Fara í innihald

Óeirðirnar á Austurvelli 1949

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lögreglumenn standa í hóp við Austurvöll eftir að hafa beitt mótmælendur táragasi.

Óeirðirnar á Austurvelli áttu sér stað miðvikudaginn 30. mars 1949, vegna þess að til stóð að samþykkja þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið (NATÓ). Andstæðingar inngöngunnar, stuðningsmenn hennar og aðrir almennir borgarar flykktust á Austurvöll til að sjá hvað verða vildi, en sumir andstæðinganna létu grjóti, eggjum og mold rigna yfir Alþingishúsið. Lögregla ákvað að dreifa mannfjöldanum með því að varpa táragasi á hann. Varalið lögreglunnar var kallað út og voru varaliðarnir með breska hermannahjálma og armbindi, ýmist hvít eða í fánalitunum, sem einkenni.[1] Þessi átök milli andstæðinga tillögunnar annars vegar og lögreglu, varaliðis hennar og stuðningsmanna tillögunnar hins vegar urðu mestu óeirðir sem orðið hafa á Íslandi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þessa atburði á Austurvelli og er ekki auðvelt að skera úr um sannleiksgildi frásagna og niðurstaðna. Sagnfræðingurinn Þór Whitehead hefur meðal annars haldið því fram að beinlínis hafi verið stefnt að valdaráni sósíalista með þessum aðgerðum. Aðrir, meðal annars Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, hafa hafnað þessari túlkun.[heimild vantar]

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar var Ísland hernumið, fyrst af Bretum 1940 og svo síðar tóku Bandaríkjamenn við. Áður en seinni heimstyrjöldinni lauk lýstu Íslendingar yfir sjálfstæði frá Dönum. Eftir stríð gerðu Íslendingar Keflavíkursamninginn árið 1946 við Bandaríkjamenn um að herinn myndi fara en starfsmenn einkafyrirtækis myndu aðstoða við rekstur alþjóðaflugvallarins í Keflavík.

Frá seinnihluta árs 1948 var unnið að því að skipuleggja varnarsamtök sem nefnd voru Brussel-samningurinn og stofnuð voru 17. mars 1948. Aðildarlönd voru Belgía, Holland, Lúxemborg, Frakkland og Bretland. Ástæðan fyrir stofnun samtakanna var aukin streita í samskiptum austur og vesturs eftir yfirlýsingu Churchills um Járntjaldið sem skipti Evrópu í tvennt og valdatöku kommúnista í Tékkóslóvakíu í febrúar 1948. Þótti fljótlega ljóst að þessi samtök yrðu tannlaus ef Bandaríkin væru ekki aðili að þeim. Upp úr áramótunum 1948-49 fóru ráðamenn á Íslandi að undirbúa þátttöku landsins í væntanlegum varnarsamtökum. Andstæðingar, sósíalistar og aðrir sem kölluðu sig þjóðvarnarmenn, voru ekki seinir að láta í ljósi andstöðu sína. Fylgismenn og stuðningsmenn héldu fjölmenna fundi um málið. Þann 21. mars lýsti ríksstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar því yfir að hún væri reiðubúin að gera Ísland að einu stofnríki hins nýja bandalags sem formlega átti að stofna 4. apríl sama ár. Við það mögnuðust andstæðingar hugmyndarinnar. Voru haldnir margir fjöldafundir og Þjóðviljinn, málgagn Sósíalistaflokksins, hafði stór orð um landráð og nauðsyn harðrar andstöðu og krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Yfirvöldum og sérlega framámönnum Sjálfstæðisflokksins þótti hér mikil hætta á ferðum og tóku að undirbúa varnaraðgerðir, meðal annars með símahlerunum.

Atburðarás[breyta | breyta frumkóða]

Formenn stjórnarflokkanna, þeir Ólafur Thors, Eysteinn Jónsson og Stefán Jóhann Stefánsson létu dreifa þessum dreifimiða þar sem friðsamir borgarar voru hvattir til að mæta á Austurvöll til að styðja það að Alþingi hefði starfsfrið.

Ætlunin var að fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar þann 29. mars en þegar mikill mannfjöldi safnaðist saman á Austurvelli um daginn og lenti í hreinum bardaga milli lögreglu og unglinga var þingfundi frestað. Höfðu þá meðal annars 14 rúður verið brotnar á framhlið þinghússins. Daginn eftir var mikill viðbúnaður, voru lögreglumenn vopnaðir táragasi viðbúnir inni í þinghúsinu og þar að auki 85[2] (aðrar heimildir segja 50 [3]) manna hópur sem kallaðir höfðu verið út sem varalögregla. Voru allir varalögreglumenn félagar í Heimdalli, ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Einnig voru um þúsund menn inni í og í kringum þinghúsið þangað kallaðir til varnar án þess að fá varalögreglustöðu. Þar að auki hvöttu formenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins (meðal annars með áskorun í útvarpinu) „friðsama borgara“ að safnast við Alþingishúsið. Verkamannafélagið Dagsbrún og Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna höfðu boðað til útifundar við Miðbæjarskólann til að mótmæla aðild að hernaðarbandalaginu og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um hana. Að fundinum loknum héldu fundarmenn með kröfur sínar í átt að Alþingi þar sem fyrir voru lögregla og aðrir almennir borgarar.

Átök fyrir framan Alþingishúsið. Gluggar hússins hafa verið brotnir og hvítliði í mannþvögunni er með kylfu sína reidda á lofti.

Áætlað er að á Austurvelli hafi þá verið á bilinu 8 - 10 þúsund manns. Hófust fljótlega stympingar manna á milli.[heimild vantar] Eftir að fréttir bárust um að þingfundi væri lokið og að Alþingi hefði samþykkt aðild Íslands að NATÓ mögnuðust átökin. 37 þingmenn voru með frumvarpinu, allir 20 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, 11 þingmenn Framsóknarflokksins og sex þingmenn Alþýðuflokksins. Allir tíu þingmenn Sósíalistaflokksins voru á móti og þar að auki tveir þingmenn Alþýðuflokksins og einn þingmaður Framsóknarflokksins. Tveir framsóknarþingmenn greiddu ekki atkvæði. Keyrði þá allt um þverbak þegar þingmenn leituðu útgöngu og urðu úr mikil slagsmál og grjótkast að húsinu og voru flestar rúður brotnar og skrámuðust ýmsir inn í þingsal. Varalið lögreglunnar hafði farið á undan með kylfur á loft og átti í vök að verjast. Kom þá svonefnd „gassveit“ lögreglunnar út úr Alþingishúsinu og hóf að dreifa táragasi og tæmdist Austurvöllur fljótlega. Alls þurftu 12 manns að fara á Landspítalann og voru nokkrir alvarlega slasaðir þar á meðal fimm lögregluþjónar og unglingur sem hafði slasast illa á auga af táragassprengju.

Viðbrögð dagblaða[breyta | breyta frumkóða]

Skrif dagblaðanna í kjölfar atburðanna gefa hugmynd um þær andstæður sem ríktu í íslenskum stjórnmálum á þessum árum. Sósíalistar álitu ákvörðun Alþingis vera hrein landráð, sem framin hafi verið „í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu“. Þjóðviljinn sagði „vitstola hvítlíða“ hafa gengið berserksgang og kölluðu þá sem samþykktu aðild að NATO Bandaríkjaleppa. Morgunblaðið, Vísir, Tíminn og Alþýðublaðið töluðu um árás kommúnista og að „óður kommúnistaskríll hefði ætt um Austurvöll“.

Afleiðingar[breyta | breyta frumkóða]

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra tilkynnir í útvarpi um inngönguna í NATO.

Alls voru 24 karlmenn kærðir fyrir þátttöku í óeirðunum. Dómar féllu í Héraðsdómi ári seinna, 25. mars 1950, þrír voru sýknaðir en dómunum var áfrýjað.[4] Þyngstu dómarnir voru tveir árs langir fangelsisdómar og alls voru átta sviptir kjörgengi og kosningarétti. Tveir fengu fésekt. Allir dómar Héraðsdóms voru staðfestir af Hæstarétti árið 1952 nema dómurinn yfir Stefni Ólafssyni sem Hæstiréttur þyngdi um fjóra mánuði úr þremur mánuðum í sjö mánuði, og dómurinn yfir Hreggviði Stefánssyni sem var sýknaður.[5] Fimm árum seinna, þann 30. apríl 1957, var sakamönnunum 20 veitt sakaruppgjöf.[6]

Nafn Fæðingarár Dómur Nafn Fæðingarár Dómur
Alfons Guðmundsson 1930 12 mánuðir skilorðsbundnir * Jón Kristinn Steinsson 1908 7 mánuðir *
Árni Pálsson 1927 3 mánuðir skilorðsbundnir Kristján Guðmundsson 1927 4 mánuðir
Friðrik Anton Högnason 1928 4 mánuðir skilorðsbundnir Kristófer Sturluson 1925 sýknaður
Garðar Óli Halldórsson 1928 5 mánuðir * Magnús Hákonarson 1931 6 mánuðir skilorðsbundnir
Gísli Rafn Ísleifsson 1927 3 mánuðir skilorðsbundnir Magnús Jóel Jóhannsson 1922 7 mánuðir *
Guðmundur Helgason 1927 3 mánuðir skilorðsbundnir Ólafur Jensson 1924 4 mánuðir
Guðmundur Jónsson 1932 1.500 kr. sekt skilorðsbundið Páll Theódorsson 1928 3 mánuðir skilorðsbundnir
Guðmundur Björgvin Vigfússon 1915 sýknaður Sigurður Jónsson 1924 sýknaður
Hálfdán Bjarnason 1903 30 dagar skilorðsbundnir Stefán Oddur Magnússon 1919 2.500 kr. sekt
Hreggviður Stefánsson 1927 sýknaður Stefán Sigurgeirsson 1902 6 mánuðir *
Jóhann Pétursson 1918 3 mánuðir Stefán Ögmundsson 1909 12 mánuðir *
Jón Múli Árnason 1921 6 mánuðir * Stefnir Ólafsson 1927 7 mánuðir
* sviptur kjörgengi sem og kosningarétti

Þó að Alþingi hafi afgreitt tillöguna og átökum á Austurvelli væri lokið var ekki þar með lokið baráttunni um veru Íslands í NATÓ og dvöl bandaríska setuliðsins sem nátengdist því. Þetta átti eftir að verða eitt af helstu deilumálum í íslenskum stjórnmálum næstu áratugina. Andstæðingarnir stofnuðu meðal annars Þjóðvarnarflokkinn og Samtök hernámsandstæðinga og fylgjendur Varðberg, félag ungra áhugamanna um vestræna samvinnu og Samtök um vestræna samvinnu.

Ljósmyndir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • 30. marz 1949: innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið og óeirðirnar á Austurvelli. Baldur Guðlaugsson og Páll Heiðar Jónsson. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1976.
  • Óvinir ríkisins, Guðni Th. Jóhannesson, Mál og menning, 2006, ISBN 9979-3-2808-8

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Einkennisbúningar og einkenni lögreglunnar í Reykjavík til 1958“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. febrúar 2005. Sótt 5. mars 2008.
  2. Óvinir ríkisins, Guðni Th. Jóhannsson, Mál og menning, 2006, ISBN 9979-3-2808-8, bl. 84
  3. „Einkennisbúningar og einkenni lögreglunnar í Reykjavík til 1958“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. febrúar 2005. Sótt 5. mars 2008.
  4. „Árás á Alþingi,...“.
  5. „Hæstiréttur dæmir árásarmennina frá 30. marz“.
  6. „Sakaruppgjöf veitt“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Fréttir í fjölmiðlum[breyta | breyta frumkóða]