Hagsmunasamtök heimilanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) voru stofnuð 15. janúar 2009. Samtökin eru grasrótarsamtök, sem spruttu upp í kjölfar bankahrunsins 2008. Samtökin eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Tilgangur samtakanna er að veita fólkinu í landinu möguleika til að sameinast um og að taka þátt í að verja hagsmuni heimilanna með þátttöku sinni, vera talsmaður og málsvari í umræðum um hagsmuni heimilanna til skemmri og lengri tíma. Í fyrstu stjórn samtakanna, sem kosin var á stofnfundi 15.janúar 2008, áttu sæti: Þórður B Sigurðsson (formaður), Vésteinn Gauti Hauksson (varaformaður), Marinó G. Njálsson (ritari), Friðrik Ó. Friðriksson (gjaldkeri), meðstjórnendur voru: Arney Einarsdóttir, Ólafur Garðarsson og Þorvaldur Þorvaldsson og varamenn: Guðrún Dadda Ásmundardóttir, Axel Pétur Axelsson, Haraldur Haraldsson, Hólmsteinn A. Brekkan, Andrea Jóhanna Ólafsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Núverandi stjórn samtakanna, sem kjörin var 30. maí 2017, skipa sjálfboðaliðarnir: Ásthildur Lóa Þórsdóttir (formaður), Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir (varaformaður), Guðrún Bryndís Harðardóttir (gjaldkeri), Róbert Þ Bender (ritari), meðstjórnendur eru: Hafþór Ólafsson, Jóhann Rúnar Sigurðsson og Ólafur Garðarsson. Varamenn: Pálmey Helga Gísladóttir, Guðrún Indriðadóttir, Þórður Björn Sigurðsson, Stefán Stefánsson, Ámundi Hjálmar Loftsson og Þórarinn Einarsson.

Fyrsta markmið samtakanna var að taka á brýnum fjárhagsvanda heimilanna í landinu sem skapaðist í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, og að forða heimilunum í landinu frá ósanngjarnri eignaupptöku, óbærilegum skuldaklyfjum og upplausn.

Meginmarkmið samtakanna er krafa um leiðréttingu stökkbreyttra húsnæðislána og afnám verðtryggingar. Samtökin hafa verið ötul í baráttu sinni gegn verðtryggingu, Til að afla þessu markmiði stuðning efndu samtökin sumarið 2011 til undirskriftasöfnunar sem stóð yfir til ársloka. Þann 1. október 2011 afhentu samtökin Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra 33.525 undirskriftir og hófu í kjölfarið viðræður við forsætisráðuneytið.[1] Samtökin söfnuðu nokkrum þúsundum undirskrifta til viðbótar og afhentu forseta Íslands 37.743 undirskriftir þann 21. febrúar 2012.[2]

Málarekstur fyrir dómstólum um lögmæti verðtryggðra neytendalána[breyta | breyta frumkóða]

Þann 18. október 2012 var þingfest málsókn að undirlagi samtakanna, sem varð sú fyrsta sem var til þess ætluð að reyna á lögmæti verðtryggingar neytendalána.[3] Eftir frávísun málsins í fyrstu tilraun var því endurstefnt þann 8. nóvember 2013 fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem það var tekið fyrir að nýju í ársbyrjun 2014.[4] Þann 19. maí 2014 var kröfu Íbúðalánasjóðs um frávísun málsins hafnað, og aðalmeðferð ákveðin í september 2014.[5] Þann 4. september var ákveðið að aðalmeðferð færi fram 23. október í Héraðsdómi Reykjavíkur.[6] Í lok árs 2013 voru samþykkt á Alþingi lög um frestun á nauðungarsölum fram yfir 1. september 2014. Var þetta gert til þess að gefa skuldurum svigrúm þar til boðaðar aðgerðir stjórnvalda til skuldaleiðréttingar kæmu til framkvæmda. Úrvinnsla skuldaleiðréttingar hafði tafist á Alþingi en þó hafði frestunin ekki verið framlengd fyrir septemberbyrjun. HH skoruðu á innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að leggja fram frumvarp um framlengingu frestunar á nauðungarsölum sem var gert þann 9. september og frumvarpið samþykkt á Alþingi þann 22. september.[7] Í lok nóvember 2014 veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit um meginmálsástæður neytenda í málinu.[8] Þann 6. febrúar 2015 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn lögum um neytendalán þar sem lántakendur hefðu ekki verið upplýstir um kostnað við lántökuna með fullnægjandi hætti en engu að síður taldi dómurinn að lánveitendum væri heimilt að innheimta þann kostnað og var Íbúðalánasjóður því sýknaður.[9] Ákveðið var að áfrýja málinu til Hæstaréttar[10] og á borgarafundi sem haldinn var af HH þann 24. febrúar 2015 var samþykkt ályktun þess efnis að skorað yrði á Alþingi að fresta nauðungarsölum á heimilum fólks, meðan beðið væri dóms Hæstaréttar.[11] Þann 26. nóvember 2015 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm sem staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um sýknu lánveitanda[12] og var það mikið reiðarslag fyrir neytendur.[13] Samtökin hafa þó ekki gefist upp í þessari baráttu en í nóvember 2016 sendu þau formlega kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA yfir framkvæmd verðtryggðra neytendalána og brotum gegn EES-reglum á sviði neytendaverndar af hálfu íslenska ríkisins. Samhliða því var hafinn undirbúningur að höfðun skaðabótamáls gegn íslenska ríkinu vegna rangrar beitingar Hæstaréttar Íslands á EES-reglum um neytendalán sem innleiddar höfðu verið í íslensk lög.[14]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Hagsmunasamtök heimilanna hefja viðræður við forsætisráðherra“.
 2. „Forseti á fund með fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna“.
 3. „Stefna þingfest vegna verðtryggðs láns“.
 4. „Þingfesting stefnu vegna verðtryggðs fasteignaláns“.
 5. „Frávísunarkröfu Íbúðalánasjóðs í verðtryggingarmáli hafnað“.
 6. Dagsetning fyrir aðalmeðferð í máli HH um verðtryggingu
 7. Lög um frestun nauðungarsalna
 8. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins
 9. Héraðsdómur um verðtryggð neytendalán
 10. Dómsmáli HH um verðtryggð neytendalán áfrýjað til Hæstaréttar
 11. Ályktun borgarafundar 24. febrúar 2015
 12. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015
 13. Svartur fimmtudagur fyrir „réttarríkið“ Ísland
 14. Íslenska ríkið skaðabótaskylt á hvorn veginn sem málið fer