „common seal“ í Orðabankanum
  2. Hafrannsóknastofnun (Nóvember 2021). „Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar 2021“ (PDF). Hafrannsóknastofnun. Sótt Mars 2022.
  3. Nytjastofnar sjávar 2005/2006, Hafrannsóknarstofnun pdf-skjal
  4. Nýting selkjöts til manneldis, Matvælarannsóknir Keldnaholti pdf-skjal

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Páll Hersteinsson, ritstj. og aðalhöfundur (2004): Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík. ISBN 9979-2-1721-9
  • Ronald M. Nowak: Walker's Mammals of the World. Johns Hopkins University Press, 1999 ISBN 0-8018-5789-9

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]