Íslensk málnefnd
Íslensk málnefnd var sett á fót árið 1964 og tók við af svokallaðri „nýyrðanefnd“ sem hafði verið stofnuð 1952 til að búa til íslensk nýyrði yfir ýmis tæknileg hugtök.[1] Hún starfar samkvæmt lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.[2]
Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda meðal annars um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra. Nýjasta auglýsingin er frá 2018.[3]
Skrifstofa Íslenskrar málnefndar er í Árnastofnun.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Halldór Halldórsson (8.4.1965). „Íslenzk málnefnd“. Morgunblaðið. bls. 6.
- ↑ „Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls“. althingi.is. 7. júní 2011.
- ↑ Jóhannes B. Sigtryggsson (20. september 2019). „Hvað eru ritreglur Íslenskrar málnefndar?“. Árnastofnun.