Norður-Írland
Norður-Írland | |
Northern Ireland (enska) Tuaisceart Éireann (írska) Norlin Airlann (ulsterskoska) | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
![]() | |
Höfuðborg | Belfast |
Opinbert tungumál | enska, írska og ulsterskoska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn
|
Konungur | Karl 3. |
Forsætisráðherra | Enginn |
Hluti Bretlands | |
- Lög um ríkisstjórn Írlands | 3. maí 1921 |
- Stjórnarskrárlög | 18. júlí 1973 |
- Lög um Norður-Írland | 17. júlí 1974 |
- Lög um Norður-Írland | 19. nóvember 1998 |
Flatarmál - Samtals |
14.130 km² |
Mannfjöldi - Samtals (2019) - Þéttleiki byggðar |
1.900.000 133/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2018 |
- Samtals | 49 millj. dala |
- Á mann | 26.000 dalir |
VÞL (2019) | 0.899 |
Gjaldmiðill | sterlingspund |
Tímabelti | UTC (UTC+1 á sumrin) |
Þjóðarlén | .uk |
Landsnúmer | +44 |
Norður-Írland er eitt af fjórum löndum sem mynda Bretland. Það er á Norðaustur-Írlandi og á landamæri að Írska lýðveldinu í suðvestri. Íbúar Norður-Írlands eru um 1,8 milljónir, sem er þriðjungur allra íbúa Írlands og um 3% íbúa Bretlands. Þing Norður-Írlands var stofnað í kjölfar Föstudagssáttmálans 1998 og tekur ákvarðanir í mörgum stefnumálum þótt mest völd séu hjá ríkisstjórn Bretlands. Norður-Írland hefur samstarf við Írska lýðveldið í ýmsum málum og hefur það hlutverk að setja fram stefnu til að draga úr ágreiningi milli stjórna landanna.
Norður-Írland varð til árið 1921 þegar Írlandi var skipt með lögum frá breska þinginu þar sem meirihluti íbúa norðurhlutans voru fylgjandi sameiningu við Bretland. Flestir þeirra voru mótmælendatrúar og afkomendur innflytjenda frá Stóra-Bretlandi. Árið eftir var Írska fríríkið stofnað í suðurhlutanum. Á Norður-Írlandi er þó stór minnihluti kaþólskra íbúa sem líta á sig sem Íra fremur en Breta. Saga Norður-Írlands hefur mótast af átökum milli þessara hópa. Seint á 7. áratug 20. aldar hófst átakatími sem stóð í þrjá áratugi. Friðarferli náði hátindi sínum með Föstudagssáttmálanum 1998 þótt aðskilnaður og tortryggni milli hópa séu enn vandamál.
Norður-Írland var sögulega iðnvæddasti hluti eyjarinnar. Eftir hnignunarskeið vegna átakanna hefur atvinnulíf tekið við sér frá því seint á 10. áratugnum vegna aukinna viðskipta við Írska lýðveldið og aukningu ferðaþjónustu. Atvinnuleysi á Norður-Írlandi náði hámarki 1986 þegar það var yfir 17%. Það er nú svipað og annars staðar í Bretlandi.
Frægir Norður-Írar eru meðal annars Van Morrison, Rory McIlroy, Joey Dunlop og George Best. Sumir Norður-Írar, eins og Seamus Heaney og Liam Neeson, líta fyrst og fremst á sig sem Íra. Menningarleg tengsl við bæði Írska lýðveldið og Bretland eru margþætt og flókin. Í íþróttum sendir Írland stundum eitt sameiginlegt lið og á Ólympíuleikunum geta Norður-Írar valið hvort þeir keppa fyrir Írska lýðveldið eða Bretland. Í Samveldisleikunum sendir Norður-Írland sérstakt lið.
Heiti[breyta | breyta frumkóða]
Nafnið Norður-Írland varð til þegar lög um stjórn Írlands voru samþykkt á breska þinginu árið 1920. Með lögunum urðu til tvö heimastjórnarsvæði á Írlandi, Norður-Írland og Suður-Írland, hvort með sitt þing. Ástæðan var sú að írskir sambandssinnar í Ulster óttuðust að þing í Dublin hefði sjálfstæðissinna í meirihluta sem myndu kljúfa Írland frá Bretlandi. Norður-Írland náði aðeins yfir sex af níu sýslum Ulster þar sem sambandssinnar töldu sig ekki hafa öruggan meirihluta í öllum sýslunum níu.
Eftir samþykkt laganna kom þing Norður-Írlands saman, en þing Suður-Írlands var hunsað af sjálfstæðissinnum í Sinn Féin sem höfðu mikinn meirihluta og varð því aldrei að veruleika. Þeir stofnuðu síðan Írska fríríkið eftir friðarsamninga við Bretland. Samningarnir fólu í sér að þing Norður-Írlands mætti kjósa að segja sig úr fríríkinu, sem það gerði.
Landfræði[breyta | breyta frumkóða]
Norður-Írland var hulið jökulís á síðustu ísöld eins og sést á mörgum jökulöldum í sýslunum Fermanagh, Armagh, Antrim og Down. Í miðju landinu er stærsta stöðuvatn Bretlandseyja, Lough Neagh, 391 km² að stærð. Í kringum Lough Erne í Fermanagh er stórt vatnasvæði. Stærsta eyjan við Norður-Írland er Rathlin undan strönd Antrim. Strangford Lough er stór fjörður í Down-sýslu.
Sperrin-fjöll eru framhald af Kaledóníufjöllum til suðvesturs. Þar er að finna gullnámur, granítnámur í Mourne-fjöllum og basaltnámur á Antrim-hásléttunni auk minni hæðadraga í suðurhluta Armanagh. Hæsti tindur Norður-Írlands er Slieve Donard í Mourne-fjöllum, 850 metra hár. Sú eldvirkni sem skapaði Antrim-hásléttuna myndaði líka stuðlabergið við Giant's Causeway á norðurströnd Antrim.
Árnar Bann, Foyle og Blackwater renna um stórt frjósamt láglendi. Gott landbúnaðarland er líka að finna í norður- og austurhluta Down-sýslu þótt hæðirnar henti best fyrir húsdýrarækt.
Í árdal árinnar Lagann er borgin Belfast þar sem um þriðjungur íbúa Norður-Írlands býr. Árdalurinn og bakkar Belfast Lough eru þéttbýl og iðnvædd svæði.
Loftslag á Norður-Írlandi er temprað úthafsloftslag. Úrkoma er meiri í vesturhlutanum. Veðrið er óútreiknanlegt allt árið um kring og skil milli árstíða mun minni en á meginlandi Evrópu eða austurströnd Bandaríkjanna. Meðalhiti í Belfast er mestur 6,5°C í janúar og 17,5°C í júlí. Úrkoma og skógeyðing á 16. og 17. öld hafa leitt til þess að stærstur hluti landsins er þakinn grænu grasi. Hæsti hiti sem mælst hefur var 30,8° 30. júní 1976 og lægsti hiti -18,7° 23. desember 2010.
Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]
Frá 1998 hefur Norður-Írland haft heimastjórn sem ber ábyrgð gagnvart þingi Norður-Írlands. Breska þingið og breska ríkisstjórnin bera ábyrgð á tilteknum málaflokkum. Meðal þeirra eru frátekin stefnumál (til dæmis í flugmálum, mælieiningum og mannerfðafræði) sem breska þingið gæti flutt til norðurírska þingsins í framtíðinni. Undanþegin mál eru mál sem varða alþjóðatengsl, skatta og kosningar sem ekki er gert ráð fyrir að muni nokkurn tíma verða flutt til norðurírska þingsins. Í öllum öðrum málum fer þingið með sína 90 fulltrúa með löggjafarvald fyrir Norður-Írland. Heimastjórn á Norður-Írlandi er háð þátttöku meðlima Norður-suður-ráðherraráðsins sem fer með stefnumótun í málefnum sem varða bæði Norður-Írland og Írska lýðveldið, eins og landbúnað, menntun og heilsugæslu. Að auki eiga ríkisstjórn Írska lýðveldisins og ríkisstjórn Bretlands í samstarfi á ríkjaráðstefnu Bretlands og Írlands.
Kosningar til norðurírska þingsins fara fram með forgangsröðunaraðferð þar sem fimm fulltrúar eru kjörnir úr hverju af 18 kjördæmum Norður-Írlands. Auk þeirra eru 18 fulltrúar kosnir á fulltrúadeild breska þingsins úr sömu einmenningskjördæmum. Þeir taka þó ekki allir sæti. Núverandi þingmenn úr flokknum Sinn Féin (sjö talsins) hafa neitað að sverja konungi hollustueið, sem er skilyrði fyrir því að taka sæti á breska þinginu. Auk þessara fulltrúa eru 25 skipaðir fulltrúar í lávarðadeild breska þingsins frá Norður-Írlandi.
Norður-Írlandsráðuneytið er fulltrúi bresku ríkisstjórnarinnar á Norður-Írlandi hvað varðar fráteknu málin og fer með hagsmuni Norður-Írlands innan bresku ríkisstjórnarinnar. Stjórn Írska lýðveldisins hefur auk þess rétt til að leggja fram álit og tillögur varðandi málefni sem varða Norður-Írland. Innanríkisráðherra Norður-Írlands er yfir ráðuneytinu. Hann situr í bresku ríkisstjórninni.
Norður-Írland er sérstakt lögsagnarumdæmi, aðskilið frá Englandi og Wales annars vegar, og Skotlandi hins vegar. Lög á Norður-Írlandi þróuðust út frá írskum lögum sem giltu fyrir skiptingu Írlands árið 1921. Á Norður-Írlandi ríkir fordæmisréttur sem er svipaður og sá sem gildir í Englandi og Wales, en það er mikilvægur munur á réttarfari milli þessara umdæma, sem endurspeglar ólíka sögu landanna.
Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]
Norður-Írland skiptist í sex sögulegar sýslur: Antrim-sýslu, Armagh-sýslu, Down-sýslu, Fermanagh-sýslu, Londonderry-sýslu og Tyrone-sýslu. Sýslurnar eru ekki lengur stjórnsýslueiningar heldur 11 umdæmi Norður-Írlands sem ná yfir mismikið land. Samt er algengt að nota sýsluheitin í daglegu tali og þau eru enn notuð þegar sótt er um vegabréf.
Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]
Hagkerfi Norður-Írlands er minnst þeirra fjögurra sem mynda hagkerfi Bretlands. Áður fyrr byggðist það aðallega á iðnaði, einkum skipasmíðum, reipagerð og vefnaði. Nú til dags starfar meirihluti íbúa við þjónustu, þar af flestir við opinbera þjónustu.
Ferðaþjónusta skiptir miklu máli fyrir efnahag landsins. Nýlega hafa stórfyrirtæki tekið að fjárfesta í hátækniiðnaði í landinu vegna skattaafsláttar og framboðs af menntuðu starfsfólki.
Alþjóðlega fjármálakreppan 2008 hafði neikvæð áhrif á efnahagslíf Norður-Írlands. Þingið á í viðræðum við fjármálaráðuneyti Bretlands um að fá að setja eigin skattastefnu og geta þannig boðið fyrirtækjum sams konar skattaafslætti og Írska lýðveldið.
Íbúar[breyta | breyta frumkóða]
Íbúafjöldi Norður-Írlands hefur vaxið jafnt og þétt frá 1978. Í manntali árið 2021 voru íbúar 1,9 milljón og hafði fjölgað um 5% frá síðasta manntali 2011.[6] Þá var íbúafjöldinn 1,8 milljónir og hafði vaxið um 7,5% síðasta áratuginn þar á undan.[7] Íbúar Norður-Írlands eru 2,8% af heildarfólksfjölda Bretlands (sem er 67 milljónir), en 27% af íbúafjölda Írlands (7,03 milljónir). Íbúaþéttleiki er 135 íbúar á km2.
Í manntalinu árið 2021 höfðu 86,5% íbúa fæðst á Norður-Írlandi, en 4,8% höfðu fæðst annars staðar í Bretlandi og 2,1% höfðu fæðst í Írska lýðveldinu, en 6,5% annars staðar (yfir helmingur í öðru Evrópulandi).[8] Sjálfsmynd íbúa er flókin og breytileg og tengist bæði trú sem fólk elst upp við og stað sem fólk elst upp á. Þegar spurt var um þjóðerni í manntalinu árið 2021 reyndust algengustu svörin vera breskt (um 32%), írskt (um 29%) og norðurírskt (um 20%).[9] Fólki sem taldi sig írskt hafði fjölgað um tæp 4% frá 2011 meðan fólki sem taldi sig breskt hafði fækkað um 10% miðað við heildarfjölda.[10]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ „Contact Us“. Causeway Coast & Glens Borough Council. Sótt 19 March 2018.
- ↑ Council Meetings Geymt 2022-07-09 í Wayback Machine Fermanagh and Omagh District Council
- ↑ „Contact“. Lisburn & Castlereagh City Council. Sótt 19 March 2018.
- ↑ „Schedule of Meetings“ (PDF). Mid and East Antrim Borough Council. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 4 April 2016. Sótt 23 March 2016.
- ↑ „Council Meetings 2016“. Mid Ulster District Council. Afrit af upprunalegu geymt þann 19 March 2016. Sótt 23 March 2016.
- ↑ „Main statistics for Northern Ireland“ (PDF). NISRA. Sótt 22 September 2022.
- ↑ „Census Key Stats bulletin“ (PDF). NISRA. 2012. Afrit (PDF) from the original on 3 February 2017. Sótt 11 December 2012.
- ↑ „Main statistics for Northern Ireland“ (PDF). NISRA. Sótt 22 September 2022.
- ↑ Country of Birth & Nationality Geymt 2022-12-06 í Wayback Machine - 2021 Census
- ↑ „Northern Ireland Census 2011 Key Statistics Summary Report“ (PDF). NISRA. Sótt 22 September 2022.