Jöklar á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gígjökull í Eyjafjallajökli

Jöklar á Íslandi þekja nú um 11% af flatarmáli landsins (um 11.400 km2 af 103.125 km2). Vatnajökull, stærsti jökull Evrópu utan heimskautasvæða, þekur um 8% landsins. Stærstu jöklana er að finna á sunnanverðu landinu og í miðju þess. Ástæðan er sú að þar er meiri úrkoma en norðanlands. Áætlað er að um 20% heildarúrkomu á Íslandi falli á jöklana.[1] Ásýnd jöklanna breytist hratt og stór hluti þeirra eru skriðjöklar. Allir íslenskir jöklar eru þíðjöklar.

Helstu jöklar Íslands[breyta | breyta frumkóða]

Jökull Flatarmál[2]
km2
Rúmmál
km3
Hæð
m
1 Vatnajökull 8100 3.100[1] Geymt 8 nóvember 2012 í Wayback Machine 2.109,6
2 Langjökull 950 195[2] Geymt 8 nóvember 2012 í Wayback Machine 1.360
3 Hofsjökull 925 208[3] 1.765
4 Mýrdalsjökull 596 140[4] Geymt 23 maí 2009 í Wayback Machine 1.493
5 Drangajökull 160   925
6 Eyjafjallajökull 78   1.666
7 Tungnafellsjökull 48   1.535
8 Þórisjökull 32   1.350
9 Eiríksjökull 22   1.672
10 Þrándarjökull 21   1.236
11 Tindfjallajökull 20   1.462
12 Torfajökull 19   1.190
13 Snæfellsjökull 3   1.446
1-13 stærstu jöklar 11.181   2.109,6

Þessir þrettán stærstu jöklar Íslands eru um 11.181 km2 að flatarmáli en allir jöklar landsins eru um 11.400 km2. Jöklar á Tröllaskaga þekja um 150 ferkílómetra.

Afkoma jökla á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að síðasta kuldaskeiði ísaldar hafi lokið fyrir um 10 þúsund árum og hlýskeið gengið í garð. Líklega var Ísland alveg jökullaust (eða því sem næst) fyrir 9 þúsund árum. Tímabilið frá þeim tíma og þar til fyrir 2.500 árum einkenndist af mjög mildu veðurfari. Fyrir 2.500 árum kólnaði í veðri og núverandi jöklar tóku að myndast. Jöklarnir hafa sennilega náð hámarki um aldamótin 1900 en hafa síðan þá dregist hratt saman.[3]

Afkoma jökla á Íslandi á árunum 1930-1995
1930-1950 Jöklar hopa hratt
1950-1970 Jöklar hopa hægt
1970-1995 Jöklar skríða fram

Frá árinu 1995 hafa jöklarnir dregist enn frekar saman. Til dæmis hefur Vatnajökull rýrnað að meðaltali um 4 km3 á ári sem samsvarar því að allur jökullinn þynnist um hálfan metra árlega.[3] Spáð hefur verið að jöklarnir munu halda áfram að hopa ört á þessari öld og afrennsli þeirra aukast til muna á fyrri hluta aldarinnar, en nú kemur um 20% árrennslis úr jöklum.[1] Þessi farglosun mun valda landrisi, einkum á suðausturhluta landsins, en einnig hefur verið spáð fyrir um hækkandi stöðu sjávar. Landris ku ekki munu verða á suðvesturlandi vegna landsigs sem hefur orðið þar.[4]

Eldur og ís[breyta | breyta frumkóða]

Margir íslensku jöklanna liggja yfir eldstöðvum. Grímsvötn og Bárðarbunga eru til dæmis stórar eldstöðvar undir Vatnajökli. Askja Grímsvatna er um 100 km2 og askja Bárðarbungu um 60 km2. Eldgos undir jöklum verða oft á tíðum í kjölfar jökulhlaupa en jökulhlaupin losa um þrýsting á eldstöðinni. Stundum er atburðarásin í hina áttina þar sem eldgos kemur af stað jökulhlaupi. Ein helsta vá vegna jökulhlaupa á Íslandi er hlaup úr Mýrdalsjökli vegna eldgoss í Kötlu[5] en þaðan hafa einnig runnið stærstu hlaup Íslandssögunnar.[6] Sumir jöklar eru yfir jarðhitasvæðum og bráðnar því stöðugt af þeim.

Þau fjöll sem myndast í eldgosum undir jökli nefnast móbergsstapar. Stapar eru mun hærri og reisulegri en dyngjur sem myndast við gos á jökullausu svæði. Um 40 móbergsstapar eru á Íslandi. Eiríksjökull er stærsti stapi landsins.[3]

Lesefni[breyta | breyta frumkóða]

  • Helgi Björnsson: Jöklar á Íslandi. Reykjavík 2009

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar“ (PDF). Sótt 22. ágúst 2009.
  2. „Landmælingar Íslands - Ísland í tölum“. Sótt 15. ágúst 2009.
  3. 3,0 3,1 3,2 Jóhann Ísak Pétursson; Jón Gauti Jónsson (2008). Almenn Jarðfræði. Iðnú.
  4. „Veðurstofa Íslands: Líklegar breytingar á Íslandi“. Sótt 22. ágúst 2009.
  5. „Veðurstofa Íslands: Jökulhlaup“. Sótt 24. ágúst 2009.
  6. „Veðurstofa Íslands: Jöklamælingar og Jökulhlaup“. Sótt 24. ágúst 2009.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]