Fara í innihald

Jóhanna Sigurðardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jóhanna Sigurðardóttir (JóhS)

Fæðingardagur: 4. október 1942 (1942-10-04) (81 árs)
Fæðingarstaður: Reykjavík
Flokkur: Merki Samfylkingarinnar Samfylkingin
Þingsetutímabil
1978-1980 í Landsk. fyrir Alþfl.
1980-1987 í Landsk. fyrir Alþfl.
1987-1994 í Reykv. fyrir Alþfl.
1994-1995 í Reykv. fyrir Ufl.
1995-1999* í Reykv. fyrir Þjóðv.
1999-2003 í Reykv. fyrir Samf.
2003-2007 í Reykv. s. fyrir Samf.
2007-2013 í Reykv. n. fyrir Samf.
= stjórnarsinni
Embætti
1979 2. varaforseti neðri deildar
1983-1984 1. varaforseti neðri deildar
2003-2007 4. varaforseti Alþingis
1987-1994
2007-2009
Félagsmálaráðherra
Félagsmálaráðherra
2009-2013 Forsætisráðherra
Tenglar
Æviágrip á vef AlþingisVefsíða
*Seinni hluta kjörtímabilsins tilheyrði hún þingflokki jafnaðarmanna.

Jóhanna Sigurðardóttir (fædd 4. október 1942) er fyrrum forsætisráðherra Íslands. Jóhanna sat á þingi í 35 ár samfleytt frá árinu 1978 til 2013. Hún var félagsmálaráðherra árin 1987-1994 og 2007-2009. Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008 varð hún forsætisráðherra í febrúar árið 2009 og var skömmu síðar kjörin formaður Samfylkingarinnar. Hún er fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands og fyrsta opinberlega samkynhneigða konan sem gegnir starfi forsætisráðherra á heimsvísu. Árið 2009 valdi Forbes hana á lista yfir 100 valdamestu konur heims.[1]

Fjölskylda, menntun og störf fram að stjórnmálaferli[breyta | breyta frumkóða]

Jóhanna fæddist í Reykjavík og foreldrar hennar voru hjónin Sigurður Egill Ingimundarson (1913-1978) alþingismaður og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og Karítas Guðmundsdóttir (1917-1997) húsmóðir. Fyrri maki Jóhönnu var Þorvaldur Steinar Jóhannesson bankastarfsmaður og eignuðust þau tvo syni fædda 1972 og 1977. Jóhanna gekk í staðfesta samvist með Jónínu Leósdóttur rithöfundi árið 2002 en þær giftu sig árið 2010 í kjölfar nýsamþykktrar breytingar á hjúskaparlögum.[2]

Jóhanna lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1960, starfaði sem flugfreyja hjá Loftleiðum frá 1962-1971 og við skrifstofustörf í Kassagerð Reykjavíkur frá 1971-1978. Hún sat í stjórn Flugfreyjufélags Íslands frá 1966-1969 og var formaður félagsins 1966 og 1969 og var í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur frá 1976-1983.[3]

Alþingismaður[breyta | breyta frumkóða]

Jóhanna skipaði þriðja sæti á framboðslista Alþýðuflokksins í Reykjavíkurkjördæmi við alþingiskosningar árið 1978[4] og náði kjöri á þing í miklum kosningasigri flokksins. Jóhanna sat á Alþingi til ársins 2013 en lét þá af þingmennsku eftir 35 ára samfellda þingsetu og er sú kona sem lengst hefur setið á Alþingi. Á þingferli sínum beitti Jóhanna sér einkum í þágu láglaunafólks, öryrkja og aldraðra og síðast en ekki síst voru húsnæðismál henni hugleikin.[5] Jóhanna var starfsaldursforseti Alþingis 2006-2013.

Alþýðuflokkurinn[breyta | breyta frumkóða]

Jóhanna sat á þingi fyrir Alþýðuflokkinn frá 1978-1994 og var varaformaður flokksins frá 1984-1993. Samstarf Jóhönnu og Jóns Baldvins Hannibalssonar formanns flokksins var lengi stormasamt og var bæði persónulegur og pólitískur ágreiningur milli þeirra.[6] Jóhanna bauð sig fram til formennsku í Alþýðuflokknum gegn Jóni Baldvin árið 1994 en laut í lægra haldi. Í kjölfarið sagði hún sig úr Alþýðuflokknum og var þingmaður utan flokka frá 1994-1995.[7]

Þjóðvaki[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfar úrsagnar Jóhönnu úr Alþýðuflokknum hóf hún undirbúning að stofnun nýs stjórnmálaflokks sem hlaut nafnið Þjóðvaki og varð hún formaður flokksins. Skoðanakannanir gáfu til kynna að Þjóðvaki hefði umtalsvert fylgi[8] en raunin varð sú að flokkurinn hlaut 7,2% fylgi í alþingiskosningunum 1995 og fjóra þingmenn. Þjóðvaki rann síðar inn í þingflokk jafnaðarmanna er þingflokkar Alþýðuflokks og Þjóðvaka sameinuðust árið 1996.[9]

Samfylkingin[breyta | breyta frumkóða]

Þingflokkur jafnaðarmanna varð síðar hluti af sameinuðu framboði Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Þjóðvaka ogKvennalista fyrir alþingiskosningarnar 1999 undir nafni Samfylkingarinnar. Jóhanna sigraði með miklum yfirburðum í fyrsta prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem haldið var í febrúar 1999 og leiddi hún lista flokksins í alþingiskosningunum um vorið.[10] Jóhanna var jafnan sigursæl í prófkjörum Samfylkingarinnar og þótti jafnframt njóta virðingar út fyrir raðir flokksins.

Jóhanna var kjörin formaður Samfylkingarinnar á landsfundi 28. mars 2009.

Félagsmálaráðherra[breyta | breyta frumkóða]

Frá árunum 1987-1994 gegndi Jóhanna embætti félagsmálaráðherra, fyrst í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og síðar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar en frá 1991-1994 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar og var Jóhanna allan þann tíma eina konan í ríkisstjórninni. Hún tók aftur sæti í ríkisstjórn árið 2007 og gegndi embætti félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forystu Geirs H. Haarde til ársins 2009.

Forsætisráðherra[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi haustið 2008 skapaðist gríðarleg ólga í samfélaginu og ríkti mikið vantraust í garð stjórnvalda og helstu stofnana samfélagsins. Mótmæli voru tíð á götum úti og ýmsir kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar og nýrra kosninga. Í janúarlok árið 2009 lagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra til að hún og Geir H. Haarde forsætisráðherra myndu bæði stíga til hliðar og Jóhönnu Sigurðardóttur yrði falið að leiða ríkisstjórnina fram að kosningum. Þessu hafnaði Sjálfstæðisflokkurinn og úr varð að Samfylkingin sleit stjórnarsamstarfinu.[11] Í kjölfarið var mynduð minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með stuðningi Framsóknarflokksins og varð Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og tók hún við embætti þann 1. febrúar 2009 og varð þar með fyrsta konan á forsætisráðherrastóli á Íslandi. Ríkisstjórn Jóhönnu varð auk þess fyrsta íslenska ríkisstjórnin þar sem kynjahlutföllin voru jöfn.[12] Skipan Jóhönnu í embætti vakti mikla athygli út fyrir landsteinana því hún var fyrsta opinberlega samkynhneigða konan í heiminum sem varð forsætisráðherra.[13]

Jóhanna og Jónína (lengst til hægri) ásamt Danilo Türk forseta og Barböru Miklič Türk forsetafrú Slóveníu í opinberri heimsókn árið 2011.

Í alþingiskosningunum vorið 2009 jókst fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna og mynduðu flokkarnir meirihlutastjórn að loknum kosningum og varð Jóhanna áfram forsætisráðherra.

Ríkisstjórn Jóhönnu stóð frammi fyrir erfiðum verkefnum við endurreisn íslenska fjármálakerfisins og voru helstu markmið hennar að koma atvinnulífinu aftur í gang og slá skjaldborg um heimilin. Fleiri mál voru einnig ofarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar, t.d. hafði stjórnin á stefnuskrá sinni að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið[14] en einnig voru fleiri mál í deiglunni, m.a nokkur sem áttu að stuðla að auknu trausti í garð stjórnvalda og voru breytingar á kosningalögum, persónukjör, endurskoðun stjórnarskrárinnar og siðareglur ráðherra og embættismanna á meðal þess sem var á dagskrá ríkisstjórnarinnar.[15] Eitt erfiðasta mál stjórnarinnar var Icesave málið en það klauf ríkisstjórnina og varð til þess að Ögmundur Jónasson sagði af sér embætti innanríkisráðherra í september 2009 vegna andstöðu sinnar við stefnu stjórnarinnar í málinu.[16] Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands synjaði í tvígang lögum, sem heimiluðu ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave reikningum Landsbankans sem stofnað hafði verið til í Bretlandi og Hollandi fyrir bankahrun. Icesave setti mark sitt á alla forsætisráðherratíð Jóhönnu en í lok janúar árið 2013 úrskurðaði EFTA dómstóllinn Íslandi í vil.[17]

Jóhanna tilkynnti 27. september 2012 að hún ætlaði að hætta sem formaður Samfylkingarinnar og jafnframt að láta af þátttöku í stjórnmálum að kjörtímabili loknu[18].

Annað[breyta | breyta frumkóða]

Þekktustu ummæli Jóhönnu eru orð sem hún lét falla eftir að hún hafði tapað í formannskjöri fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni á flokksþingi Alþýðuflokksins í júní 1994. Þá sagði hún í þrumuræðu sinni: „Minn tími mun koma!“

Bækur um Jóhönnu Sigurðardóttur[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2013 kom út bókin Við Jóhanna þar sem Jónína Leósdóttir eiginkona Jóhönnu fjallaði um samband þeirra. Ævisaga Jóhönnu Minn tími: saga Jóhönnu Sigurðardóttur skrásett af Páli Valssyni sagnfræðingi kom út árið 2017.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „The 100 Most Powerful Women“. Forbes.
 2. visir.is: Jóhanna og Jónína gengu í hjónaband
 3. Alþingi, Æviágrip - Jóhanna Sigurðardóttir (skoðað 11. júlí 2019)
 4. „Framboðslistar við alþingiskosningarnar 25. júní 1978“, Ný þjóðmál, 11. tbl. 5. árg. 1978 (skoðað 11. júlí 2019)
 5. Brynhildur Björnsdóttir, „Minn tími mun koma!“, Frjáls verslun, 5. tbl. 77. árg. 2015.
 6. Vb.is, „Jóhanna: „Láttu mig í friði helvítið þitt!““ (skoðað 11. júlí 2019)
 7. „Fólk vill sjá nýjar áherslur í pólitík“, Dagblaðið Vísir, DV, 19. september 1994 (skoðað 11. júlí 2019)
 8. „Jóhanna fengi fimmtán þingmenn“, Dagblaðið Vísir DV, 28. nóvember 1994 (skoðað 11. júlí 2019)
 9. „Þingflokkarnir sameinaðir“, Morgunblaðið, 5. september 1996 (skoðað 11. júlí 2019)
 10. „Niðurstaða prófkjörsins“ Dagur, 2. febrúar 1999 (skoðað 11. júlí 2019)
 11. Mbl.is, „Jóhanna næsti forsætisráðherra?“ 26. janúar 2009 (skoðað 11. júlí 2019)
 12. Kvenrettindafelag.is, „Jöfn kynjahlutföll í nýrri ríkisstjórn“ Geymt 12 júlí 2019 í Wayback Machine (skoðað 11. júlí 2019)
 13. Mbl.is, „Jóhanna vekur heims­at­hygli“ 29. janúar 2009 (skoðað 11. júlí 2019)
 14. Mbl.is, „Afhenti Svíum aðildarumsókn“ (skoðað 12. júlí 2019)
 15. Mbl.is, „Fylgja áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins“ (skoðað 12. júlí 2019)
 16. Mbl.is, „Ögmundur segir af sér“ (skoðað 12. júlí 2019)
 17. Ruv.is, „Ísland vann Icesave málið“ (skoðað 12. júlí 2019)
 18. Jóhanna Sigurðardóttir hættir“, RÚV.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Geir H. Haarde
Forsætisráðherra
(1. febrúar 200923. maí 2013)
Eftirmaður:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Fyrirrennari:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Formaður Samfylkingarinnar
(28. mars 20092. febrúar 2013)
Eftirmaður:
Árni Páll Árnason
Fyrirrennari:
Magnús Stefánsson
Félagsmálaráðherra
(24. maí 20071. febrúar 2009)
Eftirmaður:
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Fyrirrennari:
Alexander Stefánsson
Félagsmálaráðherra
(8. júlí 198724. júní 1994)
Eftirmaður:
Guðmundur Árni Stefánsson


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.