Fara í innihald

Innflytjendur á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aðflutningur og brottflutningur erlendra ríkisborgara frá 1961 til 2024.

Innflytjendur á Íslandi eru þeir íbúar sem eru af erlendum uppruna en hafa tekið upp búsetu á Íslandi. Aðflutningur fólks til landsins var löngum fremur lítill en það tók að breytast á síðustu áratugum 20. aldar og svo sérstaklega það sem af er 21. öldinni. Innflytjendur hafa komið til landsins á ýmsum forsendum, langflestir þeirra á grundvelli frjáls flæðis vinnuafls samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en einnig á forsendum dvalarleyfa sem veitt eru af ýmsum ástæðum eða sem flóttamenn.

Þann 1. janúar 2024 voru innflytjendur á Íslandi 69.691 eða um 18,2% allra íbúa.[1] Hluti þess hóps hefur öðlast íslenskt ríkisfang og því voru erlendir ríkisborgarar á Íslandi nokkru færri á sama viðmiðunardegi, eða 63.528 (16,6%).[2][a]

Skilgreining

[breyta | breyta frumkóða]

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.[3]

Mannfjöldi á Íslandi eftir bakgrunni[1]
Íslenskur bakgrunnur Annað foreldri af
erlendum uppruna
Erlendur bakgrunnur
Ár f. á Íslandi f. erlendis f. á Íslandi f. erlendis f. á Íslandi f. erlendis
1996 251.057 3.490 5.507 2.053 345 5.357
2000 257.211 3.993 6.433 2.509 478 8.425
2010 270.213 5.394 10.043 3.555 2.251 26.174
2020 274.581 6.292 13.613 4.643 5.585 49.328
2024 278.791 6.761 15.789 5.343 7.351 69.691

Samsetning innflytjenda

[breyta | breyta frumkóða]

Pólverjar eru langfjölmennastir innflytjenda og eru 32,1% allra innflytjenda (2024). Þar á eftir koma innflytjendur frá Úkraínu (5,3%) og Litáen (5,1%). 73,8% innflytjenda eru fæddir í Evrópu, 14,7% í Asíu, 4,3% í Mið- og Suður-Ameríku, 3,3% í Afríku og 2,2% í Norður-Ameríku.

Kyn- og aldurssamsetning innflytjenda er talsvert frábrugðin samsetningu annarra landsmanna. Innflytjendur eru flestir á aldursbilinu 20 til 50 ára en færri í bæði yngri og eldri aldurshópum. Meirihluti (54%) innflytjenda eru karlar en kynjahlutföll eru þó mjög mismunandi eftir upprunalöndum. 70% innflytjenda frá Rúmeníu eru karlar, 67% frá Bretlandi og 66% frá Lettlandi. Á hinn bóginn eru 78% innflytjenda frá Taílandi konur, 68% frá Þýskalandi og 66% frá Filippseyjum.[1]

Algengustu upprunalönd innflytjenda á Íslandi 2024[1]
Land Fjöldi Kyn Breyting síðan 2019
Fjöldi %
Pólland Pólland 22.394 57% 43% +4361 +24%
Úkraína Úkraína 3.664 42% 58% +3311 +938%
Litáen Litáen 3.559 63% 37% +917 +35%
Rúmenía Rúmenía 2.973 70% 30% +1631 +122%
Filippseyjar Filippseyjar 2.470 34% 66% +557 +29%
Lettland Lettland 2.217 66% 34% +700 +46%
Víetnam Víetnam 1.546 47% 53% +768 +99%
Þýskaland Þýskaland 1.477 32% 68% +247 +20%
Venesúela Venesúela 1.362 52% 48% +1271 +1397%
Portúgal Portúgal 1.285 65% 35% +383 +42%
Bandaríkin Bandaríkin 1.283 49% 51% +390 +44%
Taíland Taíland 1.233 22% 78% +120 +11%
Spánn Spánn 1.176 56% 44% +497 +73%
Bretland Bretland 1.073 67% 33% +137 +15%
Tékkland Tékkland 885 53% 47% +253 +40%
Króatía Króatía 834 65% 35% +264 +46%
Sýrland Sýrland 772 59% 41% +519 +205%
Frakkland Frakkland 737 53% 46% +188 +34%
Ungverjaland Ungverjaland 725 54% 46% +331 +84%
Ítalía Ítalía 709 57% 43% +329 +87%
Danmörk Danmörk 642 47% 53% -17 -3%
Indland Indland 576 55% 45% +397 +222%
Rússland Rússland 569 33% 67% +205 +56%
Grikkland Grikkland 553 57% 42% +409 +284%
Slóvakía Slóvakía 541 57% 43% +143 +36%

Innflytjendur eru mismargir eftir landshlutum og misstórt hlutfall íbúafjölda þeirra. Flestir eru þeir á höfuðborgarsvæðinu, um 44 þúsund í upphafi 2024, en hlutfallslega eru innflytjendur flestir á Suðurnesjum (28,2%) og Vestfjörðum (21,3%). Ef horft er til einstakra sveitarfélaga eru innflytjendur hlutfallslega flestir í Mýrdalshreppi þar sem þeir voru um 55% íbúa í upphafi 2024 en það er eina sveitarfélagið þar sem þeir eru meirihluti íbúa. Í fjölmennari sveitarfélögum eru innflytjendur hlutfallslega flestir í Reykjanesbæ (30,9%) og Reykjavík (22,3%).

Atvinnuþátttaka

[breyta | breyta frumkóða]

Rúmlega 84 prósent innflytjenda hér á landi eru virk á vinnumarkaði (2016). Er það mesta hlutfall innan OECD ríkja.[4] Þó eru innflytjendur helmingur atvinnuleysisbótaþega (2024).[5]

Viðhorf til innflytjenda

[breyta | breyta frumkóða]

Meirihluti Akureyringa telur gott fyrir Akureyri að útlendingar setjist hér að (2016). Um 60% aðspurðra sögðust mjög sammála eða frekar sammála fullyrðingunni að það væri gott fyrir Akureyri að útlendingar setjist hér að, 30% hvorki né en 11% reyndust ósammála. Ekki reyndist marktækur munur á viðhorfum Akureyringa til flóttamanna og annarra af erlendum uppruna.[6]

Aðlögun og tungumál

[breyta | breyta frumkóða]

Í viðhorfskönnun meðal innflytjenda árið 2009 kom fram að ís­lensku­kunn­átta er það sem helst haml­ar því að fólk geti nýtt mennt­un sína að fullu í starfi. Meira en helm­ingi þátt­tak­enda fannst frek­ar eða mjög erfitt að læra ís­lensku og þá helst vegna þess hversu ís­lensk­an væri ólík móður­máli þeirra. Fjórðungur sagðist aldrei hafa sótt ís­lensku­nám­skeið og aðeins 18% höfðu sótt ís­lensku­nám­skeið þar sem kennt var á þeirra móður­máli. Meiri­hluti svar­enda sagði frek­ar eða mjög gott að búa á Íslandi.[7]

Í könnun árið 2019 voru 60% óánægðir með íslenskukennslu. Á Íslandi þarf að greiða fyrir námið, ólíkt í Noregi og Svíþjóð. [8]

Bent hefur verið á að námsframboð sé ekki nægilegt og að gjá sé á milli grunnnámskeiðs og háskólanáms í íslensku. [9]

Aðflutningur

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
a.^  Þjóðskrá Íslands birtir einnig tölur yfir fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi. Samkvæmt þeim voru 80.867 erlendir ríkisborgar á landinu 1. apríl 2025. Vitað er að færri erlendir ríkisborgarar búa í raun á landinu en skráðir eru í þjóðskrá þar sem margir hafa flutt frá landinu án þess að tilkynna um það. Íbúatölur Hagstofunnar eru lægri þar sem reynt er að leiðrétta þessa skekkju með því að líta til fleiri þátta en lögheimilisskráningu í þjóðskrá.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Mannfjöldi eftir bakgrunni, kyni og aldri 1996-2024“. Hagstofa Íslands. Sótt 4. maí 2025.
  2. „Mannfjöldi eftir ríkisfangi, kyni og aldri 1. janúar 1998-2024“. Hagstofa Íslands. Sótt 4. maí 2025.
  3. „Mannfjöldi eftir bakgrunni 1. janúar 2024“. Hagstofa Íslands. 12. desember 2024.
  4. Mest atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi Rúv. Skoðað 23. mars, 2016
  5. Schram, Höskuldur Kári (5. september 2024). „Hátt í fjögur þúsund innflytjendur án vinnu - RÚV.is“. RÚV. Sótt 7 janúar 2025.
  6. AKUREYRINGAR JÁKVÆÐIR GAGNVART FLÓTTAFÓLKI OG INNFLYTJENDUM Geymt 22 mars 2016 í Wayback Machine Akureyri.is. Skoðað 23. mars, 2016
  7. Rúm­lega helm­ing­ur inn­flytj­enda aðlag­ast vel Mbl.is. Skoðað 23. mars, 2016
  8. Íslenskukennslan fær falleinkunn Rúv, skoðað, 8. maí 2019.
  9. Of seint eftir tíu ár Mbl.is, sótt 25/3 2023