Safnahúsið við Hverfisgötu
Safnahúsið við Hverfisgötu er hús sem stendur við Hverfisgötu 15 í miðborg Reykjavíkur. Það var byggt á árunum 1906-1908 til að hýsa Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands sem voru þar til langs tíma ásamt Náttúrugripasafni Íslands og Forngripasafninu. Húsið sem teiknað var af danska arkitektnum Johannes Magdahl Nielsen átti upprunalega að vera úr grágrýti eins og Alþingishúsið og átti þak hússins að vera úr kopar. Það þótti hins vegar of kostnaðarsamt þannig að húsið var byggt úr steinsteypu og járnþak kom í stað koparþaks[1].
Safnastarfsemi
[breyta | breyta frumkóða]Vorið 2021 varð Safnahúsið hluti af Listasafni Íslands og býður nú upp á sýningu með vel völdum verkum úr safneign safnsins.
Árið 2015 var sýningin Sjónarhorn opnuð. Sýningin fjallaði um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf en að sýningunni stóðu höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands, ásamt Þjóðskjalasafni Íslands, Landsbókasafni- Háskólabókasafni og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sérfræðingar þessara stofnana unnu með sýningarstjóra að mótun grunnhugmyndar. Verkefnið var unnið undir yfirstjórn þjóðminjavarðar en Þjóðminjasafn Íslands sér um rekstur hússins.
Sýningarstjóri var Markús Þór Andrésson en valinn hluti safnkosts áðurnefndra menningarstofnana var til sýnis, frá elstu varðveittu heimildum til dagsins í dag. Samstarf þessara stofnana bauð upp á einstakt tækifæri til að skoða arfleifðina í nýju samhengi og varpaði ljósi á ósagða sögu með nýstárlegum hætti. Markmið aðstandenda sýningarinnar var að ná sérstaklega til skólafólks og fjölskyldna en um leið til ferðamanna.
Landsbókasafn Íslands flutti í húsið árið 1909 en það hafði þá verið til húsa í Alþingishúsinu frá árinu 1881. Landsbókasafnið var í Safnahúsinu í 85 ár þangað til að það sameinaðist Háskólabókasafni árið 1994 til að mynda hið nýja Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn sem var til húsa í Þjóðarbókhlöðunni [2].
Landsskjalasafn sem seinna varð Þjóðskjalasafn Íslands var flutt yfir í Safnahúsið árið 1909 en það hafði þá verið í Alþingishúsinu frá árinu 1900. Þjóðskjalasafnið var í Safnahúsinu allt þangað til ársins 1986 þegar farið var að flytja það yfir á Laugarveg 162[3].
Forngripasafnið sem seinna varð Þjóðminjasafn Íslands flutti í Safnahúsið árið 1908 en það hafði þá verið til húsa á ýmsum stöðum, í Dómkirkjunni í Reykjavík, Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, Alþingishúsinu og Landsbankanum í Austurstræti. Forngripasafnið var í Safnahúsinu til ársins 1950 þangað til að það var flutt í Þjóðminjasafnshúsið við Suðurgötu[4].
Náttúrugripasafn Íslands var flutt í Safnahúsið árið 1908. Safninu var seinna lokað árið 1960 þangað til að því var komið fyrir í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm árið 1967. [5].
Sýningar
[breyta | breyta frumkóða]
Sýningunum Handritin - Saga handrita og hlutverk um aldir, Þúsund ár - fyrsti áfangi og Óskabarn - æskan og Jón Sigurðsson hefur verið lokað. Vorið 2015 er ráðgert að ný sýning sem fjallar um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf verði opnuð en Markús Þór Andrésson er sýningarstjóri sýningarinnar. Á sýningunni verður fjallað um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf en að sýningunni standa höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands, ásamt Þjóðskjalasafni Íslands, Landsbókasafni- Háskólabókasafni og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ . „Landsbókasafnið nýja“. Ísafold. 33 (46) (1906): 182-183.
- ↑ „Ágrip af sögu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns“. Sótt 20. ágúst 2010.
- ↑ „Stofnun Þjóðskjalasafns Íslands“. Sótt 20. ágúst 2010.
- ↑ Inga María Leifsdóttir. „Hin veglega morgungjöf“. Lesbók Morgunblaðsins. 79 (35) (2004): 6.
- ↑ „Náttúrugripasafnið í Reykjavík“ (PDF). Sótt 20. ágúst 2010.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- Heimasíða Geymt 12 mars 2010 í Wayback Machine