Lettland
Lýðveldið Lettland | |
Latvijas Republika | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Föðurland og frelsi | |
Þjóðsöngur: Dievs, svētī Latviju! (Guð blessi Lettland) | |
![]() | |
Höfuðborg | Ríga |
Opinbert tungumál | lettneska |
Stjórnarfar | Þingræði
|
Forseti Forsætisráðherra |
Edgars Rinkēvičs Evika Siliņa |
Sjálfstæði | |
- frá Rússlandi | 6. september 1991 |
Evrópusambandsaðild | 1. maí 2004 |
Flatarmál - Samtals - Vatn (%) |
122. sæti 64.589 km² 2,09 |
Mannfjöldi - Samtals (2020) - Þéttleiki byggðar |
147. sæti 1.907.675 29,6/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2021 |
- Samtals | 63,539 millj. dala (106. sæti) |
- Á mann | 33.393 dalir (43. sæti) |
VÞL (2019) | ![]() |
Gjaldmiðill | evra (EUR) |
Tímabelti | UTC+2 |
Þjóðarlén | .lv |
Landsnúmer | +371 |
Lettland (lettneska: Latvija) er eitt af Eystrasaltsríkjunum ásamt Litáen og Eistlandi. Næstu nágrannar Lettlands eru Eistland í norðri, Litáen í suðri og Rússland og Hvíta-Rússland í austri. Í vestri liggur landið að Eystrasalti og þar mætast landhelgi þess og Svíþjóðar. Íbúar Lettlands eru tæplega 2 milljónir og landið er 64.589 km² að stærð. Þar er temprað loftslag ríkjandi.
Lettland hefur í gegnum aldirnar verið hluti af Svíaveldi, Póllandi og Rússneska keisaradæminu, en þýskumælandi aðall ríkti yfir íbúunum. Lýðveldið Lettland var stofnað eftir Fyrri heimsstyrjöld þann 18. nóvember 1918 en það breyttist í einræði eftir valdarán Kārlis Ulmanis 1934. Við upphaf Síðari heimsstyrjaldar var landið hernumið af Sovétmönnum. Þjóðverjar gerðu innrás í landið 1941 en Sovétmenn náðu því aftur 1944. Næstu hálfa öld var Lettland sovétlýðveldi.
Árið 1987 hófst Söngvabyltingin með kröfu um sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Lettlandi lýsti yfir sjálfstæði 4. maí 1990 sem var viðurkennt í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna 1991. Lettland er einstýrt þingræðisríki með 110 sveitarstjórnir og 9 borgarstjórnir. Landið situr hátt á lista yfir lönd eftir þróun lífsgæða. Ríga var menningarhöfuðborg Evrópu árið 2014.
Frumbyggjar Lettlands eru Lettar og Líflendingar. Lettneska er annað tveggja núlifandi baltneskra tungumála ásamt litáísku. Þótt landið hafi verið undir erlendri stjórn frá 13. öld til 20. aldar hafa tungumál landsins og menning haldið sérstöðu sinni. Fram að Síðari heimsstyrjöld bjuggu þar stórir hópar Eystrasaltsþjóðverja og gyðinga. Um fjórðungur íbúa Lettlands er af rússneskum uppruna. Rúmur helmingur þeirra hefur ekki borgararéttindi vegna þeirra ströngu skilyrða sem sett voru fyrir borgararétti í Lettlandi eftir sjálfstæðið frá Sovétríkjunum. Rúmur þriðjungur íbúa eru lútherstrúar en um fjórðungur rómversk-kaþólskir, aðallega í héraðinu Latgale í suðausturhluta landsins. Tæp 20% íbúa eru í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni.
Þann 20. september 2003 kusu Lettar um inngöngu í Evrópusambandið og samþykktu það. Innganga í sambandið varð að veruleika þann 1. maí 2004. Þann 29. mars 2004 gerðist Lettland aðili að NATO. Auk þess er Lettland aðili að Evrópuráðinu, Eystrasaltsráðinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, NB8, Norræna fjárfestingarbankanum, Efnahags- og framfarastofnuninni, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Lettland tók upp evru sem gjaldmiðil 1. janúar 2014 í stað lettneska latsins.
Heiti[breyta | breyta frumkóða]
Nafnið Latvija er dregið af heiti Latgalla sem voru ein af fjórum Eystrasaltsþjóðum (ásamt Kúrum, Selum og Semgöllum) sem bjuggu á þessu svæði á miðöldum, ásamt finnskumælandi Líflendingum. Trúboðinn Hinrik af Lettlandi bjó til latnesku heitin Lettigallia og Lethia út frá nafni þjóðflokksins. Þaðan kom latneska heitið Letonia og þýska heitið Lettland.
Landfræði[breyta | breyta frumkóða]
Lettland er í Norður-Evrópu við austurströnd Eystrasalts og á norðausturhluta Austurevrópska meginlandskjarnans, milli 55. og 58. breiddargráðu norður, og 21. og 29. lengdargráðu austur. Lettland er um 65.000 ferkílómetrar að stærð. Þar af eru um 18.000 km² landbúnaðarland,[1] 35.000 km² skóglendi[2] og 2.400 km³ stöðuvötn.[3]
Lettland á landamæri að Eistlandi í norðri, Rússlandi í austri, Hvíta-Rússlandi í suðaustri og Litáen í suðri. Landhelgi landsins liggur að landhelgi Svíþjóðar, Eistlands og Litáen. Landið nær 210 km frá norðri til suðurs og 450 km frá vestri til austurs.[3]
Megnið af landsvæði Lettlands er innan við 100 metra yfir sjávarmáli. Stærsta stöðuvatnið, Lubāns, er 80,7 km² að stærð og dýpsta vatnið, Drīdzis, er 65,1 metri á dýpt. Lengsta á Lettlands er Gauja, 452 km löng, en lengsta áin sem rennur um Lettland er Daugava sem er alls 1.005 km löng, þar af 325 km í Lettlandi. Hæsti punktur Lettlands er hæðin Gaiziņkalns í 311,6 metra hæð. Strönd Lettlands við Eystrasalt er 494 km að lengd. Grunnur Rígaflói liggur að norðvesturhluta landsins.
Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]
Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Lettland skiptist í 110 sveitarfélög (novadi) og 9 borgarlýðveldi (republikas pilsētas) með eigin borgarráð og stjórnkerfi. Borgirnar eru Daugavpils, Jēkabpils, Jelgava, Jūrmala, Liepāja, Rēzekne, Ríga, Valmiera og Ventspils. Sögulega skiptist Lettland í fjögur héruð: Latgallíu, Semgallíu, Kúrland og Vidzeme. Þessi fjögur héruð eru nefnd í stjórnarskrá Lettlands. Selonía, sem er hluti af Semgallíu, er stundum talin sér, en hefur enga opinbera stöðu. Í skipulagsmálum mynda Ríga og nærliggjandi sveitarfélög sérstakt skipulagssvæði, sem tekur hluta af hinum héruðunum fjórum. Skipulagssvæðin voru sett upp 2009 til að tryggja jafna þróun allra landsvæða. Tölfræðihéruð Lettlands eru sex talsins þar sem borgin Ríga og nærsveitir Ríga (Pieriga) eru aðskilin héruð. Ríga er stærsta borg Lettlands, en Daugavpils kemur þar á eftir og Liepaja í þriðja sæti.
Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]



Lettland á aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (frá 1999) og Evrópusambandinu (frá 2004). Þann 1. janúar 2014 tók landið upp evru sem gjaldmiðil í stað lettneska latsins. Samkvæmt tölfræði frá 2013 studdu 43% þjóðarinnar upptöku evrunnar en 52% voru henni andsnúin.[4] Eftir upptöku evrunnar hafa kannanir Eurobarometer sýnt að stuðningur við nýja gjaldmiðilinn er í kringum 53%, sem er svipað og meðaltalið í Evrópu.[5]
Hagvöxtur í Lettlandi hefur verið með því mesta sem gerist í Evrópu síðan 2000.[6] Þessi neysludrifni hagvöxtur leiddi líka til hruns landsframleiðslu seint árið 2008 og snemma árs 2009, sem varð enn verra vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar, skorti á lánstrausti og hversu mikið kostaði að bjarga Parex-banka.[7] Fyrstu fimm mánuði ársins 2009 dróst hagkerfi Lettlands saman um 18% sem var mesti samdráttur í Evrópusambandinu.[8][9]
Fjármálakreppan 2009 leiddi í ljós það sem margir höfðu óttast að hinn mikli vöxtur væri efnahagsbóla, þar sem hann var drifinn áfram af einkaneyslu innanlands og fjármagnaður með skuldasöfnun einkaaðila, auk neikvæðs viðskiptajöfnuðar. Fasteignaverð hækkaði um 150% á milli 2004 og 2006 og hafði mikil áhrif á myndun bólunnar.[10]
Nær öll lítil og meðalstór fyrirtæki sem áður voru í eigu ríkisins hafa verið einkavædd. Einu fyrirtækin í ríkiseigu eru nokkur pólitískt mikilvæg stórfyrirtæki. Árið 2006 stóð einkageirinn undir 70% af vergri landsframleiðslu.[11]
Erlendar fjárfestingar eru enn takmarkaðar í Lettlandi, miðað við Norður- og Mið-Evrópu almennt. Árið 1997 voru sett lög til að auka svigrúm til sölu á landi, líka til útlendinga. Bandarísk fyrirtæki sem eiga 10,2% af erlendri fjárfestingu í Lettlandi, fjárfestu 127 milljón dölum árið 1999. Sama ár fluttu Bandaríkin vörur og þjónustu að andvirði 58,2 milljón dalir til Lettlands, og fluttu inn fyrir 87,9 milljónir. Lettlandi gerði samkomulag við Evrópusambandið árið 1995 í undanfara inngöngu landsins í Alþjóðaviðskiptastofnunina, OECD og Evrópusambandið. Lettland hefur gert samninga um fjárfestingar, viðskipti, hugverkarétt og tvísköttun við Bandaríkin.[12][13]
Árið 2010 tók Lettland að veita svokölluð „gyllt dvalarleyfi“ til að laða að erlenda fjárfesta. Með því fá erlendir aðilar dvalarleyfi í Lettlandi gegn því að fjárfesta 250.000 evrum í fasteignum eða fyrirtækjum með minnst 50 starfsmenn og 10 milljón evra veltu að lágmarki. Árið 2014 voru reglur um þetta hertar og fjöldi fjárfesta hrundi. Ástæður voru meðal annars að fjárfestar reyndust aðallega hafa áhuga á fasteignaviðskiptum sem ollu hækkandi fasteignaverði, en höfðu engan áhuga á lettneskum fyrirtækjum.[14]
Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Íbúar Lettlands eru 1,8 milljón talsins og hefur farið nokkuð hratt fækkandi frá því landið fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum, en þá bjuggu yfir 2,5 milljónir í landinu. Hlutfall íbúa af lettneskum uppruna var þá rétt rúmlega 50% en er nú um 60%.[15][16] Ásamt Litáen og Búlgaríu er Lettland það Evrópuland sem verður fyrir mestum áhrifum vegna brottflutnings fólks. Helstu ástæður brottflutnings eru brottflutningur íbúa af rússneskum uppruna til Rússlands eða annarra fyrrum Sovétríkja, og brottflutningur lettneskra karlmanna vegna bágs efnahags- og atvinnuástands í Lettlandi.[17] Árið 2015 var áætlað að Lettland væri með lægsta hlutfall karla á móti konum af öllum löndum heims, eða 0,85 karla á hverja konu.[18] Af íbúum yfir 70 ára voru fleiri en tvær konur á hvern karl.
Sögulega hefur Lettland verið fjölþjóðlegt land og íbúar talað fjölmörg tungumál. Stærsti einstaki upprunahópurinn eru Lettar, sem eru Eystrasaltsþjóð sem talar lettnesku. Latgallar eru skilgreindur minnihlutahópur Letta sem aðallega býr í austurhluta landsins. Líflendingar eru líka sögulegur minnihlutahópur sem talaði líflensku (skyld eistnesku), en síðasti íbúi Lettlands sem talaði líflensku sem móðurmál lést árið 2013. Áður bjó stór hópur Eystrasalts-Þjóðverja í borgum og bæjum Lettlands, en langflestir þeirra fluttust á brott í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar, eða sættu nauðungarflutningum á Sovéttímanum. Stórir hópar Eystrasalts-Þjóðverja fluttust til Kanada og Nýja-Sjálands eftir stríðið. Lettneskir gyðingar eru annar minnihlutahópur sem hefur nánast horfið frá Lettlandi, eftir að tugir þúsunda létu lífið í Helförinni og aðrir hafa flust til Ísraels. Af um 100.000 gyðingum sem bjuggu í landinu um 1920 eru innan við 10.000 eftir.
Stærsti einstaki minnihlutahópurinn sem býr í Lettlandi eru íbúar af rússneskum uppruna, sem eru um fjórðungur íbúa.[16] Þegar landið fékk sjálfstæði var ákveðið að íbúar sem flust hefðu til landsins eftir hernám Sovétríkjanna 1940 fengju ekki sjálfkrafa lettneskan ríkisborgararétt þar sem landið hefði verið hernumið á þeim tíma.[19] Lettland leyfir ekki tvöfaldan ríkisborgararétt og umsækjendur um lettneskan ríkisborgararétt þurfa að þreyta próf, meðal annars í lettneskukunnáttu, og sýna fram á að þeir hafi ekki ríkisborgararétt í öðru landi. Þetta leiddi til þess að til varð stór hópur „lettneskra ekki-borgara“ sem hafa eins konar ríkisfang með sérstakt vegabréf og geta ferðast án áritunar innan Schengen og til Rússlands, en njóta ekki fullra borgararéttinda; hafa ekki kosningarétt, geta ekki sótt um opinberar stöður og eru undanþegnir herþjónustu (Lettland var með herskyldu til 2006). Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamismununar hefur lýst því yfir að lög um „ekki-borgara“ mismuni þegnum á grundvelli uppruna.[20] Þessi mismunun hefur orðið til þess að íbúum af rússneskum uppruna hefur fækkað hratt frá því landið fékk sjálfstæði. Hluti þessara íbúa hefur sótt um lettneskan ríkisborgararétt. Í janúar 2022 voru tæplega 200.000 „ekki-borgarar“ eftir í Lettlandi, um 10% þjóðarinnar.[21][22]
Eftir innrás Rússa í Úkraínu krafðist ríkisstjórn Lettlands þess árið 2023 að um 6000 Rússar búsettir í Lettlandi sem hefðu ekki sýnt neinn áhuga á að gerast lettneskir ríkisborgarar yfirgæfu landið.[23]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ „Agriculture – Key Indicators“. Central Statistical Bureau Republic of Latvia. 28. apríl 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. apríl 2012. Sótt 17. maí 2012.
- ↑ „Forestry – Key Indicators“. Central Statistical Bureau Republic of Latvia. 18. ágúst 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. október 2012. Sótt 17. maí 2012.
- ↑ 3,0 3,1 „Geographical Data – Key Indicators“. Central Statistical Bureau Republic of Latvia. 5. október 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júní 2012. Sótt 17. maí 2012.
- ↑ Apollo, redakcija@apollo.lv (2. desember 2013). „Turpina pieaugt iedzīvotāju atbalsts eiro ieviešanai“. Apollo.lv. Afrit af uppruna á 4. apríl 2014. Sótt 23. apríl 2014.
- ↑ „New currency, new leader“. The Economist. 14. janúar 2014. Afrit af uppruna á 1. júlí 2017. Sótt 10. janúar 2014.
- ↑ „Growth rate of real GDP per capita“. Eurostat. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. október 2007. Sótt 28. júlí 2007.
- ↑ „Rimsevics: Failing to bail out Parex banka would result in closing down of four banks in Latvia“. The Baltic Course. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. desember 2013. Sótt 8. desember 2013.
- ↑ Aaron Eglitis (11. maí 2009). „Latvian GDP Shrank 18% in First Quarter, EU's Biggest Fall –“. Bloomberg L.P. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. desember 2010. Sótt 16. október 2010.
- ↑ „Latvian economy in rapid decline“. BBC News. 11. maí 2009. Afrit af uppruna á 30. september 2009. Sótt 4. apríl 2010.
- ↑ „A bubble burst: the downfall of Latvian real estate“. baltictimes.com. Sótt 6. apríl 2022.
- ↑ Commercio, Michele E. (1. mars 2008). „Systems of Partial Control: Ethnic Dynamics in Post-Soviet Estonia and Latvia“. Studies in Comparative International Development (enska). 43 (1): 81–100. doi:10.1007/s12116-007-9013-5. ISSN 1936-6167. S2CID 26143200.
- ↑ „TAX CONVENTION WITH LATVIA“ (PDF). Internal Revenue Service. Afrit (PDF) af uppruna á 5. maí 2017. Sótt 19. maí 2018.
- ↑ „Agreement between the United States of America and the Republic of Latvia on Trade Relations and Intellectual Property Rights Protection“. World Intellectual Property Organization. Afrit af uppruna á 20. maí 2018. Sótt 19. maí 2018.
- ↑ Sanita Jemberga og Xenia Kolesnikova (8.3.2018). „Latvia's Once-Golden Visas Lose Their Shine - But Why?“. OCCRP. Sótt 20.8.2023.
- ↑ „About Latvia“. Latvian Academy of Culture. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2007. Sótt 28. júlí 2007.
- ↑ 16,0 16,1 „Population by ethnicity at the beginning of year 1935 - 2023“. Sótt 8. júlí 2023.
- ↑ Mihails Hazans (2019). „Emigration from Latvia: A Brief History and Driving Forces in the Twenty-First Century“. The Emigrant Communities of Latvia. IMISCOE Research Series. IMISCOE.
- ↑ „Country Comparison to the World“. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2013. Sótt 1. ágúst 2016.
- ↑ Peter Van Elsuwege, From Soviet republics to EU member states: a legal and political assessment of the Baltic states' accession to the EU, BRILL, 2008, p75
- ↑ „A/54/18 (1999) — Para. 395“. Afrit af uppruna á 23. september 2015. Sótt 18. febrúar 2015.
- ↑ Latvijas iedzīvotāju sadalījums pēc valstiskās piederības
- ↑ Latvijas iedzīvotāju skaits pašvaldībās
- ↑ „Latvia to ask thousands of Russian citizens to leave the country“. 4. ágúst 2023.