Keflavík
Keflavík er um 19.000 manna bær (2019) austan megin á Miðnesi á Reykjanesskaga og heyrir undir sveitarfélagið Reykjanesbæ. Keflavík er helst þekkt fyrir herstöðina á Miðnesheiði, eina alþjóðaflugvöllinn á Íslandi, Keflavíkurflugvöll og blómlegt tónlistarlíf á seinni hluta 20. aldar.
Bærinn dregur nafn sitt af samnefndri vík, sem liggur á milli Hólmsbergs að norðan og Vatnsness að sunnan og gengur til vesturs inn úr Stakksfirði. Víkin er opin á móti austri og þótti aldrei gott skipalægi. Hún var samt grundvöllur þeirrar verslunar sem þar þróaðist frá 17. öld og varð grundvöllur bæjarins.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt Landnámu var Steinunn gamla, landnámskona, fyrsti eigandi lands á Suðurnesjum, þar með talið Keflavík. Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270.[1] Keflavíkurjörðin heyrði undir Rosmhvalaneshrepp frá fornu fari. Fram eftir 15. öld stunduðu Englendingar veiðar í kringum Suðurnes og hafa sjálfsagt komið á land í Keflavík. Árið 1579 gaf Danakonungur út fyrsta verslunarleyfið til Hansakaupmanna að þeir mættu versla í Keflavík. Frá og með 1602 hefst einokunarverslun Dana.
Elstu heimildir um byggð í Keflavík eru frá 1627. Fyrsti bóndinn sem nafngreindur er í Keflavík var Grímur Bergsson, fyrrverandi sýslumaður í Kjósarsýslu og lögréttumaður á Suðurnesjum sem samkvæmt Setbergsannál dó við störf sín árið 1649.[2] Þar settist Hallgrímur Pétursson að árið 1637 ásamt konu sinni Guðríði Símonardóttur þar sem þau bjuggu til ársins 1641 þegar þau fluttu á Hvalnes. Miðað er við að byggð hafi fyrst farið að þéttast í kjölfar þess að Holger Jacobaeus var skipaður kaupmaður í Keflavík árið 1772 á vegum Almennna verslunarfélagsins sem fór með einokun á verslun á Íslandi.
Með vexti kauptúnsins á seinni hluta 19. aldar reyndist landrými of lítið fyrir byggðina. 1891 var löggilt stækkun á verslunarlóðinni til suðurs, í landi Njarðvíkurhrepps, sem stofnaður hafði verið tveimur árum áður. Keflavík var þannig í tveimur hreppum samtímis og hélst svo til ársins 1908.
Hinn 15. júní 1908 var Rosmhvalaneshreppi skipt upp. Varð nyrðri hlutinn að Gerðahreppi en Keflavíkurjörðin í suðri var sameinuð Njarðvíkurhreppi undir heitinu Keflavíkurhreppur. Njarðvíkurhreppur klauf sig aftur frá hreppnum 1. janúar 1942. Í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar fjölgaði hratt í Keflavík enda var mikið um uppgrip og vinnu að fá í kring um Keflavíkurstöðina og Keflavíkurflugvöll.
Keflavík fékk kaupstaðarréttindi 22. mars 1949. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Keflavík Njarðvíkurkaupstað og Hafnahreppi undir nafninu Reykjanesbær.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Fast þeir sóttu sjóinn Tíminn, 1. apríl 1989
- ↑ „Drög að sögu Keflavíkur“.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Keflavík á fyrri öldum, Skúli Magnússon
- Drög að sögu Keflavíkur, Skúli Magnússon (framhald í nokkrum tölublöðum)
- Tvær aldir í Keflavík, grein eftir Dr. Fríðu Sigurðsson í Tímanum 1972
- „Hvaðan fær Keflavík nafn sitt?“. Vísindavefurinn.
- Fyrstu ár Keflavíkur, Faxi, 5. tölublað (01.05.1947), Blaðsíða 1
- Áhrif og umsvif í Keflavík : Úr sögu Duus-veldisins Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, bls 5 Faxi, 2. tbl. 2007