Hjólreiðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Keðjuverkun (e: Critical Mass) er hjólreiðaviðburður sem fer fram í borgum um allan heim.

Hjólreiðar eru notkun reiðhjóla til samgangna, ferðalaga, afþreyingar eða íþróttaiðkunar. Reiðhjól komu fyrst fram á sjónarsviðið á 19. öld. Talið er að yfir milljarður reiðhjóla séu í notkun í heiminum, sem er rúmlega tvöfalt meira en fjöldi bifreiða[1]. Reiðhjól eru helsti samgöngumáti fólks víða um heim.

Reiðhjól eru almennt talinn mjög orkunýtinn samgöngumáti á stuttum og meðallöngum leiðum. Hjólreiðar hafa þannig ýmsa kosti samaborið við vélknúin ökutæki, sérstaklega í og við þéttbýli, eins og aukna hreyfingu hjólreiðafólks, minni notkun kolefniseldsneytis og orku almennt, og minni mengun. Þau taka minna pláss en bifreiðar, bæði á leiðinni, ekki síst þegar talin eru helgunarsvæði stofnbrauta, og á upphafs- og áfangastað í formi bílastæða. Þau draga þannig úr álagi á umferð og umferðarmannvirki. Ókostir hjólreiða eru einkum þeir að hjólreiðafólk er berskjaldaðra í árekstri og gagnvart veðri, auk þess sem hjólreiðar á lengri leiðum eru aðallega á færi fólks í sæmilegri líkamsþjálfun. Þá er erfiðara að ferja stærri hluti á reiðhjóli, en í löndum þar sem mikið er hjólað sést fólk með ísskápa og stök húsgögn á reiðhjólum eða í hjólakerrum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur smíðað reiknilíkan sem gerir borgaryfirvöldum kleift að reikna út þann sparnað sem hlýst af því að fleiri stunda hjólreiðar til samgangna.[2] Reiknilíkanið tekur einungis á fækkun ótímabærra dauðsfalla og reiknar út frá því peningagildi hvers mannárs sem ekki tapast. Umhverfisávinningur, fækkun veikindadaga og annar sparnaður er því ekki talinn með í líkaninu. Líkanið skilar þeim niðurstöðum að núverandi hjólreiðar á Íslandi koma í veg fyrir nokkur ótímabær dauðsföll árlega. Líkanið byggir á viðamiklum rannsóknum og tekur mið af samanburði á öllum dánarorsökum hjólreiðafólks (enska: all-cause mortality) og ber saman við fólk sem hjólar ekki. Það tekur því líka tillit til hættu vegna umferðarslysa.

Hjólreiðar hafa verið ólympíugrein frá upphafi og er keppt í fjórum greinum: götuhjólreiðum, brautarkeppni, fjallahjólreiðum og BMX. Alþjóða hjólreiðasambandið hefur umsjón með alþjóðlegum hjólreiðakeppnum.

Saga hjólreiða til samgangna á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Reiðhjól voru notuð á Íslandi upp úr aldamótunum 1900. Myndir í skjalasöfnum, blaðaauglýsingar og frásagnir bera því vitni. Á áratugunum eftir stríð jókst kaupmáttur og fólksbílar litu út sem nútímaleg samgöngulausn. Í kjölfar hippatímabíls, olíukreppu og umhverfisvakningar komu fram áætlanir um að byggja sérstakt net stíga til hjólreiða. Ítrekað voru lögð fram frumvörp á Alþingi um að koma stígum í vegalög og fjármagna þannig gerð þeirra. [3] Það var svo árið 2007 sem lagabreyting gerði ríkinu kleift að setja fé í stígagerð til hjólreiða og göngu. Fram að því var bara heimilt að setja fé í vegagerð og reiðstíga. Eftir Bankahrunið árið 2008 var settur aukinn kraftur í gerð stíga og í fyrsta skipti gerðir sérstakir hjólastígar í Reykjavík.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. http://www.worldometers.info/bicycles/
  2. http://heatwalkingcycling.org
  3. [1] Hjólreiðabrautir í vegalög, þingsályktunartillaga
  Þessi íþróttagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  Þessi samgöngugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.