Lettland

Hnit: 56°57′00″N 24°06′00″A / 56.95000°N 24.10000°A / 56.95000; 24.10000
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Lettland
Latvijas Republika
Fáni Lettlands Skjaldarmerki Lettlands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Föðurland og frelsi
Þjóðsöngur:
Dievs, svētī Latviju!
(Guð blessi Lettland)
Staðsetning Lettlands
Höfuðborg Ríga
Opinbert tungumál lettneska
Stjórnarfar Þingræði

Forseti
Forsætisráðherra
Egils Levits
Krišjānis Kariņš
Sjálfstæði
 - frá Rússlandi 6. september 1991 
Evrópusambandsaðild 1. maí 2004
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
122. sæti
64.589 km²
2,09
Mannfjöldi
 - Samtals (2020)
 - Þéttleiki byggðar
147. sæti
1.907.675
29,6/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 - Samtals 63,539 millj. dala (106. sæti)
 - Á mann 33.393 dalir (43. sæti)
VÞL (2019) Increase2.svg 0.866 (37. sæti)
Gjaldmiðill evra (EUR)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .lv
Landsnúmer +371

Lettland (lettneska: Latvija) er eitt af Eystrasaltsríkjunum ásamt Litháen og Eistlandi. Næstu nágrannar Lettlands eru Eistland í norðri, Litháen í suðri og Rússland og Hvíta-Rússland í austri. Í vestri liggur landið að Eystrasalti og þar mætast landhelgi þess og Svíþjóðar. Íbúar Lettlands eru tæplega 2 milljónir og landið er 64.589 km² að stærð. Þar er temprað loftslag ríkjandi.

Lettland hefur í gegnum aldirnar verið hluti af Svíaveldi, Póllandi og Rússneska keisaradæminu, en þýskumælandi aðall ríkti yfir íbúunum. Lýðveldið Lettland var stofnað eftir Fyrri heimsstyrjöld þann 18. nóvember 1918 en það breyttist í einræði eftir valdarán Kārlis Ulmanis 1934. Við upphaf Síðari heimsstyrjaldar var landið hernumið af Sovétmönnum. Þjóðverjar gerðu innrás í landið 1941 en Sovétmenn náðu því aftur 1944. Næstu hálfa öld var Lettland sovétlýðveldi.

Árið 1987 hófst Söngvabyltingin með kröfu um sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Lettlandi lýsti yfir sjálfstæði 4. maí 1990 sem var viðurkennt í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna 1991. Lettland er einstýrt þingræðisríki með 110 sveitarstjórnir og 9 borgarstjórnir. Landið situr hátt á lista yfir lönd eftir þróun lífsgæða. Ríga var menningarhöfuðborg Evrópu árið 2014.

Frumbyggjar Lettlands eru Lettar og Líflendingar. Lettneska er annað tveggja núlifandi baltneskra tungumála ásamt litháísku. Þótt landið hafi verið undir erlendri stjórn frá 13. öld til 20. aldar hafa tungumál landsins og menning haldið sérstöðu sinni. Fram að Síðari heimsstyrjöld bjuggu þar stórir hópar Eystrasaltsþjóðverja og gyðinga. Um fjórðungur íbúa Lettlands er af rússneskum uppruna. Rúmur helmingur þeirra hefur ekki borgararéttindi vegna þeirra ströngu skilyrða sem sett voru fyrir borgararétti í Lettlandi eftir sjálfstæðið frá Sovétríkjunum. Rúmur þriðjungur íbúa eru lútherstrúar en um fjórðungur rómversk-kaþólskir, aðallega í héraðinu Latgale í suðausturhluta landsins. Tæp 20% íbúa eru í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni.

Þann 20. september 2003 kusu Lettar um inngöngu í Evrópusambandið og samþykktu það. Innganga í sambandið varð að veruleika þann 1. maí 2004. Þann 29. mars 2004 gerðist Lettland aðili að NATO. Auk þess er Lettland aðili að Evrópuráðinu, Eystrasaltsráðinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, NB8, Norræna fjárfestingarbankanum, Efnahags- og framfarastofnuninni, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Lettland tók upp evru sem gjaldmiðil 1. janúar 2014 í stað lettneska latsins.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Nafnið Latvija er dregið af heiti Latgalla sem voru ein af fjórum Eystrasaltsþjóðum (ásamt Kúrum, Selum og Semgöllum) sem bjuggu á þessu svæði á miðöldum, ásamt finnskumælandi Líflendingum. Trúboðinn Hinrik af Lettlandi bjó til latnesku heitin Lettigallia og Lethia út frá nafni þjóðflokksins. Þaðan kom latneska heitið Letonia og þýska heitið Lettland.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Lettland er í Norður-Evrópu við austurströnd Eystrasalts og á norðausturhluta Austurevrópska meginlandskjarnans, milli 55. og 58. breiddargráðu norður, og 21. og 29. lengdargráðu austur. Lettland er um 65.000 ferkílómetrar að stærð. Þar af eru um 18.000 km² landbúnaðarland,[1] 35.000 km² skóglendi[2] og 2.400 km³ stöðuvötn.[3]

Lettland á landamæri að Eistlandi í norðri, Rússlandi í austri, Hvíta-Rússlandi í suðaustri og Litháen í suðri. Landhelgi landsins liggur að landhelgi Svíþjóðar, Eistlands og Litháen. Landið nær 210 km frá norðri til suðurs og 450 km frá vestri til austurs.[3]

Megnið af landsvæði Lettlands er innan við 100 metra yfir sjávarmáli. Stærsta stöðuvatnið, Lubāns, er 80,7 km² að stærð og dýpsta vatnið, Drīdzis, er 65,1 metri á dýpt. Lengsta á Lettlands er Gauja, 452 km löng, en lengsta áin sem rennur um Lettland er Daugava sem er alls 1.005 km löng, þar af 325 km í Lettlandi. Hæsti punktur Lettlands er hæðin Gaiziņkalns í 311,6 metra hæð. Strönd Lettlands við Eystrasalt er 494 km að lengd. Grunnur Rígaflói liggur að norðvesturhluta landsins.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Tölfræðihéruð Lettlands.

Lettland skiptist í 110 sveitarfélög (novadi) og 9 borgarlýðveldi (republikas pilsētas) með eigin borgarráð og stjórnkerfi. Borgirnar eru Daugavpils, Jēkabpils, Jelgava, Jūrmala, Liepāja, Rēzekne, Ríga, Valmiera og Ventspils. Sögulega skiptist Lettland í fjögur héruð: Latgallíu, Semgallíu, Kúrland og Vidzeme. Þessi fjögur héruð eru nefnd í stjórnarskrá Lettlands. Selonía, sem er hluti af Semgallíu, er stundum talin sér, en hefur enga opinbera stöðu. Í skipulagsmálum mynda Ríga og nærliggjandi sveitarfélög sérstakt skipulagssvæði, sem tekur hluta af hinum héruðunum fjórum. Skipulagssvæðin voru sett upp 2009 til að tryggja jafna þróun allra landsvæða. Tölfræðihéruð Lettlands eru sex talsins þar sem borgin Ríga og nærsveitir Ríga (Pieriga) eru aðskilin héruð. Ríga er stærsta borg Lettlands, en Daugavpils kemur þar á eftir og Liepaja í þriðja sæti.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Agriculture – Key Indicators“. Central Statistical Bureau Republic of Latvia. 28 April 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. apríl 2012. Sótt 17. maí 2012.
  2. „Forestry – Key Indicators“. Central Statistical Bureau Republic of Latvia. 18. ágúst 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. október 2012. Sótt 17. maí 2012.
  3. 3,0 3,1 „Geographical Data – Key Indicators“. Central Statistical Bureau Republic of Latvia. 5 October 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júní 2012. Sótt 17. maí 2012.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.