Fara í innihald

Richard Nixon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Richard Nixon
Richard Nixon þann 8. júlí árið 1971.
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1969 – 9. ágúst 1974
VaraforsetiSpiro Agnew (1969–1973)
Enginn (okt-des 1973)
Gerald Ford (1973–1974)
ForveriLyndon B. Johnson
EftirmaðurGerald Ford
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1953 – 20. janúar 1961
ForsetiDwight D. Eisenhower
ForveriAlben W. Barkley
EftirmaðurLyndon B. Johnson
Öldungadeildarþingmaður fyrir Kaliforníu
Í embætti
1. desember 1950 – 1. janúar 1953
ForveriSheridan Downey
EftirmaðurThomas Kuchel
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 12. kjördæmi Kaliforníu
Í embætti
3. janúar 1947 – 30. nóvember 1950
ForveriJerry Voorhis
EftirmaðurPatrick J. Hillings
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. janúar 1913
Yorba Linda, Kaliforníu, Bandaríkjunum
Látinn22. apríl 1994 (81 árs) New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiPat Nixon (g. 1940; d. 1993)
TrúarbrögðKvekari
BörnPatricia „Tricia“, Julie
HáskóliWhittier-háskóli, Duke-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Richard Milhous Nixon (9. janúar 191322. apríl 1994) var 37. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 1969 til 9. ágúst 1974 fyrir repúblikana.

Richard fæddist í Yorba Linda í Kaliforníu sonur trúaðra kvekara. Nixon hlaut fullan styrk til laganáms við Duke-háskóla þaðan sem hann útkrifaðist með þriðju hæstu einkunn í sínum árgangi og starfaði sem lögmaður eftir að námi lauk. Nixon varð fulltrúi Kaliforníu í kosningum til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings árið 1946 fyrir repúblikanaflokkinn og árið 1950 varð hann öldungadeildarþingmaður. Árið 1952 var hann útnefndur sem varaforsetaefni repúblíkanaflokksins við framboð Dwight D. Eisenhower sem sigraði og varð Nixon einn yngsti varaforseti í sögu Bandaríkjanna.

Hann tapaði naumlega fyrir John F. Kennedy í forsetakosningunum árið 1960 og eftir tap í kosningum til fylkisstjóra Kaliforníu árið 1962 tilkynnti hann brotthvarf sitt úr stjórnmálum. Nixon sneri þó aftur og árið 1968 bauð hann sig fram í forsetakosningum og náði kjöri.

Forsetatíðar Nixons er aðallega minnst í seinni tíð fyrir Watergate-hneykslið sem leiddi til afsagnar Nixons árið 1974. Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem sagt hefur af sér.

Foreldrar hans voru Hannah Milhouse Nixon og Frank Nixon og hann hann annar elstur af fimm bræðrum. Eitt af því sem hafi mikil áhrif á æsku Nixon var að missa tvo bræður sína snemma á lífsleiðinni. Arthur lést árið 1925 eftir mikil veikindi og Harold lést árið 1933 einnig eftir veikindi.[1] Fyrstu árin ólst Nixon upp á búi þar sem foreldrar hans ræktuðu aðallega sítrónur. Einnig tók faðir hans að sér öll þau störf sem honum buðust svo hann gæti séð fyrir fjölskyldu sinni. Árið 1922 varð erfitt á sítrónubúinu, svo fjölskyldan flutti til Whitter í Kaliforníu til að vera nær móðurfjölskyldu Nixons. Á nýjum stað opnaði faðir hans verslun og bensínstöð þar sem hægt var að kaupa helstu nauðsynjar. Öll fjölskyldan vann saman í versluninni svo hægt væri að ná endum saman. Nixon fjölskyldan var ekki rík fjölskylda og hefur verið haft eftir Richard Nixon að þau hafi verið fátæk, en það góða við það hafi verið að þau vissu ekki af því.[1]

Nixon kláraði grunnskóla í Whittier og vildu foreldrar hans að hann færi framhaldsskólanám í Fullerton. Þau voru þeirrar skoðunar að framhaldsskólinn í Whittier hafi haft slæm áhrif á eldri bróður hans þegar hann var þar í námi. Nixon stóð sig vel í skólanum og hafði góðar einkunnir. En skólinn var í töluverðri fjarlægð frá heimahögunum og gáfu foreldrar hans honum því að lokum leyfi til að færa sig yfir í framhaldsskólann í Whittier.[2] Þaðan útskrifaðist hann með næsthæstu einkunn í sínum árgangi. Nixon bauðst námsstyrkur til náms í Harvard, en foreldrar hans höfðu ekki efni á kostnaðinum sem fylgdi því að hann færi þangað. Það varð því, í september 1930, að hann hóf nám í nærliggjandi Háskóla í Whittier.[3] Ásamt því að búa í foreldrahúsum og hjálpa til við að reka fjölskyldufyrirtækið, var Nixon mjög virkur námsmaður. Hann lagði rækt við áhuga sinn á stúdentaráði, leiklist og amerískan fótbolta[4] og ávann sér, með því, orðspor um að vera gífurlegur ræðumaður, framúrskarandi í leiksýningum á vegum háskólans og farsæll íþróttamaður.[5] Árið 1934 útskrifaðist Nixon frá Whittier-háskólanum og hlaut fullan námsstyrk til náms í lagadeild Duke-háskólans. Þar varð hann formaður nemendaráðs og var einn af þeim hæstu þegar hann útskrifaðist, árið 1937.[4]

Upphaf ferilsins

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir útskriftina úr Duke Háskólanum, sneri Nixon aftur til Whittier þar sem hann hóf störf hjá lögfræðifyrirtækinu Kroop og Bewley. Nixon hélt áfram að leika á sviði í áhugamannaleikhúsi. En hann hitti einmitt kennarann Thelmu Catherine Ryan (Pat) á leikæfingu í bæjarleikhúsinu. Nixon heillaðist af Ryan og giftu þau sig þann 21. júní 1940. Saman eignuðust þau svo dæturnar Tricia og Julie.[4]

Nixon var mjög metnaðarfullur maður og vildi meira en að vera lögfræðingur í smábæ. Í janúar 1942 fluttu þau hjónin því til Washington, D.C. þar sem Nixon hóf störf í verðlagsstjórnunarráði (e. Offive of Price Administration) Franklins Roosevelts, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Fljótlega fór Nixon að leiðast skriffinnskuræðið og gekk í Bandaríska sjóherinn –þrátt fyrir að vera undanskilinn herþjónustu vegna starfa sinna hjá hinu opinbera- þann 17. ágúst, sama ár. Í upphafi var honum skipað í herflotastöð í Iowa-ríki, en Nixon óskaði eftir flutningi til Suður-Kyrrahafsins. Honum varð að ósk sinni og starfaði sem yfirmaður í bandaríska flughernum í Kyrrahafinu. Þar starfaði Nixon á jörðu niðri og tók því ekki þátt í neinum orustum. Hann sneri þó aftur til Bandaríkjanna með tvær viðurkenningar- og nokkur hrós fyrir þjónustu sína. Þegar Nixon sagði sig úr herþjónustu í janúar 1946, hafði hann náð stöðu yfirlautinants í flotanum.[6]

Þingmaður

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1946, eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar, var Nixon beðinn um að bjóða sig fram til þings fyrir repúblikana í Whittier. Nixon játti og þann 6. nóvember 1946 sigraði hann þingmann demókrata, Jerry Voorhis, með yfir fimmtán þúsund atkvæðum. Nixon flutti, ásamt eiginkonu sinni og ungri dóttur, til Washington, þar sem hann sat í mennta- og verkalýðsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Þá studdi hann m.a. setningu laga um verkföll og sáttaaðgerðir í vinnudeilum – Taft–Hartley-lögin – sem takmörkuðu stórlega völd stéttarfélaga. Nixon sat einnig í Herter-nefndinni, sem ferðaðist til Evrópu í þeim tilgangi að undirbúa frumskýrslu fyrir Marshallaðstoðina. Árið 1948 tók Nixon forystuna, sem meðlimur nefndar fulltrúadeildarinnar um and-bandaríska starfsemi (HUAC), í rannsókn vegna ákæru á hendur fyrrum embættismanns utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Alger Hiss, vegna meintra njósna fyrir Sovétríkin í seinni heimsstyrjöldinni. Vegna málsins varð Nixon umdeildur þar sem margir þjóðþekktir Bandaríkjamenn trúðu á sakleysi Hiss. Áratugum síðar vörpuðu þó upplýsingar, bæði frá stjórn Bandaríkjanna og Rússlandi, ljósi á sekt Hiss. Nixon náði endurkjöri árið 1948.[4]

Öldungadeildarþingmaður

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1950 sigraði Nixon þingmann demókrata, Helen Gahagan Douglas, í kosningum um sæti Kaliforníu í öldungadeild Bandaríkjaþings, með yfir hálfri milljón atkvæða. Baráttan um sætið var hörð og gagnrýndi Nixon Douglas fyrir að vera of vinstri sinnuð. Þá sagði hann Douglas vera bleika alveg inn að beini, eða eins og hann orðaði það: „pink right down to her underwear“. Douglas brást við með því að gefa Nixon viðurnefnið „Tricky Dick“. Sem öldungadeildarþingmaður gagnrýndi Nixon m.a. forseta Bandaríkjanna, Harry S. Truman, fyrir það hvernig hann tókst á við Kóreustríðið og hélt varnarræður yfir þjóðinni um þá ógn sem stafaði af kommúnismanum.[4]

Varaforseti

[breyta | breyta frumkóða]
Nixon (t.v.) og Níkíta Khrústsjov (t.h.) í Kreml 1959 eftir eldhúskappræðurnar.

Nixon fékk gífurlega athygli vegna harðrar afstöðu sinnar gegn kommúnisma sem leiddi til þess að Dwight D. Eisenhower valdi hann sem meðframbjóðanda sinn til forseta, á þingi repúblikana þann 11. júlí 1952. Tveimur mánuðum seinna birti New York Post grein þar sem því var haldið fram Nixon að hafi þegið fé til, persónulegra nota, frá styrktaraðilum kosningarherferðarinnar. Þar sem Eisenhower gerði sér grein fyrir því að hann gæti ekki unnið baráttuna án Nixon, ákvað hann að gefa honum tækifæri til að hreinsa sig af þessum ásökunum.

Þann 23. september 1952 flutti Nixon ræðu í landssjónvarpi, þar sem hann viðurkenndi tilvist sjóðsins en tók fram að sjóðurinn væri hvorki óvenjulegur, né leynilegur á nokkurn hátt og sagðist geta lagt fram bókhaldsgögn því til stuðnings. Þá sagði hann enn fremur að eina gjöfin sem hann hefði þegið væri Cocker Spaniel-tík, sem hann nefndi Checkers, og að fjölskyldan ætlaði sér að halda henni. Ræða Nixon bar góðan árangur, styrkti stöðu hans innan repúblikanaflokksins og sýndi að hann hefði aðdráttaraflið til þess að laða fjöldann að sér. Þá sýndi það sig einnig hvað sjónvarpið var að verða sterkur fjölmiðill fyrir stjórnmálamenn. Í nóvember árið 1952 báru svo Eisenhower og Nixon sigur úr bítum gegn frambjóðendum demókrata, í forsetakosningum Bandaríkjanna, með sjö milljónum atkvæða.

Í forsetatíð Eisenhower gerði Nixon varaforsetaembættið að bæði sýnilegu og mikilvægu embætti. Hann ferðaðist víða og ávann sér virðingu, bæði Bandaríkjamanna og annarra þjóða, með frammistöðu sinni í samskiptum við aðrar þjóðir. Þar á meðal þótti frammistaða hans í svokölluðum „eldhúsumræðum“ við leiðtoga Sovétríkjanna árið 1959, Níkíta Khrústsjov, um samskipti stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, eftirtektarverð.[7][8]

Forsetakjör

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1960 gaf Nixon kost á sér sem forseta Bandaríkjanna í fyrsta skipti en á sama tíma gaf John F. Kennedy kost á sér. Baráttan var ansi hörð á milli Nixons og Kennedy og endaði með mjög naumum sigri John F. Kennedy. Kennedy hlaut aðeins 113.000 fleiri atkvæði heldur en Nixon sem var fram að þessu minnsti atkvæðamunur í sögu forsetakosninga Bandaríkjanna.. [9] Eftir að hafa tapað forsetakosningunum bauð Nixon sig fram sem fylkisstjóri Kaliforníu en náði ekki heldur kjöri þar. Eftir að hafa ekki náð kjöri sem forseti né fylkisstjóri fór minna fyrir Nixon í pólitík um tíma en hann snéri sér að lögfræðinni á ný.[9] Árið 1968, eftir að Robert Kennedy var drepinn, gaf Nixon aftur kost á sér sem forseta Bandaríkjanna. Í þessum kosningum bauð Nixon sig fram á móti Hubert Humphrey sem var á þessum tíma varaforseti Bandaríkjanna. Nixon vann þessar kosningar og tók við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar 1969. Nixon var þrítugasti og sjöundi forseti Bandaríkjanna. Hann var síðan endurkjörin forseti árið 1972 en í það skiptið sigraði hann George McGovern þingmann.[9] Nixon gaf ekki kost á sér í fleiri kjörtímabil og kláraði ekki einu sinni síðara kjörtímabilið sitt.[10]

Forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]
Nixon og Georges Pompidou forseti Frakklands á Íslandi 1973.

Nixon var þrítugasti og sjöundi forseti Bandaríkjanna og sat hann í eitt og hálft kjörtímabil. Það helsta sem Nixon gerði sem forseti var að bæta samskipti Bandaríkjanna við Kína annars vegar og Sovétríkin hins vegar. Nixon var fyrsti Bandaríkjaforseti til að heimsækja Kína þegar hann fór til landsins árið 1972 en var sú heimsókn fyrsta skrefið í bættum samskiptum ríkjanna tveggja. Sama ár, 1972, heimsótti Nixon einnig Moskvu þar sem hann ræddi við rússneska leiðtogann Leoníd Brezhnev skrifuðu þeir undir SALT I samninginn (e. Strategic Arms Limitation Talks). Þegar Nixon tók við embætti forseta var Víetnamstríðið í fullum gangi en hann skrifaði undir friðarsamninginn í París (e. Paris Peace Accords) og lét Bandaríkjaher hörfa frá Víetnam. Þann 8. ágúst 1974 tilkynnti Nixon að hann ætlaði að segja af sér vegna yfirvofandi kæru í Watergate-hneykslinu. Hneykslið var vegna innbrots á skrifstofu Demókrataflokksins í kosningabaráttunni árið 1972 og Nixon er sagður hafa tekið þátt en hann neitaði því alla tíð.[11]

Eftir forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Nixon hafði sagt af sér tók Gerald Ford við embætti forseta. Mikil reiði var vegna Watergate málsins og þó að margir vildu að Nixon myndi taka út þá refsingu sem hann ætti skilið ef hann yrði fundin sekur en það kom aldrei til þess. Ford bauð honum sakaruppgjöf sem Nixon þáði, þrátt fyrir að vilja það ekki í fyrstu því honum fannst það gefa til kynna að hann væri sekur. Nixon og Pat, eiginkona hans, fluttu til Kaliforníu, á heimili sitt (La Casa Pacifica), strax eftir að hann hafði sagt af sér. Fyrstu mánuðirnir eftir forsetatíð Nixons voru erfiðir fyrir hann, ekki eingöngu andlega heldur fylgdu einnig líkamleg veikindi. Nixon fór í aðgerð vegna blóðtappa í fæti og eftir þá aðgerð fékk hann innvortis blæðingu svo hann þurfti að fara í aðra aðgerð. Endurkoma Nixons byrjaði með ferðalögum hans en hann ferðaðist um allan heim og árið 1976 fór hann til Kína þar sem honum var tekið mjög vel. Síðar fór hann að tala opinberlega en árið 1978 hélt hann fyrstu ræðu sína í Kentucky. Nixon lést þann 22. apríl árið 1994.[12]

  1. 1,0 1,1 Richard Nixon (1979). The Memoirs of Richard Nixon. Warner Books. bls. 1-13.
  2. Fyrirmynd greinarinnar var „Richard Nixon“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. október 2014.
  3. „Richard Nixon Biography“. Sótt 26. október 2014.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 „Biography of Richard Milhous Nixon“ (PDF). Richard Nixon Presidential Library and Museum. Sótt 26. október 2014.
  5. „Richard Nixon Biography“. Sótt 26. október 2014.
  6. „Richard Nixon Biography“. Sótt 31. október 2014.
  7. „The Vice President“. Sótt 21. nóvember 2014.
  8. „Richard Nixon Biography“. Sótt 21. nóvember 2014.
  9. 9,0 9,1 9,2 The Richard Nixon foundation. „37 Fascinating Facts About America's 37th President“. Sótt 30. október 2014.
  10. The Richard Nixon Foundation. „Richard Nixon – America's 37th President“. Sótt 30. október 2014.
  11. the WHITE HOUSE. „Richard M. Nixon“. Sótt 14. nóvember 2014.
  12. Miller Center. „Life After the Presidency“. Sótt 21. nóvember 2014.


Fyrirrennari:
Lyndon B. Johnson
Forseti Bandaríkjanna
(1969 – 1974)
Eftirmaður:
Gerald Ford
Fyrirrennari:
Alben W. Barkley
Varaforseti Bandaríkjanna
(1953 – 1961)
Eftirmaður:
Lyndon B. Johnson