Skotland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skotland
Scotland (enska) (skoska)
Alba (gelíska)
Fáni Skotlands Skjaldarmerki Skotlands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
In My Defens God Me Defend
(skoska: Guð varðveiti mig í vörn minni)
Þjóðsöngur:
Flower of Scotland (de facto)
Staðsetning Skotlands
Höfuðborg Edinborg
Opinbert tungumál enska, gelíska, skoska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Æðsti ráðherra Humza Yousaf
Hluti Bretlands
 - stofnun 843 
 - sameining við Bretland 1. maí 1707 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
*. sæti
78.772 km²
1,9
Mannfjöldi
 - Samtals (2013)
 - Þéttleiki byggðar
*. sæti
5.327.700
68/km²
VLF (KMJ) áætl. 2012
 - Samtals 245,267 millj. dala (*. sæti)
 - Á mann 39.642 dalir (*. sæti)
Gjaldmiðill sterlingspund (£) (GBP)
Tímabelti UTC (+1 á sumrin)
Þjóðarlén .scot
Landsnúmer +44

Skotland (enska og skoska: Scotland, gelíska: Alba) er land í Vestur-Evrópu og næststærsti hluti Bretlands (hinir hlutarnir eru England, Wales og Norður-Írland). Það hefur eigið þing og heimastjórn frá árinu 1999. Skotland á landamæri að Englandi í suðri og strönd að Úlfreksfirði og Írlandshafi í vestri og Norðursjó í austri. Skotlandi tilheyra meira en 790 eyjar, þar á meðal Norðureyjar og Suðureyjar. Í hafinu undan Skotlandi eru auðugar olíulindir. Höfuðborg landsins og næststærsta borg þess er Edinborg en stærsta borgin er Glasgow. Þriðja stærsta borgin er Aberdeen.

Skotland var sjálfstætt konungsríki á miðöldum en gekk í konungssamband við England og Írland þegar Jakob 6. Skotakonungur tók við af Elísabetu 1. árið 1603. Skoska þingið var lagt niður 26. mars 1707 og Skotland var formlega sameinað Bretlandi með bresku sambandslögunum 1. maí sama ár þegar Breska konungdæmið var stofnað með eitt þing í Westminster í London. Þann 1. janúar 1801 varð Írland svo hluti af þessu sameinaða konungdæmi. Skoska þingið var endurreist í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1999. Það hefur þó ekki völd í utanríkismálum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um sambandsslit var haldin árið 2014 þar sem tillagan var felld.

Efnahagur Skotlands hefur lengi byggst á þungaiðnaði eins og skipasmíði og stáliðnaði. Frá 8. áratugnum hefur Norðursjávarolía orðið mikilvægari hluti af efnahagslífi landsins. Fjármálaþjónusta er líka áberandi. Þekktasta útflutningsvara Skota er líklega skoskt viskí sem er 85% af heildarútflutningi matar- og drykkjarvara frá Skotlandi.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Heiti Skotlands er dregið af heitinu Scoti sem Rómverjar notuðu yfir Gela. Síðlatneska orðið Scotia vísaði upphaflega til Írlands. Það heiti hefur að minnsta kosti síðan á 11. öld verið notað um Skotland norðan við ána Forth ásamt heitunum Albania eða Albany, dregin af gelíska orðinu Alba. Á síðmiðöldum varð algengast að nota heitin Skotland og Skotar yfir landið sem nú er Skotland og íbúa þess.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Forsögulegur tími[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir síðustu ísöld þakti jökulís allt Skotland og hefur þá eytt öllum ummerkjum um mannabygð sem kynni að hafa verið þar fyrir miðsteinöld. Talið er að fyrstu hópar manna sem settust að í Skotlandi eftir síðustu ísöld hafi komið þangað fyrir um 12.800 árum. Elstu minjarnar eru örvaroddur úr tinnusteini frá Islay.[1] Á þeim tíma var landið þakið skógi og mýrum og helsti samgöngumátinn var á vötnum.[2]: 9  Landnemarnir reistu fyrstu varanlegu húsin fyrir um 9.500 árum og fyrstu þorpin fyrir um 6.000 árum. Skara Brae er vel varðveitt þorp á Orkneyjum frá þessum tíma. Merki um mannabyggð og grafreiti frá nýsteinöld eru víða vel varðveitt á Norðureyjum og Vestureyjum þar sem skortur á trjám olli því að flestar byggingar voru reistar úr steini.[3] Callanish-steinarnir á Lewis og Maes Howe á Orkneyjum eru dæmi um minjar um þróuð trúarbrögð frá 3. árþúsundinu f.o.t.[4]: 38 

Elstu heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Innviðir húss í Skara Brae.

Elsta ritaða heimildin sem vísar til Skotlands er eftir gríska ferðalanginn Pýþeas sem nefndi norðurodda Bretlandseyja „Orkas“, sem er uppruni heitis Orkneyja.[2]: 10  Á fyrsta árþúsundinu f.Kr. breyttist samfélagið í höfðingjasamfélag og auður og völd söfnuðust þar sem umframbirgðir matvæla var að finna.[2]: 11 

Hernámi Rómverja á Bretlandi lauk aldrei og mestur hluti þess lands sem er Skotland í dag var aldrei undir yfirráðum þeirra.[5] Fyrstu herfarir Rómverja inn í Skotland áttu sér stað árið 79 þegar Gnaeus Julius Agricola réðist þangað inn. Hann sigraði skoskan her í orrustunni við Mons Graupius árið 83.[2]: 12  Eftir að Rómverjar höfðu unnið sigur reistu þeir virki meðfram Gask-hryggnum, nálægt Hálandamisgenginu. Þremur árum eftir orrustuna höfðu herir Rómverja hins vegar hörfað til Syðri Upplandanna.[6] Leifar af rómverskum virkjum sem voru reist á 1. öld hafa fundist allt norður til Moray-fjarðar.[5] Þegar Trajanus komst til valda höfðu Rómverjar hörfað aftur fyrir línu milli Tyne-fljóts og Solway-fjarðar.[7] Þar reisti eftirmaður Trajanusar, Hadríanus, Hadríanusarmúrinn[2]: 12  og Limes Britannicus urðu norðurlandamæri Rómaveldis.[8][9] Áhrif rómverskrar menningar á suðurhluta landsins voru mikil og Rómverjar kynntu landsmönnum kristni.[2]: 13–14 [4]: 38 

Antoníusarmúrinn var reistur frá 142 að fyrirskipan eftirmanns Hadríanusar, Antoniusar Piusar, til að verja rómverska hluta Skotlands frá norðurhlutanum norðan við línu milli Clyde-fjarðar og Forth-fjarðar. Innrás Rómverja í Kaledóníu 208-210 var gerð að undirlagi keisara af Severusarætt til að bregðast við samningsbroti Kaledóna árið 197,[5] en varanleg yfirráð yfir öllu Stóra-Bretlandi náðust ekki þar sem Rómverjar voru uppteknir við að berja niður skæruhernað og keisarinn Septimius Severus lést í Eboracum (York) eftir að hann veiktist í herförum. Virki voru reist nálægt eldri virkjum Agricola, við mynni dalverpanna í Hálöndunum, en Kaledónar gerðu uppreisn á ný 210-211 og náðu þeim á sitt vald.[5]

Hjá rómversku sagnariturunum Tacitusi og Cassiusi Dio voru skosku hálöndin og allt svæðið norðan við Forth-á kölluð Kaledónía.[5] Samkvæmt Cassiusi nefndust íbúar Kaledóníu Kaledónar og Maeatae.[5] Aðrir höfundar í fornöld notuðu lýsingarorðið „kaledónskur“ yfir allt í norður- og innri hluta Bretlands, hvort sem það voru íbúar, dýr, veðrið, perlur eða stórt svæði skógi vaxinna hæða sem Kládíus Ptólmæos sagði að væri suðvestan við Beauly-fjörð.[5] Ummerki um nafnið Kaledónía er að finna í örnefnunum Dunkeld, Rohallion og Schiehallion.[5]

Samsærið mikla var meint ráðabrugg um gagnárás gegn yfirráðum Rómverja á Bretlandi seint á 4. öld, með þátttöku hinna gelísku Scoti og Kaledóna, sem þá voru þekktir sem Piktar meðal Rómverja. Comes Theodosius sigraðist á þeim, en snemma á 5. öld drógu Rómverjar herlið sitt alfarið frá Bretlandseyjum, sem leiddi til landnáms Engilsaxa á Bretlandi, þar á meðal í suðausturhluta Skotlands og austurhluta Englands.[7]

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Ríki Skotlands á ármiðöldum.
Norræn ríki í Skotlandi við lok 11. aldar.

Frá upphafi sjöttu aldar skiptist landið sem í dag er Skotland í þrjú svæði: Piktaland, safn lítilla lávarðsdæma í miðju Skotlandi;[2]: 25–26  engilsaxneska konungsríkið Norðymbraland sem hafði lagt suðausturhluta Skotlands undir sig;[2]: 18–20  og Dál Riata, sem náði yfir bæði Vestur-Skotland og Norður-Írland og þar sem gelískt mál og menning hóf að breiðast út.[10] Þessi samfélög byggðust upp í kringum ættir og innan þeirra var mikil misskipting auðs, þótt langflestir væru sárafátækir og lifðu af sjálfsþurftarbúskap. Piktarnir héldu þræla (aðallega stríðsfanga) allt fram á 9. öld.[2]: 26–27 

Gelísk áhrif breiddust út til Piktalands og Norðymbralands með gelískumælandi klerkum keltnesku kirkjunnar sem stunduðu þar trúboð.[2]: 23–24  Heilagur Kólumba setti upp trúboðsstöð á eyjunni Jóna á 6. öld.[4]: 39  Víkingar hófu ránsferðir til Skotlands á 8. öld og tóku þar bæði þræla og dýrgripi. Helsta markmið þeirra var þó að leggja undir sig land. Elstu byggðir norrænna manna í Skotlandi voru í norðvesturhluta landsins, en þeir lögðu seinna undir sig stór svæði meðfram ströndinni. Fornnorræna tók alveg við af gelísku sem tungumál íbúa Norðureyja.[2]: 29–30 

Á 9. öld varð óttinn við víkinga til þess að gelískur konungur, Cináed mac Ailpín, náði völdum í Piktalandi og stofnaði þar konungsættina sem nútímakonungar rekja ættir sínar til. Þetta markaði upphafið að endalokum sérstakrar piktískrar menningar.[2]: 31–32 [11] Konungsríkið var kallað Alba og náði yfir sama land og Piktaland áður, en var gelískt. Undir lok 10. aldar dó piktíska út sem tungumál og íbúar töluðu eftir það gelísku.[2]: 32–33  Konungsríkið stækkaði bæði til suðurs, inn í fyrrum lönd Norðymbralands, og til norðurs inn í Moray.[2]: 34–35  Um árþúsundsskiptin safnaðist landbúnaðarland á færri hendur og fyrstu bæirnir voru stofnaðir.[2]: 36–37 

Á 12. og 13. öld komst stærstur hluti Skotlands undir einn konung. Í byrjun var gelísk menning allsráðandi, en aðflutningur fólks frá Frakklandi, Englandi og Flandri skapaði fjölbreyttara samfélag og skoska tók að taka við af gelísku. Smám saman varð til nútímalegt konungsríki. Undir lok tímabilsins urðu stríð við England til þess að styrkja sérstaka skoska sjálfsmynd.[12]: 37–39 [13]: ch 1  Davíð 1. Skotakonungur (1124-1153) og eftirmenn hans styrktu konungsvaldið[12]: 41–42  og sameinuðu meginland Skotlands undir sinni stjórn með því að leggja undir sig Moray, Galloway og Katanes, þótt þeir næðu ekki að leggja undir sig Suðureyjar sem ýmsir skoskir ættbálkar höfðu ríkt yfir eftir dauða Sumarliða árið 1164.[12]: 48–49  Lénskerfi var komið á, bæði með innreið engilsaxneskra lávarða og með veitingu lands til gelískra höfðingja í skiptum fyrir hollustu þeirra við konung.[12]: 53–54  Hin flóknu tengsl við nágranna Skotlands í suðri á þessum tíma einkenndust í fyrstu af tilraunum skosku konunganna til að hagnýta sér pólitískt umrót á Englandi, en þar á eftir tók við lengsti friður milli landanna á miðöldum: milli 1217 og 1296.[12]: 45–46 

Wallace-minnismerkið var reist til minningar um skosku þjóðhetjuna William Wallace.

Við andlát Alexanders 3. í mars 1286 rofnaði ættarveldi skosku konunganna. Játvarður 1. Englandskonungur tók að sér að miðla málum milli þeirra sem töldu sig eiga tilkall til krúnunnar. Jóhann Balliol var krýndur árið 1292 í skiptum fyrir sjálfstæði Skotlands.[12]: 47 [14] Árið 1294 höfnuðu Balliol og aðrir skoskir lávarðar kröfu Játvarðs um að þeir tækju þátt í herför hans gegn Frökkum. Skotland og Frakkland gerðu með sér samning 23. október 1295, sem nefndist Auld Alliance. Í kjölfarið réðist Játvarður inn í Skotland og steypti Jóhanni af stóli. Andrew Moray og William Wallace urðu í upphafi helstu leiðtogar andspyrnu gegn enskum yfirráðum í sjálfstæðisstríðum Skotlands,[15] þar til Róbert 1. var krýndur konungur Skotlands árið 1306.[16] Sigur Skota í orrustunni við Bannockburn staðfesti yfirráð þeirra yfir ríkinu. Árið 1320 hlaut fyrsta opinbera sjálfstæðisyfirlýsing sögunnar, Arbroath-yfirlýsingin, stuðning Jóhannesar 22. páfa og samþykki ensku krúnunnar.[17]: 70, 72 

Borgarastyrjöld milli Bruce-ættar og höfuðkeppinauta þeirra, Comyn-ættar og Balliol-ættar, stóð fram á miðja 14. öld. Bruce-ættin hafði sigur, en þegar Davíð 2. lést án erfingja varð frændi hans, Róbert 2., fyrsti konungur af Stewart-ætt (af því hann hafði embættið Lord High Steward of Scotland eða „yfirstallari Skotlands“).[17]: 77  Stewart-ættin ríkti yfir Skotlandi það sem eftir lifði af miðöldum. Aukin hagsæld ríkti í landinu frá lokum 14. aldar, gegnum skosku endurreisninaskosku siðbótinni,[18]: 93  þrátt fyrir svarta dauða 1349[17]: 76  og aukna misskiptingu milli Skosku hálandanna og Skosku láglandanna.[17]: 78  Alls kyns samningar voru gerðir til að draga úr átökum við suðurlandamærin að Englandi.[17]: 76, 83 

Árnýöld[breyta | breyta frumkóða]

Jakob 6. Skotakonungur tók við ensku og írsku krúnunni árið 1603.

Samningur um eilífan frið var undirritaður af Jakobi 4. og Hinriki 7. árið 1502. Jakob gekk að eiga dóttur Hinriks, Margréti Tudor.[19] Nokkrum árum síðar gerði Jakob innrás í England til stuðnings Frökkum samkvæmt Auld Alliance-bandalaginu og varð síðasti breski konungurinn sem lést í orrustu, í orrustunni við Flodden árið 1513.[20] Á milli 1543 og 1551 áttu Skotar og Englendingar í stríði meðan María Skotadrottning var ómyndug. Stríðið var nefnt „harkalega biðlunin“.[21]

Árið 1560 var umsátrinu um Leith aflétt og Edinborgarsamningurinn undirritaður, þar sem Elísabet 1. var viðurkennd sem drottning Englands.[18]: 112  Skoska þingið kom saman og samþykkti skosku trúarjátninguna sem fól í sér algjöran aðskilnað frá kaþólsku kirkjunni og valdi páfa.[4]: 44  Hin kaþólska María Skotadrottning var neydd til að segja af sér árið 1567.[22]

Árið 1603 tók Jakob 6. Skotakonungur, sonur Maríu, við völdum í Englandi og Írlandi þegar ríkin gengu í konungssamband. Hann flutti hirð sína til London.[23] Fyrsti breski fáninn var hannaður að ósk Jakobs og átti að flagga ásamt skoska fánanum á skoskum skipum. Jakob ætlaði sér að sameina ríkin í eitt konungsríki, en enska þingið stóð gegn honum og studdi þess í stað að ein lög giltu um bæði ríkin, sem skoska þingið vildi ekki samþykkja. Konungur hætti því við frekari sameiningu.[24]

Fyrir utan stutt tímabil undir stjórn verndarríkis Cromwells var Skotland sérstakt ríki á 17. öld, en töluverð átök voru milli sáttmálamanna og krúnunnar um það hver stjórn skosku kirkjunnar ætti að vera.[25]: 124  Herinn var efldur svo konungur náði stjórn á ættbálkunum í vesturhluta Hálandanna. Jónalögin 1609 neyddu ættarhöfðingja á Suðureyjum til að senda syni sína til menntunar í Láglöndunum.[26]: 37–40  Árið 1641 og aftur 1643 reyndi skoska þingið án árangurs að ná í gegn sameiningu við England sem byggðist á hugmyndinni um sambandsríki fremur en innlimun, þar sem Skotland héldi sínu þingi.[27] Árið 1648 var þingið klofið út af sambandsmálunum.[27]

Í kjölfar þess að skoski konungurinn hafði verið tekinn af lífi í Whitehall árið 1649 í miðjum Þríríkjastríðunum setti Oliver Cromwell fyrstu stjórnarskrá Bretlandseyja með Instrument of Government sem gerði Skotland hluta af Samveldi Englands, Skotlands og Írlands.[27] Fyrstu skosku fulltrúarnir á þinginu í Westminster tóku sæti á verndarþingi Samveldisins. Með endurreisn konungdæmis í Englandi komst Stúartætt aftur til valda í Skotlandi 1660.

Skoska þingið sóttist eftir frjálsum viðskiptum við England árið 1664, en því var hafnað 1668.[27] Árið 1670 hafnaði enska þingið aftur sambandi við Skotland.[27] Sams konar tillögur enska þingsins féllu niður 1674 og 1685.[27] Orrustan við Altimarlach árið 1680 var síðasta stóra orrustan milli Hálandaættanna.[28] Eftir dýrlegu byltinguna og flótta kaþólska konungsins Jakobs 2. tóku Vilhjálmur 3. Englandskonungur og María 2. Englandsdrottning við völdum, en María var af Stúartættinni.[25]: 142  Skoska þingið hafnaði enn á ný tillögum um sameiningu árið 1689.[27] Jakobítar, stuðningsmenn hinna útlægu kaþólsku konunga af Stúartætt, voru ógn við yfirráð Óraníuættar og síðar Hannóverættar þar til þeir voru endanlega sigraðir 1745.[27]

Líkt og í öðrum löndum, eins og Frakklandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, gengu sjö harðindaár yfir Skotland á 10. áratug 17. aldar, sem drógu úr barneignum og juku brottflutning fólks þannig að íbúafjöldi dróst víða saman um 10-15%.[29] Árið 1698 reyndi Skotlandsfélagið að stofna verslunarnýlendu á Panamaeiðinu. Nær allir skoskir landeigendur sem áttu eitthvað sparifé voru sagðir hafa fjárfest í Darien-fléttunni sem snerist um nýlendustofnun og flutningaleið yfir Panamaeiðið.[30][31]

Þegar enn einni sameiningartillögunni frá ensku lávarðadeildinni var hafnað 1695 og önnur felld í fulltrúadeildinni árið 1700, hafnaði skoska þingið enn á ný sameiningartillögum árið 1702.[27] Hrun Darien-fléttunnar varð til þess að skoskir landeigendur sem höfðu fjárfest í henni urðu gjaldþrota. Það, ásamt ótta við innrás frá Englandi, leiddi til þess að skoska yfirstéttin gerðist hlynnt sambandi við England.[30][31] Þann 22. júlí 1706 var Sambandssamningurinn samþykktur af fulltrúum skoska þingsins og enska þingsins. Árið á eftir voru Sambandslögin 1707 samþykkt af báðum þingum og Konungsríki Stóra-Bretlands varð að veruleika frá 1. maí 1707.[32] Almenningur var andsnúinn sameiningu og uppþot urðu í Edinborg, Glasgow og fleiri stöðum.[33][34] Hið nýja þing Stóra-Bretlands hafnaði þeirri tillögu írska þingsins að Írland yrði hluti af sameiningunni.[27]

Málverk eftir David Morier sem sýnir orrustuna við Culloden (An Incident in the Rebellion of 1745).

Afnám tolla á verslun við England varð til þess að hún blómstraði, sérstaklega viðskipti við nýlendur Breta í Ameríku. Klippararnir sem tóbakslávarðarnir í Glasgow ráku voru hraðskreiðustu skip á siglingaleiðinni til Virginíu. Fram að sjálfstæðisstríði Bandaríkjanna 1776 var Glasgow mest tóbakshöfn heims.[35] Margra alda misskipting jókst enn þegar kaupmenn í láglöndunum auðguðust, meðan hálandahöfðingjarnir urðu fátækari.

Jakobítar, fylgismenn konunga af Stúartætt, nutu töluverðs fylgis í Hálöndunum og norðausturhlutanum, sérstaklega meðal íbúa sem aðhylltust biskupakirkju og kaþólska trú. Tvær stórar uppreisnir voru gerðar á 18. öld, Jakobítauppreisnin 1715 og Jakobítauppreisnin 1745, en hvorugri þeirra tókst að hnika valdi Hannóverættar yfir bresku krúnunni. Jakobítahreyfingin var á endanum brotin á bak aftur með ósigri þeirra í orrustunni við Culloden, sem var jafnframt síðasta skiptið sem tvö lið fylktu sér til orrustu á breskri grundu.

Skoska upplýsingin og iðnbyltingin gerðu Skotland að þvílíkri miðstöð mennta, viðskipta og iðnaðar[36]Voltaire sagði „Við sækjum allar okkar hugmyndir um siðmenningu til Skotlands."[37] Með ósigri Jakobíta og sambandinu við England, tóku þúsundir Skota, aðallega frá Láglöndunum, við valdastöðum í stjórnmálum, opinberri þjónustu, her og flota, í viðskiptum og stjórn nýlendna um allt breska heimsveldið. Sagnfræðingurinn Neil Davidson skrifaði að eftir 1746 hafi opnast ný tækifæri fyrir Skota til þátttöku í opinberu lífi, sérstaklega utan Skotlands. Davidson nefnir líka að Skosku láglöndin hafi verið miðlæg í breska hagkerfinu.[38]

Í Hálöndunum tóku ættarhöfðingjar smám saman að líta fremur á sig sem hefðbundna landeigendur en ættarleiðtoga. Félagslegar og efnahagslegar breytingar birtust greinilega þegar Hálandahreinsanirnar hófust og ættbálkakerfið hrundi.[39]: 32–53, passim

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Skoska fastalandið nær yfir einn þriðja hluta eyjunnar Stóra-Bretlands eða tæplega 79.000 ferkílómetra. Það er því álíka stórt og Tékkland. Einu landamæri Skotlands á landi eru við England í suðri. Landamærin eru 96 km að lengd og ná frá ánni Tweed í austri að Solway Firth í vestri. Vestan Skotlands er Atlantshafið og austan megin Norðursjór. Írland er aðeins 30 km suðvestan við höfðann Kintyre. Færeyjar eru 270 km norðan við Skotland og Noregur 305 km norðaustan við það.

Land Skotlands var formlega skilgreint í Jórvíkursamningnum milli Skotlands og Englands 1237 og Perth-samningnum milli Skotlands og Noregs 1266. Utan þessara samninga lágu meðal annars eyjan Mön sem Englendingar náðu á sitt vald á 14. öld og er nú sjálfstæð krúnunýlenda, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar sem Skotakonungur fékk frá Danmörku 1472 og Berwick-upon-Tweed sem Englendingar hertóku 1482.

Landfræðileg miðja Skotlands er nálægt þorpinu Newtonmore í Badenoch. Hæsti tindur Skotlands er Ben Nevis í Lochaber sem nær 1.344 metra hæð yfir sjávarmáli. Munro eru fjöll yfir 300 fetum (914 metrum) og eru þau 282 talsins. Lengsta á Skotlands er Tay, 190 km löng.

Jarðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Helstu hlutar Skotlands

Skotland var þakið ís á jökulskeiðum Pleistósentímabilsins og landslagið er því mjög jökulsorfið. Jarðfræðilega skiptist landið í þrjá meginhluta.

Hálöndin og eyjarnar liggja norðan og vestan við Hálandabrotabeltið sem liggur frá Arran til Stonehaven. Í þessum hluta Skotlands eru aðallega klettar frá kambríum- og forkambríumtímabilunum sem lyftust upp síðar, þegar Kaledóníski fjallgarðurinn myndaðist fyrir 490-390 milljón árum. Innan um er að finna nýrra storkuberg en leifarnar af því mynda fjallgarðana Cairngorms og Cuillins á Skye. Utan við þetta er svo rauður sandsteinn með miklum steingervingum sem finnst aðallega í Moray Firth.

Hálöndin eru fjalllend og þar er að finna hæstu tinda Bretlandseyja. Við Skotland eru yfir 790 eyjar sem skiptast í fjóra meginklasa: Hjaltlandseyjar, Orkneyjar, Innri Suðureyjar og Ytri Suðureyjar. Þar er að finna fjölda vatna, eins og Loch Lomond og Loch Ness. Við ströndina eru sums staðar lág beitilönd sem eru kölluð machair.

Miðláglöndin eru sigdalur með steinmyndunum frá fornlífsöld. Mörg setlög á þessu svæði eru efnahagslega mikilvæg því þau innihalda járn og kol sem standa undir skoskum þungaiðnaði. Á þessu svæði hefur líka verið mikið um eldvirkni. Fjallið Sæti Artúrs við Edinborg er til dæmis leifar af kulnuðu eldfjalli. Miðláglöndin eru almennt flatlend en þó eru hæðir eins og Ochils og Campsie Fells aldrei langt undan.

Syðri upplöndin eru um 200 km löng hæðadrög með breiðum dölum á milli. Þau liggja sunnan við annað brotabelti (Syðra upplandabeltið) sem liggur frá Girvan til Dunbar. Þau eru aðallega úr seti frá sílúrtímabilinu fyrir 4-500 milljón árum. Hæsti tindur Upplandanna er Merrick sem nær 843 metra hæð. Þar er líka hæsta þorp Skotlands, Wanlockhead, í 430 metra hæð.

Veðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Tiree er einn af sólríkustu stöðum Skotlands

Loftslag í Skotlandi er temprað úthafsloftslag og getur verið mjög breytilegt. Golfstraumurinn ber hlýjan sjó að ströndum landsins og gerir að verkum að vetur eru mun mildari og sumrin svalari og rakari en annars staðar á sömu breiddargráðu. Hiti er almennt lægri en annars staðar á Bretlandseyjum. Í Skotlandi hefur mælst minnstur hiti í Bretlandi, -27,2°C í Braemar í Grampian-fjöllum 11. febrúar 1895. Hæsti hiti sem mælst hefur var 32,9°C í Greycrook, Scottish Borders, 9. ágúst 2003.

Að jafnaði er hlýrra á vesturströnd Skotlands en austurströndinni vegna sjávarstrauma í Atlantshafi og lægri sjávarhita í Norðursjó. Tiree í Innri Suðureyjum er einn af sólríkustu stöðum landsins með meira en 300 sólarstundir í maí 1975. Úrkoma er mjög breytileg eftir stöðum. Mest úrkoma er í vesturhluta Hálandanna þar sem hún fer á nokkrum stöðum yfir 3.000 mm. Til samanburðar þá er úrkoma á mestum hluta Láglandanna um 800 mm. Snjókoma er ekki algeng í Láglöndunum en verður algengari eftir því sem hærra er farið. Í Braemar eru að meðaltali 59 dagar á ári með snjókomu en annars staðar eru snjódagar færri en tíu.

Náttúra og dýralíf[breyta | breyta frumkóða]

Fjallahéri (Lepus timidus)

Dýralíf í Skotlandi er að mörgu leyti dæmigert fyrir Vestur-Evrópu, þótt mörgum stærri spendýrum, eins og gaupum, skógarbjörnum, úlfum, elgum og rostungum, hafi verið útrýmt á sögulegum tíma. Þar er mikið um seli og mikilvæg varpsvæði sjófugla eins og súlu. Gullörn er eins konar þjóðartákn.

Til fjalla lifa tegundir sem fara í vetrarbúning eins og rjúpa, snæhéri og hreysiköttur. Enn má finna leifar af fornum furuskógum Skotlands þar sem skotanefur heldur sig, en hann er eina dýrategundin sem eingöngu finnst á Bretlandseyjum. Þar er einnig að finna þiður, villiketti, rauðíkorna og skógarmörð. Á síðari árum hefur dýrum sem áður lifðu í Skotlandi verið komið þar fyrir á ný. Þeirra á meðal eru haförn (1975), svölugleða (9. áratugurinn) og á allra síðustu árum evrasískur bjór og villisvín. Mest af því sem eftir er af hinum forna Kaledóníuskógi er í Cairngorms-þjóðgarðinum en leifar skógarins er að finna á 84 stöðum í Skotlandi. Á vesturströndinni er að finna leifar af fornum keltneskum regnskógi, aðallega á Taynish-skaga í Argyll.

Í Skotlandi eru bæði sumargrænir laufskógar og barrskógar, lyngheiðar og freðmýrar. Umfangsmikil ræktun nytjaskóga og notkun lyngheiða sem beitilands hefur haft mikil áhrif á dreifingu innlendra jurta. Hæsta tré Skotlands er stórþinur (Abies grandis) sem var plantað við Loch Fyne á 8. áratug 19. aldar. Fortingallýviðurinn er hugsanlega 5.000 ára gamall og líklega elsta lífvera í Evrópu. Í Skotlandi vex mikill fjöldi mosategunda.

Lýðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Í Skotlandi eru 96% íbúa hvítir og Suður-Asíubúar teljast 2,7%.

Um 20% segjast tilheyra Skosku kirkjunni (Church of Scotland) en 34% eru skráðir þar (2011), kaþólskir eru 15% og þeir sem tilheyra öðrum kristnum söfnuðum 11%. Múslimar eru 1,4%[40] Um 52% segjast ekki vera trúaðir (2016).[41]

Sveitarfélög[breyta | breyta frumkóða]

Kort sem sýnir sveitarfélög.

Í Skotlandi eru 32 sveitarfélög (Council areas):

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Skoska þingið í Holyrood í Edinborg

Skotland hefur takmarkað sjálfstjórnarvald innan konungdæmisins Bretlands. Auk sjálfstjórnar eiga Skotar fulltrúa í breska þinginu í Westminster. Framkvæmdavald og löggjafarvald hefur verið á vegum skoskrar ríkisstjórnar og skoska þingsins í Holyrood í Edinborg frá 1999. Breska þingið áskilur sér vald yfir sviðum tilgreindum í Skotlandslögunum 1998, meðal annars vald yfir skattlagningu og innheimtu, félagslegri aðstoð, varnarmálum, utanríkismálum og ríkisútvarpinu. Skoska þingið hefur löggjafarvald yfir öllum öðrum sviðum sem tengjast Skotlandi. Í upphafi hafði skoska þingið takmarkað vald til að breyta skattakerfinu en skattavald þess var útvíkkað töluvert í Skotlandslögunum 2012 og 2016.

Skoska þinginu er heimilt að skila löggjafarvaldi yfir málum á vegum þess til breska þingsins ef alríkislög eru talin hentugri fyrir tiltekið mál. Mismunandi áherslur skoska þingsins og breska þingsins hafa gert það að verkum að munur er á þeirri opinberri þjónustu sem í boði er í Skotlandi miðað við annars staðar á Bretlandi. Til dæmis eru engin námsgjöld í Skotlandi og elliaðstoð er gjaldfrjáls þar sem afnot slíkrar þjónustu eru gjaldskyld í Englandi. Skotland var fyrsta landið innan konungdæmisins Bretlands sem bannaði reykingar innandyra.

Skoska þingið er í einni deild en á því sitja 129 þingmenn (e. members of Scottish parliament eða MSP). Af þeim eru 73 beinir fulltrúar einstakra kjördæma en hinir 56 eru kosnir á átta svæðum um landið til að gera forsvarið jafnara. Skoskir þingmenn eru kosnir á fjögurra ára fresti. Einn þeirra er kosinn í embætti æðsta ráðherra. Á ensku er æðsti ráðherra Skotlands kallaður first minister í andstæðu við forsætisráðherra Bretlands sem er kallaður prime minister. Æðsti ráðherra Skotlands skipar ráðherra í embætti en saman mynda þeir skosku ríkisstjórnina. Auk þess er næstæðsti ráðherra sem gegnir embætti æðsta ráðherrans þegar hann er erlendis. Næstæðsti ráðherra hefur einnig stöðu ráðherra. Stjórnarráðið samanstendur af níu ráðherrum en utan þess sitja tólf ráðherrar til viðbótar. Ráðherrar utan stjórnarráðs fara því ekki á stjórnarráðsfundi.

Árið 2014 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands. 55,3% Skotar höfnuðu sambandssliti og því var tillagan um sjálfstæði felld. Tveimur árum seinna var þjóðaratkvæðagreiðsla haldin um aðild Bretlands að Evrópusambandinu. Í þeirri atkvæðagreiðslu kusu 62% Skota að vera áfram í ESB – í engu kjördæmi í Skotlandi var meirihluti fyrir úrsögnina. Í kjölfar þess kvaðst Nicola Sturgeon, þáverandi æðsti ráðherra Skotlands, ætla að boðast til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands en dagsetning hennar hefur ekki verið ákveðin að svo stöddu.

Í kosningunum 2016 vann Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) 63 af 129 mögulegum sætum á þinginu. Humza Yousaf formaður flokksins hefur verið æðsti ráðherra Skotlands frá mars 2023. Íhaldsflokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn en Verkamannaflokkurinn, Frjálslyndir demókratar og Græni flokkurinn hafa einnig umboð á þinginu. Næstu kosningar í Skotlandi verða ekki síðar en 2026.

59 þingmenn sitja í breska þinginu fyrir hönd Skotlands. Í kosningunum 2017 vann Skoski þjóðarflokkurinn 35 af 59 sætum. Næstu kosningar verða árið 2022. Skotlandsráðuneytið fer með umboð bresku ríkisstjórnarinnar í Skotlandi. Stjórnandi Skotlandsráðuneytisins er ráðherrann fyrir Skotland en hann situr í stjónarráði bresku ríkisstjórnarinnar.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Staurakast er sérskosk keppnisgrein á Hálandaleikunum.

Þær íþróttir sem Skotar eru þekktastir fyrir eru knattspyrna, ruðningur og golf. Skotland sendir eigin landslið til keppni í mörgum íþróttagreinum, þar á meðal heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu, heimsbikarmótið í ruðningi, heimsbikarmótið í krikket og Samveldisleikana. Skotland er líka með eigin íþróttasambönd eins og Skoska knattspyrnusambandið, sem er annað elsta knattspyrnusamband heims, og Skoska ruðningssambandið.

Elstu heimildir um einhvers konar knattspyrnu í Skotlandi eru frá 1424 og Skotlandsbikarinn í knattspyrnu frá 1873 er elstu landsbikarverðlaun heims. Fyrsti alþjóðlegi knattspyrnuleikur Skota fór fram árið 1872 þegar þeir kepptu við Englendinga. Celtic F.C. vann Evrópumeistarabikarinn í knattspyrnu árið 1967 og Rangers F.C. og Aberdeen F.C. sigruðu í Evrópukeppni bikarhafa árin 1972 og 1983. Aberdeen vann auk þess Ofurbikar Evrópu árið 1983. Dundee United lék til úrslita í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu árið 1987 en tapaði fyrir Gautaborg.

Íþróttin golf er upprunnin í Skotlandi á 15. öld. Einn af elstu golfvöllum heims er Old Course í háskólabænum St. Andrews sem var opnaður árið 1552. Árið 1764 var hinn staðlaði 18-holu golfvöllur búinn til í St. Andrews þegar eldri golfvöllur var styttur um 4 holur. Elsta golfmót heims er Opna breska meistaramótið í golfi sem var fyrst leikið við Prestwick Golf Club í Ayrshire árið 1860. Skoskir golfleikarar unnu mótið allt til 1890 þegar enski golfleikarinn John Ball sigraði.

Hálandaleikarnir eru þekkt skosk íþróttakeppni sem hófst seint á 19. öld en byggir á hefðum frá Skosku hálöndunum. Skotar hafa 13 sinnum átt heimsmeistara í hnefaleikum, þar á meðal Ken Buchanan, Benny Lynch og Jim Watt. Skotar hafa líka náð miklum árangri í mótorsporti. Þekktasti ökuþór Skota síðustu ár er David Coulthard sem keppti í Formúlu 1-kappakstri frá 1994 til 2008.

Innviðir[breyta | breyta frumkóða]

Flutningar[breyta | breyta frumkóða]

Edinborgarflugvöllur er helsti alþjóðaflugvöllur Skotlands.

Fimm alþjóðaflugvellir eru í Skotlandi, í Glasgow, Edinborg, Aberdeen, Prestwick og Inverness og þaðan er flogið til yfir 150 áfangastaða víða um heim. Edinborgarflugvöllur er rekinn af Global Infrastructure Partners og Glasgowflugvöllur af Heathrow Airport Holdings. Highland and Islands Airports rekur 11 flugvelli á smærri stöðum, þar á meðal alþjóðaflugvöllinn í Inverness.

Vegagerð Skotlands, Transport Scotland, rekur stofnbrautir í Skotlandi en sveitarfélög reka afganginn af vegakerfinu. Stærstu vegirnir eru í miðbeltinu milli Glasgow og Edinborgar. Þjóðvegurinn A1 liggur milli London og Edinborgar 660 km leið.

Breska hjólabrautanetið nær yfir Skotland. Leið 1 nær frá Dover til Hjaltlandseyja um Edinborg og er hluti af EV12 Norðursjávarleiðinni sem liggur um Noreg, Svíþjóð, Danmörku, Þýskaland, Holland og Belgíu, auk Bretlands. Leið 7 liggur frá Sunderland eftir C2C-leiðinni um Glasgow og síðan áfram til Inverness.

Helstu járnbrautir sem liggja til Skotlands eru Vesturstrandarlínan til Glasgow og Austurstrandarlínan til Edinborgar. Járnbrautir í Skotlandi eru í eigu Network Rail Infrastructure Limited. Um 340 lestarstöðvar og 3.000 km af járnbrautum eru í Skotlandi. ScotRail rekur lestarþjónustu innan Skotlands.

Ferjur ganga milli meginlandsins og eyjanna og til áfangastaða erlendis. Ferjufyrirtækið Caledonian MacBrayne rekur ferjur við vesturströndina.

Hafnir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir utan flutningahafnir og skipasmíðastöðvar í kringum Glasgow eru helstu hafnir í Skotlandi á austurströndinni við Norðursjó. Á vesturströndinni eru margar ferju- og smábátahafnir. Helstu hafnarborgir í Skotlandi eru Glasgow, Aberdeen og Leith (við Edinborg). Aberdeen var helsta höfn togaraútgerðarinnar í Norðursjó á fyrri hluta 20. aldar og er enn mikilvæg vegna Norðursjávarolíunnar. Aðrar mikilvægar hafnir eru Invernesshöfn, fiskihöfnin í Peterhead og höfnin í Grangemouth þar sem er stór olíuhreinsistöð.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sjá Moffat, Alistair (2005) Before Scotland: The Story of Scotland Before History. London. Thames & Hudson. Page 42.
  2. 2,00 2,01 2,02 2,03 2,04 2,05 2,06 2,07 2,08 2,09 2,10 2,11 2,12 2,13 2,14 Forsyth, Katherine (2005). „Origins: Scotland to 1100“. Í Wormald, Jenny (ritstjóri). Scotland: A History (enska). Oxford: Oxford University Press. ISBN 9780199601646.
  3. Pryor, Francis (2003). Britain BC. London: HarperPerennial. bls. 98–104 & 246–250. ISBN 978-0-00-712693-4.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 Houston, Rab (2008). Scotland: A Very Short Introduction (enska). Oxford: Oxford University Press. ISBN 9780191578861.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 5,5 5,6 5,7 Richmond, Ian Archibald; Millett, Martin (2012), Hornblower, Simon; Spawforth, Antony; Eidinow, Esther (ritstjórar), „Caledonia“, Oxford Classical Dictionary (enska) (4th online. útgáfa), doi:10.1093/acref/9780199545568.001.0001, ISBN 9780199545568, sótt 16 November 2020
  6. Hanson, William S. The Roman Presence: Brief Interludes, in Edwards, Kevin J. & Ralston, Ian B.M. (Eds) (2003). Scotland After the Ice Age: Environment, Archeology and History, 8000 BC—AD 1000. Edinburgh. Edinburgh University Press.
  7. 7,0 7,1 Millett, Martin J. (2012), Hornblower, Simon; Spawforth, Antony; Eidinow, Esther (ritstjórar), „Britain, Roman“, The Oxford Classical Dictionary (enska) (4th online. útgáfa), Oxford University Press, doi:10.1093/acref/9780199545568.001.0001, ISBN 978-0-19-954556-8, sótt 16 November 2020
  8. Robertson, Anne S. (1960). The Antonine Wall. Glasgow Archaeological Society.
  9. Keys, David (27 June 2018). „Ancient Roman 'hand of god' discovered near Hadrian's Wall sheds light on biggest combat operation ever in UK“. Independent. Sótt 6 July 2018.
  10. Wolfe, A. (2012) "Ancient Kindred? Dál Riata and the Cruthin" [Internet] In: www.academia.edu. Available from https://www.academia.edu/1502702/Ancient_Kindred_Dal_Riata_and_the_Cruthin
  11. Brown, Dauvit (2001). „Kenneth mac Alpin“. Í M. Lynch (ritstjóri). The Oxford Companion to Scottish History. Oxford: Oxford University Press. bls. 359. ISBN 978-0-19-211696-3.
  12. 12,0 12,1 12,2 12,3 12,4 12,5 Stringer, Keith (2005). „The Emergence of a Nation-State, 1100–1300“. Í Wormald, Jenny (ritstjóri). Scotland: A History (enska). Oxford: Oxford University Press. ISBN 9780199601646.
  13. Barrell, A. D. M. (2000). Medieval Scotland. Cambridge: Cambridge University Press. ISBN 978-0-521-58602-3.
  14. „Scotland Conquered, 1174–1296“. National Archives.
  15. „Scotland Regained, 1297–1328“. National Archives of the United Kingdom.
  16. Murison, A. F. (1899). King Robert the Bruce (reprint 2005. útgáfa). Kessinger Publishing. bls. 30. ISBN 978-1-4179-1494-4.
  17. 17,0 17,1 17,2 17,3 17,4 Brown, Michael; Boardman, Steve (2005). „Survival and Revival: Late Medieval Scotland“. Í Wormald, Jenny (ritstjóri). Scotland: A History (enska). Oxford: Oxford University Press. ISBN 9780199601646.
  18. 18,0 18,1 Mason, Roger (2005). „Renaissance and Reformation: The Sixteenth Century“. Í Wormald, Jenny (ritstjóri). Scotland: A History (enska). Oxford: Oxford University Press. ISBN 9780199601646.
  19. „James IV, King of Scots 1488–1513“. BBC.
  20. „Battle of Flodden, (Sept. 9, 1513)“. Encyclopædia Britannica.
  21. Marcus Merriman, The Rough Wooings (East Linton: Tuckwell, 2000), p. 6.
  22. „Religion, Marriage and Power in Scotland, 1503–1603“. The National Archives of the United Kingdom.
  23. Ross, David (2002). Chronology of Scottish History. Geddes & Grosset. bls. 56. ISBN 978-1-85534-380-1.
  24. „On this Day: 21 November 1606: The proposed union between England and Scotland | History of Parliament Online“. www.historyofparliamentonline.org. Sótt 16 November 2020.
  25. 25,0 25,1 Wormald, Jenny (2005). „Confidence and Perplexity: The Seventeenth Century“. Í Wormald, Jenny (ritstjóri). Scotland: A History (enska). Oxford: Oxford University Press. ISBN 9780199601646.
  26. Devine, T M (2018). The Scottish Clearances: A History of the Dispossessed, 1600–1900. London: Allen Lane. ISBN 978-0241304105.
  27. 27,0 27,1 27,2 27,3 27,4 27,5 27,6 27,7 27,8 27,9 „BBC – History – British History in depth: Acts of Union: The creation of the United Kingdom“. www.bbc.co.uk (bresk enska). Sótt 16 November 2020.
  28. "Dictionary of Battles and Sieges: A-E". Dennis E. Showalter (2007). Springer. p.41
  29. Cullen, Karen J. (15 February 2010). Famine in Scotland: The 'ill Years' of The 1690s. Edinburgh University Press. bls. 152–153. ISBN 978-0748638871.
  30. 30,0 30,1 „Why did the Scottish parliament accept the Treaty of Union?“ (PDF). Scottish Affairs. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3 October 2011. Sótt 1 May 2013.
  31. 31,0 31,1 „Popular Opposition to the Ratification of the Treaty of Anglo-Scottish Union in 1706–7“. scottishhistorysociety.com. Scottish Historical Society. Sótt 23 March 2017.
  32. Mackie, J.D. (1969) A History of Scotland. London. Penguin.
  33. Devine, T. M. (1999). The Scottish Nation 1700–2000. Penguin Books. bls. 9. ISBN 978-0-14-023004-8. From that point on anti-union demonstrations were common in the capital. In November rioting spread to the south west, that stronghold of strict Calvinism and covenanting tradition. The Glasgow mob rose against union sympathisers in disturbances that lasted intermittently for over a month
  34. „Act of Union 1707 Mob unrest and disorder“. London: The House of Lords. 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 1 January 2008. Sótt 23 December 2007.
  35. Robert, Joseph C (1976). „The Tobacco Lords: A study of the Tobacco Merchants of Glasgow and their Activities“. The Virginia Magazine of History and Biography. 84 (1): 100–102. JSTOR 4248011.
  36. "Some Dates in Scottish History from 1745 to 1914 Geymt 31 október 2013 í Wayback Machine", The University of Iowa.
  37. „Enlightenment Scotland“. Learning and Teaching Scotland.
  38. Neil Davidson(2000). The Origins of Scottish Nationhood. London: Pluto Press. bls. 94–95.
  39. Devine, T M (1994). Clanship to Crofters' War: The social transformation of the Scottish Highlands (2013. útgáfa). Manchester University Press. ISBN 978-0-7190-9076-9.
  40. Area profiles- census dataScotland census. Skoðað 3 . apríl 2016
  41. Most people in Scotland 'not religious' BBC. Skoðað 2. apríl 2016.