Írland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Gervihnattamynd í réttum litum af „eyjunni grænu“ eins og Írland er stundum kallað

Írland (írska Éire, enska Ireland) er þriðja stærsta eyja Evrópu á eftir Stóra-Bretlandi og Íslandi. Hún liggur vestan við Stóra-Bretland og Írlandshaf en að Atlantshafi í vestri. Eyjunni er skipt upp annars vegar í Norður-Írland sem er hluti af Bretlandi og hins vegar Írska lýðveldið sem tekur yfir bróðurpartinn af eyjunni sunnanverðri. Íbúar Írlands eru um 4,6 milljónir (2011), þar af búa 4 milljónir í Írska lýðveldinu en íbúum þess hefur farið hratt fjölgandi síðari ár vegna mikillar efnahagsuppsveiflu.

Saga Írlands[breyta]

Skipting eyjunnar í „norður“ og „lýðveldi“ er tiltölulega nýleg þróun en sú skipan komst á árið 1920 eftir nokkur hundruð ár af kúgun og misheppnuðum byltingum gegn völdum Englendinga yfir eyjunni. Írland hefur verið í byggð í um það bil 9000 ár en lítið er þó vitað um tíman fyrir kristnitöku, einu heimildirnar eru nokkrar frásagnir Rómverja, írsk ljóð og þjóðsögur auk fornleifa. Fyrstu íbúarnir komu um 8000 f. Kr. á steinöld, þeir reistu mikla steina sem oft var raðað eftir stjörnufræðilegum mynstrum. Á bronsöld sem hófst um 2500 f. Kr. hófst framleiðsla á ýmsum munum og vopnum úr gulli og bronsi. Járnöldin á Írlandi er yfirleitt samtengd Keltum sem tóku að nema land á eyjunni í nokkrum bylgjum á milli 8. og 1. aldar f.Kr. Keltarnir skiptu eyjunni upp í 5 eða fleiri konungdæmi. Rómverjar kölluðu Írland: „Hiberníu“ en lítið er vitað um samband þeirra við þjóðflokka Hiberníu. Árið 100 e. Kr. skrásetti Ptólemíus landafræði eyjunnar og þjóðflokka hennar af mikilli nákvæmni.

Talið er að árið 432 hafi Heilagur Patrekur komið til Írlands og hafið að snúa íbúunum til Kristni. Hin nýju trúarbrögð mörkuðu endalok drúídahefðanna. Írskir fræðimenn lögðu stund á latnesk fræði og kristna guðfræði í klaustrunum sem blómstruðu á Írlandi á þessum tíma, og stóðu reyndar framar öðrum evrópskum fræðimönnum í því að varðveita latínuna í gegnum hinar „myrku miðaldir“. Þessari gullöld lauk með innrásum Víkinga sem hófust á 9. öld og stóðu í u.þ.b. 200 ár, Víkingarnir rændu klaustur og bæi og stofnuðu marga bæi á ströndum Írlands.

Árið 1172 sölsaði Hinrik II Englandskonungur undir sig írsk lönd og á 13. öld var farið að innleiða ensk lög. Ítök Englendinga náðu í fyrstu einungis til svæðisins í kringum Dyflinni sem þá gekk undir nafninu Pale en tóku að breiðast út á 16. öld og við lok þeirrar 17. var hið gelíska samfélag liðið undir lok. Á miðri 19. öld reið kartöfluhungursneyðin mikla yfir eyjuna. Aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart þessari kreppu leiddi til þess að milljónir sultu og mikill fjöldi flutti úr landi til Bretlands, Norður-Ameríku og Ástralíu. Íbúafjöldi eyjunnar hrapaði úr 8 milljónum fyrir hungursneyðina niður í 4,4 milljónir 1911. Ensk áhrif héldu áfram að breiðast út og enska varð útbreiddasta tungumálið, en á sama tíma tók að bera á háværari röddum um aðskilnað frá breskum stjórnvöldum og sjálfstæði Írlands.

Sjálfstæðissinnar gerðu tilraun til að ná fram markmiðum sínum með Páskauppreisninni 1916, uppreisnin var þó að mestu bundin við Dyflinni. Stuðningur við uppreisnarmennina var fjarri því almennur meðal Íra en aðferðir Breta við að bæla hana niður og aftökurnar sem fylgdu í kjölfarið vöktu mikla reiði og juku aðeins á kröfurnar um sjálfstætt Írland. Stríð milli Breta og Íra braust út 1919 og stóð til 1921 og það leiddi til stofnunar Suður-Írlands (sem varð svo þekkt sem Írska fríríkið) og Norður-Írlands sem áfram hélt sambandi við Bretland.

Hið nýja Írska fríríki átti í miklum erfiðleikum á sínum fyrstu árum, atvinnuleysi var mikið og brottflutningur fólks einnig. Árið 1937 var ný stjórnarskrá innleidd í fríríkinu sem stofnsetti ríkið Éire sem varð lýðveldi árið 1949. Hlutleysi ríkisins í síðari heimsstyrjöld bjargaði því frá hryllingi stríðsins en það bitnaði þó á íbúunum í formi skömmtunar á mat og kolum. Allt fram á 9. áratuginn var Írland álitið vera með vanþróaðri svæðum Evrópu en á þeim 10. tók loks að birta til og jókst hagvöxtur gríðarlega og nútímavæðing hóf innreið af krafti og leiddi til viðsnúnings á fólksflutningunum þannig að fólk tók aftur að flytja til Írlands.

Þegar Norður-Írland var stofnað fékk það einnig eigið þing þar sem sambandssinnar (fylgjandi áframhaldandi tengslum við Bretland) réðu lengst af lögum og lofum. Á 7. áratugnum jókst fylgi hreyfinga sem börðust fyrir réttindum kaþólika og til átaka kom á blóðuga sunnudeginum árið 1972 en þá drápu breskir hermenn 27 Íra í kröfugöngu í Derry. Þetta leiddi til langvarandi og ofbeldisfullra átaka í Norður-Írlandi sem stóðu í 3 áratugi og náði stöku sinnum einnig til Bretlands, sérstaklega á 9. áratugnum.

Þann 10. apríl 1998 var skrifað undir „Sáttmála föstudagsins langa“ þar sem leitast er við að deila völdum á Norður-Írlandi á milli sambandssinna sem vilja áfram vera í sambandi við Bretland og þjóðernissinna sem vilja sameinast Írska lýðveldinu. Völdin sem sáttmálinn fjallar um eru þó ekki mikil og hann hefur nokkrum sinnum verið nálægt því að rofna. Framtíð Norður-Írlands er enn þá óljós.

Konungsríkin fjögur[breyta]

Áður fyrr var Írlandi skipt upp í fjögur konungsríki. Syðst var Munster, með höfuðborg sína í Cork; Leinster var í austri, og var Dyflinn höfuðborg þess. Nyrst var Ulster, sem spannar það svæði sem nú er Norður-Írland (að Monaghan-sýslu, Donegal-sýslu og Cavan-sýslu undanskildum). Belfast var höfuðborg Norður-Írlands lengst af. Loks var Connaught í vestri, en höfuðborg þess var Galway.

Þessi skipting er enn notuð í dag, en hvert þeirra er kallað sér umdæmi eða hérað.

Sýslur og héröð Írlands[breyta]

Ulster[breyta]

Munster[breyta]

Leinster[breyta]

Connacht[breyta]

Tengt efni[breyta]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist