Svíþjóð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Konungsríkið Svíþjóð
Konungariket Sverige
Fáni Svíþjóðar Skjaldarmerki Svíþjóðar
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
För Sverige - I tiden (sænska)
Fyrir Svíþjóð - með tímanum
Þjóðsöngur:
Du gamla, du fria
Staðsetning Svíþjóðar
Höfuðborg Stokkhólmur
Opinbert tungumál sænska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 16. Gústaf
Forsætisráðherra Ulf Kristersson
Stofnun forsöguleg
Evrópusambandsaðild 1. janúar 1995
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
57. sæti
447.425 km²
8,97
Mannfjöldi
 - Samtals (2022)
 - Þéttleiki byggðar
88. sæti
10.462.498
23,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 - Samtals 563,882 millj. dala (39. sæti)
 - Á mann 54.628 dalir (15. sæti)
VÞL (2019) Increase2.svg 0.937 (8. sæti)
Gjaldmiðill Sænsk króna (kr) (SEK)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Ekið er hægri megin
Þjóðarlén .se
Landsnúmer +46

Svíþjóð (sænska: Sverige), formlegt heiti Konungsríkið Svíþjóð (sænska: Konungariket Sverige), er land í Norður-Evrópu og eitt Norðurlandanna. Landamæri liggja að Noregi til vesturs og Finnlandi til norðausturs. Landið tengist Danmörku með Eyrarsundsbrúnni yfir Eystrasaltið til austurs. Svíþjóð er fjölmennast Norðurlanda með 10 milljónir íbúa en er þó frekar strjálbýlt. Langflestir íbúanna búa í suðurhluta landsins.

Höfuðborg Svíþjóðar er Stokkhólmur. Aðrar stærri borgir landsins eru: Gautaborg, Málmey, Uppsalir, Linköping, Västerås, Örebro, Karlstad, Norrköping, Helsingjaborg, Jönköping, Gävle, Sundsvall og Umeå.

Barrskógar landsins eru nýttir í timbur- og pappírsgerð. Í norðurhluta landsins er mikil námuvinnsla; einkum er þar unninn járnmálmur en þar er einnig að finna ýmsa aðra málma. Aðaliðnaðarsvæðið er um mitt landið en landbúnaður einkennir mjög suðurhlutann.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifar sýna að það landsvæði sem nú er Svíþjóð byggðist þegar á steinöld. Eftir því sem ísaldarjökullinn hopaði fylgdu hópar veiðimanna og safnara sem fluttu sig lengra norður meðfram strönd Eystrasaltsins.

Fornleifafræðingar hafa grafið upp marga stóra verslunarstaði sem styrkja þá kenningu að landsvæðið hafi verið fullbyggt þegar á bronsöld.

Á níundu og tíundu öld stóð víkingamenning á stórum hluta þess svæðis sem nú er Svíþjóð. Einkum héldu sænskir víkingar í austurveg til Eystrasaltslandanna, Rússlands og allt suður til Svartahafs. Sænskumælandi íbúar settust að í suðurhluta Finnlands og einnig í Eistlandi. Á þessum tíma tók einnig sænskt ríki að myndast með þungamiðju í Uppsölum og náði það allt suður að Skáni, sem þá var hluti Danmerkur.

Árið 1389 sameinuðust Danmörk, Noregur og Svíþjóð undir einum konungi. Kalmarsambandið var ekki pólitískt sambandsríki heldur konungssamband. Meirihluta 15. aldar reyndi Svíþjóð að hamla þeirri miðstýringu sem Danir vildu koma á í sambandinu undir dönskum kóngi. Svíþjóð sagði sig úr Kalmarsambandinu 1523 þegar Gústaf Eiríksson Vasa, síðar þekktur sem Gústaf I, endurreisti sænska konungdæmið.

Á 17. öld varð Svíþjóð eitt helsta stórveldi Evrópu eftir mikla sigra í Þrjátíu ára stríðinu. Þegar á leið 18. öld hvarf þessi staða þegar Rússland vann á í baráttunni um völdin við Eystrasalt.

Saga Svíþjóðar síðustu aldirnar heftur einkennst af friði. Síðasta stóra styrjöldin sem Svíþjóð tók þátt í var við Rússland 1809 þegar Finnland var innlimað í Rússneska keisaradæmið. Minniháttar skærur urðu þó við Noreg 1814. Þær enduðu með því að sænski krónprinsinn samþykkti norsku stjórnaskrána 17. maí sama ár og með því gengu Noregur og Svíþjóð í konungssamband. Þegar norska stórþingið samþykkti upplausn þessa sambands 1905 lá við stríði en það tókst að koma í veg fyrir það og þess í stað enduðu deilurnar með samningum.

Svíþjóð lýsti yfir hlutleysi í báðum heimsstyrjöldunum og hefur allt síðan haldið fast við þá stefnu að standa utan hernaðarbandalaga í því augnmiði að halda sig utan við væntanlegar styrjaldir.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Svíþjóð hefur verið konungdæmi í hátt í þúsund ár. Konungur hefur stærstan hluta þessa tíma deilt löggjöf með þinginu (á sænsku: Riksdag). Þingið hefur hins vegar haft mismikil völd gegnum tíðina. Frá endurreisn konungdæmisins 1523 var lagasetningu og stjórn ríkisins skipt milli konungs og stéttarþings aðalsmanna. Árið 1680 gerðist sænski konungurinn hins vegar einvaldur.

Eftir tap Svía í Norðurlandaófriðinum mikla hófst það sem nefnt er frelsistíminn frá 1719. Honum fylgdu þrjár stjórnarskrárbreytingar, 1772, 1789 og 1809, sem allar styrktu vald borgara gagnvart konungi. Þingræði var komið á 1917 þegar Gústaf 5. sætti sig við að skipa ríkisstjórn í samræmi við valdahlutföll á þingi, eftir langa baráttu. Almennum kosningarétti var komið á 19181921. Með nýrri stjórnaskrá 1975 var allt vald konungs afnumið. Táknrænu embætti konungs var haldið en án nokkurs valds.

Í upphafi 20. aldar mótaðist það flokkakerfi sem að miklu leyti hefur einkennt sænsk stjórnmál síðan. Sænski jafnaðarmannaflokkurinn hefur verið langstærsti stjórnmálaflokkurinn allar götur frá öðrum áratug 20. aldar og hefur setið í stjórn meira og minna samfleytt í yfir sjötíu ár. Á þingi sitja nú fulltrúar sjö flokka sem skiptast í tvær fylkingar, vinstri og hægri. Til vinstrifylkingarinnar teljast sænski jafnaðarmannaflokkurinn (Socialdemokraterna), sænski vinstriflokkurinn (Vänsterpartiet), sænski umhverfisflokkurinn (Miljöpartiet). Til hægrifylkingarinnar teljast sænski hægriflokkurinn (Moderaterna), sænski þjóðarflokkurinn (Folkpartiet) (frjálslyndur miðjuflokkur), sænski miðflokkurinn (Centerpartiet) og kristilegir demókratar (Kristdemokraterna) og síðan Svíþjóðardemókratar (Sverigedemokraterna) lengst til hægri.

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Héruð[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Heiti Landshluti Flatarmál
(km²)
Ångermanlands vapen.svg Angurmannaland Norðurland 19.800
Östergötlands vapen.svg Austur-Gautland Gautland 9.979
Blekinges vapen.svg Blekinge Gautland 2.941
Bohusläns vapen.svg Bohuslän Gautland 4.473
Dalarnas vapen.svg Dalir Svíaríki 29.086
Dalslands vapen.svg Dalsland Gautland 3.708
Ölands vapen.svg Eyland Gautland 1.342
Gotlands vapen.svg Gotland Gautland 3.140
Gästrikland vapen .svg Gästrikland Norðurland 4.181
Hallands vapen.svg Halland Gautland 4.786
Hälsinglands vapen.svg Helsingjaland Norðurland 14.264
Härjedalens vapen.svg Herjadalur Norðurland 11.954
Jämtlands vapen.svg Jamtaland Norðurland 34.009
Lappland vapen.svg Lappland Norðurland 109.072
Medelpads vapen.svg Medelpad Norðurland 7.058
Norrbottens vapen.svg Norðurbotn Norðurland 26.671
Närkes vapen.svg Närke Svíaríki 4.126
Skånes vapen.svg Skánn Gautland 11.027
Smålands vapen.svg Smálönd Gautland 29.330
Södermanlands vapen.svg Suðurmannaland Svíaríki 8.388
Upplands vapen.svg Uppland Svíaríki 12.676
Värmlands vapen.svg Vermaland Svíaríki 18.204
Västerbottens vapen.svg Vesturbotn Norðurland 15.093
Västmanlands vapen.svg Vesturmannaland Svíaríki 8.363
Västergötlands vapen.svg Vestur-Gautland Gautland 16.676

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Svíþjóð liggur að Jótlandshafi, Noregi, Finnlandi og Eystrasalti. Lengsta lengd þess frá norðri til suðurs er 1.572 km og frá austri til vesturs 499 km. Um það bil 221.800 eyjar tilheyra Svíþjóð. Þær stærstu eru Gotland og Eyland sem báðar eru í Eystrasaltinu.

Meirihluti Svíþjóðar er flatur og hæðóttur, en Skandinavíufjöllin rísa í yfir 2.000 m hæð við landamærin að Noregi. Hæsti hnjúkurinn er Kebnekaise sem er 2.111 m yfir sjávarmáli. 28 þjóðgarðar eru dreifðir um landið. Þeir stærstu eru í norðvesturhluta landsins.

Suður- og Mið-Svíþjóð (Gautland og Svealand) ná aðeins yfir tvo fimmtu hluta landsins en Norður-Svíþjóð (Norrland) nær yfir þrjá fimmtu hluta landsins. Syðsti oddur landsins er héraðið Skánn. Héruð í Svíþjóð eru 25.

Gróður og dýralíf[breyta | breyta frumkóða]

Um helmingur landsins er skógi vaxinn (aðallega greni og furu). Í suðurhluta landsins eru einnig eikar– og beykiskógar.

Alls eru 65 tegundir landspendýra í Svíþjóð og er engin þeirra einlend í landinu. Af spendýrategundum má nefna elg, rádýr, rauðhjört, ýmsar tegundir nagdýra svo sem rauðíkorna, mýs, læmingja og bifur, kanínur og héra.

Þrjár tegundir spendýra eru taldar í mikilli útrýmingarhættu í landinu. Tvær þessara tegunda eru leðurblökur og þriðja tegundin í mikilli útrýmingarhættu er úlfurinn. Tæplega 260 tegundir fugla verpa að staðaldri í Svíþjóð. Alls hafa fundist sjö tegundir skriðdýra í Svíþjóð, þar af þrjár tegundir snáka. Þrátt fyrir kalda veðráttu hluta árs eru 13 tegundir froskdýra í Svíþjóð.[1]

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Trúarbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Sænska kirkjan er fjölmennasta trúfélagið en hún var þjóðkirkja til ársins 2000. 54% Svía eru meðlimir hennar. Þó sækja aðeins um 2% kirkju reglulega. Um 5% eru múslimar og 2% kaþólskir. Í Svíþjóð er fjöldi trúlausra.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Hvað getið þið sagt mér um dýralíf í Svíþjóð Vísindavefur. Skoðað 17. janúar 2016.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]