Lestrarfélag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bókasafnið á Flatey í Breiðafirði var upprunalega stofnað 1833.

Lestrarfélag var tegund íslenskra félagasamtaka sem voru fyrst starfrækt undir lok 18. aldar og voru eins konar forverar almenningsbókasafna. Með setningu laga um almenningsbókasöfn árið 1955 dró mjög úr starfsemi lestrarfélaga. Ekki er alltaf gott að gera greinarmun á litlu bókasafni og lestrarfélagi en samskrá yfir bókasöfn og lestrarfélög á Íslandi fyrir tímabilið 1790-1955 telur 431 stykki. Líftími þeirra var misjafn, frá fáeinum árum og í marga áratugi fram á daginn í dag. Nokkuð var um að lestrarfélög klofnuðu eða rynnu saman á þessu tímabili, þá lagðist starfsemi sumra niður á tímabili.

Líkt og almenningsbókasöfn í dag voru lestrarfélögin stofnuð í þeim tilgangi að safna saman féi til kaupa á bókum. Í upphafi voru lestrarfélögin fámenn. Félagsmenn voru fyrst og fremst embættis- og menntamenn. Með tímanum settu lestrarfélögin sér starfsreglur og fengu úthlutaða styrki frá hinu opinbera sem sá gagn í menntunarhlutverki lestrarfélaganna.

Saga lestrarfélaga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta lestrarfélagið var stofnað árið 1790 og hét Hið íslenska bókasafns- og lestrarfélag Suðurlands. Hið norðlenska bóklestrarfélag var stofnað 1792 og fleiri fylgdu í kjölfarið. Í grein sinni um lestrarfélögin skiptir Ingibjörg Sverrisdóttir sögu þeirra í fjögur tímabil. Fyrsta tímabilið, 1790-1840, kallar hún upphafsskeiðið en þá hafi tilraunir til rekstrar og starfsemi verið fálmkenndar og starfsemi lestrarfélaga legið niðri að undanskildu Barðastrandarsýslulestrarfélaginu sem var endurreist árið 1817 og starfaði til 1822. Á fjórða áratug nítjándu aldar voru Möllersku lestrarfélögin fyrir geistlega og Bókasafn Flateyjarframfarastofnunar stofnuð. Á þessu tímabili takmörkuðust lestrarfélögin að miklu leyti við embættis- og menntamenn sem orðið höfðu fyrr áhrifum frá Upplýsingastefnunni (sjá Upplýsingin á Íslandi).

Næsta tímabil nefnir hún þróunarskeiðið sem stóð 1840-1870 en þá voru tæplega 30 lestrarfélög stofnuð. Þessi lestrarfélög breiddust út landfræðilega frá Flatey á Breiðafirði, þar sem bókasafn Flateyjarframfarastofnunar hafði verið stofnað 1833, norður til Vestfjarða, austur eftir Norðurlandi og loks til Austfjarða og suður og allt til Vestmannaeyja, þar sem Lestrarfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1862. Þá víkkaði talsvert sá hópur sem að lestrarfélögunum stóðu, nú tóku prestar og bændur virkan þátt og voru hvatamenn að stofnun þeirra.

Þriðja skeiðið er hápunktur almenningslestrarfélaganna á tímabilinu 1870-1937. Áætla má að á bilinu 230-250 lestrarfélög hafi verið stofnun, mörg í kring um margskonar félagastarf; s.s. ungmennafélög eða Lestrarfélag kvenna í Reykjavík sem Laufey Vilhjálmsdóttir stofnaði árið 1911 og starfaði í 35 ár. Þá jókst það talsvert að lestrarfélögin fengu styrki úr sýslu-, bæjar- eða hreppssjóðum. Vitað er með vissu að tíu lestrarfélög voru stofnuð árið 1890.

Á lokaskeiðinu 1937-1955 dró úr gildi lestrarfélaga með aukinni þéttbýlismyndun, bættum samgöngum og skipulögðu skyldunámi. Lestrarfélög snerust þá í meiri mæli um afþreyingar- og fagurbókmenntir. Árið 1937 voru sett lög um lestrarfélög og kennslukvikmyndir. Tilgangur laganna var að styrkja menningarstarfsemi í afskekktari byggðum úti á landi. Þetta bar nokkurn árangur fyrst um sinn en það dró úr umsvifum lestrarfélaganna og hætt var að úthluta styrkjum til lestrarfélaga árið 1955 sama ár og sett voru lög um almenningsbókasöfn í fyrsta skiptið sem skiptu landinu í 30 bókasafnshverfi.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Ingibjörg St. Sverrisdóttir. (1997). Upphaf og þróun lestrarfélaga. Í Sál aldanna: safn greina um bókasöfn og skyld efni. Ritstj. Guðrún Pálsdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir. s: 25-35.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]