Menntaskólinn í Reykjavík

Hnit: 64°08′45.80″N 21°56′13″V / 64.1460556°N 21.93694°V / 64.1460556; -21.93694
Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lærði skólinn)
Menntaskólinn í Reykjavík

Stofnaður Árið 1846 (1056)
Skólastjóri Sólveig Guðrún Hannesdóttir
Nemendafélög Framtíðin og Skólafélagið
Staðsetning Lækjargötu 7, 101 Reykjavík
Gælunöfn MR
Gælunöfn nemenda MR-ingar
Heimasíða www.mr.is

Menntaskólinn í Reykjavík er framhaldsskóli í miðbæ Reykjavíkur.

Hann var áður kallaður Lærði skólinn, Reykjavíkurskóli, Latínuskólinn, eða upp á latínu Schola Reykjavicensis eða Schola Reykjavicana.[1] Hann á sér langa sögu og hafa margir þekktir Íslendingar haft þar viðkomu í gegnum tíðina. Skólinn er bóknámsskóli með bekkjakerfi og býður upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs. Við hann eru tvær meginbrautir, náttúrufræðibraut og málabraut, sem greinast í samtals átta deildir.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Menntaskólinn í Reykjavík hefur verið staðsettur í Reykjavík síðan 1846 en á rætur sínar að rekja til ársins 1056.

Skálholtsskóli (~1056–1784)[breyta | breyta frumkóða]

Ísleifur Gissurarson var fyrsti biskup á Íslandi í kjölfar kristnitökunnar og sat í Skálholti. Hann var vígður 1056 og sendu höfðingjar landsins syni sína til hans í Skálholt svo þeir gætu lært til prests. Hefð skapaðist við að miða upphaf Skálholtsskóla við það ár sem Ísleifur var vígður, en nákvæmt ártal er ekki vitað.

Skálholtsskóli var, ásamt Hólaskóla og klausturskólum helsta menntastofnun landsins til siðaskipta, en með konungsboði 1552 var biskupsstólunum íslensku gert skylt að reka skóla, fyrst og fremst í því skyni að mennta lúthersk prestsefni.

Í Suðurlandsskjálftanum um sumarið 1784 hrundu öll hús í Skálholti nema dómkirkjan. Á sama tíma voru móðuharðindin og búfé staðarins var þá næstum allt fallið úr hor og nærri má geta að landsetar af jörðum biskupsstólsins hafa ekki getað staðið í skilum með afgjöld af jörðum og leigubúfé. Biskupinn, Finnur Jónsson, hélt þó til í Skálholti um veturinn með þjónustufólki sínu, en skólahald féll niður. Með því var skólinn fluttur til Reykjavíkur.

Hólavallaskóli (1786–1805)[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1785 var ákveðið að leggja niður Skálholtsstól, flytja biskupsembættið og skólann til Reykjavíkur og setja kennara skólans á föst laun úr ríkissjóði. Á næsta ári var hróflað upp skólahúsi á Hólavelli við Reykjavík, þar sem nú má finna Hólavallagötu. Árið 1801 var ákveðið að leggja Hólastól niður og sameina skólann sem þar var Hólavallaskóla, sem þá varð eini skólinn á landinu. Skólinn var í timburhúsi sem hélt hvorki vindi né vatni. Því var ákveðið árið 1805 að flytja skólann að Bessastöðum.

Bessastaðir 1834. Þá var í Bessastaðastofu eini eiginlegi skóli landsins.

Bessastaðaskóli (1805–1846)[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1805 var það ráð tekið að flytja skólann að Bessastöðum, í Bessastaðastofu, steinhús sem hafði verið reist til að hýsa amtmann og síðar stiftamtmann um 1760. Þáverandi stiftamtmaður, Ólafur Stephensen, bjó ekki á Bessastöðum og nýr amtmaður, F. C. Trampe, gaf Bessastaði eftir til skólahalds. Skólinn starfaði til ársins 1846 en var þá fluttur aftur til Reykjavíkur, í nýtt hús, vígt haustið 1846.

1918–1919 Kennslustund í Latínuskólanum/Lærða skólanum síðar Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu, MR.

Við Lækjargötu 7 í Reykjavík (1846–)[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að skólinn var fluttur frá Bessastöðum og fram til 1904 nefndist hann Reykjavíkur lærði skóli en var í daglegu tali kallaður Reykjavíkurskóli, Lærði skólinn, Gamli skólinn, eða Latínuskólinn.

Árið 1904 var áherslum í námsefni skólans breytt verulega. Latínukennsla var minnkuð til muna og grískukennslu hætt í því formi sem verið hafði. Í samræmi við það var nafni skólans breytt og nefndist hann þá Hinn almenni Menntaskóli í Reykjavík. Frá 1937 hefur skólinn borið heitið Menntaskólinn í Reykjavík.

Breytingar á skólanum[breyta | breyta frumkóða]

Frá og með árinu 1949 var gagnfræðadeild skólans lögð niður, og eftir það skiptist skólinn aðeins í fjóra árganga í stað sex, eins og hafði verið frá 1904. Þó hélst sú hefð að kalla síðasta bekk skólans „6. bekk“ og byrjuðu nýnemar því í „3. bekk“ allt til 2016 þegar námsfyrirkomulaginu var breytt yfir í þriggja ára nám samkvæmt nýrri stefnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Nú byrja nemendur skólans í „4. bekk“.

Konur í skólanum[breyta | breyta frumkóða]

Stúlkur höfðu ekki aðgang að skólanum fyrr en 1904 en máttu taka próf frá árinu 1886. Ólafía Jóhannsdóttir lauk 4. bekkjar prófi utanskóla árið 1890. Laufey Valdimarsdóttir, dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, settist á skólabekk í skólanum fyrst kvenna haustið 1904. Átti hún þar heldur dapra ævi og varð fyrir miklu einelti af hálfu skólabræðra sinna. Lauk hún þó stúdentsprófi 1910. Áður hafði ein stúlka tekið stúdentspróf utanskóla, Elínborg Jacobsen. Camilla Torfason lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn 1889 og Björg Karítas Þorláksdóttir 1901, en í Danmörku fengu stúlkur aðgang að æðri menntastofnunum þegar árið 1875. Stúlkur voru í minnihluta stúdenta fram til 1970 en eftir 1979 hafa þær verið í meirihluta. Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980–1996, var nemandi og síðar kennari við skólann. Fyrsta konan til að gegna embætti rektors MR var Ragnheiður Torfadóttir, 1996–2001.

Námsframboð[breyta | breyta frumkóða]

Menntaskólinn í Reykjavík er hefðbundinn bóknámsskóli sem býður þriggja ára nám til stúdentsprófs. Skólinn er bekkjaskóli með bekkjakerfi og hefur fylgt þeirri skipan frá stofnun. Nemendum 5. bekkjar gefst nokkur kostur á valfögum innan vissra námsdeilda.

Námsbrautirnar eru:

  • Málabraut sem skiptist niður í fornmáladeildir I & II, og nýmáladeildir I & II
  • Náttúrufræðibraut sem skiptist niður í eðlisfræðideildir I & II, og náttúrufræðideildir I & II.

Félagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Við skólann starfa tvö nemendafélög, Framtíðin og Skólafélagið. Félögin leggja áherslu á mælskulist, leiklist, skák, og fleira. Leikfélögin Herranótt og Frúardagur setja upp reglulegar sýningar.

Skólinn leggur mikið upp úr keppnum við aðra menntaskóla og hefur unnið spurningakeppnina Gettu betur 23 sinnum og ræðukeppnina Morfís 10 sinnum.

Byggingar[breyta | breyta frumkóða]

Skólahúsið sést hér til vinstri, Íþaka hér til hægri.

Kennsla og rekstur Menntaskólans fara fram í nokkrum húsum. Húsin eru þessi:

  • Skólahúsið (Gamli skóli) Skólahúsið að Lækjargötu 7 er elsta hús skólans. Húsið er smíðað eftir teikningu J. H. Kochs, ríkishúsameistara Danmerkur. Hátíðarsalur var innréttaður svo að nýendurreist Alþingi gæti þar haldið sinn fyrsta fund sumarið 1845. Smíði hússin lauk vorið 1846 og var vígslan haldin 1. október sama ár. Það var á þeim tíma stærsta hús landsins. Húsið hýsir nú skrifstofu skólans, hátíðarsal, kennarastofu, og kennslustofur. Húsið er 1.524 fermetrar.
  • Íþaka hýsir bókasafn skólans. Enski kaupmaðurinn Charles Kelsall ánafnaði Latínuskólanum í Reykjavík þúsund sterlingspund í erfðaskrá sinni árið 1853 þar sem hann hreifst af getu Íslendinga til að halda uppi sjálfstæðu menningarlífi þrátt fyrir fámenni og fátækt. Peninginn átti að nota til að reisa bókasafn fyrir skólann. Danskur timburmeistari að nafni Klentz teiknaði húsið og danskir iðnaðarmenn byggðu það árin 1866–1867. Húsið er nefnt eftir bænum Íþöku í New York-fylki í Bandaríkjunum, en það var heimabær Willards Fiske, prófessors við Cornell-háskóla. Fiske, sem kom til Íslands árið 1879, hafði beitt sér fyrir stofnun nýs lestrarfélags nemenda og kennara. Lestrarfélagið Íþaka var síðar nefnt bókasafnið Íþaka. Á efri hæð hússins er lestrarsalur nemenda en á þeirri neðri er bókasafn skólans. Húsið er 259 fermetrar.
  • Fjósið var upprunalega fjós reist árið 1850. Húsið er 123 fermetra timburhús. Byggt var við húsið 1945 og nú hýsir Fjósið kennslustofur. Upphaflega þjónaði fjósið eldvarnatilgangi, en í því voru geymd tól til slökkvistarfs. Síðar voru kýr hýstar þar og festi nafnið Fjósið sig því í sessi..
  • Íþróttahús skólans var byggt árið 1898. Árin 1901 og 1944 var byggt við það. Í kjallara Íþróttahússins er kraftlyftingasalurinn þrælakistan. Íþróttahúsið er 123 fermetrar og þrælakistan 41.
  • Kristshús (latína: Casa Christi) var vígt á skírdag 1907 og hýsti það höfuðstöðvar Kristilegs félags ungra manna og kvenna (KFUM og KFUK). Félagið flutti þangað úr Melsteðshúsi við Lækjartorg. Nú eru höfuðstöðvar þess við Holtaveg. Menntaskólinn á nú allt húsið sem hýsir tíu kennslustofur auk kennarastofu. Húsið er 856 fermetrar.
  • Nýja hús (latína: Casa nova) var tilbúið 1. október 1964. Nú hýsir það kennslustofur og margmiðlunarver. Félagsaðstaða nemenda er í kjallaranum og kallast Cösukjallari eða Casa. Þar er veitingasalan Kakóland.
  • Nýja setur (latína: Villa nova) var byggt árið 1901 og endurbætt árið 1963. Þar er aðstaða húsvarðar og náms- og starfsráðgjafa og hýsti það skrifstofur nemendafélaganna þangað til haustið 2004. Húsið er 170 fermetrar.
  • Elísabetarhús – Húsið er byggt árið 1968. Árið 1996 tilkynnti Davíð S. Jónsson, að hann hefði ákveðið að gefa skólanum húsið að Þingholtsstræti 18 til minningar um konu sína Elísabetu Sveinsdóttur. Var húsið tekið í notkun í ársbyrjun 1999. Ragnheiður Torfadóttir fyrrverandi rektor menntaskólans ákvað að húsið skyldi heita Minni Elísabetar, en það nafn náði ekki fótfestu og er opinbert nafn þess nú Elísabetarhús. Margir nemendur líta þó ekki á húsið sem sérstakt hús en það er tengt Casa Nova með tengibyggingu sem var byggð í tengslum við að húsið var tekið í notkun. Það hýsir verklegar kennslustofur, tölvuver nemenda og skrifstofur kennara. Húsið er 1.147 fermetrar.
  • Amtmannsstígur 2 er timburhús byggt árið 1906. Á efri hæðum eru skrifstofur kennara, en kjallarinn hýsir skrifstofur Skólafélagsins og Framtíðarinnar. Húsið er 434 fermetrar.

Þekktir nemendur[breyta | breyta frumkóða]

Tveir menn sem síðar hlutu Nóbelsverðlaun hafa gengið í Menntaskólann í Reykjavík, Halldór Laxness og Niels Ryberg Finsen. Davíð Oddsson og Geir H. Haarde gegndu á sínum tíma stöðu formanns nemendafélagsins Skólafélagsins, og Ásgeir Ásgeirsson og Ólaf Ragnar Grímsson, sem voru formenn nemendafélagsins Framtíðarinnar. María Árnadóttir ritstýra Vöku.

Rektorar frá 1846[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Edda Snorra Sturlusonar pagina XVI
    "Sveinbjörnum Egilsson, Dr. Theol., nunc scholæ Reykjavicanæ in Islandia rectorem, transmissus est, qui operam latinæ..."
    "Sveinbjörn Egilsson, doktor í guðfræði, hefur nú verið settur rektor Menntaskólans í Reykjavík á Íslandi, sem latnesk verk ..."

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Framtaksleysi R-listans vegna framhaldsskóla“. Sótt 19. apríl 2006.
  • Heimir Þorleifsson (ritstj.). Saga Reykjavíkurskóla I-IV.
  • „Tillaga að deiliskipulagi fyrir Menntaskólann í Reykjavík“ (PDF). Sótt 10. maí 2006.
  • http://www.althingi.is/altext/thingm/0607130008.html (segir að Jens Sigurðsson var rektor frá 1869)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Fyrri:
Kvennaskólinn í Reykjavík
Sigurvegari Gettu betur
2012-2016
Næsti:
Kvennaskólinn í Reykjavík
Fyrri:
Menntaskólinn á Akureyri
Sigurvegari Gettu betur
2007-2010
Næsti:
Kvennaskólinn í Reykjavík
Fyrri:
Menntaskólinn á Akureyri
Sigurvegari Gettu betur
1993-2003
Næsti:
Verzlunarskóli Íslands
Fyrri:
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
Sigurvegari Gettu betur
1988
Næsti:
Menntaskólinn í Kópavogi



64°08′45.80″N 21°56′13″V / 64.1460556°N 21.93694°V / 64.1460556; -21.93694